Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Erasmus frá Rotterdam og fyrir hvað er hann þekktur?

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

Erasmus frá Rotterdam eða Erasmus Desiderius Rotterdamus fæddist 28. október 1466 (eða 1469) í Rotterdam á Hollandi. Hann kenndi sig ætíð við þá borg þó að hann byggi þar ekki nema fyrstu bernskuár sín. Hann var settur til mennta og eftir lát foreldra sinna 1483 var honum komið í latínuskóla í Deventer þar sem gríska var kennd en það var ekki almennt í latínuskólum um þetta leyti. Hann tók miklu ástfóstri við grísku og vann síðar á ævinni að því að vegur hennar yrði sem mestur innan evrópskra menntastofnana.

Erasmus gekk í klaustur ágústínskra kórsbræðra (samanber til dæmis klaustrin í Helgafelli, Viðey, Þykkvabæ og Skriðu) nálægt borginni Gouda og hlaut prestsvígslu 1492. Það var fátækt sem knúði hann til að gangast undir regluheit þar eð í klaustrinu var honum séð fyrir uppihaldi og enn fremur gat hann stundað þar nám. Síðar sagði hann að tíminn í klaustrinu hefði verið tilgangslausasti tími ævinnar enda þáði hann með þökkum boð biskupsins af Cambray um að gerast þjónn hans en biskupinn hafði heyrt af tungumálakunnáttu Erasmusar og vildi notast við þá hæfileika hans. Biskupinn leysti hann tímabundið undan skyldum við reglu sína og síðar var sú lausn staðfest af Leo X. páfa.

Biskupinn styrkti hann líka til að nema við háskólana í París og Montaigu. Þar komst hann í kynni við endurreisnarstefnuna og fornmenntastefnuna og gekk henni á hönd og snerist til mikillar andstöðu við skólaspekina sem ráðandi var innan háskólanna. Hann dvaldist um tíma við háskólann í Louvain, sem hann átti raunar þátt í að stofna, og í Cambridge þar sem hann var um tíma kennari. Hann heimsótti líka Ítalíu og var um tíma við háskólann í Torino og lauk þaðan doktorsprófi 1506. En hann settist hins vegar hvergi að til langframa heldur ferðaðist mikið og ávann sér vináttu bæði fræðimanna og þjóðhöfðingja sem styrktu hann fjárhagslega.

Erasmus gat sér fljótt orð sem mikill lærdómsmaður og tungumálamaður. Hann var hvass penni og háðskur með afbrigðum og einkum voru munkar og klerkar skotspónn hans og uppskar hann ekki þakklæti þeirra stétta. Hann réðst á yfirbótarkerfi kirkjunnar og líferni klaustrafólks fannst honum bera vott um hræsni. Ólíkt mörgum fornmenntavinum öðrum leitaði áhugi Erasmusar ekki til hinnar gullnu fornaldar Grikkja og Rómverja heldur til Nýja testamentisins og rita kirkjufeðranna og annaðist hann útgáfu á verkum þeirra í nýjum þýðingum á latínu. Guðfræði sagði hann að ætti fyrst og fremst að vera lestur Biblíunnar út frá frummálunum og skólaspekina gagnrýndi hann fyrir að skyggja á hina einföldu kenningu og lífsspeki Jesú sjálfs. Í stað þess að uppfræða fólk um guðrækni og góða siði stunduðu háskólaguðfræðingar innihaldslausar kappræður um að meira eða minna leyti tilgangslausa hluti.

Meðal helstu rita Erasmusar var Lof heimskunnar, sem komið hefur út í íslenskri þýðingu 1996, og veitist hann þar að skólaspekinni. Hann safnaði líka saman grískum og latneskum spakmælum og gaf út undir heitinu Adagia. Þá ritaði hann leiðbeiningar um það hvernig mennta ætti kristna þjóðhöfðingja, Institutio principis Christiani, og tileinkaði ungum spænskum fursta sem síðar varð Karl V. keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis.

En helsta framlag hans til guðfræði var, auk útgáfu á ritum kirkjufeðranna, að gefa út grískan texta Nýja testamentisins ásamt nýrri latneskri þýðingu. Sjálfan hafði hann lengi dreymt um að frumtexti Nýja testamentisins væri til í aðgengilegu formi handa fræðimönnum og vildi hann að ný latnesk þýðing fylgdi því að latínan á þýðingu Híerónýmusar fannst honum alls ekki nógu góð og þar að auki röng á mörgum stöðum. Hann gekk því frá nýrri þýðingu á latínu úr frummálinu grísku. Nýja testamenti Erasmusar á grísku og latínu kom út 1516. Sú útgáfa hafði mjög mikla þýðingu fyrir framgang siðbótarinnar en siðbótarmenn vildu þýða Biblíuna á þjóðtungurnar úr frummálunum hebresku og grísku. Lúther eignaðist Nýja testamenti Erasmusar fljótlega eftir útgáfu þess og varð mjög gagntekinn af því bæði af því að það opnaði honum frumtextann og eins af því að hin nýja latneska þýðing Erasmusar leiddi í ljós hversu ónákvæm latneska þýðingin í Vúlgötu væri. Nýja testamenti Erasmusar varð undirstaðan að þýðingu Lúthers á Nýja testamentinu.



