Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:43 • Sest 20:16 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:52 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:04 • Síðdegis: 22:40 í Reykjavík

Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir?

Gylfi Magnússon

Spurningin var upphaflega:
Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir og má eiga þær á Íslandi þrátt fyrir gjaldeyrishöftin?

Hver er munurinn á rafmynt eins og bitcoin og venjulegum peningum?

Tæknin sem rafmyntir byggja á er oft kennd við ‘blockchain’ á ensku. Engin íslensk þýðing á þessu hugtaki hefur náð að festast í sessi en til dæmis mætti tala um grunnkeðju, færsluvað eða færsluvöndul. Hér verður talað um grunnkeðju. Hún er rafrænt bókhaldskerfi sem heldur utan um rafmynt, það er allar færslur, hve mikið er til og hver á hvað. Tæknin á bak við þetta byggir á flókinni stærðfræði, sérstaklega dulkóðun.

Grunnkeðjutæknin hefur reynst afar vel og hefur það í för með sér að hægt er að framselja rafmynt frá einum aðila til annars með hverfandi kostnaði og á mjög öruggan hátt. Í því felst veruleg ógnun við annars konar greiðslumiðlun.

Bitcoin er ein þekktasta rafmyntin í dag.

Sáralítil notkun

Veikleikar rafmyntar eru hins vegar einnig ýmsir og því hefur hún hvergi í heiminum náð neinni verulegri útbreiðslu í þeim skilningi að hún sé mikið notuð til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Venjulegir peningar, tilskipunarfé (e. fiat money), gegna miklu stærra hlutverki. Þótt þeim sölustöðum fari fjölgandi sem taka við greiðslu í rafmynt, til dæmis Bitcoin, þá eru þeir enn sárafáir. Það er lykilvandi. Ef margir tækju við greiðslu í rafmynt þá væri góð ástæða fyrir þá sem ekki taka við rafmynt að skipta um skoðun. Þeir gætu þá treyst því að þeir gætu notað rafmyntina sem þeir fá fyrir vörur sínar til að kaupa þær vörur og þá þjónustu sem þeir vilja. En ef fáir taka við rafmynt er ástæðulaust fyrir fleiri að gera það. Frá sjónarhóli leikjafræðinnar er þetta leikur með tvö jafnvægi, bæði stöðug. Annars vegar taka allir rafmynt sem greiðslu og hins vegar tekur enginn rafmynt sem greiðslu.

Námagröftur er sóun

Annar verulegur galli við rafmynt er sú aðferð sem er notuð til að búa hana til. Rafmynt er búin til með eins konar rafrænum námagreftri þar sem stór tölvukerfi hamast við að leysa stærðfræðileg vandamál. Þegar þeim tekst það hafa þau búið til rafmynt. Hún er umbun námumannanna. Námumennirnir gegna líka lykilhlutverki við að halda utan um grunnkeðjuna.

Gallinn við þetta er að hér er verið að nota dýrar tölvur og meðal annars mikið rafmagn í útreikninga sem hafa engan sjálfstæðan tilgang. Það er hrein sóun. Þegar hefðbundnir peningar eru búnir til, í seðlabönkum eða öðrum bönkum, þarf ekkert slíkt. Það þarf að vísu pappír, blek og prentvélar til að prenta seðla og enn dýrara er að slá mynt en slíkir peningar eru einungis lítið brot af því sem telst peningar í nútíma bankakerfi. Megnið ef íslenskum krónum er ekki seðlar og mynt heldur innstæður á alls konar reikningum, í reynd eiginlega rafmynt þótt ekki sé byggt á grunnkeðjutækni.

Rafmynt er búin til með eins konar rafrænum námagreftri þar sem stór tölvukerfi hamast við að leysa stærðfræðileg vandamál.

Vegna þess að seðlabanki getur búið til peninga verður til hjá honum svokallaður myntsláttuhagnaður. Hann getur verið umtalsverður og vegna þess að seðlabanki er í eigu ríkisins getur hann meðal annars verið notaður til að greiða útgjöld þess. Það hefur auðvitað bæði kosti og galla. Helsti gallinn er vel þekktur, ríki sem misnota seðlabanka og myntsláttuhagnað hans grafa undan gjaldmiðlinum með miklum kostnaði fyrir notendur hans. Þetta var meðal annars verulegt vandamál á Íslandi lengst af á 20. öld en er langt í frá séríslenskt fyrirbrigði.

