Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 18:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:24 • Sest 09:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:32 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:29 • Síðdegis: 14:44 í Reykjavík

Hvernig varð fjallið Keilir til?

Snæbjörn Guðmundsson

Líklegast telja flestir Esjuna vera borgarfjall Reykjavíkur, enda gnæfir hún tignarlega yfir höfuðborgarsvæðið í norðri. Til suðurs er þó annað fjall, eða öllu heldur fell, sem margir höfuðborgarbúar sjá daglega og mörgum þykir vænt um. Er það hinn formfagri Keilir sem stendur stakur, mitt á eldbrunnum Reykjanesskaganum.

Nafn fellsins er augljóslega dregið af keilulaga lögun þess en öfugt við það sem halda mætti er Keilir þó ekki það sem kallað er eldkeila á fræðamáli jarðfræðinga. Eldkeilur, svo sem Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull, eru keilulaga eldstöðvar sem gjósa reglulega. Keilir myndaðist hins vegar í einu stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli. Slíkar eldstöðvar eru yfirleitt úr móbergi og gjósa þær aðeins einu sinni á lífstíð sinni. Keilir er því það sem kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar.

Keilir myndaðist í stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli.

Á myndunartíma Keilis lá þykkur jökull yfir Reykjanesskaganum, suðvestlægur útvörður ísaldarjökulsins sem huldi landið á síðasta jökulskeiði. Þótt Keilir virðist standa einn og óstuddur hefur gosið sem myndaði fjallið líklegast hafist sem örstutt sprungugos undir jöklinum. Á loftmyndum kemur nokkuð greinileg sprungulögun fram í lágum fjöllum suðvestan og norðaustan við sjálfan Keili, sem bendir til sprungugoss í upphafi þótt gosið hafi líklegast mjög fljótt einangrast við einn aðalgíg, sem hlóð svo upp Keili.

Lágu hæðirnar norðan við Keili eru kallaðar Keilisbörn og má sjá í þeim fallega lagskipt móberg. Bendir lárétt lagskiptingin til þess að þar hafi gosaska hlaðist upp í lög í bræðsluvatni undir jöklinum en við gos undir jökli kemst jafnan mikið vatn að gosrásinni. Verður það til þess að kvikan, sem kemur upp í gosinu, splundrast í gufusprengingum og verður að lausri ösku. Eftir því sem líður á gosið hleðst askan upp yfir gosopinu og myndar þannig fjall eða fjallshrygg undir jöklinum. Ef gosið er langvinnt getur það að lokum gerst að gosopið nær að hlaða nógu háu fjalli undir sig til að vatn hætti að komast að gosrásinni. Þegar það gerist hætta gufusprengingarnar að mestu og hraun tekur að flæða úr gosopinu.

Hæsti punktur Keilis liggur í um 200 metra hæð yfir landinu umhverfis fjallið. Efst í toppi hans liggur smá hraunhetta, sem gæti gefið okkur nokkra vísbendingu um þykkt og ástand jökulsins á myndunartíma Keilis, en hraunið gæti bent til þess að gosið hafi undir lokin verið búið að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og hraun tekið að renna. Líklegra er þó að þarna sé á ferðinni sjálf gosrás fjallsins en við endalok eldgossins hefur vafalaust kvikuafgangur storknað í rásinni og myndað þéttan gígtappa efst í fjallinu.

Hvort sem er þá veltir tilvist hraunsins upp annarri spurningu, nefnilega hve þykkur ísaldarjökullinn var á Reykjanesi. Jarðvísindamenn eru almennt ekki sammála um hve þykkur hann var á hverjum stað á landinu en fornir jökulgarðar í sjó langt úti fyrir Reykjanesi benda til þess að jökullinn hafi náð vel út á landgrunnið suðvestanlands. Út frá því hefur jökullinn vafalítið verið nokkur hundruð metrar á þykkt yfir Reykjanesinu á hámarki ísaldar. Þar sem aldur Keilis er ekki þekktur getum við þó ekki sagt hve þykkur jökullinn var þegar gaus.


Keilir kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar.

Ganga á Keili er tiltölulega fyrirhafnarlítil ef farnir eru göngustígar sem með tíð og tíma hafa troðist niður á tveimur stöðum í austurhlíð fjallsins. Víða er þó laust efni í göngustígunum og utan stíganna er fjallið skriðukennt og hlíðarnar ákaflega lausar í sér. Er það einmitt eitt einkenna móbergsfjalla að óvíða sést í fast berg eða hraun í hlíðum þeirra enda eru þau mynduð úr samlímdri gosösku.

En þótt fjallið sé hvorki mikið um sig né hávaxið er útsýni af Keili gott í góðu skyggni. Efst er útsýnisskífa þar sem sér vítt og breitt um Reykjanesskagann og ætti vart að fara fram hjá neinum hve eldvirkt þetta svæði er. Það er vel skiljanlegt því um skagann endilangan liggja flekaskil Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna. Það er því í raun ekki spurning um hvort heldur hvenær eldgos muni næst koma upp á skaganum.

Heimildir:
  • Herdís H. Schopka, Magnús T. Guðmundsson og Tuffen, H. 2006. The formation of Helgafell, southwest Iceland, a monogenetic subglacial hyaloclastite ridge: Sedimentology, hydrology and volcano–ice interaction. Journal of Volcanology and Geothermal Research 152, 359-377.
  • Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Þorleifur Einarsson. 1961. Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar. Náttúrufræðingurinn 30 (4), 151-194.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

8.7.2015

Spyrjandi

Guðbrandur Guðbrandsson

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvernig varð fjallið Keilir til?“ Vísindavefurinn, 8. júlí 2015. Sótt 28. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=24808.

