Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar berg finnst í Fremrinámakerfinu? Getið þið sagt mér eitthvað meira um Fremrináma?

Kristján Sæmundsson og Freysteinn Sigmundsson

Fremrinámakerfið nær sunnan úr Ódáðahrauni, norður með Norðurfjöllum og Jökulsá á Fjöllum og út með Öxarfirði. Það er meira en 100 kílómetra langt og breidd mest milli Heilagsdals og Ketildyngju, um tíu kílómetrar. Þar er megineldstöðin með mestri gosvirkni og upphleðslu, súru bergi og háhitasvæði. Kerfið er í óbyggðum nema nyrsti hlutinn í Öxarfirði. Gosmyndanir ná næstum enda á milli, en á eftirjökultíma hefur gosið á um 75 kílómetra kafla frá Hljóðaklettum og suður fyrir Hvammfjöll. Eldvirkni í miðhlutanum einkennist öðru fremur af dyngjum og stöpum. Yngsta dyngjan er Ketildyngja í megineldstöðinni sjálfri. Þarna eru einnig móbergshryggir og gígaraðir.

Sprungusveimur

Sprungusveimur liggur óskiptur til suðsuðvesturs frá megineldstöðinni, en tvær sprungureinar til norðurs. Sú vestari, um fjögurra kílómetra breið, teygir sig norður yfir Heilagsdalsfjall, en austar er miklu virkari rein yfir Fremrináma. Hún er um tveir kílómetrar á breidd, nær suður fyrir Hvammfjöll og til norðurs á milli Skógarmannafjalla og Búrfells, og áfram norður í Núpasveit. Austan Jökulsár hefur ekki gosið hraunum, en móbergsfjöll, gjár og misgengi marka hana þar. Stærstu misgengin losa 30-40 metra í Hjöllum og Heilagsdalsfjalli.

Miðhluti eldstöðvakerfis Fremrináma.

Ísaldarmyndanir

Grágrýtishraunlög eru ráðandi í Fremrinámakerfinu, eftir að kemur norður á Austurfjöll. Þau verða ekki rakin til sýnilegra eldvarpa, nema hlýskeiðsdyngjan Grjótháls, líkast til yngst. Í Jökulsárgljúfri eru 11 hraunlög, samtals 120 metra þykk, norðan við Hafragilsfoss. Undir er móberg, og nokkur móbergsfell standa upp úr grágrýtinu. Berglögum þessum hallar til vesturs. Allt er þetta rétt segulmagnað og svo er einnig um hraunlögin á Vestur-Sléttu.1 Völuberg, sandsteinn, og jökulberg er á milli hraunlaganna sem eru sum sorfin niður úr karganum. Eftir því að dæma spanna þau nokkur hlýskeið og jökulskeið. Hraunin eru einföld og óvíst í hvaða eldstöðvakerfum þau eru upprunnin. Hæð á sigstöllum í þeim yngstu bendir til að þau séu vart eldri en frá síðasta eða næstsíðasta hlýskeiði ísaldar.

Elst myndana á aðalupphleðslusvæði Fremrinámakerfisins er lág dyngja í Hjöllum, ummynduð af jarðhita sunnan megin, en þar er allt kalt nú. Hún gengur undir stapana Bláfjall, lítt sorfið og unglegt, og Heilagsdalsfjall. Móbergsfjöll, líklega frá síðasta jökulskeiði, standa í röð á mörkum hálendis og lágsvæðis milli Skógarmannafjalla og Bláfjallsfjallgarðs. En umhverfis Fremrináma stinga sér strýtur og hryggjastúfar úr móbergi upp úr hraunbreiðum sem annars þekja landið. Svo er einnig um eystri Ketilhyrnu, en hún er úr ríólíti. Smáholt úr basaltandesíti er skammt vestur af hyrnunum.

