Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sumir hefðu kannski haldið að þessi spurning væri óþörf af því að hlýnunin verði jafnmikil alls staðar og áhrif hennar þau sömu. En svo er alls ekki því að rannsóknir sýna glöggt að hlýnun er og verður mismikil eftir stöðum á jörðinni. Auk þess hefur sama hlýnun (í gráðum talið) gerólík áhrif eftir því hvort við erum til dæmis stödd í regnskógabeltinu, í eyðimörk, á svæðinu norðan við eyðimerkurbeltið eða nálægt heimskautasvæðinu. Áhrifin fara einnig eftir staðbundnum landfræðilegum aðstæðum, til dæmis hvað tekur við fyrir norðan okkur á norðurhveli eða fyrir sunnan á suðurhveli. Þessi áhrif eru raunar augljós ef við hugsum út í það. En spurningin er sem sé góð og gild og gefur tilefni til umræðu eins og við sjáum hér á eftir.
Raunar er hugmyndin um sömu hlýnun alls staðar tengd annarri villu sem kemur stundum upp í umræðunni. Menn taka þá hitamælingar fortíðarinnar á tilteknum stað eða svæði, til dæmis á Íslandi eða í grennd við það, telja sig sjá að þessar mælingar sýni enga hlýnun heldur jafnvel kólnun, og draga þá ályktun að allar fullyrðingar um hlýnun jarðar séu skáldskapur einn. Menn gæta þá ekki að því að fullyrðingar vísindanna um hlýnun sem staðreynd byggjast einmitt ekki á einstökum mælistöðum, heldur á meðaltali frá fjölmörgum stöðvum hvaðanæva að. Mælistaðir á Íslandi eru auðvitað aðeins dropi í því hafi og hafa lítið forsagnargildi um meðaltalið þó að það kunni að vera rétt að þeir gefi að einhverju leyti aðra mynd. Villan sem hér um ræðir er reyndar skyld þeirri þekktu rökfræðivillu að álykta frá einu tilviki til miklu stærri heildar (hundurinn sem ég þekki geltir að bílum, þess vegna hlýtur það að eiga við um alla hunda).
Eftir þennan inngang snúum við okkur nú að spurningunni sjálfri, um hlýnun á Íslandi. Um hana hefur nýlega verið skrifuð rækileg skýrsla með heitinu Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Höfundar hennar eru valinkunnir vísindamenn á þeim fræðasviðum sem mest koma við sögu í umræðunni um loftslagsbreytingar.[1]
Skýrslan fjallar um fjölmargar hliðar á hlýnun jarðar eins og hún birtist (eða birtist ekki) hér á landi. Þannig er þar bæði rætt um beinar veðurfarsbreytingar og um ýmsar afleiðingar þeirra í fyrirbærum eins og hopun jökla, vatnafari, sjávarstöðu, súrnun sjávar og ástandi hans yfirleitt, breytingum á lífríki í sjó og á landi, á ræktarlandi og landbúnaði, innviðum og atvinnuvegum, náttúruvá og heilbrigðismálum.
Í skýrslunni er meðal annars sýnt kort af jörðinni sem lýsir því hvernig meðalhiti við yfirborð jarðar hefur breyst á hinum ýmsu svæðum jarðar á tímabilinu 1900-2012. Meðalbreytingin fyrir jörðina sem heild á þessu tímabili er um 0,8-1,0°C (gráður á Celsíus) en á einstökum svæðum er breytingin frá -0,4° (lækkun um 0,4°) upp í 2,5°. Hlýnun á Íslandi hefur verið um 0,8° á öld á þessum tíma eða svipuð og hlýnunin á jörðinni sem heild. Hins vegar sýnir kortið á myndinni að suðvestur af Íslandi er eins konar ‚pollur‘ þar sem loftið yfir sjónum hefur kólnað lítillega, um allt að 0,4°C.
Kort af hitabreytingum í MLOST-gagnasafninu fyrir tímabilið 1901 til 2012. Hitabreytingin er reiknuð út frá hallatölu bestu línu gegnum gagnasafnið í hverjum reit. Gerð er krafa um að gögn séu til staðar fyrir a.m.k. 70% tímabilsins, og a.m.k. 20% tímans fyrstu og síðustu 11 árin.
Á bls. 9 segir um veðurfarsbreytingar á Íslandi:
Fram að miðbiki aldarinnar er líklegt að hlýni á landinu og hafsvæðinu umhverfis það og að árin 2046–2055 verði að meðaltali á bilinu 1,3–2,3°C hlýrri en árin 1986–2005.
