Sólin Sólin Rís 08:30 • sest 18:51 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:02 • Sest 08:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:10 • Síðdegis: 22:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:09 • Síðdegis: 16:19 í Reykjavík

Hver var Maurice Wilkins?

Örnólfur Thorlacius (1931-2017)

Maurice Hugh Frederick Wilkins fæddist 16. desember 1916 í Pongaroa í Wairarapa á Nýja-Sjálandi. Foreldrarnir voru af írskum ættum en fjölskyldan fluttist til Englands þegar Maurice var sex ára. Hann nam eðlisfræði í Cambridge og víðar á Englandi, starfaði á árum síðari heimsstyrjaldar að þróun ratsjártækni í Birmingham og síðar að gerð kjarnorkusprengjunnar (Manhattan Project) í Berkeley í Kaliforníu.

Maurice Wilkins (1916-2004).

Að stríði loknu starfaði Wilkins fyrst við Háskólann í St. Andrews í Skotlandi, þar sem upp kom sú hugmynd að hann nýtti þekkingu sína á sviði tilrauna í eðlisfræði til rannsókna á stórsameindum í líffræði. Ekki reyndist aðstaða til þess í St. Andrews, en árið 1946 var við King´s College í Lundúnaháskóla stofnuð deild til þessara rannsókna (Biophysics), sem var þá nýlunda, og Wilkins ráðinn yfirmaður hennar, og raunar allrar eðlisfræðideildar King´s College. Húsakostur eðlisfræði- og verkfræðistofnana háskólans var í rústum eftir loftárásir, og samhliða endurreisn bygginganna var ráðist í stórhuga nýskipun á öllum rannsóknum sem þar var unnið að.

Maurice Wilkins er hvað þekktastur fyrir rannsóknir á innri gerð stórsameinda með röntgenkristalgreiningu, fyrst á prótínum, síðan á DNA. Hann einangraði hreinni sýni af DNA en öðrum hafði tekist og gat að sama skapi betur túlkað gerð sameinda þessa flókna efnis. Einkum eftir að samstarf hófst við Cavendish-stofnunina í Cambridge-háskóla með honum og James D. Watson (1928-), bandarískum dýrafræðingi, og Francis Crick (1916-2004), enskum eðlisfræðingi, en þeir helguðu sig leitinni að gerð og verkun DNA.

Rosalind Franklin (1920-1958).

Í Cambridge var nokkur spenna á milli þremenninganna og Rosalind Franklin (1920-1958). Hún var mjög reyndur röntgenkristalafræðingur og var fengin að Cavendish-stofnuninni um miðja öldina til að vinna með Wilkins að röntgenkristalgreiningu á DNA. Nú virðist ljóst að hlutur hennar í lausn DNA-gátunnar hefur verið vanmetinn. Meira má lesa um rannsóknir Maurice Wilkins og samstarf þremenninganna við Rosalind Franklin í svari sama höfundar við spurningunni: Hvert var framlag Maurice Wilkins til vísindanna?

Árið 1962 voru Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði og læknisfræði veitt Crick, Watson og Wilkins „fyrir uppgötvanir þeirra um sameindagerð kjarnsýrna og mikilvægi þeirra við flutning upplýsinga innan lifandi efnis.“ Rosalind Franklin var þá látin. Þar sem Nóbelsverðlaun eru aðeins veitt mönnum þessa heims verður aldrei úr því skorið hvort hún hefði annars deilt sæmdinni og verðlaunafénu með fjandvinum sínum.

Maurice Wilkins var að vonum ýmis sómi sýndur. Meðal annars var hann kjörinn félagi í Konunglega breska vísindafélaginu (Royal Society) árið 1959, og heiðursdoktor við nokkra háskóla. Árið 1960 tók hann ásamt þeim Watson og Crick við Albert Lasker-verðlaununum, mikilsvirtri bandarískri viðurkenningu fyrir störf að heilbrigðis- og mannúðarstörfum, stundum nefnd „amerísku Nóbelsverðlaunin“, enda hafa margir Lasker-verðlaunahafar síðar hlotið Nóbelsverðlaun. Það átti líka fyrir þeim félögunum að liggja, eins og fram er komið. Á Nóbelsverðlaunaárinu, 1962, var Maurice Wilkins sæmdur titlinum Commander of the British Empire. Í fæðingarbæ Wilkins, Pongaroa á Nýja-Sjálandi, var reistur minnisvarði honum til heiðurs en hann má sjá hér að neðan.

