Sólin Sólin Rís 02:54 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:32 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:08 • Síðdegis: 17:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:17 • Síðdegis: 23:52 í Reykjavík

Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hvort sem maður stækkar mest á meðan maður sefur eða ekki þá er svefn mjög mikilvægur fyrir vöxt. Þá fer fram nýmyndun efna sem er forsenda vaxtar og viðhalds. Komið hefur í ljós að stuttu eftir að maður sofnar nær magn vaxtarhormóns í blóði hámarki. Ein nótt án svefns veldur ekki vaxtarstöðvun en ef við fáum almennt lítinn svefn getur það hindrað eðlilegan vöxt vegna þess að þá seytum við ekki eins miklu vaxtarhormóni og eðlilegt er.

Vöxtur er skilgreindur sem stækkun líkamans. Líkaminn er gerður úr frumum og efni á milli þeirra og því getur vöxtur stafað af stækkun þeirra frumna sem fyrir eru, fjölgun þeirra eða aukningu í magni efnis í kringum þær. Frumur stækka ekki endalaust heldur kemur að endamörkum stækkunar og þær skipta sér í tvennt í ferli sem kallast mítósa eða jafnskipting. Þá verða til tvær dótturfrumur úr hverri móðurfrumu sem eru alveg eins og hún. Þetta leiðir til vaxtar vefjarins sem frumurnar tilheyra. Þessi frumuskipting er einnig mikilvæg til að viðhalda eða endurnýja vefi, þar sem nýjar frumur koma í stað þeirra sem eru orðnar laskaðar eða dauðar.

Til þess að vöxtur geti farið fram með eðlilegum hætti þurfum við að fá réttu efnin úr fæðunni. Hér er um mörg næringarefni að ræða en þau mikilvægustu eru prótín og fita sem eru meginbyggingarefni frumna. Til þess að uppfylla næringarefnaþarfir okkar er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu. Þótt ekki sé mikið af prótínum og fitu í grænmeti og ávöxtum þá innihalda þau mikið af vítamínum og steinefnum og öðrum efnum sem eru mikilvæg fyrir efnabreytingar í frumunum, þar á meðal nýmyndun efna sem er forsenda vaxtar.

Stækkum við meira þegar við sofum eða sofum við meira þegar við stækkum?

Til þess að vaxa eðlilega þarf hormónabúskapur líkamans að vera í lagi því að hormón stjórna vexti. Mikilvægast hormóna sem koma við sögu er vaxtarhormón eins og nafnið gefur til kynna. Þó er þessu hormóni ekki seytt fyrr en við tveggja ára aldur og allur vöxtur fram að því er háður öðrum hormónum, sérstaklega insúlíni frá briskirtli og þýroxíni frá skjaldkirtli. Öll þessi hormón eru gerð úr amínósýrum sem við fáum úr prótínum.

Vaxtarhormón er myndað í og seytt frá framhluta heiladinguls eða svokölluðum kirtildingli. Fram til tveggja ára aldurs sendir undirstúka hömlunarhormón sem kemur í veg fyrir að vaxtarhormóni sé seytt frá kirtildingli. Við tveggja ára aldur hættir undirstúkan þeirri sendingu og sendir í staðinn losunarhormón sem leiðir til þess að vaxtarhormón berst þá til frumna líkamans með blóði. Það veldur stækkun frumna og hefur einkum þau áhrif að bein og beinagrindarvöðvar vaxa og viðheldur jafnframt stærð þeirra þegar fullri stærð hefur verið náð. Vaxtarhormón stuðlar að stækkun og fjölgun frumna með því að auka hraða amínósýrusöfnunar í frumum og myndun prótína úr þeim.

Skjaldkirtilshormón, þar með talið þýroxín, eru einnig nauðsynleg fyrir vöxt og þroska, einkum taugakerfisins. Þau stjórna efnaskiptum með því að örva nýmyndun prótína, auka fitusundrun og þveiti kólesteróls úr líkamanum. Skjaldkirtilshormón innihalda joð og ef seyti þess á meðgöngu er ekki nóg, til dæmis vegna joðskorts í fæðu, er hætta á að barnið verði svokallaður kretíndvergur sem hefur vanþroskað taugakerfi.

Insúlín myndast í betafrumum briskirtils. Það hjálpar glúkósa í blóði að bindast sérstökum viðtökum í frumuhimnum, einkum í beinagrindarvöðvum, en það er forsenda þess að þeir geti notað glúkósa sem eldsneyti, það er myndunar ATP. Það er síðan nauðsynlegt fyrir nýmyndun prótína og þar af leiðandi vöxt.

Af öllu þessu má ráða að hvort sem við stækkum meira á meðan við sofum eða ekki (og rétt að taka fram að ekki gekk vel að finna heimildir sem segja af eða á um það) þá er svefninn afar mikilvægur fyrir vöxt þar sem nýmyndun nauðsynlegra efna fyrir vöxt fer mikið til fram þá. Það mætti því kannski snúa spurningunni aðeins og spyrja hvort við sofum meira þegar við stækkum?

