Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um ævi Georges Cuvier og áhrif hans á vísindi samtímans?

Örnólfur Thorlacius (1931-2017)

Georges Léopold Chrètien Frèderic Dagobert Cuvier fæddist 29. ágúst árið 1769 í smábæ, sem þá hét Mömpelgard í Württemberg í Þýskalandi, nærri frönsku landamærunum og skammt norður af Sviss. Upp úr frönsku stjórnarbyltingunni, eða árið 1793, var bærinn innlimaður í Frakkland og heitir síðan Montbéliard. − Cuvier var afburðanámsmaður og skaraði fram úr jafnöldrum sínum strax í barnaskóla, einkum var minni hans við brugðið. Áhuginn beindist snemma að náttúrufræðum. Hann hóf nám í menntaskóla (Gymnasium) tíu ára, og upp úr því fór hann að lesa fræðirit um sagnfræði og náttúrufræði. Meðal annars komst hann hjá frænda sínum í það sem út var komið af ‘Náttúrusögu’ Buffons greifa, Histoire naturelle, générale et particulière, sem er ekkert smákver, 36 bindi skráð á árunum 1749 til 1788. − Tólf ára gamall var Cuvier sagður ‘jafn fróður um ferfætlinga og fugla og vel menntaður náttúrufræðingur’.

Georges Cuvier.

Að loknu fjögurra ára menntaskólanámi innritaðist Cuvier í þýskan háskóla, Karlsschule í Stuttgart, þar sem hann lagði stund á hagfræði og lögfræði. Þótt Cuvier væri fæddur á þýskri grund var franska móðurmál hans, en hann var fljótur að tileinka sér þýskuna, og eftir aðeins níu mánaða setu í háskólanum vann hann til verðlauna frá skólanum fyrir gott vald á málinu.

Cuvier var fjögur ár í Karlsschule. Þaðan brautskráðist hann févana og hafði engin tök á að leita fyrir sér um stöðu við háskóla eða aðrar vísindastofnanir. Í júlí 1788 gerðist hann einkakennari einkasonar aðalsmanns í Normandí. Þar notaði hann tímann til að kanna náttúruna, sem meðal annars varð upphaf að löngu og gifturíku starfi við samanburð á tegundum lifandi dýra og steingerðum leifum útdauðra tegunda. Um það er meira fjallað í svari eftir sama höfund við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um kenningar Georges Cuvier og stöðu þeirra innan nútímavísinda?

Í Normandí kynntist hann málsmetandi mönnum, sem áttuðu sig á hvað í honum bjó og komu honum í bréfasamband við kunna fræðimenn í París, sem varð til þess að Cuvier var boðið til höfuðborgarinnar.

Þetta voru umbrotatímar í sögu franskra vísinda. Í skálmöld byltingarinnar voru allar rótgrónar ‘aristókratískar’ akademíur lagðar niður árið 1793. Árið eftir, haustið 1794, aðeins nokkrum mánuðum eftir að fremsti vísindamaður þjóðarinnar, efnafræðingurinn Antoine Lavoisier, var hálshöggvinn fyrir miður þóknanlegar aðferðir við öflun fjár til rannsókna sinna, var akademíska kerfið í reynd endurreist undir nýju nafni, Institut de France. Það hefur greinilega runnið upp fyrir hinum nýju valdhöfum, að byltingin hefði þörf fyrir vísindamenn.

Nú voru ráðnir fræðimenn, þeirra á meðal margir nýir, að nýjum stofnunum (eða endurreistum). Fljótlega eftir að Cuvier kom til Parísar á 26. aldursári, vorið 1795, fékk hann stöðu sem aðstoðarmaður prófessors við nýstofnaða deild í samanburðarlíffærafræði dýra á franska Náttúrusögusafninu (Muséum national d´histoire naturelle) í París. Náttúrusögusafnið, sem heyrði undir Institut de France, var (og er enn) ekki aðeins safn, heldur líka rannsóknastofnun og háskóli í náttúruvísindum. Þar hitti Cuvier fyrir tvo virta prófessora í dýrafræðum. Annar var sem næst jafnaldri Cuviers, Étienne Geoffroy Saint-Hilaire (1772-1844), prófessor í líffærafræði dýra. Þeir höfðu skipst á bréfum meðan Cuvier var í Normandí og Geoffroy hafði átt þátt í því að Cuvier var boðið til Parísar. Þeir urðu vinir og skrifuðu saman nokkur rit um líffæragerð og flokkun dýra. Síðar hallaðist Geoffroy að kenningu Lamarcks um þróun lífs á jörðinni, þótt hann féllist ekki á allar hugmyndir Lamarcks, en Cuvier var alla tíð harður andstæðingur allra hugmynda um þróun, og þeir Geoffroy fjarlægðust af þeim sökum.

