Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmsir þættir hafa áhrif á vöxt og þroska og þar eins og í svo mörgu öðru spila saman erfðir og umhverfisþættir. Á suma þætti er hægt að hafa einhver áhrif áður en einstaklingurinn hættir að vaxa, en eftir að vaxtarlínur beinanna lokast lengist fólk ekki meira.
Sá þáttur sem mestu ræður um vaxtarhraða og hversu hávaxið fólk verður eru erfðir, sem sagt hvaða foreldra við eigum og af hvaða stofni eða hópi við erum (áður var orðið kynþáttur notaður en nú telst það ekki heppilegt orð). Þessum þætti getum við ekki breytt.
Hormón sem líkaminn myndar er annar þáttur en auk vaxtarhormóns hafa kynhormón, insúlín, skjaldkirtilshormón og fleiri áhrif á vöxt okkar. Á þennan þátt má hafa einhver áhrif. Ef til að mynda eitthvað er að í hormónabúskap líkamans sem veldur óeðlilegum vexti getur læknisfræðin mögulega leiðrétt það.
Í tengslum við hormónin er annar þáttur sem fólk getur vissulega haft áhrif á en það er svefninn. Svefn er mjög mikilvægur fyrir vöxt en þá fer fram nýmyndun efna sem eru forsenda vaxtar og viðhalds. Komið hefur í ljós að stuttu eftir að maður sofnar nær magn vaxtarhormóns í blóði hámarki. Ef við fáum almennt lítinn svefn getur það hindrað eðlilegan vöxt vegna þess að þá seytum við ekki eins miklu vaxtarhormóni og eðlilegt er. Um svefn og hormón er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur?
Það er fátt ef eitthvað sem hægt er að gera til þess að vaxa hraðar en erfðirnar segja til um. Hins vegar er mögulega hægt að draga úr áhrifum þátta sem hafa neikvæð áhrif á vöxt. Þetta gildir að sjálfsögðu aðeins um börn og unglinga sem ekki eru hætt að vaxa.
Næringu mætti flokka sem umhverfisþátt, en það er sá þáttur fyrir utan erfðirnar sem hefur mestu áhrifin á líkamlegan vöxt og þroska, og jafnframt sá þáttur sem fólk á líklega mesta möguleika á að hafa stjórn á.
Vöxtur felst í fjölgun og stækkun frumna líkamans og enn fremur aukningu millifrumuefna. Til þess að vöxtur sé eðlilegur verða frumurnar að fá næga orku og nægt magn nauðsynlegra efna til að geta skipt sér og stækkað. Orkan kemur úr orkuefnum fæðunnar, aðallega þó prótínum sem eru helstu byggingarefni líkamans. Prótín eru gerð úr 20 mismunandi gerðum af amínósýrum og af þeim eru níu sem við getum ekki búið til sjálf og verðum því að fá úr fæðunni. Þær eru kallaðar lífsnauðsynlegar amínósýrur. Sömu sögu er að segja um fitu. Hún er gerð úr fitusýrum og eru sumar þeirra lífsnauðsynlegar. Steinefnin sink, joð, járn, kalk og fosfór eru einnig nauðsynleg fyrir vöxt, til dæmis eru kalk og fosfór meginefni beina og tanna. Þar að auki eru vítamín nauðsynleg til þess að vöxtur sé eðlilegur, til dæmis D-vítamín sem þarf til að nýta kalk úr fæðunni. Næring tengist líka hormónunum því næringarefnin sem við fáum með fæðunni eru meðal annars notuð sem hráefni til að mynda hormónin sem stýra vextinum. Til að fá örugglega nóg af öllum þessum lífsnauðsynlegu efnum er mikilvægt að borða fjölbreyttan og hollan mat.
Umhverfisþættir eins og mengun hafa einnig áhrif og geta dregið úr vexti. Rannsóknir hafa sýnt að loftmengun hefur ekki aðeins slæm áhrif á öndunarfærin heldur einnig á vöxt. Mengun innanhúss vegna lélegs húsnæðis getur leitt til skerts vaxtar og þroskunar. Til dæmis er blý í sumum gerðum málningar í eldra húsnæði, en blý er mjög hættulegt ungum börnum, þar sem það safnast fyrir í líkama þeirra og truflar eðlilegan þroska heila og annarra líffæra.
Svo má nefna þátt sem hefur ekkert með vöxt að gera, eykur hann hvorki né dregur úr en getur látið okkur líta út fyrir að vera stærri eða minni en við raunverulega erum, en það er líkamsstaða. Tveir jafnháir einstaklingar geta virst misstórir ef annar réttir vel úr sér og ber höfuðið hátt en hinn gengur hokinn með höfuðið á undan sér.
Það er sem sagt ekki margt sem við getum gert til þess að vaxa hraðar en erfðirnar segja til um. Hins vegar geta ákveðnir þættir dregið úr vexti, eins og léleg næring, slæmt heilsufar og umhverfi, og ónógur svefn.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað get ég gert til að vaxa hraðar?“ Vísindavefurinn, 18. október 2013, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=26024.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 18. október). Hvað get ég gert til að vaxa hraðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=26024
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað get ég gert til að vaxa hraðar?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2013. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=26024>.