Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Saga bænda á Íslandi hefst þegar við landnám. Raunar hefst hún talsvert fyrr, því aðferðir og tækni sem bændur notuðu þegar frá upphafi komu frá Norðvestur-Evrópu og höfðu þróast þar síðan landbúnaður hófst á því svæði um 5000-4000 f.Kr., fyrir um sex til sjö þúsund árum.
Líklegast er að kjarninn í landbúnaðartækni þeirri sem notuð var á Íslandi hafi komið frá Vestur-Noregi. Þetta er þó ekki nægilega vel kannað. Almennt má þó segja að fornleifarannsóknir í Noregi og á Íslandi sýni að landbúnaðarkerfi í þessum tveimur löndum voru afar lík á öllu tímabilinu 870-1400, og landbúnaðarkerfið sem við lýði var í Noregi á 9. öld þegar landnámsmenn ólust upp hafði mótast um 200-300 e.Kr. Meðal einkenna þess var að akuryrkja og túnrækt var stunduð á einum eða fáum ökrum heim við bæinn. Árlega var sáð í akurinn, í stað þess að hafa marga akra í notkun og sá í þá á 5-10 ára fresti. Umhverfis afgirtan akurinn var svo mun stærra svæði engja og úthaga.
Um 200-300 e.Kr. var farið að stunda seljabúskap í Noregi og sá siður fluttist með landnámsmönnum til Íslands. Kýr og kindur voru reknar í sel á sumrin, og voru selin oftast fjarri heimabænum, í fjalllendi eða á heiðum á landi jarðarinnar. Kýr voru meginbústofninn. Oftast komu um 60-80% af húsdýraafurðum búsins af kúm, mest mjólkurafurðir. Auk þess var stunduð kornrækt, söfnun ætra jurta, söfnun eggja og veiðimennska af ýmsu tagi.
Hörður Óskarsson var í sveit að Völlum í Ölfusi sumurin 1932-1934. Þar hafði hann þann starfa að fara með morgun- og kvöldmjólkina í mjólkurbúið í Hveragerði. Til flutninganna notaði hann hesta.
Í Noregi voru stórhöfðingjar á 9. öld, sem áttu oft miklar landareignir. Á Íslandi virðist svipuð stéttaskipting komin á fót um 1100, en ekki er alveg ljóst hvernig staðan í þeim málum var fram að því. Um 1100 höfðu myndast valdaættir goða sem réðu mestu í efnahagsmálum og stjórnmálum. Þessar ættir áttu höfuðból og jarðeignir. Alveg fram á 19. öld voru flestir bændur leiguliðar og greiddu bæði landskuld (landskuld er leigugreiðsla fyrir að fá að búa á jörð) og kúgildaleigur af leigubúfé til höfðingja. Því voru tvenns konar bændur á Íslandi á tímabilinu frá landnámi (eða 1100 a.m.k.) og fram á síðari hluta 19. aldar, höfðingjar og leiguliðar. Munurinn á kjörum þessara tveggja hópa var mjög mikill.
Um 1400-1500 urðu miklar breytingar á íslenska landbúnaðarkerfinu. Þær tengdust tveimur farsóttum, svartadauða árið 1402-1404 og plágunni síðari árið 1494. Mannfall í þessum plágum var svo mikið, mun meira en í öðrum þekktum farsóttum hérlendis, að það olli varanlegum breytingum á landbúnaðarkerfinu. Mannfækkun og hin mikla eftirspurn eftir vinnuafli sem hún olli, leiddi til að landeigendur urðu að lækka landskuld úr 10% af verðmæti jarðar sem árlegri greiðslu í 5%. Þessi lækkun varð varanleg.
Jafnframt varð sauðfé mun mikilvægara en áður, því minna vinnuafl þurfti til að sinna því en kúabúskap. Kúm fækkaði að sama skapi hlutfallslega. Í heild minnkaði landnýting gríðarlega vegna fólksfækkunar, og víða var hætt að nýta beit á afréttum. Kornrækt, sem líka var vinnuaflsfrek, lagðist víðast hvar af, járnvinnsla og saltvinnsla einnig. Innflutningur á korni jókst. Korn var raunar mest nýtt til ölgerðar að því er virðist.
