Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað getið þið sagt mér um Aría, sér í lagi í tengslum við Hitler?
Þegar talað er um aría er mikilvægt að gera greinarmun á upprunalegri merkingu orðsins, heiti á indó-evrópskum þjóðflokkum á forsögulegum tíma og í fornöld, og þeirri merkingu sem notuð hefur verið af rasískum öfgahópum á 20. og 21. öld. Til hægðarauka verður fyrri merkingin aðgreind með stórum upphafsstaf, Aríar, en sú seinni með litlum, aríar, eins og hefð er fyrir þegar kemur að gömlum og úreltum kynþáttaheitum.
Uppruna orðsins má rekja til sanskrítar, en þar þýðir orðið arya „virðingarverður“ eða „göfugur“. Indó-evrópskir ættbálkar sem bjuggu á því landsvæði sem í dag er Íran kölluðu sig Aría, og er heiti landsins dregið af því. Aríar var jafnframt notað víða á Indlandi til forna yfir ættbálka á norðanverðum Indlandsskaga. Mannanöfnin Arya, Aryan og fleiri eru dregin af þessu heiti, og eru enn í dag vinsæl nöfn í Íran, Suður-Asíu og víða í hinum vestræna heimi.
Heimildir um Aría eru af skornum skammti, en þeir virðast hafa verið atkvæðamikill og áhrifaríkur hópur. Lögð hefur verið fram sú kenning að erfðastéttakerfi hindúa eigi uppruna sinn að rekja til þess þegar Aríar neituðu að aðlagast þjóðum sem þegar bjuggu á indverska meginlandinu eftir flutning þeirra þangað um 1500 fyrir Krist. Stórmenni á borð við Persakonungana Daríus mikla og Xerxes I. voru talin vera af arískum ættum, og hefur það eflaust mótað hugmyndir manna um göfgi Aría.
Lágmynd sem sýnir forna aríska hermenn.
Heiti Aría virðist þó fyrst og fremst hafa vísað til trúar, menningar og ekki síst tungumáls, en ekki kynþáttar. Evrópskir málvísindamenn fóru að kalla málhafa frum-indóevrópsku Aría á fyrri hluta 19. aldar, og það heiti festist svo í sessi yfir frum-indóevrópumenn sem heild. Hugmyndir um „arískan kynstofn“ komu fyrst fram á sjónarsviðið um miðja 19. öld með kenningum franska aðalsmannsins Arthur de Gobineau (1816-1882), en hugmyndir hans höfðu mikil áhrif á vísindalega kynþáttahyggju (e. scientific racism). Samkvæmt honum voru til þrír kynstofnar sem hann sagði „hvíta, svarta og gula,“ aðeins þeir hvítu byggju yfir greind, fegurð og getu til sköpunar. Þá „bestu“ af þeim hvítu kallaði hann svo aría, og lýsti þeim sem ljóshærðum, hávöxnum og sterkbyggðum.
De Gobineau valdi heitið út frá meintum tengslum við áðurnefnda Aría og dró þá ályktun að þeir væru ákveðinn kynþáttur, forfeður hvítra Evrópumanna, sem hefðu lagt undir sig meginland Asíu frá norðri og ættu einir heiðurinn af öllum helstu afrekum mannkynsins. De Gobineau lagði áherslu á mikilvægi þess að halda aríska kynstofninum „hreinum,“ og taldi að „blöndun“ kynþátta myndi hafa í för með sér hrörnun siðmenningar“. Fljótlega var farið að stilla hinum aríska kynstofni upp sem andstæðu við gyðinga, en hatur á þeim átti sér langa sögu í Evrópu.
Hin fullkomna aríska fjölskylda í augum nasismans.
Hugmyndin um yfirburði „aríska kynstofnsins“ gagnvart öðrum, og mikilvægi þess að halda honum „hreinum,“ var hornsteinninn í stefnu nasista í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar, og hugmyndafræðilegur grunnur helfararinnar. Nasistar notuðu hugtakið til að vísa til Þjóðverja sem ekki voru gyðingar, rómafólk eða að einhverju leyti af „óæskilegum“ uppruna. Notkun hugtaksins var tilraun til að tengja rasískar hugmyndir um yfirburði hvítra við sögulegar staðreyndir og gefa þeim þannig vægi.
Nútímavísindi hafa leitt í ljós að kynþættir eða kynstofnar eru ekki líffræðileg fyrirbæri, aðeins menningarleg. Orðræðan um mismunandi kynþætti og erfðafræðileg einkenni þeirra hefur um aldir verið samofin hugmyndum um yfirburði hvítra og var notuð óspart til að réttlæta nýlendustefnu og annað óréttlæti gegnvart þjóðum utan Evrópu. Enn fyrirfinnast hópar sem trúa á yfirburði hvíta mannsins gagnvart öðrum. Þessir öfgahópar vísa margir hverjir enn til hins forna aríska kynstofns sem forfeðra hvítra, en enginn sögulegur eða vísindalegur fótur er fyrir því. Þessi tenging hugtaksins við kynþáttahyggju og nasisma hefur orðið til þess að heitið hefur fengið á sig neikvæða merkingu.
Heimildir:
Aryan. Encyclopedia Britannica. (Sótt 28. júní 2021.)
Gerhard L. Weinberg. World War II. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press, 2014.
Guide to Human Thought. Ideas that Shaped the World. Ritstjóri Kenneth McLeish. London: Bloomsbury 1993
Nanna Kristjánsdóttir. „Hverjir voru Aríar og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn, 30. júlí 2021, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30412.
Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 30. júlí). Hverjir voru Aríar og hvaðan komu þeir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30412
Nanna Kristjánsdóttir. „Hverjir voru Aríar og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn. 30. júl. 2021. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30412>.