Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvað éta selir?

Jón Már Halldórsson

Selir (Phocidae) eru rándýr og öll fæða þeirra kemur úr dýraríkinu, aðallega fiskur. Mögulega er allt að 80% af þeim lífmassa sem selir éta fenginn með fiskáti. Fæðuvenjur eru þó mismunandi á milli tegunda og margar tegundir lifa að einhverju eða miklu leyti á ýmsum öðrum hópum dýra svo sem sjávarhryggleysingjum. Sem dæmi má nefna kóngasæfílinn (Mirounga leonina) sem á heimkynni sín í Suðurhöfum og er stærsta selategund heims. Hann lifir á fiski en smokkfiskur er líka afar mikilvæg fæðutegund fyrir hann. Svo má nefna tvær tegundir sela við Suðurskautslandið sem aðallega lifa á hryggleysingjum, það eru átuselurinn (Lobodon carcinophagus) sem lifir nær eingöngu á suðurhafsljósátu (Euphausia superba) og rossselurinn (Ommatophoca rossii) sem veiðir aðallega smokkfisk, lindýr og aðrar tegundir hryggleysingja.

Pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) étur meðal annars mörgæsir.

Nokkrar tegundir sela lifa á dýrum með heitt blóð. Kunnastur er pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) sem finnst aðallega við Suðurskautslandið. Hann er tækifærissinni þegar kemur að fæðu, étur fisk, smokkfisk og ljósátu en einnig mörgæsir, til dæmis aðalsmörgæs (Pygoscelis adeliae), asnamörgæs (Pygoscelis papua) og klappamörgæs (Eudyptes chrysolophus) og unga seli svo sem átusel, kerguelen-loðsel (Arctocephalus gazella), weddellsel (Leptonychotes weddellii) og jafnvel kópa sæfíls.

Tvær tegundir sela halda til við strendur Íslands allt árið um kring, það eru landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus). Rannsóknir hafa sýnt að báðar þessar tegundir eru að mestu leyti fiskætur. Nokkur svæðisbundinn munur er á fæðuvali landselsins og einnig eftir árstíma en algengustu fæðutegundirnar eru síli, þorskur, karfi, ufsi, síld, loðna, steinbítur og ýmsir flatfiskar. Útselurinn virðist að jafnaði taka stærri bráð en landselurinn en lifir þó mikið á sömu tegundum. Aðalfæðutegundirnar eru þorskur, hrognkelsi, steinbítur, ufsi, marhnútur og síli en hryggleysingjar virðast ekki vera mikilvæg fæða. Rétt eins og hjá landselnum er fæðuval þó allnokkuð svæðis-, árstíma- og kynjabundið.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

11.1.2023

Spyrjandi

Tekla Björg

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað éta selir?“ Vísindavefurinn, 11. janúar 2023. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84360.

Jón Már Halldórsson. (2023, 11. janúar). Hvað éta selir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84360

Jón Már Halldórsson. „Hvað éta selir?“ Vísindavefurinn. 11. jan. 2023. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84360>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað éta selir?
Selir (Phocidae) eru rándýr og öll fæða þeirra kemur úr dýraríkinu, aðallega fiskur. Mögulega er allt að 80% af þeim lífmassa sem selir éta fenginn með fiskáti. Fæðuvenjur eru þó mismunandi á milli tegunda og margar tegundir lifa að einhverju eða miklu leyti á ýmsum öðrum hópum dýra svo sem sjávarhryggleysingjum. Sem dæmi má nefna kóngasæfílinn (Mirounga leonina) sem á heimkynni sín í Suðurhöfum og er stærsta selategund heims. Hann lifir á fiski en smokkfiskur er líka afar mikilvæg fæðutegund fyrir hann. Svo má nefna tvær tegundir sela við Suðurskautslandið sem aðallega lifa á hryggleysingjum, það eru átuselurinn (Lobodon carcinophagus) sem lifir nær eingöngu á suðurhafsljósátu (Euphausia superba) og rossselurinn (Ommatophoca rossii) sem veiðir aðallega smokkfisk, lindýr og aðrar tegundir hryggleysingja.

Pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) étur meðal annars mörgæsir.

Nokkrar tegundir sela lifa á dýrum með heitt blóð. Kunnastur er pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) sem finnst aðallega við Suðurskautslandið. Hann er tækifærissinni þegar kemur að fæðu, étur fisk, smokkfisk og ljósátu en einnig mörgæsir, til dæmis aðalsmörgæs (Pygoscelis adeliae), asnamörgæs (Pygoscelis papua) og klappamörgæs (Eudyptes chrysolophus) og unga seli svo sem átusel, kerguelen-loðsel (Arctocephalus gazella), weddellsel (Leptonychotes weddellii) og jafnvel kópa sæfíls.

Tvær tegundir sela halda til við strendur Íslands allt árið um kring, það eru landselur (Phoca vitulina) og útselur (Halichoerus grypus). Rannsóknir hafa sýnt að báðar þessar tegundir eru að mestu leyti fiskætur. Nokkur svæðisbundinn munur er á fæðuvali landselsins og einnig eftir árstíma en algengustu fæðutegundirnar eru síli, þorskur, karfi, ufsi, síld, loðna, steinbítur og ýmsir flatfiskar. Útselurinn virðist að jafnaði taka stærri bráð en landselurinn en lifir þó mikið á sömu tegundum. Aðalfæðutegundirnar eru þorskur, hrognkelsi, steinbítur, ufsi, marhnútur og síli en hryggleysingjar virðast ekki vera mikilvæg fæða. Rétt eins og hjá landselnum er fæðuval þó allnokkuð svæðis-, árstíma- og kynjabundið.

Heimildir og myndir:

...