Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Eru einhverjar lífverur ónauðsynlegar fyrir jörðina?

Henry Alexander Henrysson

Vel er hægt að ímynda sér að margir eigi í handraðanum uppástungur af svari við þessari spurningu. Öll þekkjum við að hafa leitt hugann að því hvort heimurinn væri ekki bara betri staður ef ákveðin náttúruleg fyrirbæri væru ekki að flækjast fyrir okkur. Sum þeirra sjáum við reyndar ekki með berum augum en vitum af og finnst ógeðfellt að þau séu nálægt okkur. Rykmaurar gæti verið dæmi um það. Aðrar lífverur angra okkur þar sem þau geta skilið eftir ummerki eins og bit og útbrot. Sum okkar hafa svo bara þróað með sér óþol gagnvart lífverum og finnst þær asnalegar. Öðru hvoru hittir maður til dæmis fólk sem skilur ekki tilvist kjölturakka. Og þeir eru áreiðanlega margir vinnuskólanemarnir sem hafa leitt hugann að því hvers vegna í ósköpunum arfi sé til. Að lokum má nefna lífverur sem skapa hættu með tilveru sinni og eru hvimleiðar vegna þess. Moskítóflugur gætu fallið í þann flokk. Við höfum einnig verið dugleg við að eyða rándýrum úr umhverfi okkar í nafni öryggis. Sem betur fer hafa nú flestir gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir heilbrigð vistkerfi og að þau þjóni ákveðnum tilgangi.

Hvers vegna í ósköpunum er arfi til?

Spurningin ætti því að vera lögð fyrir vistfræðing geri ég ráð fyrir. Þau sem leggja stund á þá fræðigrein hafa á undanförnum áratugum lyft miklu grettistaki í að útskýra fyrir almenningi og stjórnvöldum hversu ótrúlega flókin vistkerfi eru og hvernig inngrip í þau geta haft skelfilegar afleiðingar. Það sem getur virst fyrir okkur vera fremur tilgangslaus hlekkur í slíkum kerfum getur átt sér gríðarlega mikilvægt hlutverk. Þróunarsaga slíkra kerfa er stórkostlegt fyrirbæri sem áhugi mannsins, hagsmunir og væntingar hafa lítið að segja um. En það getur einnig verið fróðlegt að greina þá nauðsyn og þann ónauðsynleika sem spurningin leggur út frá á meira heimspekilegan máta. Hér að neðan verður því leitast við að svara spurningunni með því að greina ólíkar gerðir nauðsynjar. Í grófum dráttum má til dæmis greina á milli þess hvort nauðsynin snúi að mannkyni eða náttúrulegum fyrirbærum öðrum en mönnum. Þá fyrri getum við kallað mannhverfa nauðsyn og þá seinni náttúruhverfa nauðsyn. Þegar spurt er um nauðsyn fyrir jörðina fer það nokkuð eftir því hvaða skilning við leggjum í hugtakið „jörðin“ og hver staða mannsins er á henni.

Augljósasta birtingarmynd mannhverfrar nauðsynjar er nokkurs konar nytjanauðsyn. Í tilviki hennar dæmum við náttúruleg fyrirbæri eftir því hver nytsemi þeirra er fyrir mannkyn. Hugtök sem tengjast þessari nauðsyn og við þekkjum eru til dæmis „fæðuöryggi“. Hvaða lífverur eru nauðsynlegar til að tryggja vöxt og viðgang mannkyns til framtíðar litið? Þetta viðhorf má til dæmis finna víða í náttúruvernd. Mikilvægustu rökin virðast stundum vera þau að við megum ekki glata nytjastofnum (eða fæðu nytjastofna). Þær tegundir sem við höfum minni not fyrir njóta takmarkaðri verndar eins og hægt að er sjá út frá þeim hrikalega fjölda dýra- og plöntutegunda sem hafa dáið út á undanförnum áratugum.

