Er gagn að því að „spritta“ hendur sem vörn gegn kórónaveirunni? Drepur spritt veiruna? Ef ekki, hvers vegna er verið að mæla með „sprittun“ á höndum?Fyrst er rétt að minna á það að veirur eru ekki eiginlegar lífverur og orðalagið „að drepa“ á því ekki vel við þær. Spritt (alkóhól) hefur hins tiltekin áhrif á veirur og það sama má segja um sápuefni. Öflugur handþvottur með sápu og vatni hefur jafnvel enn meiri áhrif en sprittun vegna þess að með skoluninni sem fylgir honum eru meiri líkur á að ná til veira sem gætu setið fastar í örsmáum skorum í húðinni. Lesa má meira um þetta í svari við spurningunni Hvaða áhrif hefur handþvottur með vatni og sápu á veirur? Spritt vinnur almennt betur gegn hjúpuðum veirum en þeim sem eru hjúplausar og skiptir þá engu hvort átt er við RNA- eða DNA-veirur. Hjúpaðar veirur eru þær sem hafa svonefndan lípíðhjúp utan um prótínkápuna, en hjúpinn fá veirurnar frá frumuhimnu hýsilfrumu. Lípíð eru lífræn efnasambönd sem eru leysanleg í lífrænum leysum en óleysanleg í vatni. Fituefni og vax eru dæmi um lípíð.
![](/../myndir/veira_einfold_skyringarmynd_080320.png)
Einföld skýringarmynd af hjúpaðri veiru. Handspritt rýfur lípíðhjúpinn og getur einnig valdið því að prótínkápa veirunnar flettist í sundur. Þá verður veiran óstarfhæf.
- UCSB Science Line. (Sótt 6.03.2020).
- Single treatment with ethanol hand rub is ineffective against human rhinovirus--hand washing with soap and water removes the virus efficiently. - PubMed - NCBI. (Sótt 6.03.2020).
- Handþvottur - Embætti landlæknis. (Sótt 9.03.2020).
- File:Simple diagram of virus (en).svg - Wikimedia Commons. (Sótt 8.03.2020). Myndina gerði domdomegg. Hún er birt undir leyfinu CC BY 4.0. Íslenskur texti var settur inn á myndina af ritstjórn Vísindavefsins.