Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu margir væru Íslendingar ef allar þessar hamfarir hefðu ekki gengið yfir okkur frá landnámi?

Guðmundur Jónsson og Helgi Skúli Kjartansson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hver væri mannfjöldi á Íslandi í dag ef ekki hefðu verið allar þessar hamfarir, fjöldaflutningur fólks til útlanda, smitsjúkdómar o.s.frv., frá landnámi?

I

Það er freistandi að velta vöngum yfir spurningunni um hver fólksfjöldaþróun á Íslandi hefði orðið ef engin stóráföll af völdum „hamfara“, fólksflutninga úr landi eða smitsjúkdóma hefðu komið til. Íslensk fólksfjöldasaga er nefnilega sérstaklega mörkuð stórum áföllum allt fram á 19. öld eða lengur en í flestum löndum Vestur-Evrópu. Þessi stóru áföll urðu til þess að halda aftur af fólksfjölgun í landinu. Heimildir eru um mannfelli af hungri eða farsóttum á flestum öldum Íslandsbyggðar. Fólki hefur þá fækkað í bili, stundum stórlega eins og í plágum 15. aldar (sem voru faraldrar af pest eða „svarta dauða“). En hve mikið, í tölum talið? Það er hægt að kortleggja af nokkurri nákvæmni frá 1735, þegar farið var að safna skýrslum um fjölda fæddra og dáinna, og í stórum dráttum allt frá fyrsta manntalinu 1703. Frá þeim tíma skulum við geta okkur til um hugsanlega mannfjöldaþróun á Íslandi ef engin meiriháttar mannfjöldaáföll hefðu orðið af völdum hamfara, smitsjúkdóma eða fólksflutninga úr landi.

Þau áföll sem tekin eru með í reikninginn eru þrenns konar:

  • „Hamfarir“ eru látnar ná yfir tímabundna hungursneyð, hvort sem hún stafar af eldgosum, hafísum eða veðurfari. Rétt er að minna á að náttúruhamfarir ollu aldrei neinum verulegum manndauða nema þeim fylgdi hungursneyð. Hér eru tekin með í reikninginn fólksfækkunartímabil af völdum hungursneyða þegar náttúruleg fækkun varð meiri en 1% eitthvert árið, en með náttúrulegri fjölgun er átt við fæðingar umfram dauðsföll. Þetta eru harðindaárin 1752–1758, 1779–1781, 1784–1786, 1802–1805 og 1812–1813.
  • Smitsjúkdómar eiga við óvenjulega skæða faraldra af farsóttum sem leiða til meira en 1% fólksfækkunar. Hér eru meðtalin Stóra bóla 1707–1709, kvefsótt 1843 og mislingafaraldrarnir 1846 og 1882. Einnig farsóttir sem geisuðu á harðindatímunum sem fyrr er getið og má þar helst telja landfarsótt og magasýki 1779–1781, bólusótt 1785–1787 og blóðsótt 1812–1813.
  • Fjöldaflutningar fólks ná aðeins yfir Ameríkuferðirnar sem líklegt er að hafi fækkað landsmönnum um fimmtung á árunum 1872–1913. Næstmestu fólksflutningar úr landi urðu á árunum 2009–2012, en þeir komast ekki í hálfkvisti við Ameríkuferðirnar hvort sem litið er á brottflutta umfram aðflutta (um 8.700 manns á móti 16.000 manns í Ameríkuferðunum) eða áhrif á mannfjölda.