Svokölluð nautnanauðsyn kveður á um að náttúruupplifun sé öllum mönnum í blóð borin.

Örlítil fágaðri mannhverf sýn sem birtist í náttúruvernd leggur ekki sömu áherslu á grunnþarfir mannsins heldur horfir frekar til dýpri þarfa okkar eins og þeirrar að náttúrufegurð sé okkur nauðsynleg. Í þessu samhengi getum við kannski talað um nautnanauðsyn. Viðhorfið hér er að náttúruupplifun sé öllum mönnum í blóð borin og í þeim skilningi sé mikilvægt að horfa til þess að við glötum ekki dýra- eða plöntutegundum þar sem upplifun okkar á þeim sé okkur nauðsynleg. Sömu rök má svo einnig nota um náttúruleg fyrirbæri sem ekki teljast lífverur, eins og fjöll, dali, vötn og eyjar. Í náttúruvernd sjáum við útgáfur þessa viðhorfs til dæmis í því þeim rökum að ferðamennska minnki við fábreytilegra umhverfi og því sé nauðsynlegt fyrir nútíma samfélög (og hagkerfi) að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og óspillta náttúru.

Þau sem horfa fyrst og fremst til náttúrunnar sjálfrar þegar nauðsynin er skilgreind hafna flest þeim rökum sem hér hafa verið nefnd. Þau líta svo á að nytja- og nautnanauðsyn sé ekki til í raun og veru, en þess í stað eigi að horfa til þess hversu líffræðilegur fjölbreytileiki er nauðsynlegur fyrir lífverurnar sjálfar. Þetta viðhorf hafnar því, með öðrum orðum, að hagsmunir einnar tegundar (jafnvel mannsins) geti sagt fyrir um mikilvægi (nauðsyn) þess að tiltekin tegund lífvera þrífist. Dæmin sem hér eru rædd snúa yfirleitt að vistkerfum þar nauðsyn tegundar fyrir kerfið í heild sinni kemur berlega í ljós þegar ástand þess er skoðað. Dæmi um slíkt vistkerfi getur til dæmis verið Amasonfrumskógurinn sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið. Í raun kemur reyndar ónauðsynleiki stundum í ljós eins og þegar framandi tegundir hafa verið fluttar inn í kerfi af manninum. Því miður eru fjölmörg döpur dæmi til um slíka tilraunir þar sem engar náttúrulegar varnir hafa verið til staðar.

Sú lífvera sem skapar langsamlegasta mesta hættu fyrir aðrar lífverur á jörðinni er hins vegar maðurinn og í þeim skilningi er engin spurning að hann er ónauðsynlegasta lífvera jarðarinnar þegar horft er til heildarhagsmuna allra lífvera.

Ef við leggjum þann skilning í ónauðsynleika að þar sé átt við að lífvera skapi hættu fyrir aðrar – valdi tegundinni sem slíkri skaða – þá er líklega best að svara spurningunni þannig að fjöldi plöntu- og dýrategunda eigi ekki heima þar sem þær má þó finna í samtímanum. Þær kunna þó að eiga sér tilverurétt í sínum heimahögum. Sú lífvera sem skapar langsamlegasta mesta hættu fyrir aðrar lífverur á jörðinni er hins vegar maðurinn og í þeim skilningi er engin spurning að hann er ónauðsynlegasta lífvera jarðarinnar þegar horft er til heildarhagsmuna allra lífvera. En það merkir ekki að maðurinn eigi sér ekki tilvistarrétt. Hver veit nema hann styrki best þann rétt sinn með því að líta ekki svo á að öll nauðsyn eigi sér grundvöll í hans eigin tilvist og hagsmunum og geri sér betur grein fyrir og viðurkenni hversu tilfallandi og hverful tilvist hans í raun er.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

15.11.2019

Spyrjandi

Hákon Arnar Hilmarsson

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Eru einhverjar lífverur ónauðsynlegar fyrir jörðina?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2019. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78039.