Yfirleitt er gert ráð fyrir að úrkoma aukist með vaxandi lofthita, meðal annars af því að uppgufun vex frá hafi og landi og heitt loft rúmar meiri raka en kalt, frosið vatn losnar þegar jöklar bráðna og svo framvegis. Í ágripi skýrslunnar segir um þetta:
Meiri óvissa er um úrkomubreytingar en breytingar á hita en gera má ráð fyrir að úrkoma aukist um a.m.k. 1,5 % fyrir hverja gráðu sem hlýnar.
Íslenskir jöklar náðu hámarks útbreiðslu síðustu 10.000 ára nokkru fyrir aldamótin 1900. Á þessari öld hafa þeir dregist saman um 0,35% á ári að flatarmáli en rúmmál þeirra og efnismagn minnkar enn meira vegna þess að þeir þynnast um leið og flatarmálið minnkar. Þennan samdrátt má greinilega sjá á jöðrum jökla víða um land, en einnig til dæmis í breytingum á jökulám og á jaðarlónum. Ef svo heldur fram sem horfir um losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun hér á landi hverfa íslenskir jöklar með öllu á næstu öldum.
Sjávarstaða mun væntanlega hækka yfirleitt við Ísland eins og annars staðar. Á svæðinu kringum Vatnajökul kemur þó á móti að landið undir honum og kringum hann rís þegar fargið frá jöklinum minnkar. Landris kringum jökulinn er talið verða allt að 2 metrum meira en sjávarborðshækkunin á þessari öld.
Einn af fylgifiskum aukins koltvíoxíðs í lofti og vatni er súrnun sjávar. Líklegt er talið að neikvæð áhrif súrnunar á lífríki og vistkerfi sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en að jafnaði í heimshöfunum.
Myndir af tungu Skálafellsjökuls 1989 (t.v.) og 2019 (t.h) sýna vel hvernig jökullinn hefur breyst á 30 ára tímabili.
Ýmsar breytingar á eðlis- og efnafræðilegum skilyrðum í sjó, svo sem hita, seltu og straumum, hafa haft veruleg áhrif á vistkerfi sjávar hér við land á undanförnum áratugum. Líklegt er að þessi atriði skýri að hluta breytingar í stofnstærð og útbreiðslu sumra uppsjávarfiska, einkum loðnu, makríls og sandsílis. Einnig hafa stofnar suðlægari þorskfiska eins og ýsu, spærlings og lýsu stækkað og útbreiðslusvæði þeirra hliðrast til norðurs. Þorskstofninn hefur á hinn bóginn fyrst og fremst stækkað með hlýnuninni en ekki færst til, þannig að svo virðist sem hann sé hér á kjörsvæði sínu og ráði vel við umhverfisbreytingar.
Gera má ráð fyrir að lífverur, bæði á sjó og landi, verði bæði fyrir áhrifum af auknum koltvísýringi í lofthjúp og sjó, og einnig beinum áhrifum af hlýnuninni. Þetta er raunar greinilegast í plöntum því að þær nýta sér koltvísýringinn til vaxtar. En þegar á heildina er litið verka gróðurhúsaáhrif á hinar ýmsu plöntur flórunnar með ýmsu móti. Sumar þeirra mæta hlýnuninni með því að færa sig til svæða sem áður voru kaldari, annað hvort til norðurs eða hærra í landinu.
Ýmsar nýjar fuglategundir hafa numið land á Íslandi í skjóli hlýnunarinnar, en aðrar hafa fært sig til norðlægari landa, til dæmis haftyrðillinn sem hætti að verpa í Grímsey eins og hann gerði áður. Aðrir sjófuglar hafa einnig látið undan síga hér á landi og það kann síðan að fækka refunum sem lifa á þeim.
Haftyrðill (Alle alle) verpti í Grímsey en er nú horfinn úr tölu íslenskra varpfugla.
Að því er varðar nytjað land sýna rannsóknir að vaxtartími úthaga færist fram um 16 daga fyrir hverja gráðu sem meðalhiti jarðvegs og lofts hækkar. Gróska og beitarþol úthaga eykst að sama skapi. Tilraunir með kornuppskeru sýna að hún er stórum meiri í hlýjum árum en köldum. Flatarmál birkiskóga og -kjarrs jókst hér á landi um 9% með sjálfsáningu frá 1989, og kemur það heim við aukningu skóga víða á Norðurskautssvæðinu. Þó að hlýnunin hafi ýmsar afleiðingar sem verða að teljast jákvæðar fyrir landbúnað eru jafnframt blikur á lofti um nokkur atriði, eins og til dæmis aukna þurrka á vaxtartíma, fleiri skordýraplágur, óvenju stóra gróðurelda og aukna tíðni óveðurs.