Píramítasvindl

Vandinn hérna er í grunninn sá að öll nútíma peningakerfi eru í raun sambærileg við píramítasvindl eða Ponzi-leik. Peningar hafa ekkert verðmæti í sjálfu sér. Verðmæti þeirra byggist bara á því að allir treysti því að aðrir telji þá verðmæta. Ég er tilbúinn að selja þér bók fyrir krónur af því að ég treysti því að einhver annar sé fús til að selja mér eitthvað annað, til dæmis kjúkling, fyrir krónur. Ég er hins vegar ólíklegur til í að selja neitt fyrir pening sem enginn annar hefur trú á. Þá get ég ekki keypt neitt fyrir peninginn. Á meðan traustið er til staðar getur peningakerfi hins vegar lifað, jafnvel öldum saman.

Peningaseðill er ekki ávísun á neitt. Seðlabankinn ábyrgist verðgildi hans ekki á nokkurn hátt. Það eina sem við vitum um þúsundkall er að við getum fengið tvo fimmhundruðkalla fyrir hann og notað hann til að borga skatta.

Hinn rafræni námugröftur á rafmynt á sér hins vegar samsvörun í eldri peningakerfum þar sem peningaseðlar voru ávísanir á góðmálma, oftast gull. Slík peningakerfi kröfðust sóunar, með alveg sama hætti og rafræni námugröfturinn. Gull var grafið úr jörðu með ærnum tilkostnaði til þess eins að vera aftur grafið í jörðu, í kjallarahvelfingum banka. Það var hrein sóun. Gullfóturinn sem peningarnir stóðu á tryggði ekki á nokkurn hátt verðgildi peninga, batt það bara við verðgildi gulls, sem er í eðli sínu frekar gagnslítill málmur, sérstaklega ef hann rykfellur bara ofan í dimmum kjöllurum.

100 dollara seðill er aðeins verðmætur því almennt treystir fólk því að aðrir telji hann verðmætan.

Helsti kosturinn við gullfót var að hann takmarkaði svigrúm til peningaprentunar sem útilokaði óðaverðbólgu vegna þess að einhver seðlabankastjórinn missti sig við prentvélarnar. Annar kostur og reyndar um leið galli var að gullfótur stuðlaði að fastgengi gjaldmiðla. Gengið fór einfaldlega eftir gullinnihaldi hverrar myntar. Gullfætinum fylgdu hins vegar ekki síður ýmsir aðrir gallar og á endanum var hann lagður af með öllu. Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti á heiðurinn af því að taka síðustu myntina af gullfæti. Hans er þó fremur minnst fyrir annað.

Rafræni námugröfturinn á sömuleiðis að koma í veg fyrir að það sé hægt að búa til ótakmarkað magn af tiltekinni rafmynt fyrirvaralítið og grafa þannig undan verðmæti hennar. Það er út af fyrir sig skynsamlegt en veitir þó mjög takmarkaða tryggingu fyrir verðgildi rafmyntar.

Óstöðugleiki

Óstöðugt verðgildi er einmitt einn helsti Akkilesarhæll rafmynta. Jafnvel þótt hægt sé að stilla framleiðslu á nýrri rafmynt í hóf hefur framboðið og eftirspurnin á markaði reynst afar sveiflukennt og því um leið verðgildi rafmyntar. Vandinn hér er meðal annars sá að vegna þess hve rafmyntir eru lítið notaðar eru vörur og þjónusta almennt ekki verðlagðar í rafmynt, langtímasamningar eru ekki gerðir í þessum myntum og launþegar gera til dæmis ekki kjarasamninga í rafmynt. Á hverjum degi eru þúsundir ef ekki tugþúsundir vara verðlagðar í íslenskum krónum og í gildi eru alls konar samningar í krónum. Í myntum sem notaðar eru á stærri svæðum á þetta enn frekar við. Þessi staða tryggir ekki verðgildi krónunnar en býr til ákveðna tregðu svo að verðgildi hennar getur mjög ólíklega til dæmis breyst um mörg prósent á einum degi. Að minnsta kosti ekki ef miðað er við kaupmátt hennar innanlands þar sem hún er almennt notuð. Gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum getur þó breyst svo hratt, jafnvel fallið eða hækkað um nokkur prósent á einum degi.