Aðferðin er í stuttu máli sú að gert er ráð fyrir sömu fólksfjölgun í áfallaárum og var í venjulegu árferði nálægt áföllunum. Grunnár útreikningsins er 1703 en þá var fyrsta manntalið tekið á Íslandi eins og kunnugt er. Þá voru landsmenn 50.358. Síðan er mannfjöldi reiknaður áfram ár hvert með fjölgunarhlutfalli samkvæmt opinberum mannfjöldagögnum, en í áfallaárum eða þegar gögn skortir (1704–1734) er byggt á áætlun um meðaltalsfjölgun í venjulegu árferði. Þannig er gert ráð fyrir að fólksfjölgunarhlutfall áfallaára á 18. öldinni hafi verið 6,22‰, en það er meðaltal af fjölgunarhlutfalli áranna 1734–1751 og 1759–1783. Um áfallaár á 19. öld er hlutfallið áætlað 8,3‰, en það er meðalfjölgun áranna 1817–1843. Önnur ár er reiknað með sömu hlutfallslegu fólksfjölgun og var í raun. Á Vesturferðatímanum 1872–1913 er þó miðað við fólksfjölgun eins og hún hefði verið ef engir hefðu flust til landsins né frá því. Eftir 1913, síðustu hundrað árin, er notast við óbreyttar tölur um hlutfallslega fólksfjölgun. En óbreytt hlutfall þýðir að fleiri bætast við þegar fleiri eru fyrir. Þannig ætti landsmönnum til dæmis að hafa fjölgað um full 20 þúsund þensluárið 2005, enda hefði fjöldi þeirra þá verið að ná milljón.

Niðurstöðurnar eru sýndar í eftirfarandi myndriti og töflu:

Mannfjöldi á Íslandi án áfalla 1703-2014.

a. Fólksfjöldi. Rauntölur. b. Áætlaður fólksfjöldi. c. Hlutfall (b/a)
1703 50.358 50.358 1,0
1725 57.717 ...
1750 48.754 68.122 1,4
1775 49.577 82.015 1,7
1800 47.186 125.083 2,2
1825 50.663 125.083 2,5
1850 60.416 157.887 2,6
1875 71.129 192.420 2,7
1900 78.203 250.069 3,2
1925 100.117 334.827 3,3
1950 144.293 482.567 3,3
1975 219.262 732.635 3,3
2000 283.361 945.971 3,3
2013 325.671 1.087.439 3,3

Niðurstaða áætlunarinnar er sú að rétt fyrir aldamótin 1800 hafi mannfjöldi á Íslandi náð 100 þúsundum eða meira en tvöföldum þeim fjölda sem var í raun og veru í landinu. Öld síðar er fólksfjöldinn orðinn 250 þúsund eða þrefalt meiri en í raun og veru. Hlutfallið hækkar dálítið á næstu árum, kemst í 1:3,2 árið 1913 og helst síðan óbreytt allt til 2013. Þá er íbúafjöldi á Íslandi orðinn 1.087.439 samkvæmt áætluninni.

Þennan útreikning verður þó að skilja sem hugarleikfimi fremur en að einmitt svona hefði fólksfjöldaþróunin orðið ef landið aðeins hefði sloppið við verstu áföllin. Í honum felst nefnilega að það sé alveg sama hve þröngt landið er setið, fólki fjölgi nákvæmlega jafnhratt hvort sem það er fleira eða færra. Fólksfjöldinn sjálfur hafi sem sagt hvorki áhrif á barneignir fólks né langlífi. Sú forsenda virðist kannski engin fjarstæða í nútímasamfélagi en í sveitasamfélagi fyrri alda er hún býsna fjarri lagi. Þá voru bæði náttúruleg takmörk fyrir því hve mikils matar var hægt að afla í landinu og félagslegar skorður fyrir því hve margir fengu tækifæri til að stofna heimili. Að fæðuskortur setti fólksfjöldanum skorður, það gerðist einmitt í hallærunum sem hér er litið framhjá, en jafnvel í sæmilegu árferði er erfitt að sjá hvernig Ísland hefði framfleytt 100 þúsund íbúum fyrir 1800 og 200 þúsundum um 1880. Til þess hefði þurft eitthvert allt annað atvinnulíf og tækni en við þekkjum úr raunveruleikanum. Og til þess að slíkur fólksfjöldi héldi áfram að aukast eins og ekkert væri hefði þurft eitthvert allt annað samfélag þar sem þröngbýlið leiddi ekki til þess að æ fleiri biðu eftir tækifæri til að stofna heimili á einhverjum jarðarparti eða hjáleigu í sveit, eða þá í þurrabúð við sjóinn, allt eftir því sem landeigendum hentaði og yfirvöld létu við gangast. En á 18. og jafnvel 19. öld má sjá greinilegt samhengi í þá átt að þegar fólkinu fjölgar er hærra hlutfall þess ógift í vinnumennsku langt fram á barneignaaldur, jafnvel ævilangt.

