Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið?

Jakob Kristinsson

Arsen (As) er frumefni með sætistöluna 33. Efnafræðilega hegðar það sér að hluta sem málmur og að hluta sem málmleysingi. Arsen getur komið fyrir frítt í náttúrunni en langmest af því er þó á formi þrígildra As (III) og fimmgildra As (V) sambanda. Það er oft í tengslum við málma eins og til dæmis kopar, sink og blý og leysist þá úr læðingi við vinnslu þeirra.

Á nokkrum stöðum í heiminum háttar þannig til að berggrunnurinn inniheldur umtalsvert magn af arseni. Grunnvatn á þessum stöðum er víða svo mengað að neysla þess getur verið varasöm. Arsenmenguð svæði finnast til dæmis í Suðaustur-Asíu, en þar er mest ræktað af hrísgrjónum í heiminum. Ræktun þeirra er ákaflega vatnsfrek og hefur arsen tilhneigingu til þess að safnast fyrir í þeim.

Arsen er frumefni með sætistöluna 33. Það er oft í tengslum við málma eins og til dæmis kopar, sink og blý.

Megnið af því arseni, sem við fáum í okkur kemur úr fæðu. Það getur þó einnig borist eftir öðrum leiðum eins og í gegnum húð eða við innöndun á ryki, sem inniheldur arsen. Sjávarafurðir eru sennilega arsenríkasta fæðan, sem við neytum. Þar er arsen í lífrænum efnasamböndum, það er tengt kolefni, en lífræn arsensambönd eru miklu minna eitruð en þau ólífrænu. Næst á eftir sjávarafurðum koma ýmsar korntegundir eins og til dæmis hrísgrjón. Í korni og jarðávöxtum er hlutfallslega meira af ólífrænu arseni en í sjávarfangi.

Eftir að hafa borist inn í líkamann safnast arsen fyrir, einkum í hári, húð og nöglum, en einnig að nokkru leyti í nýrum, hjarta, lifur og lungum. Það fer lítið yfir í miðtaugakerfið en berst auðveldlega yfir fylgju til fósturs. Arsen skilst að hluta út úr líkamanum gegnum húð, til dæmis með svita. Að mestu leyti skilst það samt út með þvagi í formi lífrænna og ólífrænna arsensambanda.

Arsen er mjög eitrað efni. Það er þó háð því á hvaða formi það er. Þrígild arsensambönd eru að jafnaði eitraðri en þau fimmgildu. Lífræn arsensambönd eins og þau, sem finnast í sjávarafurðum eru miklu minna eitruð en þau ólífrænu. Um 100 mg af ólífrænu, þrígildu arseni nægja til þess að valda alvarlegri eða jafnvel banvænni eitrun. Bráð arseneitrun, það er við inntöku á einum stórum skammti, lýsir sér í upphafi með uppköstum, niðurgangi og magakveisu. Síðar getur komið fram lungnabjúgur og leiðslutruflanir í hjarta, sem geta leitt til dauða. Einkenni frá taugakerfi geta einnig komið fram.

Dökkleitir blettir, eða vörtur á lófum og iljum, eru algengir hjá þeim, sem hafa verið í útsettir fyrir arsensamböndum svo árum skiptir.

Síðkomnar eitranir, það er við inntöku á minni skömmtum í langan tíma, lýsa sér oft með þreytu og slappleika, langvarandi magakveisu með uppköstum, niðurgangi og gulu. Truflanir í blóðrás og starfsemi skyn- og hreyfitauga í útlimum eru einnig vel þekktar. Dökkleitir blettir, eða vörtur á lófum og iljum, eru algengir hjá þeim, sem hafa verið í útsettir fyrir arsensamböndum svo árum skiptir. Arsen hefur verið sett í samband við krabbamein í húð, lungum, lifur, nýrum og blöðru. Það er á lista yfir krabbameinsvalda hjá Alþjóðakrabbameinsstofnuninni (IARC).

Lengi var talið að fullorðnum ætti að vera óhætt að neyta allt að 15 míkrógrömmum af arseni á hvert kg af líkamsþunga á viku án þess að það hefði skaðvænleg áhrif. Nýjar rannsóknir, einkum á krabbameinsvaldandi áhrifum þess, hafa vakið efasemdir um réttmæti þessara marka. Alþjóðastofnanir, sem vinna að heilbrigðismálum og matvælaöryggi í heiminum (WHO, FAO, JECFA) vinna nú að endurmati á skaðsemi arsens í matvælum og drykkjarvatni.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Það hefur verið talað um arsen í hrísgrjónum og hrísgrjónaafurðum sem verið er að gefa börnum sem ekki fá mjólk vegna ofnæmis. Hver eru einkenni og/eða eitrunaráhrif arsens. Eru þau hættuleg?

Höfundur

prófessor við Læknadeild HÍ

Útgáfudagur

26.2.2013

Spyrjandi

Dagný Sigurðardóttir

Tilvísun

Jakob Kristinsson. „Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2013. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64310.