Bronsstytta af Erasmusi sem stendur í fæðingarborg hans Rotterdam.

Hin hvassa gagnrýni Erasmusar á ýmislegt í kenningum kirkjunnar og á líferni munka og klerka virtist mundu gera hann að bandamanni Lúthers sem hóf siðbótarstarf sitt árið 1517. Erasmus var talinn styðja Lúther í deilum hans í fyrstu en hann tók aldrei beinan þátt í þeim og blandaði sér ekki í þær. Hann þótti leika tveim skjöldum. Í aðra röndina tók hann undir með Lúther og gagnrýni hans og til eru ummæli í bréfum þar sem hann fer lofsamlegum orðum um Lúther og ver hann. Í hina röndina neitaði hann allri ábyrgð á atburðum og þóttist ekki þekkja deilurnar nákvæmlega þar eð hann kynni ekki þýsku! Aðrir, jafnt fylgismenn Lúthers sem andstæðingar, töldu að Lúther gerði ekki annað en segja berum orðum það sem Erasmus hefði ýjað að eða sagt óljósum orðum. Þegar honum var legið á hálsi fyrir að hafa búið undir gagnrýni siðbótarmanna mótmælti hann því og taldi siðbótarmenn aðeins hafa notað nafn sitt og snúið út úr orðum sínum til að útbreiða eigin villukenningar. Margir álitu Erasmus viljalausan mann sem væri haldinn átakafælni og teldi sig geta horft á í fjarska þar sem menn tókust á án þess að taka afstöðu. Í fyrstu reyndi Erasmus samt að því leyti sem honum var unnt að hafa áhrif á þjóðhöfðingja er gætu komið í veg fyrir ofsóknir á hendur Lúther og fylgismönnum hans. Hann andmælti til dæmis bannfæringarúrskurðinum yfir Lúther 1520 og átti þá á hættu að verða bannfærður sjálfur.

Munurinn á Erasmusi og Lúther var þó augljós frá upphafi. Lúther lagði áherslu á að kristindómur væri líf í trú og menn yrðu að viðurkenna og treysta því sem Guði hefði fyrir þá gert í Jesú og reiða sig á elsku hans sér til hjálpar í lífinu. Erasmus taldi aftur á móti að kristin trú fælist í að lifa í anda Fjallræðunnar og því væri mest um vert að taka ákvörðun um að fylgja Kristi og læra af honum í auðmýkt.



Erasmus er einn þekktasti sonur borgarinnar Rotterdam og er háskóli þar nefndur eftir honum.

Erasmus óttaðist að klofningur kirkjunnar mundi leiða til glundroða bæði í kirkjulegu og stjórnmálalegu tilliti. Stjórnmálaleg og félagsleg hugsjón hans var að menntaðir og upplýstir þjóðhöfðingjar gætu bundist bandalögum til að efla hið góða og væri sameinuð kirkja áhrifamesta verkfærið til uppeldis þegnanna í góðu siðferði. Ef kirkjan klofnaði yrðu þeir á hinn bóginn að gerast þátttakendur í deilum sem gætu að lokum leitt til blóðugra átaka. Erasmus vildi í lengstu lög forðast deilur en þegar hann var loks knúinn til að taka afstöðu og spjótin beindust að honum úr báðum áttum þá ákvað hann að takast á við spurninguna um frelsi manna til að taka ákvarðanir. Bók sína nefndi hann Um frjálsræði viljans (De libero arbitrio) og þar heldur hann því fram að menn geti með viljaákvörðun einni ráðið lífi sínu og valið veginn til lífsins eða veginn til glötunar. Hann hrósaði þar Lúther fyrir ákveðin atriði en ásakaði hann um leið fyrir að vera fullur mótsagna og hafna frelsi mannsins til athafna og kenna að allt væri fyrirfram ákveðið.

