Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:49 • Sest 15:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:06 • Síðdegis: 23:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:41 • Síðdegis: 17:31 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hvernig komst fólk til útlanda árið 1918?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Aðeins ein flutningaleið var frá Íslandi til útlanda, sú eina sem hafði verið frá upphafi Íslandsbyggðar, að sigla á skipi. Á tímum danskrar einokunarverslunar önnuðust verslanirnar allar samgöngur milli Danmerkur og Íslands. En þegar einokunin var afnumin, árið 1787, skipulögðu dönsk stjórnvöld svokallaðar póstskipaferðir milli landanna til að tryggja að ríkið héldi sambandi við hjálendu sína norður í Atlantshafi. Framan af var siglt á vélarlausum seglskipum sem voru oft um tvær til þrjár vikur á leiðinni eftir því hvernig vindurinn blés, en upp úr miðri 19. öld var skipt yfir í gufuknúin skip sem fóru leiðina oftast á um það bil viku. Þótt áætlunarferðirnar væru kenndar við póstflutninga voru þær einkum vöruflutningar, en skipin tóku þó jafnan farþega jafnframt.

Skonnortan Ása í eigu H.P.Duus-verslunar.

Upphaflega var aðeins farin ein ferð á ári milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur, en smám saman fjölgaði þeim, upp í þrjár árið 1852, sex 1858 og tólf 1883, stundum með viðkomu á stöðum sem voru ekki langt frá leið skipanna. Þá hafði Ísland fengið sérstakan landssjóð með svokölluðum stöðulögum 1871 og stjórnarskrá 1874, og tók hann þátt í því ásamt ríkissjóði Dana að styrkja einkaaðila til að annast þessar ferðir, lengst af danskt félag sem hét Sameinaða gufuskipafélagið. Ekki gengu samningar um það efni alltaf greiðlega. Þannig ákvað Alþingi árið 1887 að lækka framlag landssjóðs um helming, úr 18.000 krónum í 9.000. Félagið svaraði með því að fækka ferðunum niður í átta á ári. Var þá stutt í að styrkurinn væri hækkaður aftur. Og haldið var áfram að fjölga ferðunum. Árið 1897 var samið um að farnar skyldu 18 ferðir á ári með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum og Leith í Skotlandi.

Í framhaldi af sífelldu samningastappi um siglingarnar kom upp sú hugmynd að Íslendingar þyrftu að eignast sitt eigið skipafélag, og var safnað til þess fé meðal almennings, jafnvel Vestur-Íslendinga sem höfðu flust úr landi til Ameríku. Í janúar 1914 var Eimskipafélag Íslands svo stofnað með nægilegu fé til að kaupa tvö skip fremur en eitt, og voru þau afhent félaginu árið eftir. Hluthafar voru um 15.000 í upphafi. Þetta nýja félag var gjarnan kallað „óskabarn þjóðarinnar“, og hafa líklega margir talið víst að það tæki að sér áætlunarferðirnar til Danmerkur í framtíðinni. En úr því varð ekki vegna þess að þær urðu úreltar á árunum eftir stofnun félagsins.

Gullfoss, fyrsta skip Eimskipafélags Íslands.

Næstu ár fyrir 1918 var mikil óreiða á þessum ferðum vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri sem geisaði í Evrópu á árunum 1914–18. Þótt hvorki Danmörk né Ísland væru aðilar að styrjöldinni eða væru hernumin af styrjaldaraðila voru siglingar yfir Norður-Atlantshaf hindraðar að verulegu leyti vegna kafbátahernaðar og annars ófriðar, og Íslendingar tóku upp verslunarsambönd við Norður-Ameríku. Fór svo að skip Eimskipafélagsins voru aðallega í siglingum til New York á síðustu árum stríðsins. En stríðinu lauk með vopnahléi 11. nóvember 1918, og verslunarsambönd við Evrópulönd voru tengd á ný. Árið 1921 fóru skip Eimskipafélagsins 20 ferðir frá Reykjavík til útlanda, þar af 16 til Kaupmannahafnar og fjórar til New York. Auk þessa sigldu jafnan skip á vegum verslana til Íslands. Árið 1915, áður en tók að draga úr siglingum vegna stríðsins, komu skip 514 sinnum frá útlöndum á íslenskar hafnir. Árið 1918 voru skipakomur til Íslands taldar 190, en strax árið eftir, fyrsta heila friðarárið, 316. Ekki er vitað hve margir fóru milli Íslands og annarra landa á þessum tíma, ekki fyrr en þremur áratugum síðar, árið 1947. En þá voru þeir 8.220 og komu 3.512 með skipum en 4.708 með flugvélum. Þar af voru Íslendingar 3.831 en útlendingar 4.389.

