Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hafa refir einhvern tíma verið í Færeyjum og þá af hvaða stofni?

Jón Már Halldórsson

Eftir því sem best er vitað hafa villtir refir aldrei lifað í Færeyjum. Talið er að þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til eyjanna hafi þar ekki verið nein landspendýr. Einu hryggdýrin voru fuglar en fuglalíf eyjanna er afar fjölskrúðugt og hefur einnig verið svo fyrir um 1.400 árum þegar menn komu til eyjanna.

Í dag eru þrjár villtar spendýrategundir í Færeyjum sem allar eru innfluttar. Fyrst má nefna snæhérann (Lepus timidus) sem var fluttur frá Noregi árið 1854. Snæhérinn finnst á öllum eyjunum nema þeim þremur smæstu, Koltur, Stóra Dímun og Litla Dímun.

Snæhéri eða fjallahéri (Lepus timidus er ein þeirra þriggja spendýrategunda sem lifa villtar í Færeyjum.

Í öðru lagi er það húsamúsin (Mus domesticus). Talið er að hún hafi borist með írskum munkum eða pöpum á 6. öld. Vegna einangrunar hafa þróast tvær undirtegundir músa, M. domesticus faroeensis sem kennd er við eyjarnar og M. domesticus mykinessiensis sem kennd er við eyjuna Mykines.

Þriðja villta spendýrategundin er brúnrottan (Rattus norvegicus) sem heldur að mestu til í fjörum eyjanna og í skolpræsakerfum. Nokkuð góðar heimildir eru um landnám brúnrottunnar. Sennilegt þykir að rottan hafi borist til eyjanna með strandi norska skipsins Kongen af Preussen við skosku eyjuna Lewis en brak af skipinu barst til Suðuroy í maí 1768. Nokkuð var farið að bera á rottum í Þórshöfn ári síðar. Heimildir eru fyrir því að fyrst hafi sést til brúnrotta í Streymoy 1769, Eysteroy 1776 og Vágar 1779. Með landnámi brúnrottunnar hvarf svartrottan (Rattus rattus) sem hafði verið í Færeyjum um aldir.

Nokkrar innfluttar spendýrategundir hafa horfið úr fánu eyjanna. Kanínur (Oryctolagus cuniculus) voru fluttar til Suðuroy við upphaf 20. aldar og breiddust mjög hratt út en menn sáu að sér og eyddu þeim. Stofnar hafa komist á legg á tveimur öðrum eyjum en þeim hefur verið eytt jafnóðum. Ameríski minkurinn (Mustela vison) og heimskautarefur (Alopex lagopus) hafa sloppið frá búum en ekki náð að fjölga sér og festa rætur í náttúrunni. Loks má nefna að gerða var tilraun til að koma á stofni broddgalta (Erinaceus europaeus) í Þórshöfn snemma á síðustu öld en sú tilraun heppnaðist ekki.

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.12.2015

Spyrjandi

Magnús Dan Bárðarson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hafa refir einhvern tíma verið í Færeyjum og þá af hvaða stofni?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2015, sótt 17. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70975.

Jón Már Halldórsson. (2015, 16. desember). Hafa refir einhvern tíma verið í Færeyjum og þá af hvaða stofni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70975

Jón Már Halldórsson. „Hafa refir einhvern tíma verið í Færeyjum og þá af hvaða stofni?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2015. Vefsíða. 17. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70975>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hafa refir einhvern tíma verið í Færeyjum og þá af hvaða stofni?
Eftir því sem best er vitað hafa villtir refir aldrei lifað í Færeyjum. Talið er að þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til eyjanna hafi þar ekki verið nein landspendýr. Einu hryggdýrin voru fuglar en fuglalíf eyjanna er afar fjölskrúðugt og hefur einnig verið svo fyrir um 1.400 árum þegar menn komu til eyjanna.

Í dag eru þrjár villtar spendýrategundir í Færeyjum sem allar eru innfluttar. Fyrst má nefna snæhérann (Lepus timidus) sem var fluttur frá Noregi árið 1854. Snæhérinn finnst á öllum eyjunum nema þeim þremur smæstu, Koltur, Stóra Dímun og Litla Dímun.

Snæhéri eða fjallahéri (Lepus timidus er ein þeirra þriggja spendýrategunda sem lifa villtar í Færeyjum.

Í öðru lagi er það húsamúsin (Mus domesticus). Talið er að hún hafi borist með írskum munkum eða pöpum á 6. öld. Vegna einangrunar hafa þróast tvær undirtegundir músa, M. domesticus faroeensis sem kennd er við eyjarnar og M. domesticus mykinessiensis sem kennd er við eyjuna Mykines.

Þriðja villta spendýrategundin er brúnrottan (Rattus norvegicus) sem heldur að mestu til í fjörum eyjanna og í skolpræsakerfum. Nokkuð góðar heimildir eru um landnám brúnrottunnar. Sennilegt þykir að rottan hafi borist til eyjanna með strandi norska skipsins Kongen af Preussen við skosku eyjuna Lewis en brak af skipinu barst til Suðuroy í maí 1768. Nokkuð var farið að bera á rottum í Þórshöfn ári síðar. Heimildir eru fyrir því að fyrst hafi sést til brúnrotta í Streymoy 1769, Eysteroy 1776 og Vágar 1779. Með landnámi brúnrottunnar hvarf svartrottan (Rattus rattus) sem hafði verið í Færeyjum um aldir.

Nokkrar innfluttar spendýrategundir hafa horfið úr fánu eyjanna. Kanínur (Oryctolagus cuniculus) voru fluttar til Suðuroy við upphaf 20. aldar og breiddust mjög hratt út en menn sáu að sér og eyddu þeim. Stofnar hafa komist á legg á tveimur öðrum eyjum en þeim hefur verið eytt jafnóðum. Ameríski minkurinn (Mustela vison) og heimskautarefur (Alopex lagopus) hafa sloppið frá búum en ekki náð að fjölga sér og festa rætur í náttúrunni. Loks má nefna að gerða var tilraun til að koma á stofni broddgalta (Erinaceus europaeus) í Þórshöfn snemma á síðustu öld en sú tilraun heppnaðist ekki.

Mynd:

...