Minnisvarði um Maurice Wilkins í fæðingarbæ hans á Nýja-Sjálandi en minnisvarðinn vísar í hinn tvöfalda spíral sem einkennir DNA.

Maurice Wilkins var tvíkvæntur. Fyrri kona hans, sem hann kynntist í Berkeley á stríðsárunum, ól honum einn son, en hjónabandið entist stutt. Wilkins kvæntist í annað sinn árið 1959, og hjónin eignuðust tvo syni og tvær dætur.

Sem fyrr segir vann Wilkins að gerð kjarnorkusprengjunnar í Bandaríkjunum í síðari heimsstyrjöld. Hann gagnrýndi mjög kjarnorkuárásir á almenna borgara í Japan og var eftir stríðið virkur í samtökum friðarsinna sem störfuðu beggja vegna járntjaldsins. Nýlega var létt leynd af breskum skjölum, þar sem fram kemur að hann hafi verið grunaður um að koma trúnaðargögnum um kjarnorkuleyndarmál í hendur óvinveittra aðila í kalda stríðinu, og öryggislögregla hafi fylgst með honum þar til árið 1963.

Maurice Wilkins andaðist í Lundúnum 5. október 2004 á 88. aldursári.

Heimildir:
  • Biographical Memoirs of Fellows of The Royal Society. Maurice Hugh Frederick Wilkins. Royal Society Publishing 2005. (Á Netinu.)
  • Watson, James D. The Double Helix. A Personal Account of the Discovery of the Structure of DNA. Introduced by Steve Jones. The Folio Society Ltd. London 2010. (Endurprentun á útgáfu Weidenfeld & Nicolson frá 1997.)
  • Maurice Wilkins - Wikipedia, the free encyclopedia og fleiri tengdar greinar á Wikipediu. (Skoðað 29.6.2012).

Myndir:

Höfundur

líffræðingur, fyrrv. rektor Menntaskólans við Hamrahlíð

Útgáfudagur

19.11.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Maurice Wilkins?“ Vísindavefurinn, 19. nóvember 2012. Sótt 2. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62863.

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2012, 19. nóvember). Hver var Maurice Wilkins? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62863

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Maurice Wilkins?“ Vísindavefurinn. 19. nóv. 2012. Vefsíða. 2. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62863>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Maurice Wilkins?
Maurice Hugh Frederick Wilkins fæddist 16. desember 1916 í Pongaroa í Wairarapa á Nýja-Sjálandi. Foreldrarnir voru af írskum ættum en fjölskyldan fluttist til Englands þegar Maurice var sex ára. Hann nam eðlisfræði í Cambridge og víðar á Englandi, starfaði á árum síðari heimsstyrjaldar að þróun ratsjártækni í Birmingham og síðar að gerð kjarnorkusprengjunnar (Manhattan Project) í Berkeley í Kaliforníu.

Maurice Wilkins (1916-2004).

Að stríði loknu starfaði Wilkins fyrst við Háskólann í St. Andrews í Skotlandi, þar sem upp kom sú hugmynd að hann nýtti þekkingu sína á sviði tilrauna í eðlisfræði til rannsókna á stórsameindum í líffræði. Ekki reyndist aðstaða til þess í St. Andrews, en árið 1946 var við King´s College í Lundúnaháskóla stofnuð deild til þessara rannsókna (Biophysics), sem var þá nýlunda, og Wilkins ráðinn yfirmaður hennar, og raunar allrar eðlisfræðideildar King´s College. Húsakostur eðlisfræði- og verkfræðistofnana háskólans var í rústum eftir loftárásir, og samhliða endurreisn bygginganna var ráðist í stórhuga nýskipun á öllum rannsóknum sem þar var unnið að.

Maurice Wilkins er hvað þekktastur fyrir rannsóknir á innri gerð stórsameinda með röntgenkristalgreiningu, fyrst á prótínum, síðan á DNA. Hann einangraði hreinni sýni af DNA en öðrum hafði tekist og gat að sama skapi betur túlkað gerð sameinda þessa flókna efnis. Einkum eftir að samstarf hófst við Cavendish-stofnunina í Cambridge-háskóla með honum og James D. Watson (1928-), bandarískum dýrafræðingi, og Francis Crick (1916-2004), enskum eðlisfræðingi, en þeir helguðu sig leitinni að gerð og verkun DNA.

