Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi góð eða slæm fyrir landið?

Edward H. Huijbens

Til að svara spurningunni er fyrst rétt að átta sig á hvað liggur að baki þegar rætt er um vöxt í ferðaþjónustu. Því sem oftast er haldið á lofti í umræðunni er fjöldi erlendra gesta. Þær tölur sem heyrast reglulega í fjölmiðlum byggja á talningu meðal brottfararfarþega í Leifsstöð, en þegar fólk sýnir vegabréfið við öryggishliðið velur vörðurinn viðeigandi fána á snertiskjá og í hverjum mánuði er samtalan uppfærð á vef Ferðamálastofu. Ferðamálastofa er stjórnsýslustofnun ferðamála á Íslandi og heyrir undir ráðuneyti ferðamála, sem þegar þetta er ritað heitir Iðnaðarráðuneytið.

Samtala erlendra gesta nær þannig aðeins yfir erlenda gesti sem fara frá landinu gegnum Leifsstöð. Eins og sjá má á myndinni að neðan hefur þeim fjölgað mjög sem fara frá landinu og hafa erlent vegabréf. Þar sem nánast öll umferð til og frá landinu fer um Leifsstöð, má segja að þessi tala gefi nokkuð rétta mynd af fjölda þeirra gesta sem sækja landið heim. Það sem vantar helst eru tölur um fjölda farþega með skemmtiferðaskipum og þá sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar. Þegar þetta er skrifað er ljóst að 540.000 gestir fóru frá landinu gegnum Leifsstöð 2011, en að auki komu um 70.000 gestir með skemmtiferðaskipum í stuttar heimsóknir, mest til Reykjavíkur, og um 15.000 gestir með Norrænu til Seyðisfjarðar.Það sem myndin sýnir glögglega er sá öri vöxtur sem hefur verið í gestakomum til landsins. Myndin sýnir tölur fyrir gestakomur á tímabilinu 1990-2011 gegnum talningu Ferðamálastofu (súlurnar) og hve margar nætur útlendingar gistu hér, sem Hagstofa Íslands telur (línan). Ef allt er talið (Leifsstöð, skemmtiferðaskip og Norræna) voru gestir 2011 um 625.000. Á sama tíma eru landsmenn um 320.000 og því ljóst að mikið af þeirri þjónustu sem í boði er á landinu er gerð fyrir samfélag um einnar milljón einstaklinga.

Til að svara spurningunni um hvort þessi vöxtur er góður eða slæmur fyrir Ísland er mikilvægt að átta sig á hvernig þessi fjöldi gesta á í samskiptum við land og þjóð. Áherslan í þeim efnum er þríþætt. Hægt er að skoða hin hagrænu áhrif, áhrif á menningu og samfélag og að síðustu samspil gesta okkar og umhverfisins.

Ef skoðuð eru efnahagsleg áhrif ferðamennsku, þá eru miklar væntingar bundnar við þann gjaldeyri sem ferðafólk færir okkur. Þegar gestir kaupa sér þjónustu hér á landi (ferðaþjónustu) skilja þeir eftir peninga sem eiga uppruna sinn í þeirra heimalandi og má því líta á sem útflutningstekjur. Rétt eins og þegar einhver kaupir íslenskan fisk erlendis, nema í ferðaþjónustu kemur kaupandinn hingað með aurinn. Að þessu leyti er vaxandi ferðaþjónusta góð fyrir Ísland. Til þess að svo sé þarf þó að tryggja að sá peningur sem gestir skilja eftir verði eftir hér á landi. Það er að allt það sem gestir kaupa hérlendis sé ekki flutt inn heldur sem mest gert hér á landi. Við búum vel að þessu leyti því það sem gestir okkar sækja í er náttúra landsins og vart verður hún flutt inn, né heldur þjónustan sem veitt er til að fólk geti upplifað hana.

Ef horft er á náttúru og umhverfi landsins, þá er ljóst að langflestir gesta okkar koma hingað til að upplifa einstaka náttúru Íslands. Staðir þar sem jöklar og eldfjöll móta landið og tré byrgja ekki sýn eru nokkuð einstakir í nágrannalöndum okkar, en þaðan kemur langstærsti hluti okkar gesta. Þessi náttúra er hins vegar viðkvæm. Gróður og jarðvegur þola illa ágang og spor gesta okkar geta varað lengi í viðkvæmum sverðinum.

Margir staðir á Íslandi láta nú verulega á sjá vegna ágangs gesta, svo sem Geysir, Goðafoss, Seljalandsfoss og fleiri. Að þessu leyti er vaxandi ferðaþjónusta slæm fyrir landið. Hitt er að hægt er að bregðast við með alls kyns uppbyggingu, svo sem gerð stíga, útsýnispalla, merkingum, girðingum og öðru. Þannig væri hægt að stýra ágangi og vernda svæði, en um leið er búið að breyta ásýnd þeirra varanlega. Þeir gestir sem vildu kannski upplifa ósnortin víðerni fá þá upplifun ekki lengur á stað þar sem búið er að byggja á og sækja því annað. Hins vegar getur staðurinn nú tekið við fleiri gestum án þess að náttúra skemmist. Hvort þetta er gott eða slæmt er erfitt að segja.

