Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er einkum tvennt, sem franski steingervinga- og dýralíffærafræðingurinn Georges Cuvier er þekktur fyrir. Annað er framlag hans til samanburðarlíffærafræði dýra, en segja má að hann hafi lagt grunninn að nútímagerð fræðigreinarinnar. Hann benti á að ákveðin einkenni í líkamsgerð dýra fylgjast löngum að og tengjast næringarvali þeirra og öðrum lífsháttum. Þannig fara saman horn − slíðurhorn eins og á kúm og kindum eða greinótt hjartarhorn sem endurnýjast árlega − og hófar, stakir eða klofnir, og dýr með þessum einkennum éta jafnan gras eða annan gróður, og tennur og meltingarfæri mótast af þessu fæðuvali. Dýr, sem lifa á holdi annarra dýra, mótast á annan hátt af lífsháttum sínum, hornalaus, með beittar klær, tennur lagaðar til að tæta sundur hold ellegar bryðja bein, og styttri meltingargangur en í jafnstórum gróðurætum og frábrugðin meltingarfæri að öðru leyti. Þetta á einkum við um spendýr, en samsvarandi sérkenni má greina á öðrum ferfætlingum, fiskum og hvers kyns hryggleysingjum eftir lifnaðarháttum hverrar tegundar.
Georges Cuvier.
Með þessu kvað Cuvier niður áður útbreiddar hugmyndir um tilvist einhyrninga og fleiri furðudýra og kom einnig skipan á túlkun steingerðra leifa útdauðra dýra. Hann kvaðst geta í stórum dráttum lýst líkamsgerð dýrs út frá aðeins einum líkamshluta eða líffæri, og sannaði það stundum þegar hann lýsti útdauðum dýrategundum út frá einu eða nokkrum steingerðum brotum, og lýsingin stóðst þegar heillegri sýni fundust. − Og hann var brautryðjandi í greiningu og niðurskipun jarðlaga út frá tegundum steingervinga sem þar var að finna.
Fyrsta ritgerð hans af mörgum um forndýrafræði fjallaði um lifandi og aldauða fíla. Þar sýndi hann fram á að núlifandi fílar eru af tveimur tegundum, afríkufíll og asíufíll. Einnig kom þar fram að loðfílarísaldar voru sjálfstæð tegund, sem og aldauða norðuramerísk skepna, sem kölluð var ‘Ohiodýrið’, en hlaut nú fræðiheitið Mastodon.
Dæmi um óreiðu og misskilning, sem Cuvier greiddi úr, eru bein, sem fundust árið 1725 í Ölpunum, undir urð af gerð sem finna má víða um heim og var talin set sem syndaflóðið hefði borið með sér, en er í reynd jökulurð frá ísöld. Beinin voru talin úr manni og þar sem urðin féll þétt að þeim þótti ljóst að maðurinn hefði drukknað í flóðinu,
Þegar Cuvier skoðaði bein þessa meinta gamla syndara á safni í Hollandi var hann fljótur að greina þau sem leifar útdauðrar risasalamöndru af áður óþekktri tegund.
Samanburðarrannsóknir Cuviers skerptu skilning manna á þeirri sögu, sem lesa má úr jarðlögum: Þar sem mikil syrpa jarðlaga hefur hlaðist upp á löngum tíma og varðveist lítt röskuð, eru lífverur, sem finnast steingerðar í lögunum, mismunandi, og því framandlegri sem lögin eru neðar í jarðlagastaflanum og þar með eldri. Þetta skýrðu kollegar hans við Náttúrusögusafnið í París, Geoffroy Saint-Hilaire og Lamarck, þannig, að lífverurnar hefðu í aldanna rás breyst, nýjar tegundir komið fram og hinar eldri dáið út.
Slíkum kenningum hafnaði Cuvier. Hann gerði ráð fyrir stórfenglegum náttúruhamförum, sem annað veifið hefðu gengið yfir jörðina eða einhvern hluta hennar og eytt þar mestöllu lífi. Síðan hafi ný lífsform komið í stað hinna horfnu, og kemur ekki fram, hvort þær tegundir hafi orðið til eftir hamfarirnar eða numið land af svæðum sem ekki urðu jafnilla úti.