Jean-Baptiste Lamarck.

Hinn prófessorinn var einmitt Jean Baptiste Lamarck (1744-1829). Fyrir byltinguna fékkst hann einkum við grasafræði. Árið 1778 kom út þriggja binda verk hans um flóru Frakklands, Flora françoise, og árið eftir varð hann félagi í frönsku vísindaakademíunni. Að auki var hann tilnefndur ‘Konunglegur grasafræðingur’, og sem slíkur heimsótti hann grasasöfn og grasgarða margra landa. − Eftir byltinguna var Lamarck árið 1793 skipaður prófessor í dýrafræði og forstöðumaður hryggleysingjadeildar Náttúrusögusafnsins. Hann vann að merkum rannsóknum á líkamsgerð og flokkun hryggleysingja, en þekktastur er hann þó fyrir þróunarkenningu sína, sem út kom á bók − Philosophie zoologique, Dýrafræðileg heimspeki − árið 1809. Þar leggur hann mikla áherslu á mótandi áhrif umhverfisins. Cuvier snerist öndverður gegn þróunarhugmyndum Lamarcks og taldi þær heimspekirugl fremur en nákvæm vísindi. Var að lokum fullur fjandskapur með þeim kollegunum, sem náði hámarki þegar Cuvier skrifaði svo rætin eftirmæli um Lamarck að þau fengust ekki birt í annálum Frönsku akademíunnar.

Það er einkum tvennt, sem haldið hefur uppi nafni Cuviers til þessa dags. Annað er framlag hans til samanburðarlíffærafræði dýra, en segja má að hann hafi lagt grunninn að nútímagerð fræðigreinarinnar. Varla hefur nokkur fræðimaður, sem kynnt hefur sér störf Cuviers á þessu sviði, dregið í efa gildi þeirra eða stöðu hans sem brautryðjanda.

Hins vegar hafnaði hann með öllu hugmyndum um það að tegundirnar hefðu í tímans rás tekið breytingum − þróast.

Ýmsar athuganir, meðal annars samanburður Cuviers sjálfs á leifum steingerðra lífvera í fornum jarðlögum við dýr og plöntur sem nú eru uppi, báru þess glöggt vitni að margar tegundir voru aldauða og aðrar komnar í þeirra stað. Þetta skýrðu þeir Geoffroy og Lamarck þannig, að lífverurnar hefðu í aldanna rás breyst, nýjar tegundir komið fram og hinar eldri dáið út.

En skýring Cuviers var að stórfelldar náttúruhamfarir hefðu annað veifið gengið yfir verulegan hluta jarðarinnar, eða hana alla, og eytt meginhluta lífsins, en aðrar tegundir síðan komið í stað þeirra sem út dóu. Ekki verður séð að hann hafi tekið ákveðna afstöðu til þess hvort þessar tegundir hafi orðið til þar og þá eða þær hafi áður lifað annars staðar; raunar forðast Cuvier að víkja að íhlutun æðri máttarvalda, sem var í samræmi við viðhorf franskra byltingarmanna. Og hann nefnir hvergi Nóaflóðið, sem margir kristnir náttúrufræðingar, einkum á Englandi, töldu staðfesta hamfarakenninguna.

Cuvier var vel tekið í París. Hann fékk fljótlega sæti í Frönsku vísindaakademíunni, sem stofnuð var á vegum Institut de France, fyrirlestrar hans voru fjölsóttir og vöktu athygli, og eftir hann liggja mörg og merk rit. Kunnast þeirra er Le Règne Animal, Dýraríkið, fimm binda verk um líkamsgerð lifandi og aldauða dýra.

Cuvier gegndi mörgum virðingar- og ábyrgðarstöðum í Frakklandi; hann var sæmdur barónstign árið 1819 fyrir framlag sitt til franskra vísinda. Auk þess var hann félagi í Konunglega breska vísindafélaginu og Konunglegu sænsku vísindaakademíunni. − Georges Cuvier andaðist úr kóleru í París 13. maí 1832.

Heimildir og myndir:

Höfundur

líffræðingur, fyrrv. rektor Menntaskólans við Hamrahlíð

Útgáfudagur

18.10.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um ævi Georges Cuvier og áhrif hans á vísindi samtímans?“ Vísindavefurinn, 18. október 2011. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60932.