Rosalind Franklin (1920-1958).

Í Cambridge var nokkur spenna á milli þremenninganna og Rosalind Franklin (1920-1958). Hún var mjög reyndur röntgenkristalafræðingur og var fengin að Cavendish-stofnuninni um miðja öldina til að vinna með Wilkins að röntgenkristalgreiningu á DNA. Nú virðist ljóst að hlutur hennar í lausn DNA-gátunnar hefur verið vanmetinn. Meira má lesa um rannsóknir Maurice Wilkins og samstarf þremenninganna við Rosalind Franklin í svari sama höfundar við spurningunni: Hvert var framlag Maurice Wilkins til vísindanna?

Árið 1962 voru Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði og læknisfræði veitt Crick, Watson og Wilkins „fyrir uppgötvanir þeirra um sameindagerð kjarnsýrna og mikilvægi þeirra við flutning upplýsinga innan lifandi efnis.“ Rosalind Franklin var þá látin. Þar sem Nóbelsverðlaun eru aðeins veitt mönnum þessa heims verður aldrei úr því skorið hvort hún hefði annars deilt sæmdinni og verðlaunafénu með fjandvinum sínum.

Maurice Wilkins var að vonum ýmis sómi sýndur. Meðal annars var hann kjörinn félagi í Konunglega breska vísindafélaginu (Royal Society) árið 1959, og heiðursdoktor við nokkra háskóla. Árið 1960 tók hann ásamt þeim Watson og Crick við Albert Lasker-verðlaununum, mikilsvirtri bandarískri viðurkenningu fyrir störf að heilbrigðis- og mannúðarstörfum, stundum nefnd „amerísku Nóbelsverðlaunin“, enda hafa margir Lasker-verðlaunahafar síðar hlotið Nóbelsverðlaun. Það átti líka fyrir þeim félögunum að liggja, eins og fram er komið. Á Nóbelsverðlaunaárinu, 1962, var Maurice Wilkins sæmdur titlinum Commander of the British Empire. Í fæðingarbæ Wilkins, Pongaroa á Nýja-Sjálandi, var reistur minnisvarði honum til heiðurs en hann má sjá hér að neðan.

Minnisvarði um Maurice Wilkins í fæðingarbæ hans á Nýja-Sjálandi en minnisvarðinn vísar í hinn tvöfalda spíral sem einkennir DNA.

Maurice Wilkins var tvíkvæntur. Fyrri kona hans, sem hann kynntist í Berkeley á stríðsárunum, ól honum einn son, en hjónabandið entist stutt. Wilkins kvæntist í annað sinn árið 1959, og hjónin eignuðust tvo syni og tvær dætur.

Sem fyrr segir vann Wilkins að gerð kjarnorkusprengjunnar í Bandaríkjunum í síðari heimsstyrjöld. Hann gagnrýndi mjög kjarnorkuárásir á almenna borgara í Japan og var eftir stríðið virkur í samtökum friðarsinna sem störfuðu beggja vegna járntjaldsins. Nýlega var létt leynd af breskum skjölum, þar sem fram kemur að hann hafi verið grunaður um að koma trúnaðargögnum um kjarnorkuleyndarmál í hendur óvinveittra aðila í kalda stríðinu, og öryggislögregla hafi fylgst með honum þar til árið 1963.

Maurice Wilkins andaðist í Lundúnum 5. október 2004 á 88. aldursári.

Heimildir:
  • Biographical Memoirs of Fellows of The Royal Society. Maurice Hugh Frederick Wilkins. Royal Society Publishing 2005. (Á Netinu.)
  • Watson, James D. The Double Helix. A Personal Account of the Discovery of the Structure of DNA. Introduced by Steve Jones. The Folio Society Ltd. London 2010. (Endurprentun á útgáfu Weidenfeld & Nicolson frá 1997.)
  • Maurice Wilkins - Wikipedia, the free encyclopedia og fleiri tengdar greinar á Wikipediu. (Skoðað 29.6.2012).

Myndir:...