Lúther svaraði Erasmusi með riti sem hann nefndi Um ánauð viljans (De servo arbitrio) og komið hefur út í íslenskri þýðingu 2003. Þar viðurkenndi hann að maðurinn væri frjáls að því að taka ákvarðanir um hversdagsleg atriði síns daglega lífs. Samt sem áður væri frelsi manna í tímanlegum efnum aldrei algert hvað þá að það næði til eilífs lífs þar sem menn væru bundnir fyrirfram af því sem Guð hefur gert fyrir þá í Jesú Kristi.

Með ádeiluritinu um frjálsræðið var teningnum kastað og Erasmus hélt sig innan veggja rómversku kirkjunnar. Hann átti hins vegar oft erfitt uppdráttar meðal trúbræðra sinna því að þeir mundu vel háðsglósur hans og gagnrýni á kirkjulegar kenningar og stofnanir. Mótmælendur hlutu líka að tortryggja hann. Hugmyndir hans á endurbótum á háskólunum urðu mikill hvati Filippusi Melankton, samstarfsmanni Lúthers, er hann hófst handa við endurreisn og nýskipulagningu menntamála. Síðar tóku Jesúítar þær hugmyndir upp er þeir hófu sínar umbætur í menntamálum.

Heimili Erasmusar stóð lengi í Basel og þar voru öll helstu verk hans prentuð og gefin út. Þegar siðbótarmenn náðu völdum í Basel árið 1529 fluttist hann til Freiburg í Breisgau. Er hann var staddur í Basel sumarið 1536 vegna prentunar á einhverju rita sinna fékk hann blóðkreppusótt og andaðist þar 12. júlí. Hann var jarðsettur í dómkirkjunni í Basel.

Erasmusar er minnst sem mannvinar. Hugsjón hans var að mönnum og þjóðum mætti auðnast að eiga friðsamleg samskipti á sem víðtækustum sviðum. Upplýst umræða byggð á þekkingu, skynsemi, virðingu fyrir öðrum og auðmýkt frammi fyrir Guði og mönnum væri drifkraftur í mannlegum samskiptum og skapaði skilyrði fyrir sátt og einingu í samfélaginu. Í virðingarskyni við hann er áætlun Evrópuríkja um stúdentaskipti nefnd eftir honum, Erasmusáætlunin.

Myndir:
  • Mynd af Erasmusi: Desiderius Erasmus á Wikipedia. Málverk frá 1523 eftir Hans Holbein yngri (1497 –1543). Sótt 22. 8. 2011.
  • Mynd af styttu: Season 18. Styttan er eftir Hendrick de Keyser (1565-1621). Sótt 22. 8. 2011.
  • Mynd frá Erasmus-háskólanum í Rotterdam: TopMBA. Sótt 22. 8. 2011.

Höfundur

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019)

prófessor í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.8.2011

Spyrjandi

Svana Bjarnadóttir

Tilvísun

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Erasmus frá Rotterdam og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2011, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=19476.

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2011, 30. ágúst). Hver var Erasmus frá Rotterdam og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=19476

Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Erasmus frá Rotterdam og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2011. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=19476>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Erasmus frá Rotterdam og fyrir hvað er hann þekktur?
Erasmus frá Rotterdam eða Erasmus Desiderius Rotterdamus fæddist 28. október 1466 (eða 1469) í Rotterdam á Hollandi. Hann kenndi sig ætíð við þá borg þó að hann byggi þar ekki nema fyrstu bernskuár sín. Hann var settur til mennta og eftir lát foreldra sinna 1483 var honum komið í latínuskóla í Deventer þar sem gríska var kennd en það var ekki almennt í latínuskólum um þetta leyti. Hann tók miklu ástfóstri við grísku og vann síðar á ævinni að því að vegur hennar yrði sem mestur innan evrópskra menntastofnana.

Erasmus gekk í klaustur ágústínskra kórsbræðra (samanber til dæmis klaustrin í Helgafelli, Viðey, Þykkvabæ og Skriðu) nálægt borginni Gouda og hlaut prestsvígslu 1492. Það var fátækt sem knúði hann til að gangast undir regluheit þar eð í klaustrinu var honum séð fyrir uppihaldi og enn fremur gat hann stundað þar nám. Síðar sagði hann að tíminn í klaustrinu hefði verið tilgangslausasti tími ævinnar enda þáði hann með þökkum boð biskupsins af Cambray um að gerast þjónn hans en biskupinn hafði heyrt af tungumálakunnáttu Erasmusar og vildi notast við þá hæfileika hans. Biskupinn leysti hann tímabundið undan skyldum við reglu sína og síðar var sú lausn staðfest af Leo X. páfa.