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2011, 18. október). Hvað getið þið sagt mér um ævi Georges Cuvier og áhrif hans á vísindi samtímans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60932

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um ævi Georges Cuvier og áhrif hans á vísindi samtímans?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2011. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60932>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um ævi Georges Cuvier og áhrif hans á vísindi samtímans?
Georges Léopold Chrètien Frèderic Dagobert Cuvier fæddist 29. ágúst árið 1769 í smábæ, sem þá hét Mömpelgard í Württemberg í Þýskalandi, nærri frönsku landamærunum og skammt norður af Sviss. Upp úr frönsku stjórnarbyltingunni, eða árið 1793, var bærinn innlimaður í Frakkland og heitir síðan Montbéliard. − Cuvier var afburðanámsmaður og skaraði fram úr jafnöldrum sínum strax í barnaskóla, einkum var minni hans við brugðið. Áhuginn beindist snemma að náttúrufræðum. Hann hóf nám í menntaskóla (Gymnasium) tíu ára, og upp úr því fór hann að lesa fræðirit um sagnfræði og náttúrufræði. Meðal annars komst hann hjá frænda sínum í það sem út var komið af ‘Náttúrusögu’ Buffons greifa, Histoire naturelle, générale et particulière, sem er ekkert smákver, 36 bindi skráð á árunum 1749 til 1788. − Tólf ára gamall var Cuvier sagður ‘jafn fróður um ferfætlinga og fugla og vel menntaður náttúrufræðingur’.

Georges Cuvier.

Að loknu fjögurra ára menntaskólanámi innritaðist Cuvier í þýskan háskóla, Karlsschule í Stuttgart, þar sem hann lagði stund á hagfræði og lögfræði. Þótt Cuvier væri fæddur á þýskri grund var franska móðurmál hans, en hann var fljótur að tileinka sér þýskuna, og eftir aðeins níu mánaða setu í háskólanum vann hann til verðlauna frá skólanum fyrir gott vald á málinu.

Cuvier var fjögur ár í Karlsschule. Þaðan brautskráðist hann févana og hafði engin tök á að leita fyrir sér um stöðu við háskóla eða aðrar vísindastofnanir. Í júlí 1788 gerðist hann einkakennari einkasonar aðalsmanns í Normandí. Þar notaði hann tímann til að kanna náttúruna, sem meðal annars varð upphaf að löngu og gifturíku starfi við samanburð á tegundum lifandi dýra og steingerðum leifum útdauðra tegunda. Um það er meira fjallað í svari eftir sama höfund við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um kenningar Georges Cuvier og stöðu þeirra innan nútímavísinda?

Í Normandí kynntist hann málsmetandi mönnum, sem áttuðu sig á hvað í honum bjó og komu honum í bréfasamband við kunna fræðimenn í París, sem varð til þess að Cuvier var boðið til höfuðborgarinnar.

Þetta voru umbrotatímar í sögu franskra vísinda. Í skálmöld byltingarinnar voru allar rótgrónar ‘aristókratískar’ akademíur lagðar niður árið 1793. Árið eftir, haustið 1794, aðeins nokkrum mánuðum eftir að fremsti vísindamaður þjóðarinnar, efnafræðingurinn Antoine Lavoisier, var hálshöggvinn fyrir miður þóknanlegar aðferðir við öflun fjár til rannsókna sinna, var akademíska kerfið í reynd endurreist undir nýju nafni, Institut de France. Það hefur greinilega runnið upp fyrir hinum nýju valdhöfum, að byltingin hefði þörf fyrir vísindamenn.

Nú voru ráðnir fræðimenn, þeirra á meðal margir nýir, að nýjum stofnunum (eða endurreistum). Fljótlega eftir að Cuvier kom til Parísar á 26. aldursári, vorið 1795, fékk hann stöðu sem aðstoðarmaður prófessors við nýstofnaða deild í samanburðarlíffærafræði dýra á franska Náttúrusögusafninu (Muséum national d´histoire naturelle) í París. Náttúrusögusafnið, sem heyrði undir Institut de France, var (og er enn) ekki aðeins safn, heldur líka rannsóknastofnun og háskóli í náttúruvísindum. Þar hitti Cuvier fyrir tvo virta prófessora í dýrafræðum. Annar var sem næst jafnaldri Cuviers, Étienne Geoffroy Saint-Hilaire (1772-1844), prófessor í líffærafræði dýra. Þeir höfðu skipst á bréfum meðan Cuvier var í Normandí og Geoffroy hafði átt þátt í því að Cuvier var boðið til Parísar. Þeir urðu vinir og skrifuðu saman nokkur rit um líffæragerð og flokkun dýra. Síðar hallaðist Geoffroy að kenningu Lamarcks um þróun lífs á jörðinni, þótt hann féllist ekki á allar hugmyndir Lamarcks, en Cuvier var alla tíð harður andstæðingur allra hugmynda um þróun, og þeir Geoffroy fjarlægðust af þeim sökum.

