Sólin Sólin Rís 08:57 • sest 18:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:39 • Sest 09:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:01 • Síðdegis: 12:30 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvað lifir nýja kórónuveiran lengi utan líkamans?

Jón Magnús Jóhannesson

Veirur dreifast með margvíslegum hætti, þar á meðal með hlutum í umhverfinu. Veiran SARS-CoV-2, sem veldur COVID-19, er í fjölskyldu kórónuveira (e. Coronaviridae). Þær eiga það allar sameiginlegt að samanstanda af erfðaefni (búið til úr RNA eða ribonucleic acid), prótínum sem verja erfðaefnið og hjúp sem umlykur hvort tveggja. Kórónuveirur eru þess vegna það sem kallast hjúpaðar veirur.

Einföld skýringarmynd af hjúpaðri veiru.

Smitleið SARS-CoV-2 virðist fyrst og fremst vera með dropa- og snertismiti. Veiran dreifist þannig með þungum dropum sem falla vegna þyngdarkrafts. Þetta getur meðal annars gerst þegar einhver hnerrar eða hóstar og dropar berast á okkur eða hluti í umhverfinu. Ef einstaklingur snertir hlut sem veiran hefur dreift sér á getur hann borið veiruna áfram til annarra eða smitað sjálfan sig með snertingu við munn, nef eða augu.[1]

Hjúpaðar veirur eru almennt viðkvæmar fyrir áreiti og geta sótthreinsiefni rofið hjúpinn án vandræða og við það verða veirurnar óvirkar. Þessar veirur geta þó verið virkar mislengi utan líkamans, sumar þola varla nokkrar sekúndur utan hans en aðrar eru virkar svo mánuðum skiptir, en það fer þó meðal annars eftir staðsetningu. Fyrri rannsóknir benda til þess að þrátt fyrir hjúpinn séu kórónuveirur óvenjuþolnar í umhverfinu og geti lifað þar í dágóðan tíma. Hvort veirur séu lifandi eða ekki[2] er önnur og mjög fróðleg umræða, en hér eftir verður til einföldunar notast við orð og hugtök sem tengjast lífi.[3]

Í ljósi þess að SARS-CoV-2 er glæný veira er skynsamlegasta fyrsta skrefið að spyrja: Hvað vitum við almennt um kórónuveirur og hversu lengi þær lifa utan líkamans? Kampf og félagar reyndu að komast að þessu með kerfisbundinni leit að rannsóknum um þetta efni. Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar með mismunandi aðferðum og gerðum kórónuveira.[4] Almennt virðast kórónuveirur geta lifað frá tveimur klukkustundum upp í níu daga á mismunandi yfirborði og frekar í köldum aðstæðum. Þær virðast lifa lengur á stáli og plasti en skemur á áli og pappír. Lítil gögn liggja fyrir um rakastig en ein rannsókn sýndi að meiri raki lengdi lifunartíma vissrar kórónuveiru á yfirborðum.[5]

Hins vegar þýðir þetta ekki að ofangreindir eiginleikar eigi við um SARS-CoV-2 - því rannsökuðu Doremalen og félagar þetta sérstaklega með því að skoða lifunartíma veirunnar, annars vegar á mismunandi yfirborði (pappi, plast, ryðfrítt stál, kopar) og í úða. Veiran getur lifað í allt að þrjá daga á plasti og ryðfríu stáli, þó magn veirunnar fari hratt minnkandi milli daga. Veiran nær hins vegar ekki að lifa lengur en fjórar klukkustundir á kopar. Erfiðara var að meta líftíma á pappa en þar virðist veiran ná að lifa í að minnsta kosti sólarhring. Úði var einnig myndaður með sérstöku úðatæki og honum haldið á lofti í svokallaðri Goldberg-tromlu, en það eru staðlaðar rannsóknaraðstæður. Í úðanum lifði veiran í að minnsta kosti þrjár klukkustundir.[6]

Lituð rafeindasmásjármynd af SARS-CoV-2-veirum.

