Einstaklingar sem sýkjast af venjulegri árstíðabundinni inflúensu verða yfirleitt fyrst smitandi eftir að einkenni sjúkdómsins gera vart við sig, vanalega eftir 2-3 daga. Þessu er öðruvísi háttað hjá þeim sem sýkjast af veirunni SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Sýnt hefur verið fram á að markverður hluti af dreifingu COVID-19 á sér stað áður en einkenni koma fram. Þegar einstaklingur smitast af SARS-CoV-2 tekur vanalega um 5-6 daga fyrir einkenni að gera vart við sig - þetta kallast meðgöngutími COVID-19 (e. incubation period). Sýnt hefur verið fram á að smit getur átt sér stað áður en einkenni koma í ljós; í raun þýðir þetta að veiran finnst í efri öndunarfærum okkar áður en við fáum nokkur einkenni sjúkdómsins. Rannsóknir hingað til sýna að jafnaði er möguleiki á smiti allt að tveimur dögum áður en einkenni koma fram. Enn fremur virðast einstaklingar með COVID-19 vera mest smitandi degi áður en einkenni koma fram. Líklegast eru einstaklingar mest smitandi af COVID-19 á fjögurra daga tímabili sem hefst tveimur dögum áður en einkenni gera vart við sig og nær til loka annars dags eftir upphaf einkenna.

Rannsóknir hingað til sýna að jafnaði möguleika á smiti allt að tveimur dögum áður en einkenni koma fram. Enn fremur virðast einstaklingar með COVID-19 vera mest smitandi degi áður en einkenni koma fram.
Samantekt:
- Það tekur nokkra daga fyrir einstakling að verða smitandi af COVID-19 - að jafnaði um 3-4 daga frá smiti.
- Einstaklingur með COVID-19 getur verið smitandi áður en einkenni koma fram.
- Hættan á smiti virðist vera mest á tímabili frá tveimur dögum áður en einkenni gera vart við sig til loka annars dags eftir upphaf einkenna.
- Mikill breytileiki er hins vegar á milli einstaklinga og almennt gildir mikilvægi sóttkvíar, almennrar smitgátar og notkun gríma til að minnka hættu á dreifingu.
- Bar-On, Y.M. o.fl. (2020). Science Forum: SARS-CoV-2 (COVID-19) by the numbers. eLife 9:e57309. (Sótt 6.10.2020).
- Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 31. mars). Er hægt að reikna hvernig sjúkdómar eins og COVID-19 breiðast út? Vísindavefurinn. (Sótt 6.10.2020).
- European Centre for Disease Prevention and Control. (2020). Transmission of COVID-19. (Sótt 6.10.2020).
- Slifka, M. K. & Gao, L. (2020, 17. ágúst). Is presymptomatic spread a major contributor to COVID-19 transmission? Nature Medicine. (Sótt 6.10.2020).