Þessi hamfarakenning, sem höfundur þessa pistils segir frá í æviágripi Cuviers á Vísindavefnum, féll vel að tiltækri þekkingu og hugmyndaheimi vísindanna í upphafi nítjándu aldar, enda voru þá ekki fram komnar sannfærandi skýringar á gangverki þróunarinnar.
Hér ber Cuvier saman kjálka hjá mismunandi tegundum fíla.
Þetta átti eftir að breytast. Skoskur jarðfræðingur, Charles Lyell, birti á árunum 1830-1833 frumútgáfu af þriggja binda verki, Principles of Geology. Í stað hamfarakenningar (‘katastrófisma’) Cuviers setur hann samfellukenningu (‘úníformítaríanisma’): ‘Nútíminn er lykill að fortíðinni’, eða, þegar kemur að jarðfræðinni, verða öll ferli á liðnum tímum skýrð út frá því sem fer fram nú á dögum. Þessi skoðun varð brátt ráðandi, ekki aðeins innan jarðfræðinnar, enda höfðu hvergi fundist merki um þær hamfarir sem Cuvier gekk út frá. Charles Darwin, sem var náinn vinur Lyells, komst að sömu niðurstöðu varðandi breytingar í lífheiminum: Nýjar tegundir hafi orðið til við hægfara þróun, þar sem náttúran velji úr breytt afbrigði, þau sem best falla að umhverfinu hverju sinni.
Ætla mætti að þar með væri sagan öll, en svo er ekki. Nú vita menn að fyrir einum 65 milljónum ára eyddu einhverjar náttúruhamfarir, trúlega loftsteinn sem féll í Karíbahaf, öllum risaeðlunum, og raunar flestum stórum dýrum í sjó og vötnum, og ýmsum vatna- og þurrlendisgróðri. Þessi tími markar skilin á milli miðlífsaldar og nýlífsaldar jarðsögunnar. Annar fjöldaaldauði, enn hrikalegri, varð fyrir liðlega 250 milljón árum, á mótum fornlífsaldar og miðlífsaldar. Ekki er ljóst hvaða hamfarir voru þar að verki, en þá er talið að 96% af öllum tegundum sjávardýra og 70% landhryggdýra hafi farist. − Vitað er um fleiri stórhamfarir í sögu jarðar, svo segja má að hamfarakenning Cuviers sé enn í gildi, að vísu við hlið þróunarkenningarinnar, en komi ekki í stað hennar.
Og enn vænkast hagur Cuviers. Þegar þróunarsagan er rakin af steingervingum, má finna sömu tegund í jarðlögum frá alllöngu skeiði. Síðan er eins og ný tegund komi fram, fullmótuð, án millistiga. Menn hafa kennt gloppum í steingervingasögunni um þetta, að þróunin sé vissulega samfelld, en of lítið úrtak af hverri tegund geymist og finnist til þess að millistigin greinist. Árið 1971 settu tveir bandarískir þróunarfræðingar, Stephen Jay Gould og Niles Eldredge, fram þá hugmynd, og birtu á prenti næsta ár, að úrtak steingervingasögunnar gefi rétta mynd af þróuninni. Samkvæmt kenningu þeirra, sem kennd er við punctuated equilibrium, og leggja mætti út slitrótt jafnvægi, þróast ný tegund á skömmum tíma við sérstakar aðstæður. Tegundirnar tvær geta svo báðar þrifist lengi, kannski ekki á sömu stöðum, eða önnur útrýmir hinni. Kenningin er umdeild, en margt bendir til þess að hún eigi stundum við en önnur tilvik verði betur skýrð sem samfelld þróun.
Heimildir:
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um kenningar Georges Cuvier og stöðu þeirra innan nútímavísinda?“ Vísindavefurinn, 20. október 2011, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60934.
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2011, 20. október). Hvað getið þið sagt mér um kenningar Georges Cuvier og stöðu þeirra innan nútímavísinda? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60934
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hvað getið þið sagt mér um kenningar Georges Cuvier og stöðu þeirra innan nútímavísinda?“ Vísindavefurinn. 20. okt. 2011. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60934>.