Virði bitcoin samanborið við Bandaríkjadollar. Frá 2013 hefur gengi rafmyntarinnar verið mjög óstöðugt.

Það sama á við um rafmyntir, jafnvel enn frekar. Mynt eins og Bitcoin getur sveiflast verulega á stuttum tíma, mælt með gengi hennar gagnvart hefðbundnum gjaldmiðlum. Þannig eru sveiflur í gengi Bitcoin gagnvart Bandaríkjadal mun meiri en sveiflur gjaldmiðla þróaðra ríkja gagnvart dalnum. Daglegar sveiflur í gengi Bitcoin gagnvart dollar eru um fimm sinnum meiri en sveiflur í gengi evru, punds eða yens gagnvart dollar. Þetta þýðir í raun að Bitcoin er nánast ónothæfur gjaldmiðill nema sem millistig í greiðslumiðlun sem byrjar og endar í öðrum gjaldmiðlum á örstuttum tíma. Það er mjög óskynsamlegt að gera langtímasamninga í slíkri mynt eða taka stöðu í henni nema sem lið í hreinni spákaupmennsku. Þessi óstöðugleiki hamlar mjög vaxtarmöguleikum rafmynta eins og Bitcoin.

Seðlabankar eiga næsta leik

Það er þó ekki þar með sagt að öll nótt sé úti. Það er vel hugsanlegt að annars konar rafmynt eigi eftir að gegna stóru hlutverki í framtíðinni og nýta flesta kosti þeirra rafmynta sem nú þekkjast. Það er nefnilega ekkert því til fyrirstöðu að seðlabankar gefi út rafmynt sem byggð er á núverandi tilskipunarpeningum og nýti meðal annars grunnkeðjutækni til að halda utan um hana. Það gæti gerbreytt greiðslumiðlun um heim allan og gert hana miklu hagkvæmari og öruggari en nú. Rafmyntir seðlabanka kalla ekki á neina sóun vegna námuvinnslu, þær er einfaldlega búnar til með einföldum og nánast kostnaðarlausum aðgerðum.

Englandsbanki hefur sýnt þessum málum mikinn áhuga og ætlar að gefa út eigin rafmynt, RSCoin sem byggir á breska pundinu. Kínverski seðlabankinn hefur viðrað svipaðar hugmyndir. Slíkar rafmyntir eru líklega ekki mjög að skapi þeirra sem hafa litið á myntir eins og Bitcoin sem lið í því að sleppa undan oki og eftirliti ríkisvaldsins en það er annað mál. Það væri kaldhæðni örlaganna ef frumkvöðlarnir í þróun og notkun rafmyntar hafa á endanum bara rutt brautina fyrir nýjar leiðir til að sýsla með tilskipunarpeninga.

Englandsbanki stefnir að því að gefa út rafmyntina RSCoin.

Gangi þessar hugmyndir eftir gætu því ekki bara fylgt róttækar breytingar á greiðslumiðlun. Áhrifin gætu líka orðið mikil á innstæðukerfi og þar með innlánsstofnanir og starfsemi seðlabanka. Ein hugsanleg sviðsmynd er að í framtíðinni verði laust fé einstaklinga og fyrirtækja að mestu rafmyntir sem stunduð verða viðskipti með án nokkurs teljandi kostnaðar og áhættu með snjallsímum eða –úrum eða jafnvel einhverjum öðrum tæknilausnum. Grundvallartæknin er öll til staðar og verður bara betri með hverju árinu. Það eru í raun góðar líkur á því að næstu ár verði meiri og örari breytingar á fjármálakerfi heimsins vegna tækninýjunga en sést hafa áratugum saman.

Myndir:

Þetta svar birtist fyrst í greininni Rafeyrir og greiðslumiðlun í Vísbendingu 15. tbl. 22. apríl 2016. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra Vísbendingar.

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Bjarka Vigfússyni fyrir ábendingu um hugtökin rafeyrir og rafmynt.

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.10.2017

Spyrjandi

Sigurjón Ágústsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir?“ Vísindavefurinn, 19. október 2017. Sótt 25. júní 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=72212.

