Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Krabbamein í ristli eru um 7% illkynja æxla á Íslandi. Þau eru meðal tíðustu krabbameina sem greinast hjá vestrænum þjóðum og eru þriðja algengasta dánarorsök hjá krabbameinssjúklingum á Íslandi. Þessi krabbamein eru heldur algengara hjá körlum en konum. Á árunum 2006-2010 var aldursstaðlað nýgengi hér á landi 23,0 af 100.000 hjá körlum og 16,8 af 100.000 hjá konum. Þrátt fyrir aukningu sjúkdómstilfella síðustu áratugina hefur dánartíðni af völdum þessara meina heldur lækkað. Fyrst og fremst er það talið stafa af því að nú orðið greinast þau fyrr en áður.
Árlegt aldursstaðlað nýgengi ristilkrabbameina.
Árleg aldursstöðluð dánartíðni ristilkrabbameina.
Meðalaldur sjúklinga við greiningu er um 70 ár. Ristillinn er 1-1,5 metri á lengd. Hann tekur við af smáþörmunum og endar þar sem endaþarmurinn (sem tekur til neðstu 15 cm meltingarvegarins) byrjar. Oft er talað um krabbamein í ristli og endaþarmi saman enda mjög margt sameiginlegt þeim. Í þessu svari er þó aðeins fjallað um ristilkrabbamein.
Mest öll næring fæðunnar er frásoguð í smáþörmunum (það er næringin flyst frá holrými smáþarma og út í blóðið). Þegar innihald smáþarma kemur niður í ristilinn eru eftir fæðuhlutar sem meltingarfærin geta ekki brotið niður, til dæmis trefjar. Í ristlinum frásogast síðan vatn og ýmis sölt út í blóðið þannig að innihald ristilsins (hægðirnar) verður þéttara. Í ristlinum er mikið magn gagnlegra baktería, sem geta meðal annars myndað vítamín, sem líkaminn nýtir sér.
Orsakir og áhættuþættir
Erfðafræðilegir þættir gegna miklu hlutverki í vissum gerðum ristilkrabbameina og hafa vísindamenn sýnt fram á vissar genabreytingar sem auka hættuna á sjúkdómnum. Erfðafræðilegir þættir eru þó ekki taldir orsaka nema um fimm af hundraði allra ristilskrabbameina. Flestir sem greinast með ristilkrabbamein eru eldri en fimmtugir og fæstir eru í einhverjum sérstökum þekktum áhættuhópi. Nokkrir áhættuhópar eru þó þekktir, til dæmis einstaklingar með sterka ættarsögu um ristilkrabbamein, fólk með ákveðna gerð ristilsepa eða þekkta langvinna bólgusjúkdóma í ristli. Sjúklingar með langvinna þarmabólgusjúkdóma, það er sáraristilbólgu (colitis ulcerosa) og Crohn’s-sjúkdóm eru í aukinni hættu á að fá ristilkrabbamein. Lífshættir, til dæmis matarvenjur, eru taldir hafa áhrif á þessa áhættu. Því hefur verið haldið fram að of lítil neysla trefja sé áhættuþáttur en rannsóknir hafa ekki staðfest það. Rannsóknir seinni ára benda til að offita, lítil líkamleg hreyfing, mikil áfengisneysla, lítil neysla fólínsýru og mikil neysla á rauðu kjöti auki líkurnar á myndun ristilkrabbameins. Mikil neysla ávaxta og grænmetis er talin hafa verndandi áhrif og á síðustu árum hefur komið í ljós að lyfið magnýl (asperín) virðist einnig hafa jákvæð áhrif.
Langflest illkynja æxli í ristli eru kirtilmyndandi krabbamein og eru þau talin myndast í æxlissepum í slímhúð ristils. Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi með því að leita að blóði í hægðum lækkar dánartíðni af völdum sjúkdómsins og mælir landlæknir með slíkri skimun fyrir fólk, eldra en fimmtugt, sem er ekki í áhættuhópi. Vísbendingar eru um að skimun með ristilspeglun dragi úr nýgengi sjúkdómsins og lækki dánartíðni vegna ristilkrabbameins enn frekar.
Landfræðilegur munur
Ristilkrabbamein er þó nokkuð algengara í þróuðum löndum en í þróunarlöndum. Hættan á að fá sjúkdóminn er til dæmis mun meiri í Norður-Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu en í Suður-Ameríku, Asíu og Afríku. Nýgengið er að aukast í Japan, en Japanir sem eru búsettir í Bandaríkjunum eru samt í mun meiri áhættu. Þessi landfræðilegi munur er talinn stafa fyrst og fremst af mismunandi lífsháttum, einkum mismunandi matarvenjum. Nýgengið hefur hækkað mjög hratt hjá Norðmönnum síðustu áratugi og eru nú norskir karlar hæstir ásamt Dönum og Íslendingum. Norsku konurnar eru einnig hæstar ásamt þeim dönsku, en íslensku konurnar hafa lægra nýgengi.