Auðvitað áttu ekki allir sem vildu ferðast til útlanda heima í Reykjavík. Úr öðrum byggðarlögum var hægt að fara þangað til skips á hestum, og kannski var það að jafnaði fljótlegasti ferðamátinn allan tímann áður en bílar fóru að tíðkast, og sá auðveldasti ef ekki var farið með mikinn farangur. En árið 1876 var tekið að skipuleggja svokallaðar strandferðir umhverfis landið með viðkomu á helstu höfnum. Lengst af annaðist Sameinaða gufuskipafélagið þessar ferðir eins og millilandasiglingarnar, þó ekki alltaf. Til er lýsing á strandferð sumarið 1918. Þá voru þær farnar á skipi sem landssjóður Íslands hafði keypt frá Svíþjóð og hét Sterling. Komið var við á 28 stöðum, og tók hringferðin 17 daga yfir hásumarið. Í fimmtu ferð skipsins þetta ár var lagt af stað frá Reykjavík 7. júlí og siglt vestur um landið. Hringnum var lokað með komu til Reykjavíkur 23. júlí. Í sjöttu ferðina var lagt af stað 29. júlí og siglt austur um landið í það skiptið.

Gufuskipið Ísland í eigu Sameinaða Gufuskipafélagsins á Pollinum á Ísafirði.

Gufuskip voru farartæki Íslendinga í utanlandsferðum fram yfir lok síðari heimsstyrjaldar. Að vísu var stofnað Flugfélag Íslands strax árið 1919, og komu nokkrir af frumkvöðlum Eimskipafélagsins þar við sögu. En það komst aldrei svo langt að efna til flugferða til útlanda og var lagt niður strax árið eftir. En í lok síðari heimsstyrjaldar, 1945, var fyrst stofnað lífvænlegt flugfélag, sem hét líka Flugfélag Íslands, og átti Eimskipafélagið stóran hlut í því. Þannig tengjast gufuskipaöld og flugöld í sögu Íslendinga.

Heimildir og myndir:

 • Guðmundur Magnússon: Eimskip frá upphafi til nútíma. Reykjavík, Eimskipafélag Íslands, 1998.
 • Guðni Jónsson: Eimskipafélag Íslands tuttugu og fimm ára. Reykjavík, Eimskipafélag Íslands, 1939.
 • Gunnar Þór Bjarnason: Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Reykjavík, Sögufélag, 2018.
 • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
 • Helgi Skúli Kjartansson, Halldór Bjarnason, Guðmundur Jónsson: Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010. II. Ritstjóri Sumarliði R. Ísleifsson. Reykjavík, Háskóli Íslands, Skrudda, 2017.
 • Saga Íslands X. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2009 („Siglingar“ bls. 72–74).
 • Skonnortan Ása í eigu H.P.Duus-verslunar, 1900-1920 | Flickr. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson. (Sótt 4. 12. 2018).
 • Gullfoss: Ljósmyndasafnið Ísafirði. (Sótt 4. 12. 2018).
 • Ísland: Ljósmyndasafnið Ísafirði. (Sótt 4. 12. 2018).

Spurningu Eyrúnar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

10.12.2018

Spyrjandi

Eyrún Þ.