Gígar og hraun

Vesturrein Fremrinámakerfisins hefur verið lítilvirk eftir ísöld og einungis komið þar upp smáhraun úr pikríti. Tvö þeirra eru austan til á Heilagsdalsfjalli, smádyngja um fjórir ferkílómetrar að stærð, og gossprunga sunnar. Í syðra hrauninu er gossprungan rúmlega einn kílómetri á lengd, dæmi um efnisrýrt frumstig dyngju. Ofan á hraununum sjást bæði Heklulögin H3 og H4. Undir H4 er 30-40 sentimetra þykkur fokjarðvegur. Neðst í honum er sennilega Saksunar-askan. Hraunin eru mjög líklega jafngömul. Skjaldbaka er í suðurframhaldi hraunanna á Heilagsdalsfjalli, smádyngja skammt frá fjallsrótum, einnig úr ólivínríku bergi og miklu eldri en Heklulögin áðurnefndu. Í jarðvegssniðum á henni er neðsta greinilega öskulagið um tíu sentimetra þykk sandkennd aska, líklega Saksunar-lagið.

Elstu hraun í eystri reininni eru Kerlingardyngja og gígaröð í Hljóðaklettum, ef þeir tilheyra þessu kerfi. Kerlingardyngja er úr ólivíndílóttu bergi. Framburður af lausagrjóti og möl er á henni, nokkurra metra þykkur á gígrimanum, og gengur undir hraun úr gossprungum sem liggja yfir hvirfil hennar. Augljóslega hefur jökull gengið yfir dyngjuna um tíma og þá líklega á yngri Dryas. Sennilega myndaðist hún á hlýskeiði síðjökultímans sem á undan fór.

Horft til suðvesturs yfir hvirfil Ketildyngju og jarðhitasvæðið þar.

Dyngjurnar norðar á eystri sprungureininni eru miklu yngri. Skuggadyngja er eitthvað eldri en H4-öskulagið, en Taglabunga litlu yngri, sem og Ketildyngja. Sigurður Þórarinsson mat hana 4000-4500 ára.2 Hraun úr Ketildyngju rann í Mývatn, niður Laxárdal og ofan í Aðaldal. Jarðfræðingar nefna það Laxárhraun eldra. Yngra Laxárhraunið þekur það að stórum hluta. Flatarmál þess eldra áætlaði Sigurður Þórarinsson um 330 ferkílómetra og hraunmagnið um fjóra rúmkílómetra.3 Dyngjuhraun þessi ná yfir stórt svæði milli Bláfjallshala og Kerlingardyngju og til norðurs frá rótum hennar norður í sundin milli Hvannfells- og Skógarmannafjalla, en þar hafa yngri hraun úr gosspurngum runnið út á þau.

Gígaraðir liggja yfir Kerlingardyngju, Ketildyngju og Skuggadyngju og þaðan norður í Kræðuborgir. Gígaraðirnar á Kerlingardyngju og suður þaðan, sem og vestan hennar, eru eldri en H3-öskulagið og þær vestustu eldri en H4. Tvær gossprungur liggja yfir hvirfil Kerlingardyngju, önnur austan og hin vestan við dyngjugíginn. Hraun hefur runnið ofan í hann og fyllt. Eftir að yfirborð fyllingarinnar storknaði, virðist meiri kvika hafa troðist í hana og hún gúlpast upp, þannig að jaðranir standa sums staðar á rönd. Einhvers staðar hefur hraunið svo fundið framrás úr gígskálinni, svo að miðjan hefur sigið lítillega.

Hraunin á Ketildyngju eru eldri en H3-öskulagið, nema það yngsta. Það er ofan á H3- og Hverfellsöskunni. Nánast ekkert skilur á milli þess og Hverfellsöskunnar. Upptök þess eru í gígaröð norðaustan í Ketilhyrnu eystri. Sprunguhraun þessi hafa runnið fyrir um það bil 3000 til 4000 árum. Langstærst þeirra er Búrfellshraun. Það er upprunnið í Kræðuborgum, 12 kílómetra langri gígaröð. Í norðurframhaldi þeirra hefur gosið á sama tíma í stuttri gígaröð austur af Eilífsvötnum og smáhraun flætt niður í Grænulág. Alls er gossprungan því rúmlega 20 kílómetra löng. Búrfellshraun er litlu eldra en Heklulagið H3,4 á að giska 3200 ára. Það er innikróað í lægð þar sem Heiðarsporðar stóðu fyrir að vestan og hraunið úr Rauðuborgum að austan. Aðalsérkenni Búrfellshrauns er uppbelging af völdum írennslis í bráðinn hluta þess, sem best sést nærri vesturjaðrinum og í ótal hraunstömpum og lægðum þar austur af. Jaðarinn hefur verið gegnstorkinn, sem og flákar og nabbar í því, og haggaðist því ekki er hraunið tók að belgjast upp.5 Flatarmál hraunsins er 105 ferkílómetrar, að því slepptu sem hulið er yngra hrauni, en það er lítið, og meðalþykktin gæti numið 15-20 metrum, magnið eftir því um 1,5-2 rúmkílómetrar.