Henry Alexander Henrysson. (2019, 15. nóvember). Eru einhverjar lífverur ónauðsynlegar fyrir jörðina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78039

Henry Alexander Henrysson. „Eru einhverjar lífverur ónauðsynlegar fyrir jörðina?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2019. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78039>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru einhverjar lífverur ónauðsynlegar fyrir jörðina?
Vel er hægt að ímynda sér að margir eigi í handraðanum uppástungur af svari við þessari spurningu. Öll þekkjum við að hafa leitt hugann að því hvort heimurinn væri ekki bara betri staður ef ákveðin náttúruleg fyrirbæri væru ekki að flækjast fyrir okkur. Sum þeirra sjáum við reyndar ekki með berum augum en vitum af og finnst ógeðfellt að þau séu nálægt okkur. Rykmaurar gæti verið dæmi um það. Aðrar lífverur angra okkur þar sem þau geta skilið eftir ummerki eins og bit og útbrot. Sum okkar hafa svo bara þróað með sér óþol gagnvart lífverum og finnst þær asnalegar. Öðru hvoru hittir maður til dæmis fólk sem skilur ekki tilvist kjölturakka. Og þeir eru áreiðanlega margir vinnuskólanemarnir sem hafa leitt hugann að því hvers vegna í ósköpunum arfi sé til. Að lokum má nefna lífverur sem skapa hættu með tilveru sinni og eru hvimleiðar vegna þess. Moskítóflugur gætu fallið í þann flokk. Við höfum einnig verið dugleg við að eyða rándýrum úr umhverfi okkar í nafni öryggis. Sem betur fer hafa nú flestir gert sér grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir heilbrigð vistkerfi og að þau þjóni ákveðnum tilgangi.

Hvers vegna í ósköpunum er arfi til?

Spurningin ætti því að vera lögð fyrir vistfræðing geri ég ráð fyrir. Þau sem leggja stund á þá fræðigrein hafa á undanförnum áratugum lyft miklu grettistaki í að útskýra fyrir almenningi og stjórnvöldum hversu ótrúlega flókin vistkerfi eru og hvernig inngrip í þau geta haft skelfilegar afleiðingar. Það sem getur virst fyrir okkur vera fremur tilgangslaus hlekkur í slíkum kerfum getur átt sér gríðarlega mikilvægt hlutverk. Þróunarsaga slíkra kerfa er stórkostlegt fyrirbæri sem áhugi mannsins, hagsmunir og væntingar hafa lítið að segja um. En það getur einnig verið fróðlegt að greina þá nauðsyn og þann ónauðsynleika sem spurningin leggur út frá á meira heimspekilegan máta. Hér að neðan verður því leitast við að svara spurningunni með því að greina ólíkar gerðir nauðsynjar. Í grófum dráttum má til dæmis greina á milli þess hvort nauðsynin snúi að mannkyni eða náttúrulegum fyrirbærum öðrum en mönnum. Þá fyrri getum við kallað mannhverfa nauðsyn og þá seinni náttúruhverfa nauðsyn. Þegar spurt er um nauðsyn fyrir jörðina fer það nokkuð eftir því hvaða skilning við leggjum í hugtakið „jörðin“ og hver staða mannsins er á henni.

Augljósasta birtingarmynd mannhverfrar nauðsynjar er nokkurs konar nytjanauðsyn. Í tilviki hennar dæmum við náttúruleg fyrirbæri eftir því hver nytsemi þeirra er fyrir mannkyn. Hugtök sem tengjast þessari nauðsyn og við þekkjum eru til dæmis „fæðuöryggi“. Hvaða lífverur eru nauðsynlegar til að tryggja vöxt og viðgang mannkyns til framtíðar litið? Þetta viðhorf má til dæmis finna víða í náttúruvernd. Mikilvægustu rökin virðast stundum vera þau að við megum ekki glata nytjastofnum (eða fæðu nytjastofna). Þær tegundir sem við höfum minni not fyrir njóta takmarkaðri verndar eins og hægt að er sjá út frá þeim hrikalega fjölda dýra- og plöntutegunda sem hafa dáið út á undanförnum áratugum.