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig komst fólk til útlanda árið 1918?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2018. Sótt 4. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=75847.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2018, 10. desember). Hvernig komst fólk til útlanda árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75847

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig komst fólk til útlanda árið 1918?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2018. Vefsíða. 4. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75847>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig komst fólk til útlanda árið 1918?
Aðeins ein flutningaleið var frá Íslandi til útlanda, sú eina sem hafði verið frá upphafi Íslandsbyggðar, að sigla á skipi. Á tímum danskrar einokunarverslunar önnuðust verslanirnar allar samgöngur milli Danmerkur og Íslands. En þegar einokunin var afnumin, árið 1787, skipulögðu dönsk stjórnvöld svokallaðar póstskipaferðir milli landanna til að tryggja að ríkið héldi sambandi við hjálendu sína norður í Atlantshafi. Framan af var siglt á vélarlausum seglskipum sem voru oft um tvær til þrjár vikur á leiðinni eftir því hvernig vindurinn blés, en upp úr miðri 19. öld var skipt yfir í gufuknúin skip sem fóru leiðina oftast á um það bil viku. Þótt áætlunarferðirnar væru kenndar við póstflutninga voru þær einkum vöruflutningar, en skipin tóku þó jafnan farþega jafnframt.

Skonnortan Ása í eigu H.P.Duus-verslunar.

Upphaflega var aðeins farin ein ferð á ári milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur, en smám saman fjölgaði þeim, upp í þrjár árið 1852, sex 1858 og tólf 1883, stundum með viðkomu á stöðum sem voru ekki langt frá leið skipanna. Þá hafði Ísland fengið sérstakan landssjóð með svokölluðum stöðulögum 1871 og stjórnarskrá 1874, og tók hann þátt í því ásamt ríkissjóði Dana að styrkja einkaaðila til að annast þessar ferðir, lengst af danskt félag sem hét Sameinaða gufuskipafélagið. Ekki gengu samningar um það efni alltaf greiðlega. Þannig ákvað Alþingi árið 1887 að lækka framlag landssjóðs um helming, úr 18.000 krónum í 9.000. Félagið svaraði með því að fækka ferðunum niður í átta á ári. Var þá stutt í að styrkurinn væri hækkaður aftur. Og haldið var áfram að fjölga ferðunum. Árið 1897 var samið um að farnar skyldu 18 ferðir á ári með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum og Leith í Skotlandi.

Í framhaldi af sífelldu samningastappi um siglingarnar kom upp sú hugmynd að Íslendingar þyrftu að eignast sitt eigið skipafélag, og var safnað til þess fé meðal almennings, jafnvel Vestur-Íslendinga sem höfðu flust úr landi til Ameríku. Í janúar 1914 var Eimskipafélag Íslands svo stofnað með nægilegu fé til að kaupa tvö skip fremur en eitt, og voru þau afhent félaginu árið eftir. Hluthafar voru um 15.000 í upphafi. Þetta nýja félag var gjarnan kallað „óskabarn þjóðarinnar“, og hafa líklega margir talið víst að það tæki að sér áætlunarferðirnar til Danmerkur í framtíðinni. En úr því varð ekki vegna þess að þær urðu úreltar á árunum eftir stofnun félagsins.

Gullfoss, fyrsta skip Eimskipafélags Íslands.