Gylfi Magnússon. (2017, 19. október). Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72212

Gylfi Magnússon. „Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir?“ Vísindavefurinn. 19. okt. 2017. Vefsíða. 25. jún. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72212>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir?
Spurningin var upphaflega:

Hvernig virkar bitcoin og aðrar rafmyntir og má eiga þær á Íslandi þrátt fyrir gjaldeyrishöftin?

Hver er munurinn á rafmynt eins og bitcoin og venjulegum peningum?

Tæknin sem rafmyntir byggja á er oft kennd við ‘blockchain’ á ensku. Engin íslensk þýðing á þessu hugtaki hefur náð að festast í sessi en til dæmis mætti tala um grunnkeðju, færsluvað eða færsluvöndul. Hér verður talað um grunnkeðju. Hún er rafrænt bókhaldskerfi sem heldur utan um rafmynt, það er allar færslur, hve mikið er til og hver á hvað. Tæknin á bak við þetta byggir á flókinni stærðfræði, sérstaklega dulkóðun.

Grunnkeðjutæknin hefur reynst afar vel og hefur það í för með sér að hægt er að framselja rafmynt frá einum aðila til annars með hverfandi kostnaði og á mjög öruggan hátt. Í því felst veruleg ógnun við annars konar greiðslumiðlun.

Bitcoin er ein þekktasta rafmyntin í dag.

Sáralítil notkun

Veikleikar rafmyntar eru hins vegar einnig ýmsir og því hefur hún hvergi í heiminum náð neinni verulegri útbreiðslu í þeim skilningi að hún sé mikið notuð til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Venjulegir peningar, tilskipunarfé (e. fiat money), gegna miklu stærra hlutverki. Þótt þeim sölustöðum fari fjölgandi sem taka við greiðslu í rafmynt, til dæmis Bitcoin, þá eru þeir enn sárafáir. Það er lykilvandi. Ef margir tækju við greiðslu í rafmynt þá væri góð ástæða fyrir þá sem ekki taka við rafmynt að skipta um skoðun. Þeir gætu þá treyst því að þeir gætu notað rafmyntina sem þeir fá fyrir vörur sínar til að kaupa þær vörur og þá þjónustu sem þeir vilja. En ef fáir taka við rafmynt er ástæðulaust fyrir fleiri að gera það. Frá sjónarhóli leikjafræðinnar er þetta leikur með tvö jafnvægi, bæði stöðug. Annars vegar taka allir rafmynt sem greiðslu og hins vegar tekur enginn rafmynt sem greiðslu.

Námagröftur er sóun

Annar verulegur galli við rafmynt er sú aðferð sem er notuð til að búa hana til. Rafmynt er búin til með eins konar rafrænum námagreftri þar sem stór tölvukerfi hamast við að leysa stærðfræðileg vandamál. Þegar þeim tekst það hafa þau búið til rafmynt. Hún er umbun námumannanna. Námumennirnir gegna líka lykilhlutverki við að halda utan um grunnkeðjuna.

Gallinn við þetta er að hér er verið að nota dýrar tölvur og meðal annars mikið rafmagn í útreikninga sem hafa engan sjálfstæðan tilgang. Það er hrein sóun. Þegar hefðbundnir peningar eru búnir til, í seðlabönkum eða öðrum bönkum, þarf ekkert slíkt. Það þarf að vísu pappír, blek og prentvélar til að prenta seðla og enn dýrara er að slá mynt en slíkir peningar eru einungis lítið brot af því sem telst peningar í nútíma bankakerfi. Megnið ef íslenskum krónum er ekki seðlar og mynt heldur innstæður á alls konar reikningum, í reynd eiginlega rafmynt þótt ekki sé byggt á grunnkeðjutækni.

Rafmynt er búin til með eins konar rafrænum námagreftri þar sem stór tölvukerfi hamast við að leysa stærðfræðileg vandamál.

Vegna þess að seðlabanki getur búið til peninga verður til hjá honum svokallaður myntsláttuhagnaður. Hann getur verið umtalsverður og vegna þess að seðlabanki er í eigu ríkisins getur hann meðal annars verið notaður til að greiða útgjöld þess. Það hefur auðvitað bæði kosti og galla. Helsti gallinn er vel þekktur, ríki sem misnota seðlabanka og myntsláttuhagnað hans grafa undan gjaldmiðlinum með miklum kostnaði fyrir notendur hans. Þetta var meðal annars verulegt vandamál á Íslandi lengst af á 20. öld en er langt í frá séríslenskt fyrirbrigði.