Svokölluð nautnanauðsyn kveður á um að náttúruupplifun sé öllum mönnum í blóð borin.

Örlítil fágaðri mannhverf sýn sem birtist í náttúruvernd leggur ekki sömu áherslu á grunnþarfir mannsins heldur horfir frekar til dýpri þarfa okkar eins og þeirrar að náttúrufegurð sé okkur nauðsynleg. Í þessu samhengi getum við kannski talað um nautnanauðsyn. Viðhorfið hér er að náttúruupplifun sé öllum mönnum í blóð borin og í þeim skilningi sé mikilvægt að horfa til þess að við glötum ekki dýra- eða plöntutegundum þar sem upplifun okkar á þeim sé okkur nauðsynleg. Sömu rök má svo einnig nota um náttúruleg fyrirbæri sem ekki teljast lífverur, eins og fjöll, dali, vötn og eyjar. Í náttúruvernd sjáum við útgáfur þessa viðhorfs til dæmis í því þeim rökum að ferðamennska minnki við fábreytilegra umhverfi og því sé nauðsynlegt fyrir nútíma samfélög (og hagkerfi) að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og óspillta náttúru.

Þau sem horfa fyrst og fremst til náttúrunnar sjálfrar þegar nauðsynin er skilgreind hafna flest þeim rökum sem hér hafa verið nefnd. Þau líta svo á að nytja- og nautnanauðsyn sé ekki til í raun og veru, en þess í stað eigi að horfa til þess hversu líffræðilegur fjölbreytileiki er nauðsynlegur fyrir lífverurnar sjálfar. Þetta viðhorf hafnar því, með öðrum orðum, að hagsmunir einnar tegundar (jafnvel mannsins) geti sagt fyrir um mikilvægi (nauðsyn) þess að tiltekin tegund lífvera þrífist. Dæmin sem hér eru rædd snúa yfirleitt að vistkerfum þar nauðsyn tegundar fyrir kerfið í heild sinni kemur berlega í ljós þegar ástand þess er skoðað. Dæmi um slíkt vistkerfi getur til dæmis verið Amasonfrumskógurinn sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið. Í raun kemur reyndar ónauðsynleiki stundum í ljós eins og þegar framandi tegundir hafa verið fluttar inn í kerfi af manninum. Því miður eru fjölmörg döpur dæmi til um slíka tilraunir þar sem engar náttúrulegar varnir hafa verið til staðar.

Sú lífvera sem skapar langsamlegasta mesta hættu fyrir aðrar lífverur á jörðinni er hins vegar maðurinn og í þeim skilningi er engin spurning að hann er ónauðsynlegasta lífvera jarðarinnar þegar horft er til heildarhagsmuna allra lífvera.

Ef við leggjum þann skilning í ónauðsynleika að þar sé átt við að lífvera skapi hættu fyrir aðrar – valdi tegundinni sem slíkri skaða – þá er líklega best að svara spurningunni þannig að fjöldi plöntu- og dýrategunda eigi ekki heima þar sem þær má þó finna í samtímanum. Þær kunna þó að eiga sér tilverurétt í sínum heimahögum. Sú lífvera sem skapar langsamlegasta mesta hættu fyrir aðrar lífverur á jörðinni er hins vegar maðurinn og í þeim skilningi er engin spurning að hann er ónauðsynlegasta lífvera jarðarinnar þegar horft er til heildarhagsmuna allra lífvera. En það merkir ekki að maðurinn eigi sér ekki tilvistarrétt. Hver veit nema hann styrki best þann rétt sinn með því að líta ekki svo á að öll nauðsyn eigi sér grundvöll í hans eigin tilvist og hagsmunum og geri sér betur grein fyrir og viðurkenni hversu tilfallandi og hverful tilvist hans í raun er.

Myndir:...