Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Þarf maður að borga nefskatt ef maður er ekki með nef?

Ritstjórn Vísindavefsins

Ekki er við hæfi að gefa spyrjanda sem spyr slíkrar spurningar langt nef.

Ritstjórn Vísindavefsins fór á stúfana og rak fyrst inn nefið hjá lögfræðisviði Vísindavefsins -- enda um háalvarlegt lögfræðilegt álitamál að ræða. Þar stungu lögfróðir saman nefjum og við fyrstu sýn leit út fyrir að menn vissu lengra sínu nefi. Svarið lét þó á sér standa og lögspekingar tóku til við að velja nýja skótegund! Þeim var þá bent á svar við spurningunni Af hverju velja lögfræðingar sér oftar en aðrar starfsstéttir brúna skó í stað svartra við dökk jakkaföt? Án þess að blása úr nös tautuðu þeir að svarið lægi í orðanna hljóðan.

Ritstjórn Vísindavefsins fitjaði upp á nefið og velti fyrir sér hvað 'orðanna hljóðan' þýddi nú eiginlega! Eins og glöggir lesendur Vísindavefsins vita er fróðleiksfýsn starfsmanna vefsins óþrjótandi. Ritstjórnin hraðaði sér því í höfustöðvarnar þar sem finna má allan þann fróðleik sem hefur verið birtur og mun verða birtur á vefnum um aldur og ævi. Í einni fróðleiksbókinni mátti finna þessa skilgreiningu á að eitthvað liggi í orðanna hljóðan:

(nákvæmlega) eins og það er skrifað (sagt)

Á því augnabliki hljóp fótfráasti meðlimur ritstjórnar beinustu leið heim til sín, lét renna í bað, skellti sér ofan í, bar nefið hátt og hrópaði: Eureka! Því miður heyrðu hinir ritstjórnarmeðlimirnir ekki í honum og héldu því leit sinni að hinum heilaga sannleik áfram. Þeir einhentu sér því næst niður á Austurvöll til að ræða við þá alþingismenn sem nýlega höfðu samþykkt afar skynsamleg lög um nefskatt.

Nefskattur er skattur sem lagður er jafnt á alla, óháð tekjum og eignum. Þannig skiptir ekki máli hvort einstaklingur sé neflaus, illa nefmæltur eða hinn versti nefapi!

Vegna vinnu sinnar á Vísindavefnum eru starfsmenn þess með 'fram-fyrir-röðina-passa' á alla heitustu staði bæjarins svo þeir komust strax inn í Alþingishúsið. Adrenalínið var þó farið að segja til sín hjá einum starfsmanninum sem ákvað að senda spurningu á samstarfsmenn sína: „Af hverju er mér svona bumbult?“ Hann ákvað því næst að draga sig í hlé, fór aftur á skrifstofuna og hófst handa við að svara spurningunni sem hann hafði sent inn.

Restin af ritstjórninni náði í skottið á formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem ákvað að veita ritstjórninni 10-15 mínútur af tíma nefndarinnar til að ræða þetta mál. Fundurinn átti að hefjast strax en það þótti ritstjórninni ólíklegt enda um mjög teygjanlegt hugtak að ræða!

Þegar fundurinn loksins hófst klukkutíma síðar bar ritstjórnin upp spurningar sínar:
  • Hvað er nefskattur?
  • Þurfa allir að borga nefskatt?
  • Þarf ég að borga nefskatt ef ég er ekki með nef?
  • Þarf ég að borga nefskatt ef ég finn ekki lykt?
  • Borga ég bara hluta af nefskattinum ef ég er með skert lyktarskyn? Er það þá í hlutfalli við þá lykt sem ég finn?
  • Þarf ég virkilega að borga nefskatt þegar ég er með kvef?
  • Er hægt að hafa nasasjón af lögum um nefskatt?
  • Ef ég finn aldrei prumpulyktina mína, þarf ég þá að borga nefskatt?

Einn nefndarmaður tjáði ritstjórninni að nefskattur væri skattur sem væri lagður jafnt á alla, óháð tekjum og eignum og benti þeim auk þess á eftirfarandi svar á Vísindavefnum: Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn? Enn fremur tilkynnti hann að allir þyrftu að borga nefskatt, óháð tilvist og ástandi nefs. Alþingismenn hafa greinlega gott nef fyrir góðum lögum!

En hvað verður um nefskattinn? Annar nefndarmaður sagði ritstjórninni að þar sem svo virtist sem almenningur næði ekki upp í nef sér yfir þessu nánasarlega máli hefðu þau ákveðið að spila þetta bara eftir eyranu. Hér eftir væri nefskatturinn því aðeins eyrnamerktur þjóðfþrifaverkum. Það lætur væntanlega vel í eyrum flestra!

Mynd:


Hafi einhverjir lesendur ekki þegar áttað sig þá er rétt að taka fram að þetta er föstudagssvar. Ef einhver sannleikskorn finnast í því lentu þau þar fyrir misskilning. Neyttu á meðan á nefinu stendur!