Biskupinn styrkti hann líka til að nema við háskólana í París og Montaigu. Þar komst hann í kynni við endurreisnarstefnuna og fornmenntastefnuna og gekk henni á hönd og snerist til mikillar andstöðu við skólaspekina sem ráðandi var innan háskólanna. Hann dvaldist um tíma við háskólann í Louvain, sem hann átti raunar þátt í að stofna, og í Cambridge þar sem hann var um tíma kennari. Hann heimsótti líka Ítalíu og var um tíma við háskólann í Torino og lauk þaðan doktorsprófi 1506. En hann settist hins vegar hvergi að til langframa heldur ferðaðist mikið og ávann sér vináttu bæði fræðimanna og þjóðhöfðingja sem styrktu hann fjárhagslega.

Erasmus gat sér fljótt orð sem mikill lærdómsmaður og tungumálamaður. Hann var hvass penni og háðskur með afbrigðum og einkum voru munkar og klerkar skotspónn hans og uppskar hann ekki þakklæti þeirra stétta. Hann réðst á yfirbótarkerfi kirkjunnar og líferni klaustrafólks fannst honum bera vott um hræsni. Ólíkt mörgum fornmenntavinum öðrum leitaði áhugi Erasmusar ekki til hinnar gullnu fornaldar Grikkja og Rómverja heldur til Nýja testamentisins og rita kirkjufeðranna og annaðist hann útgáfu á verkum þeirra í nýjum þýðingum á latínu. Guðfræði sagði hann að ætti fyrst og fremst að vera lestur Biblíunnar út frá frummálunum og skólaspekina gagnrýndi hann fyrir að skyggja á hina einföldu kenningu og lífsspeki Jesú sjálfs. Í stað þess að uppfræða fólk um guðrækni og góða siði stunduðu háskólaguðfræðingar innihaldslausar kappræður um að meira eða minna leyti tilgangslausa hluti.

Meðal helstu rita Erasmusar var Lof heimskunnar, sem komið hefur út í íslenskri þýðingu 1996, og veitist hann þar að skólaspekinni. Hann safnaði líka saman grískum og latneskum spakmælum og gaf út undir heitinu Adagia. Þá ritaði hann leiðbeiningar um það hvernig mennta ætti kristna þjóðhöfðingja, Institutio principis Christiani, og tileinkaði ungum spænskum fursta sem síðar varð Karl V. keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis.

En helsta framlag hans til guðfræði var, auk útgáfu á ritum kirkjufeðranna, að gefa út grískan texta Nýja testamentisins ásamt nýrri latneskri þýðingu. Sjálfan hafði hann lengi dreymt um að frumtexti Nýja testamentisins væri til í aðgengilegu formi handa fræðimönnum og vildi hann að ný latnesk þýðing fylgdi því að latínan á þýðingu Híerónýmusar fannst honum alls ekki nógu góð og þar að auki röng á mörgum stöðum. Hann gekk því frá nýrri þýðingu á latínu úr frummálinu grísku. Nýja testamenti Erasmusar á grísku og latínu kom út 1516. Sú útgáfa hafði mjög mikla þýðingu fyrir framgang siðbótarinnar en siðbótarmenn vildu þýða Biblíuna á þjóðtungurnar úr frummálunum hebresku og grísku. Lúther eignaðist Nýja testamenti Erasmusar fljótlega eftir útgáfu þess og varð mjög gagntekinn af því bæði af því að það opnaði honum frumtextann og eins af því að hin nýja latneska þýðing Erasmusar leiddi í ljós hversu ónákvæm latneska þýðingin í Vúlgötu væri. Nýja testamenti Erasmusar varð undirstaðan að þýðingu Lúthers á Nýja testamentinu.



Bronsstytta af Erasmusi sem stendur í fæðingarborg hans Rotterdam.

Hin hvassa gagnrýni Erasmusar á ýmislegt í kenningum kirkjunnar og á líferni munka og klerka virtist mundu gera hann að bandamanni Lúthers sem hóf siðbótarstarf sitt árið 1517. Erasmus var talinn styðja Lúther í deilum hans í fyrstu en hann tók aldrei beinan þátt í þeim og blandaði sér ekki í þær. Hann þótti leika tveim skjöldum. Í aðra röndina tók hann undir með Lúther og gagnrýni hans og til eru ummæli í bréfum þar sem hann fer lofsamlegum orðum um Lúther og ver hann. Í hina röndina neitaði hann allri ábyrgð á atburðum og þóttist ekki þekkja deilurnar nákvæmlega þar eð hann kynni ekki þýsku! Aðrir, jafnt fylgismenn Lúthers sem andstæðingar, töldu að Lúther gerði ekki annað en segja berum orðum það sem Erasmus hefði ýjað að eða sagt óljósum orðum. Þegar honum var legið á hálsi fyrir að hafa búið undir gagnrýni siðbótarmanna mótmælti hann því og taldi siðbótarmenn aðeins hafa notað nafn sitt og snúið út úr orðum sínum til að útbreiða eigin villukenningar. Margir álitu Erasmus viljalausan mann sem væri haldinn átakafælni og teldi sig geta horft á í fjarska þar sem menn tókust á án þess að taka afstöðu. Í fyrstu reyndi Erasmus samt að því leyti sem honum var unnt að hafa áhrif á þjóðhöfðingja er gætu komið í veg fyrir ofsóknir á hendur Lúther og fylgismönnum hans. Hann andmælti til dæmis bannfæringarúrskurðinum yfir Lúther 1520 og átti þá á hættu að verða bannfærður sjálfur.