Geysir er meðal vinsælustu ferðamannastaða á Íslandi.

Að lokum er það svo samspil ferðamennsku, menningar og samfélags. Hvert er samband hugmynda gesta um Ísland samanborið við þær hugmyndir sem við gerum okkur? Hvað er gert við menningu okkar og sögu þegar þau eru markaðssett og vöruvædd og hvaða afleiðingar hefur það? Hér eru tvær hliðar líkt og svo oft áður. Það er gott fyrir landið að efla þekkingu á sögu og menningu okkar með því að segja öðrum frá. Stolt okkar og sjálfsmynd eflist og kynni af því hvernig aðrir hópar taka við slíku efla samskipti ólíkra þjóða.

Flestir gestir árið 2011 komu frá Norðurlöndunum (Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi), en þar á eftir fylgja Bandaríkjamenn og Bretar. Frændur okkar á Norðurlöndum eru okkar langstærsti gestahópur og nokkur líkindi með okkur og þeim. Því er ekki mikið um árekstra ólíkra menningarheima í íslenskri ferðaþjónustu og það er líka gott. Hins vegar er hætta á slíkum árekstrum, til góðs eða ills, ef mikill munur er á hugmyndum gesta og okkar um það sem við viljum bjóða. Eitt er það sem nú má sjá í íslenskri ferðaþjónustu en það eru væntingar okkar um gróða af gestum. Ef þær hafa áhrif á samskipti okkar við þá, þannig til dæmis að við lítum aðeins á gesti okkar sem féþúfur, þá gæti vaxandi ferðaþjónusta verið slæm, þar sem hún gæti grafið undan siðlegum viðskiptaháttum og kurteisi. Einnig geta deilur skapast innan samfélaga milli þeirra sem sjá hag sinn af gestum og vilja allt til leggja og hinna sem ekkert hafa upp úr krafsinu nema ágang og álag.

Líkt og með margt í heimi hér þá ræður afstaða hvers og eins nokkru um hvort vaxandi ferðaþjónusta er góð eða slæm fyrir Ísland. Það er þó alltaf mikilvægt að byggja afstöðu sína á góðum skilningi á viðfangsefninu.

Myndir:

Höfundur

Edward H. Huijbens

prófessor við Háskólann á Akureyri

Útgáfudagur

22.6.2012

Spyrjandi

Hólmfríður Katrín Kjartansdóttir, f. 1995

Tilvísun

Edward H. Huijbens. „Er vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi góð eða slæm fyrir landið?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2012, sótt 18. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62591.

Edward H. Huijbens. (2012, 22. júní). Er vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi góð eða slæm fyrir landið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62591

Edward H. Huijbens. „Er vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi góð eða slæm fyrir landið?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2012. Vefsíða. 18. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62591>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi góð eða slæm fyrir landið?
Til að svara spurningunni er fyrst rétt að átta sig á hvað liggur að baki þegar rætt er um vöxt í ferðaþjónustu. Því sem oftast er haldið á lofti í umræðunni er fjöldi erlendra gesta. Þær tölur sem heyrast reglulega í fjölmiðlum byggja á talningu meðal brottfararfarþega í Leifsstöð, en þegar fólk sýnir vegabréfið við öryggishliðið velur vörðurinn viðeigandi fána á snertiskjá og í hverjum mánuði er samtalan uppfærð á vef Ferðamálastofu. Ferðamálastofa er stjórnsýslustofnun ferðamála á Íslandi og heyrir undir ráðuneyti ferðamála, sem þegar þetta er ritað heitir Iðnaðarráðuneytið.

Samtala erlendra gesta nær þannig aðeins yfir erlenda gesti sem fara frá landinu gegnum Leifsstöð. Eins og sjá má á myndinni að neðan hefur þeim fjölgað mjög sem fara frá landinu og hafa erlent vegabréf. Þar sem nánast öll umferð til og frá landinu fer um Leifsstöð, má segja að þessi tala gefi nokkuð rétta mynd af fjölda þeirra gesta sem sækja landið heim. Það sem vantar helst eru tölur um fjölda farþega með skemmtiferðaskipum og þá sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar. Þegar þetta er skrifað er ljóst að 540.000 gestir fóru frá landinu gegnum Leifsstöð 2011, en að auki komu um 70.000 gestir með skemmtiferðaskipum í stuttar heimsóknir, mest til Reykjavíkur, og um 15.000 gestir með Norrænu til Seyðisfjarðar.Það sem myndin sýnir glögglega er sá öri vöxtur sem hefur verið í gestakomum til landsins. Myndin sýnir tölur fyrir gestakomur á tímabilinu 1990-2011 gegnum talningu Ferðamálastofu (súlurnar) og hve margar nætur útlendingar gistu hér, sem Hagstofa Íslands telur (línan). Ef allt er talið (Leifsstöð, skemmtiferðaskip og Norræna) voru gestir 2011 um 625.000. Á sama tíma eru landsmenn um 320.000 og því ljóst að mikið af þeirri þjónustu sem í boði er á landinu er gerð fyrir samfélag um einnar milljón einstaklinga.