Þrátt fyrir að rannsókn Doremalen og félaga hafi sýnt fram á að veiran geti lifað í úða í rannsóknaraðstæðum er það ekki jafngilt því að hún smitist þannig. Úði (e. aerosol) er samansafn einda í föstu formi eða vökvaformi sem haldast uppi í lofti og falla ekki strax til jarðar. Úði getur myndast til dæmis við hnerra eða hósta. Sýnt var fram á að veiran getur lifað í vissum úða við staðlaðar aðstæður en annað mál er hvort þetta líki nægilega vel eftir raunverulegum aðstæðum. Um þetta ríkir óvissa en talið er mjög ólíklegt að úði sé áberandi smitleið SARS-CoV-2. Hins vegar ætti að hafa varann á við allar aðstæður þar sem úði myndast í miklu magni (til dæmis í barkaþræðingu eða notkun ytri öndunarvélar).[7]

Það er mikilvægt að árétta að þó veira sé lifandi þýðir það ekki að hún sé smitandi. Til að smitast af vissri veiru þarf í öllum tilvikum tiltekið magn veirunnar að vera til staðar. Í þessu sambandi er talað um smitandi magn (e. infectious dose) og það getur verið mismunandi eftir aldri einstaklinga, áhættuhópum og fleiru. Reynt var að áætla í ofangreindri rannsókn smitandi magn veirunnar SARS-CoV-2 en það er enn á reiki. Þannig getur veira fundist lifandi á yfirborði en ekki verið í nægilegu magni til að smita.[8]

Hvað er hægt að læra af öllu þessu? Fyrst og fremst þrennt:
 1. Hósta og hnerra í olnbogabót/klút!
 2. Þvo hendur oft og reglulega!
 3. Spritt dugar til að hreinsa yfirborð!

Tilvísanir:
 1. ^ Sjá heimild 2 og 3.
 2. ^ Sjá: Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama?
 3. ^ Sjá heimild 1 og 4.
 4. ^ Sjá heimild 6 og 7.
 5. ^ Sjá heimild 1.
 6. ^ Sjá heimild 2.
 7. ^ Sjá heimild 5.
 8. ^ Sjá heimild 2.

Heimildir:

 1. Kampf, G., o.fl. (2020). Persistence of coronaviruses on inanimate surfaces and their inactivation with biocidal agents. Journal of Hospital Infection, 104, 246-251. (Sótt 03.04.2020).
 2. von Doremalen, N. o.fl. (2020). Aerosol and Surface Stability of SARS-CoV-2 as Compared with SARS-CoV-1. The New England Journal of Medicine. (Sótt 03.04.2020).
 3. Gorbalenya, A.E. o.fl. (2020). The species Severe acute respiratory syndrome-related coronavirus: classifying 2019-nCoV and naming it SARS-CoV-2. Nature Microbiology, 5, 536–544. (Sótt 03.04.2020).
 4. Geller, C. o.fl. (2012). Human Coronaviruses: Insights into Environmental Resistance and Its Influence on the Development of New Antiseptic Strategies. Viruses, 4(11), 3044-3068. (Sótt 03.04.2020)
 5. Jones, R.M. og Brosseau, L.M. (2015). Aerosol Transmission of Infectious Disease. Journal of Occupational and Environmental Medicine, 57(5):501–508. (Sótt 03.04.2020).
 6. Casanova, Lisa M. o.fl.(2010). Effects of Air Temperature and Relative Humidity on Coronavirus Survival on Surfaces. Applied and Environmental Microbiology, 76(9), 2712-2717. (Sótt 4.04.2020).
 7. Lai, Mary Y. Y. o.fl.(2005). Survival of Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus. Clinical Infectious Diseases, 41(7), e67-e71. (Sótt 4.04.2020).

Myndir:

Gunnar spurði:

Hver er líftími veirunnar á mismunandi yfirborði t.d. plasti, tré, fötum?

Jenný Lind spurði:

Hver er líftími veirunnar eftir mismunandi yfirborði, hita og rakastigi?

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Stefáni Ragnari Jónssyni líffræðingi fyrir yfirlestur.

Höfundur

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Útgáfudagur

7.4.2020

Spyrjandi

Gunnar B. Gunnarsson, Jenný Lind Grétudóttir, Guðrún Harðardóttir

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson. „Hvað lifir nýja kórónuveiran lengi utan líkamans?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2020. Sótt 23. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78974.

Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 7. apríl). Hvað lifir nýja kórónuveiran lengi utan líkamans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78974

Jón Magnús Jóhannesson. „Hvað lifir nýja kórónuveiran lengi utan líkamans?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2020. Vefsíða. 23. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78974>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað lifir nýja kórónuveiran lengi utan líkamans?
Veirur dreifast með margvíslegum hætti, þar á meðal með hlutum í umhverfinu. Veiran SARS-CoV-2, sem veldur COVID-19, er í fjölskyldu kórónuveira (e. Coronaviridae). Þær eiga það allar sameiginlegt að samanstanda af erfðaefni (búið til úr RNA eða ribonucleic acid), prótínum sem verja erfðaefnið og hjúp sem umlykur hvort tveggja. Kórónuveirur eru þess vegna það sem kallast hjúpaðar veirur.

Einföld skýringarmynd af hjúpaðri veiru.

Smitleið SARS-CoV-2 virðist fyrst og fremst vera með dropa- og snertismiti. Veiran dreifist þannig með þungum dropum sem falla vegna þyngdarkrafts. Þetta getur meðal annars gerst þegar einhver hnerrar eða hóstar og dropar berast á okkur eða hluti í umhverfinu. Ef einstaklingur snertir hlut sem veiran hefur dreift sér á getur hann borið veiruna áfram til annarra eða smitað sjálfan sig með snertingu við munn, nef eða augu.[1]

Hjúpaðar veirur eru almennt viðkvæmar fyrir áreiti og geta sótthreinsiefni rofið hjúpinn án vandræða og við það verða veirurnar óvirkar. Þessar veirur geta þó verið virkar mislengi utan líkamans, sumar þola varla nokkrar sekúndur utan hans en aðrar eru virkar svo mánuðum skiptir, en það fer þó meðal annars eftir staðsetningu. Fyrri rannsóknir benda til þess að þrátt fyrir hjúpinn séu kórónuveirur óvenjuþolnar í umhverfinu og geti lifað þar í dágóðan tíma. Hvort veirur séu lifandi eða ekki[2] er önnur og mjög fróðleg umræða, en hér eftir verður til einföldunar notast við orð og hugtök sem tengjast lífi.[3]

Í ljósi þess að SARS-CoV-2 er glæný veira er skynsamlegasta fyrsta skrefið að spyrja: Hvað vitum við almennt um kórónuveirur og hversu lengi þær lifa utan líkamans? Kampf og félagar reyndu að komast að þessu með kerfisbundinni leit að rannsóknum um þetta efni. Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar með mismunandi aðferðum og gerðum kórónuveira.[4] Almennt virðast kórónuveirur geta lifað frá tveimur klukkustundum upp í níu daga á mismunandi yfirborði og frekar í köldum aðstæðum. Þær virðast lifa lengur á stáli og plasti en skemur á áli og pappír. Lítil gögn liggja fyrir um rakastig en ein rannsókn sýndi að meiri raki lengdi lifunartíma vissrar kórónuveiru á yfirborðum.[5]

Hins vegar þýðir þetta ekki að ofangreindir eiginleikar eigi við um SARS-CoV-2 - því rannsökuðu Doremalen og félagar þetta sérstaklega með því að skoða lifunartíma veirunnar, annars vegar á mismunandi yfirborði (pappi, plast, ryðfrítt stál, kopar) og í úða. Veiran getur lifað í allt að þrjá daga á plasti og ryðfríu stáli, þó magn veirunnar fari hratt minnkandi milli daga. Veiran nær hins vegar ekki að lifa lengur en fjórar klukkustundir á kopar. Erfiðara var að meta líftíma á pappa en þar virðist veiran ná að lifa í að minnsta kosti sólarhring. Úði var einnig myndaður með sérstöku úðatæki og honum haldið á lofti í svokallaðri Goldberg-tromlu, en það eru staðlaðar rannsóknaraðstæður. Í úðanum lifði veiran í að minnsta kosti þrjár klukkustundir.[6]

Lituð rafeindasmásjármynd af SARS-CoV-2-veirum.