Brennisteinsþúfur á Ketildyngju.

Jarðhiti

Jarðhitinn í Fremrinámum er austanhallt á Ketildyngju og innanvert í gíg hennar þeim megin. Einkenni hans er klasar brennisteinsþúfna sem oft raða sér á sprungur eða í sprungustefnu. Umhverfis er leirug ummyndun. Fjær leggur upp lyktarlausa vatnsgufu sem fok safnast að og oxast í rakanum (rauðþúfur). Brennisteinn er þarna mikill og hreinn, líkt og í Námafjalli og á Þeistareykjum, og var unninn á seinni hluta átjándu aldar og eitthvað fram á þá nítjándu. Leifar af grjótbyrgjum sjást enn. Hverasvæðið er um tveir ferkílómetrar. Það er nærri fimm kílómetrum að lengd í norður-suður að meðtöldum köldum en unglegum skellum austan í Ketilhyrnu og norðan í Skuggadyngju. Sunnarlega á Heilagsdal er hin forna Hjalladyngja, nokkuð rofin og með mikilli ummyndun og útfellingum. Þar eru kaldir lækir með súlfatríku vatni.6 Vatnslaust er í Fremrinámum, en hagar og rennandi vatn á Heilagsdal.

Kaflaskipt virkni

Ekki hafa fundist merki um hnik á gjám og misgengjum í Fremrinámakerfinu, yngri en yngsta sprunguhraunið austur af Ketilhyrnum. Ekki fer heldur sögum af gjám í Búrfellshrauni sem nær næstum því yfir sprungusveiminn þveran. Gjár eru í Ketildyngju, norður og suður frá hverasvæðinu, en engar stórar. Þær eru líka í hrauninu úr henni á Heilagsdal, sú víðasta um hálfur metri. Hlé hefur verið á gosum og að því er virðist einnig á sprunguvirkni í Fremrinámakerfinu í tæplega 3000 ár. Áður fór álíka langt tímabil sprungu- og dyngjugosa. Víst er að hraun hafa runnið snemma á eftirjökultíma, en hlé virðist hafa verið á gosum í kerfinu í nokkur þúsund ár þar á eftir.

Tilvísanir:

1 Oddur Sigurðsson og fleiri, 1975. Dettifossvirkjun. OS-ROD-7526. Orkustofnun, Reykjavík.

2 Sigurður Þórarinsson, 1951. Laxárgljúfur og Laxárhraun. A tephrocronological study. Geografiska Annaler, 33, 1-89.

3 Sigurður Þórarinsson, 1951. Laxárgljúfur og Laxárhraun. A tephrocronological study. Geografiska Annaler, 33, 1-89.

4 Kristján Sæmundsson, 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Náttúra Mývatns (Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 25-95.

5 Kristján Sæmundsson, 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Náttúra Mývatns (Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 25-95.

Haack og fleiri, 2002. Burfellshraun ‒ a SAR study of a unique volcanic eruption. 25th Nordic Geological Winter Meeting, Jan. 6-9 2002, Reykjavík. Abstract volume, 68.

6 Kristján Sæmundsson og Magnús Ólafsson, 2004. Fremrinámar og Gjástykki. Rannsóknir sumarið 2003. ÍSOR-04096. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Norðurgosbeltið í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 338, 339 og 340.

Höfundar

Kristján Sæmundsson

jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

9.8.2013

Spyrjandi

Ingibjörg Kristjánsdóttir

Tilvísun

Kristján Sæmundsson og Freysteinn Sigmundsson. „Hvers konar berg finnst í Fremrinámakerfinu? Getið þið sagt mér eitthvað meira um Fremrináma?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2013, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55694.