Við þetta sótti birkiskógurinn í sig veðrið, en honum hafði að miklu leyti verið eytt á landnámsöld. Á tímabilinu 1400-1600 sótti gróður almennt í sig veðrið um allt land. Kólnun veðurfars frá 13. öld hélt hins vegar áfram á 15. og 16. öld og varð mest á 18. öld. Jöklar skriðu fram og sums staðar suðaustanlands eyddust bæir vegna þessa. Kólnunin varð þó aldrei næg til að valda fólksflótta úr norðlægum sveitum, en hallæri og hafísar gátu valdið miklum skaða í einstökum kuldaköstum eins og 1685-1702.
Mjólkurbrúsar á hestvagni. Úr safni Jóns Eiríkssonar í Vorsabæ á Skeiðum.
Á 17. öld hafði íbúafjöldi náð sér nokkuð eftir plágur 15. aldar og býlum og íbúum fjölgaði verulega. Um 1680 voru íbúar sennilega nálægt 60.000. Þeim fækkaði í hallærinu 1685-1702 og voru um 50.000 þegar manntal var tekið árið 1703. Íbúum fækkaði enn í Stórubólu 1707-1709 og jafnframt lækkaði landskuld. Flestir bændur vildu komust á góðar jarðir og sjávarútvegur, sem hafði vaxið í fólksfjölgun 17. aldar, minnkaði að mikilvægi. Seljabúskapur lagðist mikið til af eftir 1709, en óx aftur nokkuð á síðari hluta 19. aldar.
Heimili stórhöfðingja voru oft mjög stór, höfuðból með allt að 100 íbúum eða meira. Almennir bændur bjuggu á heimilum þar sem bændahjón, börn þeirra og eitt eða tvö vinnuhjú áttu heima. Langstærstur hluti landsmanna bjó á slíkum fjölskyldubúum.
Um 1800 hafði landið náð sér af hörmungum Móðuharðinda, og jafnframt urðu miklar breytingar á samfélagsskipan. Verslun hafði á 18. öld og áður mikið til verið í höndum embættismanna og landeigenda, en nú tóku leiguliðar að versla með sauðfjár- og fiskafurðir. Þetta leiddi til þess að sauðfjárbúskapur fór mjög vaxandi, og kjör bænda bötnuðu hratt.
Um miðja 19. öld hóf bændasamfélagið mikla sókn í stjórnmálum og félagsmálum. Krafan um sjálfstæði Íslands var hafin á loft, og bændur bundust samtökum um verslun sína. Kaupfélög voru stofnuð, og þau voru mikilvægur liður í því að Ísland varð efnahagslega sjálfstætt. Þannig varð félagshreyfing og uppreisn leiguliða meginþáttur í sjálfstæðisbaráttu landsins. Ein krafa þeirra var að eignast jarðir sínar, en landeigendur, sem allir eða nær allir voru innlendir, streittust lengi gegn því. Þannig var barátta leiguliða bæði barátta við danska kaupmenn og innlenda yfirstétt jarðeigenda.
Þeirri baráttu lauk loks með fullum sigri bænda um 1900-1918 á báðum sviðum. Landeigendur seldu leiguliðum jarðirnar, og kaupfélögin tóku yfir verslun um allt land af dönskum fyrirtækjum. Um svipað leyti fór markaður fyrir sauðfjárafurðir erlendis að lokast, og eftir 1930 lokaðist hann enn meir vegna kreppunnar. Bændur voru þá farnir að selja mjólk og mjólkurafurðir til vaxandi þéttbýlis hér á landi. Kúabúskapur tók að dafna á ný.
Eftir 1945 jukust fjárfestingar í landbúnaði mjög mikið, farið var að þurrka upp mýrar til að stækka tún, vegir og brýr lagðir um allt land til að auðvelda samgöngur, rafmagn og sími kom einnig. Torfbæir voru rifnir og steinhús komu í staðinn. Bændasamfélagið upplifði skammvinna gullöld til 1980. Þá hófust erfiðleikatímar í landbúnaði, sem stóðu allt fram yfir árþúsundamótin 2000. Eftir það hefur hagur bænda vænkast nokkuð á ný.
Þetta svar er unnið upp úr riti höfundar: Landbúnaðarsaga Íslands 1.-2. bindi. Reykjavík, 2013.
Myndir:
Myndirnar eru fengnar úr ritinu Úr torfbæjum inn í tækniöld, Örn og Örlygur, Reykjavík, 2003.
Árni Daníel Júlíusson. „Hver er saga bænda á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 6. október 2014, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65052.
Árni Daníel Júlíusson. (2014, 6. október). Hver er saga bænda á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65052
Árni Daníel Júlíusson. „Hver er saga bænda á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2014. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65052>.