Íslensk fjölskylda í byrjun 20. aldar. Myndin var tekin af dönskum landmælingamönnum.

II

Ef við lokum samt augunum fyrir þessu og teygjum áætlun okkar allt aftur til landnáms, þá eru engar tölur eða skýrslur á að byggja heldur verður að giska á forsendurnar. Prófum tvennar.

Í íslenskri sagnaritun er nokkur hefð fyrir því að bera saman fólksfjölgun á Íslandi og í Noregi. Norðmenn hafa verið full hálf milljón 1703, um það bil tíu sinnum fleiri en Íslendingar. Fjöldi Íslendinga á 12. eða 13. öld hafa menn giskað á – reyndar með mikilli óvissu – að hafi numið allt að fjórðungi af fjölda Norðmanna. Ef það hlutfall hefði haldist óbreytt ættu Íslendingar að hafa náð 125 þúsundum um 1700 – og þá 2,7 milljónum núna miðað við sömu fjölgun og reiknað var með áður.

Önnur leið er að reikna með svipaðri fólksfjölgun á fyrri öldum og í áætluninni hér á undan um fjölgun án áfalla á 18. og 19. öld. Ef við byrjum á að áætla 20 þúsund íbúa um 950 – sem er vissulega óvíst en innan þeirra marka sem fræðimenn hafa giskað á – og látum þann fjölda vaxa með sama stuðli og notaður er um fjölgun í venjulegu árferði á 18. öld (6,22‰), þá er mannfjöldinn orðinn röskar tvær milljónir árið 1703. Framlengjum svo reikninginn til nútímans eins og áður og hefur Ísland þá yfir 46 milljónir íbúa – álíka og Úkraína, meira en Kanada eða Pólland. Er þá komið alllangt út fyrir mörk hins mögulega. Ef fólki hefði fjölgað svo ört öld eftir öld, og búfénaði að sama skapi, þá hefði gróðureyðing líka verið hraðari og þá enn fjær lagi að um 1700 gæti heil milljón Íslendinga „lifað af landsins gæðum“.

Heimildir:

  • Árni Daníel Júlíusson, „Áhrif fólksfjöldaþróunar á atvinnuhætti í gamla samfélaginu“, Saga 28 (1990), 149–156.
  • Gísli Gunnarsson, A Study of Causal Relations in Climate and History. With an Emphasis on the Icelandic Experience (Lund, 1980).
  • Gísli Gunnarsson, Fertility and Nuptiality in Iceland‘s Demographic History (Lund, 1980).
  • Guðmundur Hálfdanarson, Fólksfjöldaþróun Íslands á 18. öld. Óútgefin ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands, 1982.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Hagstofa Íslands (Reykjavík, 1997).
  • Helgi Skúli Kjartansson, „Þenkt um þak. Um stýrikerfi fólksfjöldans á 18. öld“, Menntaspor. Rit til heiðurs Lofti Guttormssyni sjötugum 5. apríl 2008 (Reykjavík, 2008), 257–267.
  • Jón Steffensen, Menning og meinsemdir (Reykjavík, 1975).
  • Sagnir 18 (1997). Syrpa greina undir heitinu Svartidauði á Íslandi. Plágurnar 1402 og 1495.

Myndir:

Höfundar

Guðmundur Jónsson

prófessor í sagnfræði, Hugvísindasviði HÍ

Helgi Skúli Kjartansson

prófessor í sagnfræði, Menntavísindasviði HÍ

Útgáfudagur

2.9.2014

Spyrjandi

Guðbrandur Hjörtur Guðbrandsson

Tilvísun

Guðmundur Jónsson og Helgi Skúli Kjartansson. „Hversu margir væru Íslendingar ef allar þessar hamfarir hefðu ekki gengið yfir okkur frá landnámi?“ Vísindavefurinn, 2. september 2014, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67695.