Píramítasvindl

Vandinn hérna er í grunninn sá að öll nútíma peningakerfi eru í raun sambærileg við píramítasvindl eða Ponzi-leik. Peningar hafa ekkert verðmæti í sjálfu sér. Verðmæti þeirra byggist bara á því að allir treysti því að aðrir telji þá verðmæta. Ég er tilbúinn að selja þér bók fyrir krónur af því að ég treysti því að einhver annar sé fús til að selja mér eitthvað annað, til dæmis kjúkling, fyrir krónur. Ég er hins vegar ólíklegur til í að selja neitt fyrir pening sem enginn annar hefur trú á. Þá get ég ekki keypt neitt fyrir peninginn. Á meðan traustið er til staðar getur peningakerfi hins vegar lifað, jafnvel öldum saman.

Peningaseðill er ekki ávísun á neitt. Seðlabankinn ábyrgist verðgildi hans ekki á nokkurn hátt. Það eina sem við vitum um þúsundkall er að við getum fengið tvo fimmhundruðkalla fyrir hann og notað hann til að borga skatta.

Hinn rafræni námugröftur á rafmynt á sér hins vegar samsvörun í eldri peningakerfum þar sem peningaseðlar voru ávísanir á góðmálma, oftast gull. Slík peningakerfi kröfðust sóunar, með alveg sama hætti og rafræni námugröfturinn. Gull var grafið úr jörðu með ærnum tilkostnaði til þess eins að vera aftur grafið í jörðu, í kjallarahvelfingum banka. Það var hrein sóun. Gullfóturinn sem peningarnir stóðu á tryggði ekki á nokkurn hátt verðgildi peninga, batt það bara við verðgildi gulls, sem er í eðli sínu frekar gagnslítill málmur, sérstaklega ef hann rykfellur bara ofan í dimmum kjöllurum.

100 dollara seðill er aðeins verðmætur því almennt treystir fólk því að aðrir telji hann verðmætan.

Helsti kosturinn við gullfót var að hann takmarkaði svigrúm til peningaprentunar sem útilokaði óðaverðbólgu vegna þess að einhver seðlabankastjórinn missti sig við prentvélarnar. Annar kostur og reyndar um leið galli var að gullfótur stuðlaði að fastgengi gjaldmiðla. Gengið fór einfaldlega eftir gullinnihaldi hverrar myntar. Gullfætinum fylgdu hins vegar ekki síður ýmsir aðrir gallar og á endanum var hann lagður af með öllu. Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti á heiðurinn af því að taka síðustu myntina af gullfæti. Hans er þó fremur minnst fyrir annað.

Rafræni námugröfturinn á sömuleiðis að koma í veg fyrir að það sé hægt að búa til ótakmarkað magn af tiltekinni rafmynt fyrirvaralítið og grafa þannig undan verðmæti hennar. Það er út af fyrir sig skynsamlegt en veitir þó mjög takmarkaða tryggingu fyrir verðgildi rafmyntar.

Óstöðugleiki

Óstöðugt verðgildi er einmitt einn helsti Akkilesarhæll rafmynta. Jafnvel þótt hægt sé að stilla framleiðslu á nýrri rafmynt í hóf hefur framboðið og eftirspurnin á markaði reynst afar sveiflukennt og því um leið verðgildi rafmyntar. Vandinn hér er meðal annars sá að vegna þess hve rafmyntir eru lítið notaðar eru vörur og þjónusta almennt ekki verðlagðar í rafmynt, langtímasamningar eru ekki gerðir í þessum myntum og launþegar gera til dæmis ekki kjarasamninga í rafmynt. Á hverjum degi eru þúsundir ef ekki tugþúsundir vara verðlagðar í íslenskum krónum og í gildi eru alls konar samningar í krónum. Í myntum sem notaðar eru á stærri svæðum á þetta enn frekar við. Þessi staða tryggir ekki verðgildi krónunnar en býr til ákveðna tregðu svo að verðgildi hennar getur mjög ólíklega til dæmis breyst um mörg prósent á einum degi. Að minnsta kosti ekki ef miðað er við kaupmátt hennar innanlands þar sem hún er almennt notuð. Gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum getur þó breyst svo hratt, jafnvel fallið eða hækkað um nokkur prósent á einum degi.

