Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eðlilegt að spurt sé. Við heyrum gjarnan af því að einhver sem við könnumst við hafi greinst með krabbamein og að sá hafi í kjölfarið farið í aðgerð til þess að fjarlægja æxlið. Oft heyrum við líka ekki annað en að vel hafi til tekist enda viðkomandi í flestum tilvikum alveg eins og hann á að sér í framhaldinu, þegar hann hefur náð sér eftir aðgerðina.
Þetta er hins vegar ekki svona einfalt eins og leitast verður við að skýra út hér á eftir.
Krabbamein er ekki bara einn sjúkdómur. Hér er um að ræða sjúkdómaflokk sem er afar fjölbreytilegur til dæmis hvað varðar vefjagerð, staðsetningu og uppruna, hegðan, svörun við til dæmis lyfjameðferð eða geislameðferð og einnig hvað varðar horfur sjúklinganna sem greinast.
Sum krabbamein eru til staðar í blóðinu og eru þá krabbameinsfrumurnar dreifðar um blóðið í æðakerfi og líkama sjúklings og einkum í beinmergnum, sem er blóðmyndandi vefur líkamans. Dæmi um slík krabbamein er hvítblæði sem getur verið af mismunandi gerðum og einnig mergfrumuæxli. Slík æxli er ekki unnt að fjarlægja með skurðaðgerð, eðli máls samkvæmt. Hins vegar hefur gengið vel að meðhöndla mörg þessara meina með lyfjameðferð, en þróun í slíkri meðferð hefur verið mikil á undanförnum áratugum.
Skurðaðgerð er enn sú meðferð sem bestar líkur gefur á lækningu krabbameins þegar hægt er að beita henni. Í ýmsum tilfellum er skurðaðgerð þó ekki möguleg og þá verður að leita annarra leiða.
Í einhverjum krabbameinum hafa vísindarannsóknir sýnt fram á að betri árangur næst með því að meðhöndla sjúklingana með lyfjum og/eða geislum heldur en með skurðaðgerð, jafnvel þó að æxlið komi fram á afmörkuðum stað þannig að með skurðaðgerð gæti virst unnt að fjarlægja það. Eitilfrumuæxli eru dæmi um þetta en þau eru mjög fjölskrúðugur hópur illkynja æxla. Yfirleitt eru slík æxli meðhöndluð með lyfjameðferð eða geislameðferð að minnsta kosti til að byrja með. Ein tegund eitilfrumukrabbameins í maga er dæmi um slíkt. Í þeim æxlum hefur sýnt sig að þau láta mjög gjarnan undan lyfjameðferð sem beint er gegn sýkli sem nefnist Helicobacter pylori. Þegar slíkri sýklalyfjameðferð er beitt hafa þessi æxli gjarnan koðnað niður og jafnvel ekki verið þörf á neinni annarri meðferð.
Ef krabbamein greinist „of seint“ í sjúkdómsferlinu, það er þegar krabbameinið hefur náð að dreifa sér út fyrir sinn upprunastað, getur verið ómögulegt að fjarlægja æxlið í skurðaðgerð í þeim tilgangi að reyna að lækna sjúklinginn. Lungnakrabbamein sem hefur dreift sér til beina og til heilans er dæmi um það. Þá er ekki talið hafa neinn tilgang að fjarlægja upphafsmeinið í lunganu. Það kemur þó vissulega oft fyrir að skurðaðgerð sé beitt til þess að fjarlægja upphafsæxli þó fjarmeinvörp hafi myndast, ef það gæti bætt líðan sjúklings eða til að koma í veg fyrir ótímabært andlát eða illvíga hliðarverkun meinsins. Slík aðgerð væri þó ekki gerð í þeim tilgangi að lækna sjúklinginn af krabbameininu.
Í sumum tilvikum greinast krabbamein á mjög viðkvæmum stöðum, eða æxlisvöxturinn hefur náð að breiðast yfir allstórt svæði og komast upp að viðkvæmum líffærum/vefjum sem ekki er unnt að nema á brott. Þá er annaðhvort um að ræða læknisfræðilegt mat sem lýtur að því að sjúklingur gæti alls ekki lifað skurðaðgerð af eða mjög vafasamt væri að hann mundi komast í gegnum slíka aðgerð. Þetta á við til dæmis um ýmis æxli á viðkvæmum stöðum í heila eða upp við meginslagæðina frá hjarta. Yfirleitt er í slíkum tilfellum beitt lyfjameðferð og/eða geislameðferð.