Guðmundur Jónsson og Helgi Skúli Kjartansson. (2014, 2. september). Hversu margir væru Íslendingar ef allar þessar hamfarir hefðu ekki gengið yfir okkur frá landnámi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67695

Guðmundur Jónsson og Helgi Skúli Kjartansson. „Hversu margir væru Íslendingar ef allar þessar hamfarir hefðu ekki gengið yfir okkur frá landnámi?“ Vísindavefurinn. 2. sep. 2014. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67695>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu margir væru Íslendingar ef allar þessar hamfarir hefðu ekki gengið yfir okkur frá landnámi?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hver væri mannfjöldi á Íslandi í dag ef ekki hefðu verið allar þessar hamfarir, fjöldaflutningur fólks til útlanda, smitsjúkdómar o.s.frv., frá landnámi?

I

Það er freistandi að velta vöngum yfir spurningunni um hver fólksfjöldaþróun á Íslandi hefði orðið ef engin stóráföll af völdum „hamfara“, fólksflutninga úr landi eða smitsjúkdóma hefðu komið til. Íslensk fólksfjöldasaga er nefnilega sérstaklega mörkuð stórum áföllum allt fram á 19. öld eða lengur en í flestum löndum Vestur-Evrópu. Þessi stóru áföll urðu til þess að halda aftur af fólksfjölgun í landinu. Heimildir eru um mannfelli af hungri eða farsóttum á flestum öldum Íslandsbyggðar. Fólki hefur þá fækkað í bili, stundum stórlega eins og í plágum 15. aldar (sem voru faraldrar af pest eða „svarta dauða“). En hve mikið, í tölum talið? Það er hægt að kortleggja af nokkurri nákvæmni frá 1735, þegar farið var að safna skýrslum um fjölda fæddra og dáinna, og í stórum dráttum allt frá fyrsta manntalinu 1703. Frá þeim tíma skulum við geta okkur til um hugsanlega mannfjöldaþróun á Íslandi ef engin meiriháttar mannfjöldaáföll hefðu orðið af völdum hamfara, smitsjúkdóma eða fólksflutninga úr landi.

Þau áföll sem tekin eru með í reikninginn eru þrenns konar:

  • „Hamfarir“ eru látnar ná yfir tímabundna hungursneyð, hvort sem hún stafar af eldgosum, hafísum eða veðurfari. Rétt er að minna á að náttúruhamfarir ollu aldrei neinum verulegum manndauða nema þeim fylgdi hungursneyð. Hér eru tekin með í reikninginn fólksfækkunartímabil af völdum hungursneyða þegar náttúruleg fækkun varð meiri en 1% eitthvert árið, en með náttúrulegri fjölgun er átt við fæðingar umfram dauðsföll. Þetta eru harðindaárin 1752–1758, 1779–1781, 1784–1786, 1802–1805 og 1812–1813.
  • Smitsjúkdómar eiga við óvenjulega skæða faraldra af farsóttum sem leiða til meira en 1% fólksfækkunar. Hér eru meðtalin Stóra bóla 1707–1709, kvefsótt 1843 og mislingafaraldrarnir 1846 og 1882. Einnig farsóttir sem geisuðu á harðindatímunum sem fyrr er getið og má þar helst telja landfarsótt og magasýki 1779–1781, bólusótt 1785–1787 og blóðsótt 1812–1813.
  • Fjöldaflutningar fólks ná aðeins yfir Ameríkuferðirnar sem líklegt er að hafi fækkað landsmönnum um fimmtung á árunum 1872–1913. Næstmestu fólksflutningar úr landi urðu á árunum 2009–2012, en þeir komast ekki í hálfkvisti við Ameríkuferðirnar hvort sem litið er á brottflutta umfram aðflutta (um 8.700 manns á móti 16.000 manns í Ameríkuferðunum) eða áhrif á mannfjölda.

