Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Væri hægt að einkavæða þjóðkirkjuna á sama hátt og talað hefur verið um að einkavæða heilbrigðiskerfið?
Ekki er ljóst af spurningunni hvaða skilning fyrirspyrjandi leggur í hugtakið einkavæðing nema hvað vísað er til umræðu um að einkavæða heilbrigðiskerfið. Þegar einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið til umræðu hefur alla jafna verið rætt um tilflutning verkefna frá hinu opinbera kerfi til einkarekinna fyrirtækja eða fyrirtækja sem rekin eru sem sjálfseignarstofnanir. Ekki hefur komið til tals að selja einstakar einingar eins og gert var þegar Landsbanki Íslands og Búnaðarbankinn voru einkavæddir eða þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru einkavæddar.
Einkavæðing af því tagi þar sem verkefni þjóðkirkjunnar væru falin sjálfseignastofnun eða hlutafélögum í eigu einstaklinga eða hóps einstaklinga er vel framkvæmanleg. Slík framkvæmd myndi að sjálfsögðu kalla á margháttaðar lagabreytingar og jafnvel breytingu á stjórnarskrá (sbr. 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands).
Fram að siðaskiptum var kirkjan einn stærsti landeigandi landsins. Á myndinni sést Ásólfsskálakirkja í Skálakrók.
Fram að siðaskiptum var kirkjan einn stærsti landeigandi landsins. Ríkisvaldið (konungur) lagði hald á allar eignir klaustranna við siðaskiptin. Eignarhald á prestsetursjörðum og öðrum jörðum í eigu kirkna og biskupsstóla breyttist ekki. Um 1800, við sameiningu biskupsstóla og flutning til Reykjavíkur, voru eignir biskupsstólanna fluttar undir krúnuna. Árið 1907 var gerður samningur milli ríkis og kirkju sem fól í sér að umsjón kirkjueigna, umsjón kirkjugarða og innheimta sóknargjalda yrði á hendi ríkisins. Ríkið skyldi sjá um að greiða prestum laun, en tekjur einstakra presta höfðu áður ráðist af rekstri þeirrar jarðar er þeir sátu. Samningurinn var endurnýjaður 1997. Þá eignaðist ríkið allar kirkjujarðir aðrar en prestsetursjarðir. Á móti skyldi ríkið greiða kostnað við rekstur biskupsstofu, þar með talin laun biskups, einnig laun ákveðins fjölda presta. Kirkjuþing fékk löggjafarvald í kirkjumálum en það hafði áður legið hjá Alþingi. Þjóðkirkjan hefur því umtalsvert sjálfstæði varðandi ráðstöfun eigin mála.
Í Svíþjóð voru ríki og kirkja aðskilin árið 2000 með gagnkvæmu samþykki beggja aðila. Þetta mætti vel gera hér á landi. En áður en til þess kæmi þyrfti að gera ítarlegan „aðskilnaðarsamning“ milli ríkis og kirkju þar sem ýmis atriði samninganna frá 1907 og 1997 væru tekin upp. Ef laun presta yrðu ekki lengur greidd úr ríkissjóði þyrfti ríkissjóður væntanlega að bæta kirkjunni það tekjutap með einhverjum hætti. Einhverjum þætti ef til vill liggja beinast við að afhenda kirkjunni jarðeignir sínar aftur. Á því eru þó allnokkrir meinbugir, meðal annars vegna breyttrar notkunar margra þeirra eigna og vegna þess að verðmæti annarra hefur stórhrakað frá því fyrsti samningurinn var gerður. Samningar ríkis og kirkju frá 1907 og 1997 fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs sem hann þarf að standa við með eingreiðslu eða með árlegu framlagi. Fullkominn aðskilnaður ríkis og kirkju myndi því fyrst og fremst vera táknrænn gjörningur. Í því sambandi er þó rétt að hafa í huga að tákn (trúartákn) skipa ríkan sess í öllum trúariðkunum.
Höfundur þakkar Pétri Péturssyni, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, fyrir yfirlestur og aðstoð við upplýsingaöflun.
Mynd:
Þórólfur Matthíasson. „Væri hægt að einkavæða þjóðkirkjuna?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2019, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77065.
Þórólfur Matthíasson. (2019, 7. febrúar). Væri hægt að einkavæða þjóðkirkjuna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77065
Þórólfur Matthíasson. „Væri hægt að einkavæða þjóðkirkjuna?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2019. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77065>.