Kristján Sæmundsson og Freysteinn Sigmundsson. (2013, 9. ágúst). Hvers konar berg finnst í Fremrinámakerfinu? Getið þið sagt mér eitthvað meira um Fremrináma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55694

Kristján Sæmundsson og Freysteinn Sigmundsson. „Hvers konar berg finnst í Fremrinámakerfinu? Getið þið sagt mér eitthvað meira um Fremrináma?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2013. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55694>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar berg finnst í Fremrinámakerfinu? Getið þið sagt mér eitthvað meira um Fremrináma?
Fremrinámakerfið nær sunnan úr Ódáðahrauni, norður með Norðurfjöllum og Jökulsá á Fjöllum og út með Öxarfirði. Það er meira en 100 kílómetra langt og breidd mest milli Heilagsdals og Ketildyngju, um tíu kílómetrar. Þar er megineldstöðin með mestri gosvirkni og upphleðslu, súru bergi og háhitasvæði. Kerfið er í óbyggðum nema nyrsti hlutinn í Öxarfirði. Gosmyndanir ná næstum enda á milli, en á eftirjökultíma hefur gosið á um 75 kílómetra kafla frá Hljóðaklettum og suður fyrir Hvammfjöll. Eldvirkni í miðhlutanum einkennist öðru fremur af dyngjum og stöpum. Yngsta dyngjan er Ketildyngja í megineldstöðinni sjálfri. Þarna eru einnig móbergshryggir og gígaraðir.

Sprungusveimur

Sprungusveimur liggur óskiptur til suðsuðvesturs frá megineldstöðinni, en tvær sprungureinar til norðurs. Sú vestari, um fjögurra kílómetra breið, teygir sig norður yfir Heilagsdalsfjall, en austar er miklu virkari rein yfir Fremrináma. Hún er um tveir kílómetrar á breidd, nær suður fyrir Hvammfjöll og til norðurs á milli Skógarmannafjalla og Búrfells, og áfram norður í Núpasveit. Austan Jökulsár hefur ekki gosið hraunum, en móbergsfjöll, gjár og misgengi marka hana þar. Stærstu misgengin losa 30-40 metra í Hjöllum og Heilagsdalsfjalli.

Miðhluti eldstöðvakerfis Fremrináma.

Ísaldarmyndanir

Grágrýtishraunlög eru ráðandi í Fremrinámakerfinu, eftir að kemur norður á Austurfjöll. Þau verða ekki rakin til sýnilegra eldvarpa, nema hlýskeiðsdyngjan Grjótháls, líkast til yngst. Í Jökulsárgljúfri eru 11 hraunlög, samtals 120 metra þykk, norðan við Hafragilsfoss. Undir er móberg, og nokkur móbergsfell standa upp úr grágrýtinu. Berglögum þessum hallar til vesturs. Allt er þetta rétt segulmagnað og svo er einnig um hraunlögin á Vestur-Sléttu.1 Völuberg, sandsteinn, og jökulberg er á milli hraunlaganna sem eru sum sorfin niður úr karganum. Eftir því að dæma spanna þau nokkur hlýskeið og jökulskeið. Hraunin eru einföld og óvíst í hvaða eldstöðvakerfum þau eru upprunnin. Hæð á sigstöllum í þeim yngstu bendir til að þau séu vart eldri en frá síðasta eða næstsíðasta hlýskeiði ísaldar.

Elst myndana á aðalupphleðslusvæði Fremrinámakerfisins er lág dyngja í Hjöllum, ummynduð af jarðhita sunnan megin, en þar er allt kalt nú. Hún gengur undir stapana Bláfjall, lítt sorfið og unglegt, og Heilagsdalsfjall. Móbergsfjöll, líklega frá síðasta jökulskeiði, standa í röð á mörkum hálendis og lágsvæðis milli Skógarmannafjalla og Bláfjallsfjallgarðs. En umhverfis Fremrináma stinga sér strýtur og hryggjastúfar úr móbergi upp úr hraunbreiðum sem annars þekja landið. Svo er einnig um eystri Ketilhyrnu, en hún er úr ríólíti. Smáholt úr basaltandesíti er skammt vestur af hyrnunum.