Aðferðin er í stuttu máli sú að gert er ráð fyrir sömu fólksfjölgun í áfallaárum og var í venjulegu árferði nálægt áföllunum. Grunnár útreikningsins er 1703 en þá var fyrsta manntalið tekið á Íslandi eins og kunnugt er. Þá voru landsmenn 50.358. Síðan er mannfjöldi reiknaður áfram ár hvert með fjölgunarhlutfalli samkvæmt opinberum mannfjöldagögnum, en í áfallaárum eða þegar gögn skortir (1704–1734) er byggt á áætlun um meðaltalsfjölgun í venjulegu árferði. Þannig er gert ráð fyrir að fólksfjölgunarhlutfall áfallaára á 18. öldinni hafi verið 6,22‰, en það er meðaltal af fjölgunarhlutfalli áranna 1734–1751 og 1759–1783. Um áfallaár á 19. öld er hlutfallið áætlað 8,3‰, en það er meðalfjölgun áranna 1817–1843. Önnur ár er reiknað með sömu hlutfallslegu fólksfjölgun og var í raun. Á Vesturferðatímanum 1872–1913 er þó miðað við fólksfjölgun eins og hún hefði verið ef engir hefðu flust til landsins né frá því. Eftir 1913, síðustu hundrað árin, er notast við óbreyttar tölur um hlutfallslega fólksfjölgun. En óbreytt hlutfall þýðir að fleiri bætast við þegar fleiri eru fyrir. Þannig ætti landsmönnum til dæmis að hafa fjölgað um full 20 þúsund þensluárið 2005, enda hefði fjöldi þeirra þá verið að ná milljón.

Niðurstöðurnar eru sýndar í eftirfarandi myndriti og töflu:

Mannfjöldi á Íslandi án áfalla 1703-2014.

a. Fólksfjöldi. Rauntölur. b. Áætlaður fólksfjöldi. c. Hlutfall (b/a)
1703 50.358 50.358 1,0
1725 57.717 ...
1750 48.754 68.122 1,4
1775 49.577 82.015 1,7
1800 47.186 125.083 2,2
1825 50.663 125.083 2,5
1850 60.416 157.887 2,6
1875 71.129 192.420 2,7
1900 78.203 250.069 3,2
1925 100.117 334.827 3,3
1950 144.293 482.567 3,3
1975 219.262 732.635 3,3
2000 283.361 945.971 3,3
2013 325.671 1.087.439 3,3

Niðurstaða áætlunarinnar er sú að rétt fyrir aldamótin 1800 hafi mannfjöldi á Íslandi náð 100 þúsundum eða meira en tvöföldum þeim fjölda sem var í raun og veru í landinu. Öld síðar er fólksfjöldinn orðinn 250 þúsund eða þrefalt meiri en í raun og veru. Hlutfallið hækkar dálítið á næstu árum, kemst í 1:3,2 árið 1913 og helst síðan óbreytt allt til 2013. Þá er íbúafjöldi á Íslandi orðinn 1.087.439 samkvæmt áætluninni.

Þennan útreikning verður þó að skilja sem hugarleikfimi fremur en að einmitt svona hefði fólksfjöldaþróunin orðið ef landið aðeins hefði sloppið við verstu áföllin. Í honum felst nefnilega að það sé alveg sama hve þröngt landið er setið, fólki fjölgi nákvæmlega jafnhratt hvort sem það er fleira eða færra. Fólksfjöldinn sjálfur hafi sem sagt hvorki áhrif á barneignir fólks né langlífi. Sú forsenda virðist kannski engin fjarstæða í nútímasamfélagi en í sveitasamfélagi fyrri alda er hún býsna fjarri lagi. Þá voru bæði náttúruleg takmörk fyrir því hve mikils matar var hægt að afla í landinu og félagslegar skorður fyrir því hve margir fengu tækifæri til að stofna heimili. Að fæðuskortur setti fólksfjöldanum skorður, það gerðist einmitt í hallærunum sem hér er litið framhjá, en jafnvel í sæmilegu árferði er erfitt að sjá hvernig Ísland hefði framfleytt 100 þúsund íbúum fyrir 1800 og 200 þúsundum um 1880. Til þess hefði þurft eitthvert allt annað atvinnulíf og tækni en við þekkjum úr raunveruleikanum. Og til þess að slíkur fólksfjöldi héldi áfram að aukast eins og ekkert væri hefði þurft eitthvert allt annað samfélag þar sem þröngbýlið leiddi ekki til þess að æ fleiri biðu eftir tækifæri til að stofna heimili á einhverjum jarðarparti eða hjáleigu í sveit, eða þá í þurrabúð við sjóinn, allt eftir því sem landeigendum hentaði og yfirvöld létu við gangast. En á 18. og jafnvel 19. öld má sjá greinilegt samhengi í þá átt að þegar fólkinu fjölgar er hærra hlutfall þess ógift í vinnumennsku langt fram á barneignaaldur, jafnvel ævilangt.