Jakob Kristinsson. (2013, 26. febrúar). Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64310

Jakob Kristinsson. „Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2013. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64310>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið?
Arsen (As) er frumefni með sætistöluna 33. Efnafræðilega hegðar það sér að hluta sem málmur og að hluta sem málmleysingi. Arsen getur komið fyrir frítt í náttúrunni en langmest af því er þó á formi þrígildra As (III) og fimmgildra As (V) sambanda. Það er oft í tengslum við málma eins og til dæmis kopar, sink og blý og leysist þá úr læðingi við vinnslu þeirra.

Á nokkrum stöðum í heiminum háttar þannig til að berggrunnurinn inniheldur umtalsvert magn af arseni. Grunnvatn á þessum stöðum er víða svo mengað að neysla þess getur verið varasöm. Arsenmenguð svæði finnast til dæmis í Suðaustur-Asíu, en þar er mest ræktað af hrísgrjónum í heiminum. Ræktun þeirra er ákaflega vatnsfrek og hefur arsen tilhneigingu til þess að safnast fyrir í þeim.

Arsen er frumefni með sætistöluna 33. Það er oft í tengslum við málma eins og til dæmis kopar, sink og blý.

Megnið af því arseni, sem við fáum í okkur kemur úr fæðu. Það getur þó einnig borist eftir öðrum leiðum eins og í gegnum húð eða við innöndun á ryki, sem inniheldur arsen. Sjávarafurðir eru sennilega arsenríkasta fæðan, sem við neytum. Þar er arsen í lífrænum efnasamböndum, það er tengt kolefni, en lífræn arsensambönd eru miklu minna eitruð en þau ólífrænu. Næst á eftir sjávarafurðum koma ýmsar korntegundir eins og til dæmis hrísgrjón. Í korni og jarðávöxtum er hlutfallslega meira af ólífrænu arseni en í sjávarfangi.

Eftir að hafa borist inn í líkamann safnast arsen fyrir, einkum í hári, húð og nöglum, en einnig að nokkru leyti í nýrum, hjarta, lifur og lungum. Það fer lítið yfir í miðtaugakerfið en berst auðveldlega yfir fylgju til fósturs. Arsen skilst að hluta út úr líkamanum gegnum húð, til dæmis með svita. Að mestu leyti skilst það samt út með þvagi í formi lífrænna og ólífrænna arsensambanda.

Arsen er mjög eitrað efni. Það er þó háð því á hvaða formi það er. Þrígild arsensambönd eru að jafnaði eitraðri en þau fimmgildu. Lífræn arsensambönd eins og þau, sem finnast í sjávarafurðum eru miklu minna eitruð en þau ólífrænu. Um 100 mg af ólífrænu, þrígildu arseni nægja til þess að valda alvarlegri eða jafnvel banvænni eitrun. Bráð arseneitrun, það er við inntöku á einum stórum skammti, lýsir sér í upphafi með uppköstum, niðurgangi og magakveisu. Síðar getur komið fram lungnabjúgur og leiðslutruflanir í hjarta, sem geta leitt til dauða. Einkenni frá taugakerfi geta einnig komið fram.

Dökkleitir blettir, eða vörtur á lófum og iljum, eru algengir hjá þeim, sem hafa verið í útsettir fyrir arsensamböndum svo árum skiptir.

Síðkomnar eitranir, það er við inntöku á minni skömmtum í langan tíma, lýsa sér oft með þreytu og slappleika, langvarandi magakveisu með uppköstum, niðurgangi og gulu. Truflanir í blóðrás og starfsemi skyn- og hreyfitauga í útlimum eru einnig vel þekktar. Dökkleitir blettir, eða vörtur á lófum og iljum, eru algengir hjá þeim, sem hafa verið í útsettir fyrir arsensamböndum svo árum skiptir. Arsen hefur verið sett í samband við krabbamein í húð, lungum, lifur, nýrum og blöðru. Það er á lista yfir krabbameinsvalda hjá Alþjóðakrabbameinsstofnuninni (IARC).

Lengi var talið að fullorðnum ætti að vera óhætt að neyta allt að 15 míkrógrömmum af arseni á hvert kg af líkamsþunga á viku án þess að það hefði skaðvænleg áhrif. Nýjar rannsóknir, einkum á krabbameinsvaldandi áhrifum þess, hafa vakið efasemdir um réttmæti þessara marka. Alþjóðastofnanir, sem vinna að heilbrigðismálum og matvælaöryggi í heiminum (WHO, FAO, JECFA) vinna nú að endurmati á skaðsemi arsens í matvælum og drykkjarvatni.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Það hefur verið talað um arsen í hrísgrjónum og hrísgrjónaafurðum sem verið er að gefa börnum sem ekki fá mjólk vegna ofnæmis. Hver eru einkenni og/eða eitrunaráhrif arsens. Eru þau hættuleg?
...