Hlýnun mun hafa margvísleg áhrif á innviði og atvinnuvegi hér á landi, og eru sum þeirra þegar sýnileg þegar þetta er skrifað í ágústbyrjun 2020. Hækkuð sjávarstaða og tíðari stórrigningar gera til dæmis auknar kröfur til fráveitukerfa. Sumar aðrar þjóðir hafa þegar brugðist við þessu en hér vantar meðal annars gögn til þess. Talið er að þörf fyrir heitt vatn til hitunar minnki um 5% fyrir hverja gráðu sem lofthitinn vex, miðað við óbreyttan hita í húsum. Á hinn bóginn eykst þörfin fyrir raforku, meðal annars vegna rafvæðingar í samgöngum, og þarf þá einnig að breyta dreifikerfi og stýra álagi með verðlagningu og breyttum viðhorfum. Vatnsafl í ám mun aukast meðan jöklar landsins bráðna og minnka, og einnig vegna aukinnar ofankomu, en ef menn vilja fullnýta þá aukningu í vatnsorku þarf að efla orkuverin.
En hlýnun hér á landi og áhrif hennar mótast ekki eingöngu af staðbundinni hlýnun og umhverfisbreytingum hér, heldur einnig af sams konar breytingum um allan heim. Milljónir manna á þeim svæðum sem verða verst úti í hlýnuninni munu sækjast eftir að flytjast búferlum til hagfelldari svæða. Þetta á til dæmis við um íbúa landanna kringum Miðjarðarhafið sem leita nú þegar einarðlega til Norður-Evrópu og Norður-Asíu, þar á meðal til Íslands, enda batna búsetuskilyrði á þessum norðlægari slóðum um leið og þau versna sunnar. Alkunna er að þetta er þegar verulegt vandamál í þessum töluðum orðum.
Hlýnun lofts, lagar og lands veldur margvíslegum truflunum í náttúrunni og í lífi manna. Flestar þeirra orka til tjóns eða erfiðrar röskunar, að minnsta kosti meðan þær ganga yfir. Það á ekki síst við um ýmiss konar náttúruvá sem getur orðið bæði öflugri og tíðari. Hér á landi má nefna til dæmis jökulhlaup, flóð frá jaðarlónum, ofanflóð, skriðuföll, gróðurelda, sjávarflóð og aftakaveður.
Til að mæta þessum margvíslegu truflunum í náttúru og í mannheimi verður þörf á verulega aukinni þekkingu á fyrirbærunum sem um ræðir, hegðun þeirra hingað til og líklegri hegðun framvegis. Því miður hafa þessi atriði yfirleitt ekki verið rannsökuð sem skyldi og er því brýnt að bæta úr því.
Tilvísun:
^ Höfundar skýrslu um loftslagsbreytingar eru Halldór Björnsson loftslagsfræðingur á Veðurstofu Íslands, formaður hópsins, Bjarni D. Sigurðsson prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Jón Ólafsson fyrrum prófessor í hafefnafræði við HÍ, Ólafur S. Ástþórsson fyrrum fiskifræðingur við Hafrannsóknastofnun, Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur, Trausti Baldursson líffræðingur við Náttúrufræðistofnun og Trausti Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofunni.
Nokkrar heimildir og lesefni:
Edvarð Julius Sólnes, 2019. Global Warming: Cause – Effect – Mitigation. [Rafbók og á pappír].
Halldór Björnsson, 2008. Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Skálafellsjökull: Myndin frá 1989 er úr safni Landmælinga Íslands og sú nýrri er tekin með dróna. Kieran Baxter vann myndirnar og veitti góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þeirra á Vísindavefnum. Þær hafa einnig birst í: Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Náttúrustofa Suðausturlands. (2020). Yfirlit um íslenska jökla í árslok 2019. Fréttabréf.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver eru talin vera áhrif hlýnunar jarðar á veðurfar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2021, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74657.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2021, 13. janúar). Hver eru talin vera áhrif hlýnunar jarðar á veðurfar á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74657
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver eru talin vera áhrif hlýnunar jarðar á veðurfar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2021. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74657>.