Næstu ár fyrir 1918 var mikil óreiða á þessum ferðum vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri sem geisaði í Evrópu á árunum 1914–18. Þótt hvorki Danmörk né Ísland væru aðilar að styrjöldinni eða væru hernumin af styrjaldaraðila voru siglingar yfir Norður-Atlantshaf hindraðar að verulegu leyti vegna kafbátahernaðar og annars ófriðar, og Íslendingar tóku upp verslunarsambönd við Norður-Ameríku. Fór svo að skip Eimskipafélagsins voru aðallega í siglingum til New York á síðustu árum stríðsins. En stríðinu lauk með vopnahléi 11. nóvember 1918, og verslunarsambönd við Evrópulönd voru tengd á ný. Árið 1921 fóru skip Eimskipafélagsins 20 ferðir frá Reykjavík til útlanda, þar af 16 til Kaupmannahafnar og fjórar til New York. Auk þessa sigldu jafnan skip á vegum verslana til Íslands. Árið 1915, áður en tók að draga úr siglingum vegna stríðsins, komu skip 514 sinnum frá útlöndum á íslenskar hafnir. Árið 1918 voru skipakomur til Íslands taldar 190, en strax árið eftir, fyrsta heila friðarárið, 316. Ekki er vitað hve margir fóru milli Íslands og annarra landa á þessum tíma, ekki fyrr en þremur áratugum síðar, árið 1947. En þá voru þeir 8.220 og komu 3.512 með skipum en 4.708 með flugvélum. Þar af voru Íslendingar 3.831 en útlendingar 4.389.

Auðvitað áttu ekki allir sem vildu ferðast til útlanda heima í Reykjavík. Úr öðrum byggðarlögum var hægt að fara þangað til skips á hestum, og kannski var það að jafnaði fljótlegasti ferðamátinn allan tímann áður en bílar fóru að tíðkast, og sá auðveldasti ef ekki var farið með mikinn farangur. En árið 1876 var tekið að skipuleggja svokallaðar strandferðir umhverfis landið með viðkomu á helstu höfnum. Lengst af annaðist Sameinaða gufuskipafélagið þessar ferðir eins og millilandasiglingarnar, þó ekki alltaf. Til er lýsing á strandferð sumarið 1918. Þá voru þær farnar á skipi sem landssjóður Íslands hafði keypt frá Svíþjóð og hét Sterling. Komið var við á 28 stöðum, og tók hringferðin 17 daga yfir hásumarið. Í fimmtu ferð skipsins þetta ár var lagt af stað frá Reykjavík 7. júlí og siglt vestur um landið. Hringnum var lokað með komu til Reykjavíkur 23. júlí. Í sjöttu ferðina var lagt af stað 29. júlí og siglt austur um landið í það skiptið.

Gufuskipið Ísland í eigu Sameinaða Gufuskipafélagsins á Pollinum á Ísafirði.

Gufuskip voru farartæki Íslendinga í utanlandsferðum fram yfir lok síðari heimsstyrjaldar. Að vísu var stofnað Flugfélag Íslands strax árið 1919, og komu nokkrir af frumkvöðlum Eimskipafélagsins þar við sögu. En það komst aldrei svo langt að efna til flugferða til útlanda og var lagt niður strax árið eftir. En í lok síðari heimsstyrjaldar, 1945, var fyrst stofnað lífvænlegt flugfélag, sem hét líka Flugfélag Íslands, og átti Eimskipafélagið stóran hlut í því. Þannig tengjast gufuskipaöld og flugöld í sögu Íslendinga.

Heimildir og myndir:

 • Guðmundur Magnússon: Eimskip frá upphafi til nútíma. Reykjavík, Eimskipafélag Íslands, 1998.
 • Guðni Jónsson: Eimskipafélag Íslands tuttugu og fimm ára. Reykjavík, Eimskipafélag Íslands, 1939.
 • Gunnar Þór Bjarnason: Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Reykjavík, Sögufélag, 2018.
 • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
 • Helgi Skúli Kjartansson, Halldór Bjarnason, Guðmundur Jónsson: Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010. II. Ritstjóri Sumarliði R. Ísleifsson. Reykjavík, Háskóli Íslands, Skrudda, 2017.
 • Saga Íslands X. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2009 („Siglingar“ bls. 72–74).
 • Skonnortan Ása í eigu H.P.Duus-verslunar, 1900-1920 | Flickr. Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson. (Sótt 4. 12. 2018).
 • Gullfoss: Ljósmyndasafnið Ísafirði. (Sótt 4. 12. 2018).
 • Ísland: Ljósmyndasafnið Ísafirði. (Sótt 4. 12. 2018).

Spurningu Eyrúnar er hér svarað að hluta.

...