Einkenni
Einkenni ristilskrabbameina geta verið lúmsk og koma oft seint fram. Breytt hægðamynstur, til dæmis nýtilkomið harðlífi og/eða niðurgangur, ásamt blóði í hægðum eru algeng einkenni sjúkdómsins. Kviðverkir, uppþemba, lítil matarlyst, þreyta, slappleiki og þyngdartap geta einnig verið einkenni. Þessi einkenni geta hins vegar stafað af öðru en ristilkrabbameini en það er mikilvægt að kanna undirliggjandi ástæðu. Í stöku tilfellum getur ristilkrabbamein valdið mjög bráðum einkennum, til dæmis rofi eða stíflu á ristli.
Greining
Ef einkenni gefa til kynna eða vekja grun um ristilkrabbamein skal ávalt leita læknis, sem framkvæmir almenna skoðun. Unnt er að rannsaka hvort blóð sé í hægðum og ef blóð finnst við slíka skoðun getur það verið vísbending um ristilkrabbamein, þó aðrar skýringar geti legið að baki. Ef grunur er um krabbamein í ristli eða endaþarmi er ristilspeglun mikilvægasta rannsóknin. Sú rannsókn felur í sér að setja sveigjanlegt speglunartæki inn um endaþarminn, þræða það upp eftir ristlinum og skoða þannig slímhúðina. Hægt er að taka vefjasýni úr meinum eða afbrigðilegri slímhúð og með vefjarannsókn er unnt að komast að því hvort um illkynja mein sé að ræða. Einnig er unnt að fjarlægja ristilsepa, sem geta verið forstig ristilkrabbameins, í gegnum slík speglunartæki. Með hjálp ómskoðunartækis, sem þræða má upp í ristilinn með speglunartækinu, má kanna hversu djúpt í ristilvegginn æxlið er vaxið. Nýlega er farið að nota tölvusneiðmyndartæki til að taka myndir af ristlinum (e. virtual colonoscopy) ef speglun verður ekki við komið. Til frekari stigunar eru gerðar myndgreiningarrannsóknir, oftast sneiðmynd af kviðarholi, til að kanna hvort dreifing sjáist á krabbameini í önnur líffæri, svo sem í eitla eða í lifur. Einnig eru gerðar myndgreiningarrannsóknir af brjóstholi og blóðrannsóknir.
Meðferð
Mikilvægasta meðferðin til lækningar á ristilkrabbameini er skurðaðgerð. Til að minnka líkurnar á endurkomu krabbameinsins fjarlægir skurðlæknirinn ekki eingöngu sjálft æxlið heldur líka hluta af heilbrigðum vef í kringum æxlið ásamt nálægum eitlum. Síðan er oftast hægt að tengja ristilendana saman á ný en í sumum tilvikum þurfa sjúklingar á stóma að halda, ýmist tímabundið eða ævilangt. Við vefjarannsókn sýnis úr aðgerðinni er meðal annars hægt að greina æxlistegund, æxlisþroska og útbreiðslu æxlis innan sýnisins. Í sumum tilvikum, sérstaklega þegar meinvörp finnast í svæðiseitlum, er einnig gefin fyrirbyggjandi eftirmeðferð með krabbameinslyfjum eftir skurðaðgerðina með það í huga að drepa þær krabbameinsfrumur sem hugsanlega gætu verið eftir og þannig minnka líkurnar á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. Í um fjórðungi tilfella greinist krabbameinið þegar það hefur náð að dreifa sér til annarra líffæra. Þá er helsta meðferðin krabbameinslyfjameðferð. Tilgangur lyfjameðferðar er að lengja og bæta líf. Á síðustu árum hefur í vaxandi mæli verið unnt að fjarlægja meinvörp með skurðaðgerð, oft eftir að meinvörp hafa minnkað við krabbameinslyfjameðferð.
Horfur
Almennt eru horfur sjúklinga með ristilkrabbamein góðar en horfur fara þó eftir því hversu langt sjúkdómurinn er genginn við greiningu. Ef krabbameinið uppgötvast snemma er langoftast unnt að lækna sjúklinga með skurðaðgerð en horfur versna eftir því sem sjúkdómsdreifingin er meiri.
Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hversu algeng eru ristilkrabbamein?“ Vísindavefurinn, 12. október 2015, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70692.
Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. (2015, 12. október). Hversu algeng eru ristilkrabbamein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70692
Jón Gunnlaugur Jónasson og Laufey Tryggvadóttir. „Hversu algeng eru ristilkrabbamein?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2015. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70692>.