Snæbjörn Guðmundsson. (2015, 8. júlí). Hvernig varð fjallið Keilir til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=24808

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvernig varð fjallið Keilir til?“ Vísindavefurinn. 8. júl. 2015. Vefsíða. 28. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=24808>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð fjallið Keilir til?
Líklegast telja flestir Esjuna vera borgarfjall Reykjavíkur, enda gnæfir hún tignarlega yfir höfuðborgarsvæðið í norðri. Til suðurs er þó annað fjall, eða öllu heldur fell, sem margir höfuðborgarbúar sjá daglega og mörgum þykir vænt um. Er það hinn formfagri Keilir sem stendur stakur, mitt á eldbrunnum Reykjanesskaganum.

Nafn fellsins er augljóslega dregið af keilulaga lögun þess en öfugt við það sem halda mætti er Keilir þó ekki það sem kallað er eldkeila á fræðamáli jarðfræðinga. Eldkeilur, svo sem Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull, eru keilulaga eldstöðvar sem gjósa reglulega. Keilir myndaðist hins vegar í einu stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli. Slíkar eldstöðvar eru yfirleitt úr móbergi og gjósa þær aðeins einu sinni á lífstíð sinni. Keilir er því það sem kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar.

Keilir myndaðist í stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli.

Á myndunartíma Keilis lá þykkur jökull yfir Reykjanesskaganum, suðvestlægur útvörður ísaldarjökulsins sem huldi landið á síðasta jökulskeiði. Þótt Keilir virðist standa einn og óstuddur hefur gosið sem myndaði fjallið líklegast hafist sem örstutt sprungugos undir jöklinum. Á loftmyndum kemur nokkuð greinileg sprungulögun fram í lágum fjöllum suðvestan og norðaustan við sjálfan Keili, sem bendir til sprungugoss í upphafi þótt gosið hafi líklegast mjög fljótt einangrast við einn aðalgíg, sem hlóð svo upp Keili.

Lágu hæðirnar norðan við Keili eru kallaðar Keilisbörn og má sjá í þeim fallega lagskipt móberg. Bendir lárétt lagskiptingin til þess að þar hafi gosaska hlaðist upp í lög í bræðsluvatni undir jöklinum en við gos undir jökli kemst jafnan mikið vatn að gosrásinni. Verður það til þess að kvikan, sem kemur upp í gosinu, splundrast í gufusprengingum og verður að lausri ösku. Eftir því sem líður á gosið hleðst askan upp yfir gosopinu og myndar þannig fjall eða fjallshrygg undir jöklinum. Ef gosið er langvinnt getur það að lokum gerst að gosopið nær að hlaða nógu háu fjalli undir sig til að vatn hætti að komast að gosrásinni. Þegar það gerist hætta gufusprengingarnar að mestu og hraun tekur að flæða úr gosopinu.

Hæsti punktur Keilis liggur í um 200 metra hæð yfir landinu umhverfis fjallið. Efst í toppi hans liggur smá hraunhetta, sem gæti gefið okkur nokkra vísbendingu um þykkt og ástand jökulsins á myndunartíma Keilis, en hraunið gæti bent til þess að gosið hafi undir lokin verið búið að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og hraun tekið að renna. Líklegra er þó að þarna sé á ferðinni sjálf gosrás fjallsins en við endalok eldgossins hefur vafalaust kvikuafgangur storknað í rásinni og myndað þéttan gígtappa efst í fjallinu.

Hvort sem er þá veltir tilvist hraunsins upp annarri spurningu, nefnilega hve þykkur ísaldarjökullinn var á Reykjanesi. Jarðvísindamenn eru almennt ekki sammála um hve þykkur hann var á hverjum stað á landinu en fornir jökulgarðar í sjó langt úti fyrir Reykjanesi benda til þess að jökullinn hafi náð vel út á landgrunnið suðvestanlands. Út frá því hefur jökullinn vafalítið verið nokkur hundruð metrar á þykkt yfir Reykjanesinu á hámarki ísaldar. Þar sem aldur Keilis er ekki þekktur getum við þó ekki sagt hve þykkur jökullinn var þegar gaus.


Keilir kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar.

Ganga á Keili er tiltölulega fyrirhafnarlítil ef farnir eru göngustígar sem með tíð og tíma hafa troðist niður á tveimur stöðum í austurhlíð fjallsins. Víða er þó laust efni í göngustígunum og utan stíganna er fjallið skriðukennt og hlíðarnar ákaflega lausar í sér. Er það einmitt eitt einkenna móbergsfjalla að óvíða sést í fast berg eða hraun í hlíðum þeirra enda eru þau mynduð úr samlímdri gosösku.

En þótt fjallið sé hvorki mikið um sig né hávaxið er útsýni af Keili gott í góðu skyggni. Efst er útsýnisskífa þar sem sér vítt og breitt um Reykjanesskagann og ætti vart að fara fram hjá neinum hve eldvirkt þetta svæði er. Það er vel skiljanlegt því um skagann endilangan liggja flekaskil Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna. Það er því í raun ekki spurning um hvort heldur hvenær eldgos muni næst koma upp á skaganum.

Heimildir:
  • Herdís H. Schopka, Magnús T. Guðmundsson og Tuffen, H. 2006. The formation of Helgafell, southwest Iceland, a monogenetic subglacial hyaloclastite ridge: Sedimentology, hydrology and volcano–ice interaction. Journal of Volcanology and Geothermal Research 152, 359-377.
  • Jón Jónsson. 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Þorleifur Einarsson. 1961. Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar. Náttúrufræðingurinn 30 (4), 151-194.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...