Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um bótúlín og bótox?

Kristín Ólafsdóttir

Bótúlíneitur (e. botulinum toxin) er taugaeitur sem framleitt er af bakteríunni Clostridium botulinum. Bakterían vex aðeins í súrefnissnauðu umhverfi, en myndar hitaþolin dvalagró við óhagstæðar aðstæður. Bótúlín er eitt af aleitruðustu efnum sem þekkjast, en einungis 1-2 ng/kg sprautað í vöðva eða æð, nægja til að drepa fullorðinn mann. Til samanburðar má nefna að það þyrfti um 3-7 mg/kg af heróíni til að drepa óvanan fullorðinn einstakling, það er um 2 milljón sinnum meira magn.

Bótúlíneitur (e. botulinum toxin) er taugaeitur sem framleitt er af bakteríunni Clostridium botulinum. Bakterían vex aðeins í súrefnissnauðu umhverfi.

Eitranir af völdum bótúlíns verða oftast þegar menn fá illa meðhöndlaðan mat. Þá eru um 70 µg talin nægja til að drepa meðalmanninn. Eitrið veldur alvarlegri lömun, sem smátt og smátt stöðvar öndun.

Eins og áður segir vex bakterían í súrefnissnauðu umhverfi en hún finnst aðallega í niðursoðnum mat. Maturinn hefur þá ekki verið hitaður nóg til að bakteríurnar drepist. Þessi eitrun er sjaldgæf í dag, þar sem heimaniðursoðinn matur er ekki algengur á borðum, að minnsta kosti á Vesturlöndum. Fréttir af dauðsföllum í Asíu, jafnvel fjöldatilfelli, berast þó öðru hvoru. Þá er talið að hluti af vöggudauða megi skýra með tilvist bakteríunnar í þörmum barnanna. Þangað hafa þær borist með óhreinindum eða hunangi, sem getur innihaldið gró bakteríunnar.

Þó undarlegt megi virðast hefur þetta hættulega taugaeitur verið notað bæði sem fegrunarlyf og í læknisfræðilegum tilgangi. Efnið gengur þá undir nafninu bótox. Þá er nýttur sá eiginleiki efnisins að lama vöðva. Efninu er sprautað í örlitlu magni í hrukkur í andliti fólks en það gerir húðina sléttari og getur árangurinn haldist jafnvel í nokkra mánuði. Þessi notkun hófst að mestu eftir árið 2002 og er nú orðin algeng aðgerð hjá lýtalæknum.

Taugaeitrið hefur verið notað sem fegrunarlyf. Efninu er sprautað í örlitlu magni í hrukkur í andliti fólks en það gerir húðina sléttari.

Nota má bótox í læknisfræðilegum tilgangi við ýmsum kvillum þar sem óstjórnlegir samdrættir vöðva valda truflunum á starfsemi eða verkjum. Meðal annars er það notað til að lina spastískar hreyfingar, minnka ofurmikla svitamyndun og gegn krónísku mígreni. Aukaverkanir eru oftast ekki alvarlegar, en í örfáum tilfellum hefur meðferðin þó valdið vöðvalömun og jafnvel dauða. Slíkt þekkist þó ekki við fegrunaraðgerðir, svo vitað sé.

Myndir:

Höfundur

deildarstjóri á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

20.9.2013

Spyrjandi

Melkorka Guðmundsdóttir

Tilvísun

Kristín Ólafsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um bótúlín og bótox?“ Vísindavefurinn, 20. september 2013. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58278.

Kristín Ólafsdóttir. (2013, 20. september). Hvað getið þið sagt mér um bótúlín og bótox? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58278

Kristín Ólafsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um bótúlín og bótox?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2013. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58278>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um bótúlín og bótox?
Bótúlíneitur (e. botulinum toxin) er taugaeitur sem framleitt er af bakteríunni Clostridium botulinum. Bakterían vex aðeins í súrefnissnauðu umhverfi, en myndar hitaþolin dvalagró við óhagstæðar aðstæður. Bótúlín er eitt af aleitruðustu efnum sem þekkjast, en einungis 1-2 ng/kg sprautað í vöðva eða æð, nægja til að drepa fullorðinn mann. Til samanburðar má nefna að það þyrfti um 3-7 mg/kg af heróíni til að drepa óvanan fullorðinn einstakling, það er um 2 milljón sinnum meira magn.

Bótúlíneitur (e. botulinum toxin) er taugaeitur sem framleitt er af bakteríunni Clostridium botulinum. Bakterían vex aðeins í súrefnissnauðu umhverfi.

Eitranir af völdum bótúlíns verða oftast þegar menn fá illa meðhöndlaðan mat. Þá eru um 70 µg talin nægja til að drepa meðalmanninn. Eitrið veldur alvarlegri lömun, sem smátt og smátt stöðvar öndun.

Eins og áður segir vex bakterían í súrefnissnauðu umhverfi en hún finnst aðallega í niðursoðnum mat. Maturinn hefur þá ekki verið hitaður nóg til að bakteríurnar drepist. Þessi eitrun er sjaldgæf í dag, þar sem heimaniðursoðinn matur er ekki algengur á borðum, að minnsta kosti á Vesturlöndum. Fréttir af dauðsföllum í Asíu, jafnvel fjöldatilfelli, berast þó öðru hvoru. Þá er talið að hluti af vöggudauða megi skýra með tilvist bakteríunnar í þörmum barnanna. Þangað hafa þær borist með óhreinindum eða hunangi, sem getur innihaldið gró bakteríunnar.

Þó undarlegt megi virðast hefur þetta hættulega taugaeitur verið notað bæði sem fegrunarlyf og í læknisfræðilegum tilgangi. Efnið gengur þá undir nafninu bótox. Þá er nýttur sá eiginleiki efnisins að lama vöðva. Efninu er sprautað í örlitlu magni í hrukkur í andliti fólks en það gerir húðina sléttari og getur árangurinn haldist jafnvel í nokkra mánuði. Þessi notkun hófst að mestu eftir árið 2002 og er nú orðin algeng aðgerð hjá lýtalæknum.

Taugaeitrið hefur verið notað sem fegrunarlyf. Efninu er sprautað í örlitlu magni í hrukkur í andliti fólks en það gerir húðina sléttari.

Nota má bótox í læknisfræðilegum tilgangi við ýmsum kvillum þar sem óstjórnlegir samdrættir vöðva valda truflunum á starfsemi eða verkjum. Meðal annars er það notað til að lina spastískar hreyfingar, minnka ofurmikla svitamyndun og gegn krónísku mígreni. Aukaverkanir eru oftast ekki alvarlegar, en í örfáum tilfellum hefur meðferðin þó valdið vöðvalömun og jafnvel dauða. Slíkt þekkist þó ekki við fegrunaraðgerðir, svo vitað sé.

Myndir:

...