Til að svara spurningunni um hvort þessi vöxtur er góður eða slæmur fyrir Ísland er mikilvægt að átta sig á hvernig þessi fjöldi gesta á í samskiptum við land og þjóð. Áherslan í þeim efnum er þríþætt. Hægt er að skoða hin hagrænu áhrif, áhrif á menningu og samfélag og að síðustu samspil gesta okkar og umhverfisins.

Ef skoðuð eru efnahagsleg áhrif ferðamennsku, þá eru miklar væntingar bundnar við þann gjaldeyri sem ferðafólk færir okkur. Þegar gestir kaupa sér þjónustu hér á landi (ferðaþjónustu) skilja þeir eftir peninga sem eiga uppruna sinn í þeirra heimalandi og má því líta á sem útflutningstekjur. Rétt eins og þegar einhver kaupir íslenskan fisk erlendis, nema í ferðaþjónustu kemur kaupandinn hingað með aurinn. Að þessu leyti er vaxandi ferðaþjónusta góð fyrir Ísland. Til þess að svo sé þarf þó að tryggja að sá peningur sem gestir skilja eftir verði eftir hér á landi. Það er að allt það sem gestir kaupa hérlendis sé ekki flutt inn heldur sem mest gert hér á landi. Við búum vel að þessu leyti því það sem gestir okkar sækja í er náttúra landsins og vart verður hún flutt inn, né heldur þjónustan sem veitt er til að fólk geti upplifað hana.

Ef horft er á náttúru og umhverfi landsins, þá er ljóst að langflestir gesta okkar koma hingað til að upplifa einstaka náttúru Íslands. Staðir þar sem jöklar og eldfjöll móta landið og tré byrgja ekki sýn eru nokkuð einstakir í nágrannalöndum okkar, en þaðan kemur langstærsti hluti okkar gesta. Þessi náttúra er hins vegar viðkvæm. Gróður og jarðvegur þola illa ágang og spor gesta okkar geta varað lengi í viðkvæmum sverðinum.

Margir staðir á Íslandi láta nú verulega á sjá vegna ágangs gesta, svo sem Geysir, Goðafoss, Seljalandsfoss og fleiri. Að þessu leyti er vaxandi ferðaþjónusta slæm fyrir landið. Hitt er að hægt er að bregðast við með alls kyns uppbyggingu, svo sem gerð stíga, útsýnispalla, merkingum, girðingum og öðru. Þannig væri hægt að stýra ágangi og vernda svæði, en um leið er búið að breyta ásýnd þeirra varanlega. Þeir gestir sem vildu kannski upplifa ósnortin víðerni fá þá upplifun ekki lengur á stað þar sem búið er að byggja á og sækja því annað. Hins vegar getur staðurinn nú tekið við fleiri gestum án þess að náttúra skemmist. Hvort þetta er gott eða slæmt er erfitt að segja.

Geysir er meðal vinsælustu ferðamannastaða á Íslandi.

Að lokum er það svo samspil ferðamennsku, menningar og samfélags. Hvert er samband hugmynda gesta um Ísland samanborið við þær hugmyndir sem við gerum okkur? Hvað er gert við menningu okkar og sögu þegar þau eru markaðssett og vöruvædd og hvaða afleiðingar hefur það? Hér eru tvær hliðar líkt og svo oft áður. Það er gott fyrir landið að efla þekkingu á sögu og menningu okkar með því að segja öðrum frá. Stolt okkar og sjálfsmynd eflist og kynni af því hvernig aðrir hópar taka við slíku efla samskipti ólíkra þjóða.

Flestir gestir árið 2011 komu frá Norðurlöndunum (Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi), en þar á eftir fylgja Bandaríkjamenn og Bretar. Frændur okkar á Norðurlöndum eru okkar langstærsti gestahópur og nokkur líkindi með okkur og þeim. Því er ekki mikið um árekstra ólíkra menningarheima í íslenskri ferðaþjónustu og það er líka gott. Hins vegar er hætta á slíkum árekstrum, til góðs eða ills, ef mikill munur er á hugmyndum gesta og okkar um það sem við viljum bjóða. Eitt er það sem nú má sjá í íslenskri ferðaþjónustu en það eru væntingar okkar um gróða af gestum. Ef þær hafa áhrif á samskipti okkar við þá, þannig til dæmis að við lítum aðeins á gesti okkar sem féþúfur, þá gæti vaxandi ferðaþjónusta verið slæm, þar sem hún gæti grafið undan siðlegum viðskiptaháttum og kurteisi. Einnig geta deilur skapast innan samfélaga milli þeirra sem sjá hag sinn af gestum og vilja allt til leggja og hinna sem ekkert hafa upp úr krafsinu nema ágang og álag.

Líkt og með margt í heimi hér þá ræður afstaða hvers og eins nokkru um hvort vaxandi ferðaþjónusta er góð eða slæm fyrir Ísland. Það er þó alltaf mikilvægt að byggja afstöðu sína á góðum skilningi á viðfangsefninu.

Myndir:...