Enn ein ástæða þess að ekki er unnt að skera burt krabbameinið er þegar sjúklingi er eftir læknisfræðilegt mat ekki treyst í þá skurðaðgerð sem til þyrfti, til þess að von geti verið um lækningu. Í þessu sambandi getur verið bæði um að ræða gamalt fólk sem er komið á þann aldur að vega þarf og meta hvort horfur eru á að skurðaðgerð gæti lengt eða bætt líf sjúklingsins. Einnig getur verið að einstaklingurinn sé mjög illa á sig kominn vegna ýmissa sjúkdóma svo sem hjartasjúkdóms og vafasamt talið að hann geti lifað af erfiða skurðaðgerð.
Í sumum tilfellum er betra að beita geislameðferð en skurðaðgerð.
Einstaka æxli eru óvenjuillvíg og vísindarannsóknir sýna fram á að með skurðaðgerð tækist ekki að bjarga einstaklingnum, þrátt fyrir að krabbameinið geti virst bundið ákveðnum upphafsstað við greiningu. Sem dæmi um slíkt er ein af megingerðum lungnakrabbameins. Það eru einkum fjórar vefjagerðir lungnakrabbameins sem greinast og eru þær allar býsna sterkt tengdar reykingum. Þessar gerðir eru svokölluð kirtilkrabbamein, flöguþekjukrabbamein, stórfrumukrabbamein og svo smáfrumukrabbamein. Ef lungnakrabbamein greinist að því er virðist sem staðbundið krabbamein í lungum er yfirleitt reynt að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð. Þetta á hins vegar ekki við um svokallaða smáfrumugerð lungnakrabbameins. Þá hafa rannsóknir sýnt að sjúklingur er betur kominn án þess að aðgerð sér gerð, en frekar er reynt að gefa lyfjameðferð. Horfur þessara sjúklinga eru samt sem áður eru ekki góðar.
Í sumum tilfellum þegar krabbamein greinist og útbreiðsla sjúkdómsins leiðir í ljós að æxlið sé ekki skurðtækt (til dæmis að það greinist og seint eða á mjög viðkvæmum stöðum eins og kemur fram hér að ofan), þá er skurðaðgerð ekki beitt. Hins vegar er í sumum tilvikum unnt að beita lyfjameðferð eða geislameðferð og að þeirri meðferð lokinni er unnt að endurmeta áhrifin. Verið getur að lyfja- og/eða geislameðferð hafi skilað þeim árangri að skurðaðgerð þyki góður kostur í framhaldinu. Í því sambandi getur jafnvel aðgerðin beinst að því að gera tilraun til að lækna sjúklinginn endanlega af sjúkdómnum.
Þessi umfjöllun hér að ofan leitast við að skýra hvaða helstu ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur sem greinist með krabbamein fer ekki bara beint í skurðaðgerð til þess að fjarlægja meinið og lækna sjúklinginn. Sem betur fer þá er mjög oft unnt að beita skurðaðgerðum til þess að lækna krabbamein. Í flestum tilfellum er fyrsta meðferð eftir greiningu krabbameins skurðaðgerð þar sem leitast er við að fjarlægja æxlið og gjarnan líka eitlastöðvar sem vera mundu í flestum tilvikum fyrstu viðkomustöðvar dreifingar krabbameinsins út um líkamann. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna brjóstakrabbameinsaðgerðir (svokallaðir fleygskurðir úr brjósti eða brottnám brjóstsins) með/eða án brottnáms eitlastöðva eftir ákvörðun um hvort meinvörp séu til staðar. Annað dæmi er brottnám á hluta af ristli með krabbameini og nálægum eitlastöðvum. Þriðja dæmið um brottnám æxlis er sortuæxli í húð þar sem húðsvæðið með æxlinu og aðlægum vef er fjarlægt.
Skurðaðgerð er enn sú meðferð sem bestar líkur gefur á lækningu krabbameins, það er ef unnt er að beita slíkri meðferð. Ástæða er þó til að hafa í huga að nú orðið geta um það bil tveir af hverjum þremur sem greinast með krabbamein vænst þess að lifa fimm ár eða lengur eftir greiningu meinsins.
Myndir:
Jón Gunnlaugur Jónasson. „Af hverju er ekki bara hægt að skera æxlið í burtu þegar menn fá krabbamein?“ Vísindavefurinn, 27. febrúar 2012, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59071.
Jón Gunnlaugur Jónasson. (2012, 27. febrúar). Af hverju er ekki bara hægt að skera æxlið í burtu þegar menn fá krabbamein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59071
Jón Gunnlaugur Jónasson. „Af hverju er ekki bara hægt að skera æxlið í burtu þegar menn fá krabbamein?“ Vísindavefurinn. 27. feb. 2012. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59071>.