Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég er að velta fyrir mér virkni sótthita. Þegar maður veikist á maður að taka hitalækkandi til þess að hjálpa líkamanum að starfa eða er hitinn tæki líkamans til þess að herja á óværur?
Sótthiti er nokkuð sem flestir, ef ekki allir, upplifa einhvern tíma. Þessi fylgikvilli veikinda hefur fylgt manninum alla tíð og hefur læknisfræðin reynt að meðhöndla hann allt frá tímum Hippókratesar og jafnvel fyrr.
Talað er um sótthita þegar líkamshitinn hækkar frá hinu eðlilega kjörgildi (36,5-37,5°C). Sótthiti er ekki sjúkdómur heldur er hann tilkomin vegna eðlilegra viðbragða líkamans við bakteríu- eða veirusýkingu. Hitinn hamlar vexti baktería og eykur framleiðslu hvítra blóðkorna svo sem daufkyrninga og eitilfrumna. Hann hefur einnig hlutverk í bólguviðbrögðum líkamans. Það eru ekki aðeins bakteríur og veirur sem valda sótthita, hiti getur einnig hækkað vegna krabbameina, heilablæðinga og af fleiri orsökum.
Hitastigi líkamans er stýrt af undirstúkunni í heilanum, hún ákveður kjörgildið, sem er venjulega eðlilegur líkamshiti. Sýklar sem berast inn í líkamann mynda efni sem kallast sótthitavaldar (e. pyrogens) og það sama gera frumur í ónæmiskerfinu. Þessir sótthitavaldar hafa áhrif á framleiðslu prostaglandína ásamt öðrum hita- og bólguvaldandi þáttum. Prostaglandínin hafa síðan áhrif á undirstúkuna þannig að kjörhitagildi hennar hækkar. Við það þarf líkamshitinn að hækka svo hann samræmist þeim kjörhita sem undirstúkan er stillt á. Það næst með æðasamdrætti sem dregur úr hitatapi í gegnum húðina og beinir blóði frá útlimum. Ef þetta er ekki nóg reynir líkaminn að framleiða enn meiri hita með hreyfingu vöðva og þá förum við að skjálfa, þrátt fyrir það að vera með hita.
Sótthiti er hluti af vörnum líkamans gegn sýkingu. Það að lækka hitann með lyfjum getur mögulega haft áhrif á þetta varnarferli.
Hitalækkandi lyf eins íbúfen og parasetamól hafa áhrif á prostaglandínframleiðslu líkamans með því að hindra virkni COX 1 og COX 2 ensíma sem taka þátt í prostaglandinframleiðslunni, ásamt því að hafa víðtækari áhrif sem of langt mál er til að fara út í hér. Þrátt fyrir stöðugt aukna vitneskju um áhrif hitalækkandi lyfja á líkamann er ennþá ekki vitað hvort það að lækka líkamshitann geri gagn en rannsóknir virðast benda æ meira til þess að svo sé ekki.
Eins og áður er nefnt þá er sótthiti hluti af vörnum líkamans gegn sýkingu. Það að lækka hitann með lyfjum getur því mögulega haft áhrif á þetta varnarferli. Einnig gerir það allar greiningar á ástandi og líðan erfiðari því dregið er úr hitanum og því síður hægt að vita hvort lyfjameðferð með sýklalyfjum gagnist eða ekki. Þá geta of stórir skammtar af hitalækkandi lyfjum valdið eitrunum og öðrum kvillum. Hættan á því er þó afar lítil ef leiðbeiningum um skammtastærðir er fylgt og skammtar ákveðnir út frá þyngd en ekki aldri.
Kostir hitalækkandi meðferðar felast aðallega í betri líðan þess veika og í sumum tilfellum minni verkjum. Vökvaþörf líkamans eykst við sótthita vegna aukinna efnaskipta en viljinn til að drekka eykst ekki endilega samhliða. Með betri líðan eru auknar líkur á að sá veiki fáist til að drekka vökva. Þetta á sérstaklega við um börn sem geta orðið mjög slöpp vegna hitans og vökvatapsins. Einnig gæti hitalækkun komið hjartveikum til góða með því að minnka álag á hjartað, en ekki hafa verið gerðar næginlegar rannsóknir á því.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að hitalækkandi lyf hafa ekki áhrif á hitaflog sem börn geta fengið þegar þau fáan hita.
Heimildir og mynd:
Steering Committee on Quality Improvement and Management, Subcommittee on Febrile Seizures, (2008). Febrile Seizures: Clinical Practice Guideline for the Long-term Management of the Child With Simple Febrile Seizures. Pediatrics. Volume 121(6).
Bjartur Sæmundsson. „Er gagnlegt að taka hitalækkandi lyf við sótthita eða getur það haft áhrif á varnarkerfi líkamans?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2014, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66579.
Bjartur Sæmundsson. (2014, 12. maí). Er gagnlegt að taka hitalækkandi lyf við sótthita eða getur það haft áhrif á varnarkerfi líkamans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66579
Bjartur Sæmundsson. „Er gagnlegt að taka hitalækkandi lyf við sótthita eða getur það haft áhrif á varnarkerfi líkamans?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2014. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66579>.