Þrátt fyrir að rannsókn Doremalen og félaga hafi sýnt fram á að veiran geti lifað í úða í rannsóknaraðstæðum er það ekki jafngilt því að hún smitist þannig. Úði (e. aerosol) er samansafn einda í föstu formi eða vökvaformi sem haldast uppi í lofti og falla ekki strax til jarðar. Úði getur myndast til dæmis við hnerra eða hósta. Sýnt var fram á að veiran getur lifað í vissum úða við staðlaðar aðstæður en annað mál er hvort þetta líki nægilega vel eftir raunverulegum aðstæðum. Um þetta ríkir óvissa en talið er mjög ólíklegt að úði sé áberandi smitleið SARS-CoV-2. Hins vegar ætti að hafa varann á við allar aðstæður þar sem úði myndast í miklu magni (til dæmis í barkaþræðingu eða notkun ytri öndunarvélar).[7]

Það er mikilvægt að árétta að þó veira sé lifandi þýðir það ekki að hún sé smitandi. Til að smitast af vissri veiru þarf í öllum tilvikum tiltekið magn veirunnar að vera til staðar. Í þessu sambandi er talað um smitandi magn (e. infectious dose) og það getur verið mismunandi eftir aldri einstaklinga, áhættuhópum og fleiru. Reynt var að áætla í ofangreindri rannsókn smitandi magn veirunnar SARS-CoV-2 en það er enn á reiki. Þannig getur veira fundist lifandi á yfirborði en ekki verið í nægilegu magni til að smita.[8]

Hvað er hægt að læra af öllu þessu? Fyrst og fremst þrennt:
 1. Hósta og hnerra í olnbogabót/klút!
 2. Þvo hendur oft og reglulega!
 3. Spritt dugar til að hreinsa yfirborð!

Tilvísanir:
 1. ^ Sjá heimild 2 og 3.
 2. ^ Sjá: Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama?
 3. ^ Sjá heimild 1 og 4.
 4. ^ Sjá heimild 6 og 7.
 5. ^ Sjá heimild 1.
 6. ^ Sjá heimild 2.
 7. ^ Sjá heimild 5.
 8. ^ Sjá heimild 2.

Heimildir:

 1. Kampf, G., o.fl. (2020). Persistence of coronaviruses on inanimate surfaces and their inactivation with biocidal agents. Journal of Hospital Infection, 104, 246-251. (Sótt 03.04.2020).
 2. von Doremalen, N. o.fl. (2020). Aerosol and Surface Stability of SARS-CoV-2 as Compared with SARS-CoV-1. The New England Journal of Medicine. (Sótt 03.04.2020).
 3. Gorbalenya, A.E. o.fl. (2020). The species Severe acute respiratory syndrome-related coronavirus: classifying 2019-nCoV and naming it SARS-CoV-2. Nature Microbiology, 5, 536–544. (Sótt 03.04.2020).
 4. Geller, C. o.fl. (2012). Human Coronaviruses: Insights into Environmental Resistance and Its Influence on the Development of New Antiseptic Strategies. Viruses, 4(11), 3044-3068. (Sótt 03.04.2020)
 5. Jones, R.M. og Brosseau, L.M. (2015). Aerosol Transmission of Infectious Disease. Journal of Occupational and Environmental Medicine, 57(5):501–508. (Sótt 03.04.2020).
 6. Casanova, Lisa M. o.fl.(2010). Effects of Air Temperature and Relative Humidity on Coronavirus Survival on Surfaces. Applied and Environmental Microbiology, 76(9), 2712-2717. (Sótt 4.04.2020).
 7. Lai, Mary Y. Y. o.fl.(2005). Survival of Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus. Clinical Infectious Diseases, 41(7), e67-e71. (Sótt 4.04.2020).

Myndir:

Gunnar spurði:

Hver er líftími veirunnar á mismunandi yfirborði t.d. plasti, tré, fötum?

Jenný Lind spurði:

Hver er líftími veirunnar eftir mismunandi yfirborði, hita og rakastigi?

Ritstjórn Vísindavefsins þakkar Stefáni Ragnari Jónssyni líffræðingi fyrir yfirlestur....