Virði bitcoin samanborið við Bandaríkjadollar. Frá 2013 hefur gengi rafmyntarinnar verið mjög óstöðugt.

Það sama á við um rafmyntir, jafnvel enn frekar. Mynt eins og Bitcoin getur sveiflast verulega á stuttum tíma, mælt með gengi hennar gagnvart hefðbundnum gjaldmiðlum. Þannig eru sveiflur í gengi Bitcoin gagnvart Bandaríkjadal mun meiri en sveiflur gjaldmiðla þróaðra ríkja gagnvart dalnum. Daglegar sveiflur í gengi Bitcoin gagnvart dollar eru um fimm sinnum meiri en sveiflur í gengi evru, punds eða yens gagnvart dollar. Þetta þýðir í raun að Bitcoin er nánast ónothæfur gjaldmiðill nema sem millistig í greiðslumiðlun sem byrjar og endar í öðrum gjaldmiðlum á örstuttum tíma. Það er mjög óskynsamlegt að gera langtímasamninga í slíkri mynt eða taka stöðu í henni nema sem lið í hreinni spákaupmennsku. Þessi óstöðugleiki hamlar mjög vaxtarmöguleikum rafmynta eins og Bitcoin.

Seðlabankar eiga næsta leik

Það er þó ekki þar með sagt að öll nótt sé úti. Það er vel hugsanlegt að annars konar rafmynt eigi eftir að gegna stóru hlutverki í framtíðinni og nýta flesta kosti þeirra rafmynta sem nú þekkjast. Það er nefnilega ekkert því til fyrirstöðu að seðlabankar gefi út rafmynt sem byggð er á núverandi tilskipunarpeningum og nýti meðal annars grunnkeðjutækni til að halda utan um hana. Það gæti gerbreytt greiðslumiðlun um heim allan og gert hana miklu hagkvæmari og öruggari en nú. Rafmyntir seðlabanka kalla ekki á neina sóun vegna námuvinnslu, þær er einfaldlega búnar til með einföldum og nánast kostnaðarlausum aðgerðum.

Englandsbanki hefur sýnt þessum málum mikinn áhuga og ætlar að gefa út eigin rafmynt, RSCoin sem byggir á breska pundinu. Kínverski seðlabankinn hefur viðrað svipaðar hugmyndir. Slíkar rafmyntir eru líklega ekki mjög að skapi þeirra sem hafa litið á myntir eins og Bitcoin sem lið í því að sleppa undan oki og eftirliti ríkisvaldsins en það er annað mál. Það væri kaldhæðni örlaganna ef frumkvöðlarnir í þróun og notkun rafmyntar hafa á endanum bara rutt brautina fyrir nýjar leiðir til að sýsla með tilskipunarpeninga.

Englandsbanki stefnir að því að gefa út rafmyntina RSCoin.

Gangi þessar hugmyndir eftir gætu því ekki bara fylgt róttækar breytingar á greiðslumiðlun. Áhrifin gætu líka orðið mikil á innstæðukerfi og þar með innlánsstofnanir og starfsemi seðlabanka. Ein hugsanleg sviðsmynd er að í framtíðinni verði laust fé einstaklinga og fyrirtækja að mestu rafmyntir sem stunduð verða viðskipti með án nokkurs teljandi kostnaðar og áhættu með snjallsímum eða –úrum eða jafnvel einhverjum öðrum tæknilausnum. Grundvallartæknin er öll til staðar og verður bara betri með hverju árinu. Það eru í raun góðar líkur á því að næstu ár verði meiri og örari breytingar á fjármálakerfi heimsins vegna tækninýjunga en sést hafa áratugum saman.

Myndir:

Þetta svar birtist fyrst í greininni Rafeyrir og greiðslumiðlun í Vísbendingu 15. tbl. 22. apríl 2016. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra Vísbendingar.

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Bjarka Vigfússyni fyrir ábendingu um hugtökin rafeyrir og rafmynt.

...