Loks má geta þess að vöxtur okkar mannanna og annarra dýra er ekki jafn alla ævi. Á vissum skeiðum eru svokallaðir vaxtarkippir áberandi og er kynþroskaskeiðið tíminn sem við tökum mestan kipp í þroska og vexti. Í lok kynþroskaskeiðs nær seyti vaxtarhormóns hámarki. Hversu mikið og hratt er þó háð erfðum og því mjög einstaklingsbundið. Þar koma kynhormónin við sögu. Almennt gildir að vaxtarkippur stelpna verður fyrr en hjá strákum eins og kynþroski almennt.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

11.10.2012

Spyrjandi

Jökull Örlygsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur?“ Vísindavefurinn, 11. október 2012. Sótt 20. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=10235.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 11. október). Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=10235

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur?“ Vísindavefurinn. 11. okt. 2012. Vefsíða. 20. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=10235>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er það satt að maður stækki mest á meðan maður sefur?
Hvort sem maður stækkar mest á meðan maður sefur eða ekki þá er svefn mjög mikilvægur fyrir vöxt. Þá fer fram nýmyndun efna sem er forsenda vaxtar og viðhalds. Komið hefur í ljós að stuttu eftir að maður sofnar nær magn vaxtarhormóns í blóði hámarki. Ein nótt án svefns veldur ekki vaxtarstöðvun en ef við fáum almennt lítinn svefn getur það hindrað eðlilegan vöxt vegna þess að þá seytum við ekki eins miklu vaxtarhormóni og eðlilegt er.

Vöxtur er skilgreindur sem stækkun líkamans. Líkaminn er gerður úr frumum og efni á milli þeirra og því getur vöxtur stafað af stækkun þeirra frumna sem fyrir eru, fjölgun þeirra eða aukningu í magni efnis í kringum þær. Frumur stækka ekki endalaust heldur kemur að endamörkum stækkunar og þær skipta sér í tvennt í ferli sem kallast mítósa eða jafnskipting. Þá verða til tvær dótturfrumur úr hverri móðurfrumu sem eru alveg eins og hún. Þetta leiðir til vaxtar vefjarins sem frumurnar tilheyra. Þessi frumuskipting er einnig mikilvæg til að viðhalda eða endurnýja vefi, þar sem nýjar frumur koma í stað þeirra sem eru orðnar laskaðar eða dauðar.

Til þess að vöxtur geti farið fram með eðlilegum hætti þurfum við að fá réttu efnin úr fæðunni. Hér er um mörg næringarefni að ræða en þau mikilvægustu eru prótín og fita sem eru meginbyggingarefni frumna. Til þess að uppfylla næringarefnaþarfir okkar er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu. Þótt ekki sé mikið af prótínum og fitu í grænmeti og ávöxtum þá innihalda þau mikið af vítamínum og steinefnum og öðrum efnum sem eru mikilvæg fyrir efnabreytingar í frumunum, þar á meðal nýmyndun efna sem er forsenda vaxtar.

Stækkum við meira þegar við sofum eða sofum við meira þegar við stækkum?

Til þess að vaxa eðlilega þarf hormónabúskapur líkamans að vera í lagi því að hormón stjórna vexti. Mikilvægast hormóna sem koma við sögu er vaxtarhormón eins og nafnið gefur til kynna. Þó er þessu hormóni ekki seytt fyrr en við tveggja ára aldur og allur vöxtur fram að því er háður öðrum hormónum, sérstaklega insúlíni frá briskirtli og þýroxíni frá skjaldkirtli. Öll þessi hormón eru gerð úr amínósýrum sem við fáum úr prótínum.

Vaxtarhormón er myndað í og seytt frá framhluta heiladinguls eða svokölluðum kirtildingli. Fram til tveggja ára aldurs sendir undirstúka hömlunarhormón sem kemur í veg fyrir að vaxtarhormóni sé seytt frá kirtildingli. Við tveggja ára aldur hættir undirstúkan þeirri sendingu og sendir í staðinn losunarhormón sem leiðir til þess að vaxtarhormón berst þá til frumna líkamans með blóði. Það veldur stækkun frumna og hefur einkum þau áhrif að bein og beinagrindarvöðvar vaxa og viðheldur jafnframt stærð þeirra þegar fullri stærð hefur verið náð. Vaxtarhormón stuðlar að stækkun og fjölgun frumna með því að auka hraða amínósýrusöfnunar í frumum og myndun prótína úr þeim.

Skjaldkirtilshormón, þar með talið þýroxín, eru einnig nauðsynleg fyrir vöxt og þroska, einkum taugakerfisins. Þau stjórna efnaskiptum með því að örva nýmyndun prótína, auka fitusundrun og þveiti kólesteróls úr líkamanum. Skjaldkirtilshormón innihalda joð og ef seyti þess á meðgöngu er ekki nóg, til dæmis vegna joðskorts í fæðu, er hætta á að barnið verði svokallaður kretíndvergur sem hefur vanþroskað taugakerfi.

Insúlín myndast í betafrumum briskirtils. Það hjálpar glúkósa í blóði að bindast sérstökum viðtökum í frumuhimnum, einkum í beinagrindarvöðvum, en það er forsenda þess að þeir geti notað glúkósa sem eldsneyti, það er myndunar ATP. Það er síðan nauðsynlegt fyrir nýmyndun prótína og þar af leiðandi vöxt.

Af öllu þessu má ráða að hvort sem við stækkum meira á meðan við sofum eða ekki (og rétt að taka fram að ekki gekk vel að finna heimildir sem segja af eða á um það) þá er svefninn afar mikilvægur fyrir vöxt þar sem nýmyndun nauðsynlegra efna fyrir vöxt fer mikið til fram þá. Það mætti því kannski snúa spurningunni aðeins og spyrja hvort við sofum meira þegar við stækkum?

Loks má geta þess að vöxtur okkar mannanna og annarra dýra er ekki jafn alla ævi. Á vissum skeiðum eru svokallaðir vaxtarkippir áberandi og er kynþroskaskeiðið tíminn sem við tökum mestan kipp í þroska og vexti. Í lok kynþroskaskeiðs nær seyti vaxtarhormóns hámarki. Hversu mikið og hratt er þó háð erfðum og því mjög einstaklingsbundið. Þar koma kynhormónin við sögu. Almennt gildir að vaxtarkippur stelpna verður fyrr en hjá strákum eins og kynþroski almennt.

Heimildir og mynd:...