Gígar og hraun

Vesturrein Fremrinámakerfisins hefur verið lítilvirk eftir ísöld og einungis komið þar upp smáhraun úr pikríti. Tvö þeirra eru austan til á Heilagsdalsfjalli, smádyngja um fjórir ferkílómetrar að stærð, og gossprunga sunnar. Í syðra hrauninu er gossprungan rúmlega einn kílómetri á lengd, dæmi um efnisrýrt frumstig dyngju. Ofan á hraununum sjást bæði Heklulögin H3 og H4. Undir H4 er 30-40 sentimetra þykkur fokjarðvegur. Neðst í honum er sennilega Saksunar-askan. Hraunin eru mjög líklega jafngömul. Skjaldbaka er í suðurframhaldi hraunanna á Heilagsdalsfjalli, smádyngja skammt frá fjallsrótum, einnig úr ólivínríku bergi og miklu eldri en Heklulögin áðurnefndu. Í jarðvegssniðum á henni er neðsta greinilega öskulagið um tíu sentimetra þykk sandkennd aska, líklega Saksunar-lagið.

Elstu hraun í eystri reininni eru Kerlingardyngja og gígaröð í Hljóðaklettum, ef þeir tilheyra þessu kerfi. Kerlingardyngja er úr ólivíndílóttu bergi. Framburður af lausagrjóti og möl er á henni, nokkurra metra þykkur á gígrimanum, og gengur undir hraun úr gossprungum sem liggja yfir hvirfil hennar. Augljóslega hefur jökull gengið yfir dyngjuna um tíma og þá líklega á yngri Dryas. Sennilega myndaðist hún á hlýskeiði síðjökultímans sem á undan fór.

Horft til suðvesturs yfir hvirfil Ketildyngju og jarðhitasvæðið þar.

Dyngjurnar norðar á eystri sprungureininni eru miklu yngri. Skuggadyngja er eitthvað eldri en H4-öskulagið, en Taglabunga litlu yngri, sem og Ketildyngja. Sigurður Þórarinsson mat hana 4000-4500 ára.2 Hraun úr Ketildyngju rann í Mývatn, niður Laxárdal og ofan í Aðaldal. Jarðfræðingar nefna það Laxárhraun eldra. Yngra Laxárhraunið þekur það að stórum hluta. Flatarmál þess eldra áætlaði Sigurður Þórarinsson um 330 ferkílómetra og hraunmagnið um fjóra rúmkílómetra.3 Dyngjuhraun þessi ná yfir stórt svæði milli Bláfjallshala og Kerlingardyngju og til norðurs frá rótum hennar norður í sundin milli Hvannfells- og Skógarmannafjalla, en þar hafa yngri hraun úr gosspurngum runnið út á þau.

Gígaraðir liggja yfir Kerlingardyngju, Ketildyngju og Skuggadyngju og þaðan norður í Kræðuborgir. Gígaraðirnar á Kerlingardyngju og suður þaðan, sem og vestan hennar, eru eldri en H3-öskulagið og þær vestustu eldri en H4. Tvær gossprungur liggja yfir hvirfil Kerlingardyngju, önnur austan og hin vestan við dyngjugíginn. Hraun hefur runnið ofan í hann og fyllt. Eftir að yfirborð fyllingarinnar storknaði, virðist meiri kvika hafa troðist í hana og hún gúlpast upp, þannig að jaðranir standa sums staðar á rönd. Einhvers staðar hefur hraunið svo fundið framrás úr gígskálinni, svo að miðjan hefur sigið lítillega.