Íslensk fjölskylda í byrjun 20. aldar. Myndin var tekin af dönskum landmælingamönnum.

II

Ef við lokum samt augunum fyrir þessu og teygjum áætlun okkar allt aftur til landnáms, þá eru engar tölur eða skýrslur á að byggja heldur verður að giska á forsendurnar. Prófum tvennar.

Í íslenskri sagnaritun er nokkur hefð fyrir því að bera saman fólksfjölgun á Íslandi og í Noregi. Norðmenn hafa verið full hálf milljón 1703, um það bil tíu sinnum fleiri en Íslendingar. Fjöldi Íslendinga á 12. eða 13. öld hafa menn giskað á – reyndar með mikilli óvissu – að hafi numið allt að fjórðungi af fjölda Norðmanna. Ef það hlutfall hefði haldist óbreytt ættu Íslendingar að hafa náð 125 þúsundum um 1700 – og þá 2,7 milljónum núna miðað við sömu fjölgun og reiknað var með áður.

Önnur leið er að reikna með svipaðri fólksfjölgun á fyrri öldum og í áætluninni hér á undan um fjölgun án áfalla á 18. og 19. öld. Ef við byrjum á að áætla 20 þúsund íbúa um 950 – sem er vissulega óvíst en innan þeirra marka sem fræðimenn hafa giskað á – og látum þann fjölda vaxa með sama stuðli og notaður er um fjölgun í venjulegu árferði á 18. öld (6,22‰), þá er mannfjöldinn orðinn röskar tvær milljónir árið 1703. Framlengjum svo reikninginn til nútímans eins og áður og hefur Ísland þá yfir 46 milljónir íbúa – álíka og Úkraína, meira en Kanada eða Pólland. Er þá komið alllangt út fyrir mörk hins mögulega. Ef fólki hefði fjölgað svo ört öld eftir öld, og búfénaði að sama skapi, þá hefði gróðureyðing líka verið hraðari og þá enn fjær lagi að um 1700 gæti heil milljón Íslendinga „lifað af landsins gæðum“.

Heimildir:

  • Árni Daníel Júlíusson, „Áhrif fólksfjöldaþróunar á atvinnuhætti í gamla samfélaginu“, Saga 28 (1990), 149–156.
  • Gísli Gunnarsson, A Study of Causal Relations in Climate and History. With an Emphasis on the Icelandic Experience (Lund, 1980).
  • Gísli Gunnarsson, Fertility and Nuptiality in Iceland‘s Demographic History (Lund, 1980).
  • Guðmundur Hálfdanarson, Fólksfjöldaþróun Íslands á 18. öld. Óútgefin ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands, 1982.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Hagstofa Íslands (Reykjavík, 1997).
  • Helgi Skúli Kjartansson, „Þenkt um þak. Um stýrikerfi fólksfjöldans á 18. öld“, Menntaspor. Rit til heiðurs Lofti Guttormssyni sjötugum 5. apríl 2008 (Reykjavík, 2008), 257–267.
  • Jón Steffensen, Menning og meinsemdir (Reykjavík, 1975).
  • Sagnir 18 (1997). Syrpa greina undir heitinu Svartidauði á Íslandi. Plágurnar 1402 og 1495.

Myndir:

...