Jean-Baptiste Lamarck.

Hinn prófessorinn var einmitt Jean Baptiste Lamarck (1744-1829). Fyrir byltinguna fékkst hann einkum við grasafræði. Árið 1778 kom út þriggja binda verk hans um flóru Frakklands, Flora françoise, og árið eftir varð hann félagi í frönsku vísindaakademíunni. Að auki var hann tilnefndur ‘Konunglegur grasafræðingur’, og sem slíkur heimsótti hann grasasöfn og grasgarða margra landa. − Eftir byltinguna var Lamarck árið 1793 skipaður prófessor í dýrafræði og forstöðumaður hryggleysingjadeildar Náttúrusögusafnsins. Hann vann að merkum rannsóknum á líkamsgerð og flokkun hryggleysingja, en þekktastur er hann þó fyrir þróunarkenningu sína, sem út kom á bók − Philosophie zoologique, Dýrafræðileg heimspeki − árið 1809. Þar leggur hann mikla áherslu á mótandi áhrif umhverfisins. Cuvier snerist öndverður gegn þróunarhugmyndum Lamarcks og taldi þær heimspekirugl fremur en nákvæm vísindi. Var að lokum fullur fjandskapur með þeim kollegunum, sem náði hámarki þegar Cuvier skrifaði svo rætin eftirmæli um Lamarck að þau fengust ekki birt í annálum Frönsku akademíunnar.

Það er einkum tvennt, sem haldið hefur uppi nafni Cuviers til þessa dags. Annað er framlag hans til samanburðarlíffærafræði dýra, en segja má að hann hafi lagt grunninn að nútímagerð fræðigreinarinnar. Varla hefur nokkur fræðimaður, sem kynnt hefur sér störf Cuviers á þessu sviði, dregið í efa gildi þeirra eða stöðu hans sem brautryðjanda.

Hins vegar hafnaði hann með öllu hugmyndum um það að tegundirnar hefðu í tímans rás tekið breytingum − þróast.

Ýmsar athuganir, meðal annars samanburður Cuviers sjálfs á leifum steingerðra lífvera í fornum jarðlögum við dýr og plöntur sem nú eru uppi, báru þess glöggt vitni að margar tegundir voru aldauða og aðrar komnar í þeirra stað. Þetta skýrðu þeir Geoffroy og Lamarck þannig, að lífverurnar hefðu í aldanna rás breyst, nýjar tegundir komið fram og hinar eldri dáið út.

En skýring Cuviers var að stórfelldar náttúruhamfarir hefðu annað veifið gengið yfir verulegan hluta jarðarinnar, eða hana alla, og eytt meginhluta lífsins, en aðrar tegundir síðan komið í stað þeirra sem út dóu. Ekki verður séð að hann hafi tekið ákveðna afstöðu til þess hvort þessar tegundir hafi orðið til þar og þá eða þær hafi áður lifað annars staðar; raunar forðast Cuvier að víkja að íhlutun æðri máttarvalda, sem var í samræmi við viðhorf franskra byltingarmanna. Og hann nefnir hvergi Nóaflóðið, sem margir kristnir náttúrufræðingar, einkum á Englandi, töldu staðfesta hamfarakenninguna.

Cuvier var vel tekið í París. Hann fékk fljótlega sæti í Frönsku vísindaakademíunni, sem stofnuð var á vegum Institut de France, fyrirlestrar hans voru fjölsóttir og vöktu athygli, og eftir hann liggja mörg og merk rit. Kunnast þeirra er Le Règne Animal, Dýraríkið, fimm binda verk um líkamsgerð lifandi og aldauða dýra.

Cuvier gegndi mörgum virðingar- og ábyrgðarstöðum í Frakklandi; hann var sæmdur barónstign árið 1819 fyrir framlag sitt til franskra vísinda. Auk þess var hann félagi í Konunglega breska vísindafélaginu og Konunglegu sænsku vísindaakademíunni. − Georges Cuvier andaðist úr kóleru í París 13. maí 1832.

Heimildir og myndir:...