Útgáfudagur

26.5.2017

Spyrjandi

Ívar Daði Þorvaldsson

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Þarf maður að borga nefskatt ef maður er ekki með nef?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2017. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68625.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2017, 26. maí). Þarf maður að borga nefskatt ef maður er ekki með nef? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68625

Ritstjórn Vísindavefsins. „Þarf maður að borga nefskatt ef maður er ekki með nef?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2017. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68625>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Þarf maður að borga nefskatt ef maður er ekki með nef?
Ekki er við hæfi að gefa spyrjanda sem spyr slíkrar spurningar langt nef.

Ritstjórn Vísindavefsins fór á stúfana og rak fyrst inn nefið hjá lögfræðisviði Vísindavefsins -- enda um háalvarlegt lögfræðilegt álitamál að ræða. Þar stungu lögfróðir saman nefjum og við fyrstu sýn leit út fyrir að menn vissu lengra sínu nefi. Svarið lét þó á sér standa og lögspekingar tóku til við að velja nýja skótegund! Þeim var þá bent á svar við spurningunni Af hverju velja lögfræðingar sér oftar en aðrar starfsstéttir brúna skó í stað svartra við dökk jakkaföt? Án þess að blása úr nös tautuðu þeir að svarið lægi í orðanna hljóðan.

Ritstjórn Vísindavefsins fitjaði upp á nefið og velti fyrir sér hvað 'orðanna hljóðan' þýddi nú eiginlega! Eins og glöggir lesendur Vísindavefsins vita er fróðleiksfýsn starfsmanna vefsins óþrjótandi. Ritstjórnin hraðaði sér því í höfustöðvarnar þar sem finna má allan þann fróðleik sem hefur verið birtur og mun verða birtur á vefnum um aldur og ævi. Í einni fróðleiksbókinni mátti finna þessa skilgreiningu á að eitthvað liggi í orðanna hljóðan:

(nákvæmlega) eins og það er skrifað (sagt)

Á því augnabliki hljóp fótfráasti meðlimur ritstjórnar beinustu leið heim til sín, lét renna í bað, skellti sér ofan í, bar nefið hátt og hrópaði: Eureka! Því miður heyrðu hinir ritstjórnarmeðlimirnir ekki í honum og héldu því leit sinni að hinum heilaga sannleik áfram. Þeir einhentu sér því næst niður á Austurvöll til að ræða við þá alþingismenn sem nýlega höfðu samþykkt afar skynsamleg lög um nefskatt.

Nefskattur er skattur sem lagður er jafnt á alla, óháð tekjum og eignum. Þannig skiptir ekki máli hvort einstaklingur sé neflaus, illa nefmæltur eða hinn versti nefapi!

Vegna vinnu sinnar á Vísindavefnum eru starfsmenn þess með 'fram-fyrir-röðina-passa' á alla heitustu staði bæjarins svo þeir komust strax inn í Alþingishúsið. Adrenalínið var þó farið að segja til sín hjá einum starfsmanninum sem ákvað að senda spurningu á samstarfsmenn sína: „Af hverju er mér svona bumbult?“ Hann ákvað því næst að draga sig í hlé, fór aftur á skrifstofuna og hófst handa við að svara spurningunni sem hann hafði sent inn.

Restin af ritstjórninni náði í skottið á formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem ákvað að veita ritstjórninni 10-15 mínútur af tíma nefndarinnar til að ræða þetta mál. Fundurinn átti að hefjast strax en það þótti ritstjórninni ólíklegt enda um mjög teygjanlegt hugtak að ræða!

Þegar fundurinn loksins hófst klukkutíma síðar bar ritstjórnin upp spurningar sínar:
  • Hvað er nefskattur?
  • Þurfa allir að borga nefskatt?
  • Þarf ég að borga nefskatt ef ég er ekki með nef?
  • Þarf ég að borga nefskatt ef ég finn ekki lykt?
  • Borga ég bara hluta af nefskattinum ef ég er með skert lyktarskyn? Er það þá í hlutfalli við þá lykt sem ég finn?
  • Þarf ég virkilega að borga nefskatt þegar ég er með kvef?
  • Er hægt að hafa nasasjón af lögum um nefskatt?
  • Ef ég finn aldrei prumpulyktina mína, þarf ég þá að borga nefskatt?

Einn nefndarmaður tjáði ritstjórninni að nefskattur væri skattur sem væri lagður jafnt á alla, óháð tekjum og eignum og benti þeim auk þess á eftirfarandi svar á Vísindavefnum: Hvenær var hinn svokallaði „nefskattur“ Margrétar Thatcher afnuminn? Enn fremur tilkynnti hann að allir þyrftu að borga nefskatt, óháð tilvist og ástandi nefs. Alþingismenn hafa greinlega gott nef fyrir góðum lögum!

En hvað verður um nefskattinn? Annar nefndarmaður sagði ritstjórninni að þar sem svo virtist sem almenningur næði ekki upp í nef sér yfir þessu nánasarlega máli hefðu þau ákveðið að spila þetta bara eftir eyranu. Hér eftir væri nefskatturinn því aðeins eyrnamerktur þjóðfþrifaverkum. Það lætur væntanlega vel í eyrum flestra!

Mynd:


Hafi einhverjir lesendur ekki þegar áttað sig þá er rétt að taka fram að þetta er föstudagssvar. Ef einhver sannleikskorn finnast í því lentu þau þar fyrir misskilning. Neyttu á meðan á nefinu stendur!

...