Hraunin á Ketildyngju eru eldri en H3-öskulagið, nema það yngsta. Það er ofan á H3- og Hverfellsöskunni. Nánast ekkert skilur á milli þess og Hverfellsöskunnar. Upptök þess eru í gígaröð norðaustan í Ketilhyrnu eystri. Sprunguhraun þessi hafa runnið fyrir um það bil 3000 til 4000 árum. Langstærst þeirra er Búrfellshraun. Það er upprunnið í Kræðuborgum, 12 kílómetra langri gígaröð. Í norðurframhaldi þeirra hefur gosið á sama tíma í stuttri gígaröð austur af Eilífsvötnum og smáhraun flætt niður í Grænulág. Alls er gossprungan því rúmlega 20 kílómetra löng. Búrfellshraun er litlu eldra en Heklulagið H3,4 á að giska 3200 ára. Það er innikróað í lægð þar sem Heiðarsporðar stóðu fyrir að vestan og hraunið úr Rauðuborgum að austan. Aðalsérkenni Búrfellshrauns er uppbelging af völdum írennslis í bráðinn hluta þess, sem best sést nærri vesturjaðrinum og í ótal hraunstömpum og lægðum þar austur af. Jaðarinn hefur verið gegnstorkinn, sem og flákar og nabbar í því, og haggaðist því ekki er hraunið tók að belgjast upp.5 Flatarmál hraunsins er 105 ferkílómetrar, að því slepptu sem hulið er yngra hrauni, en það er lítið, og meðalþykktin gæti numið 15-20 metrum, magnið eftir því um 1,5-2 rúmkílómetrar.

Brennisteinsþúfur á Ketildyngju.

Jarðhiti

Jarðhitinn í Fremrinámum er austanhallt á Ketildyngju og innanvert í gíg hennar þeim megin. Einkenni hans er klasar brennisteinsþúfna sem oft raða sér á sprungur eða í sprungustefnu. Umhverfis er leirug ummyndun. Fjær leggur upp lyktarlausa vatnsgufu sem fok safnast að og oxast í rakanum (rauðþúfur). Brennisteinn er þarna mikill og hreinn, líkt og í Námafjalli og á Þeistareykjum, og var unninn á seinni hluta átjándu aldar og eitthvað fram á þá nítjándu. Leifar af grjótbyrgjum sjást enn. Hverasvæðið er um tveir ferkílómetrar. Það er nærri fimm kílómetrum að lengd í norður-suður að meðtöldum köldum en unglegum skellum austan í Ketilhyrnu og norðan í Skuggadyngju. Sunnarlega á Heilagsdal er hin forna Hjalladyngja, nokkuð rofin og með mikilli ummyndun og útfellingum. Þar eru kaldir lækir með súlfatríku vatni.6 Vatnslaust er í Fremrinámum, en hagar og rennandi vatn á Heilagsdal.

Kaflaskipt virkni

Ekki hafa fundist merki um hnik á gjám og misgengjum í Fremrinámakerfinu, yngri en yngsta sprunguhraunið austur af Ketilhyrnum. Ekki fer heldur sögum af gjám í Búrfellshrauni sem nær næstum því yfir sprungusveiminn þveran. Gjár eru í Ketildyngju, norður og suður frá hverasvæðinu, en engar stórar. Þær eru líka í hrauninu úr henni á Heilagsdal, sú víðasta um hálfur metri. Hlé hefur verið á gosum og að því er virðist einnig á sprunguvirkni í Fremrinámakerfinu í tæplega 3000 ár. Áður fór álíka langt tímabil sprungu- og dyngjugosa. Víst er að hraun hafa runnið snemma á eftirjökultíma, en hlé virðist hafa verið á gosum í kerfinu í nokkur þúsund ár þar á eftir.

Tilvísanir:

1 Oddur Sigurðsson og fleiri, 1975. Dettifossvirkjun. OS-ROD-7526. Orkustofnun, Reykjavík.

2 Sigurður Þórarinsson, 1951. Laxárgljúfur og Laxárhraun. A tephrocronological study. Geografiska Annaler, 33, 1-89.

3 Sigurður Þórarinsson, 1951. Laxárgljúfur og Laxárhraun. A tephrocronological study. Geografiska Annaler, 33, 1-89.

4 Kristján Sæmundsson, 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Náttúra Mývatns (Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 25-95.

5 Kristján Sæmundsson, 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Náttúra Mývatns (Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 25-95.

Haack og fleiri, 2002. Burfellshraun ‒ a SAR study of a unique volcanic eruption. 25th Nordic Geological Winter Meeting, Jan. 6-9 2002, Reykjavík. Abstract volume, 68.

6 Kristján Sæmundsson og Magnús Ólafsson, 2004. Fremrinámar og Gjástykki. Rannsóknir sumarið 2003. ÍSOR-04096. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Norðurgosbeltið í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 338, 339 og 340.

...