Munurinn á Erasmusi og Lúther var þó augljós frá upphafi. Lúther lagði áherslu á að kristindómur væri líf í trú og menn yrðu að viðurkenna og treysta því sem Guði hefði fyrir þá gert í Jesú og reiða sig á elsku hans sér til hjálpar í lífinu. Erasmus taldi aftur á móti að kristin trú fælist í að lifa í anda Fjallræðunnar og því væri mest um vert að taka ákvörðun um að fylgja Kristi og læra af honum í auðmýkt.



Erasmus er einn þekktasti sonur borgarinnar Rotterdam og er háskóli þar nefndur eftir honum.

Erasmus óttaðist að klofningur kirkjunnar mundi leiða til glundroða bæði í kirkjulegu og stjórnmálalegu tilliti. Stjórnmálaleg og félagsleg hugsjón hans var að menntaðir og upplýstir þjóðhöfðingjar gætu bundist bandalögum til að efla hið góða og væri sameinuð kirkja áhrifamesta verkfærið til uppeldis þegnanna í góðu siðferði. Ef kirkjan klofnaði yrðu þeir á hinn bóginn að gerast þátttakendur í deilum sem gætu að lokum leitt til blóðugra átaka. Erasmus vildi í lengstu lög forðast deilur en þegar hann var loks knúinn til að taka afstöðu og spjótin beindust að honum úr báðum áttum þá ákvað hann að takast á við spurninguna um frelsi manna til að taka ákvarðanir. Bók sína nefndi hann Um frjálsræði viljans (De libero arbitrio) og þar heldur hann því fram að menn geti með viljaákvörðun einni ráðið lífi sínu og valið veginn til lífsins eða veginn til glötunar. Hann hrósaði þar Lúther fyrir ákveðin atriði en ásakaði hann um leið fyrir að vera fullur mótsagna og hafna frelsi mannsins til athafna og kenna að allt væri fyrirfram ákveðið.

Lúther svaraði Erasmusi með riti sem hann nefndi Um ánauð viljans (De servo arbitrio) og komið hefur út í íslenskri þýðingu 2003. Þar viðurkenndi hann að maðurinn væri frjáls að því að taka ákvarðanir um hversdagsleg atriði síns daglega lífs. Samt sem áður væri frelsi manna í tímanlegum efnum aldrei algert hvað þá að það næði til eilífs lífs þar sem menn væru bundnir fyrirfram af því sem Guð hefur gert fyrir þá í Jesú Kristi.

Með ádeiluritinu um frjálsræðið var teningnum kastað og Erasmus hélt sig innan veggja rómversku kirkjunnar. Hann átti hins vegar oft erfitt uppdráttar meðal trúbræðra sinna því að þeir mundu vel háðsglósur hans og gagnrýni á kirkjulegar kenningar og stofnanir. Mótmælendur hlutu líka að tortryggja hann. Hugmyndir hans á endurbótum á háskólunum urðu mikill hvati Filippusi Melankton, samstarfsmanni Lúthers, er hann hófst handa við endurreisn og nýskipulagningu menntamála. Síðar tóku Jesúítar þær hugmyndir upp er þeir hófu sínar umbætur í menntamálum.

Heimili Erasmusar stóð lengi í Basel og þar voru öll helstu verk hans prentuð og gefin út. Þegar siðbótarmenn náðu völdum í Basel árið 1529 fluttist hann til Freiburg í Breisgau. Er hann var staddur í Basel sumarið 1536 vegna prentunar á einhverju rita sinna fékk hann blóðkreppusótt og andaðist þar 12. júlí. Hann var jarðsettur í dómkirkjunni í Basel.

Erasmusar er minnst sem mannvinar. Hugsjón hans var að mönnum og þjóðum mætti auðnast að eiga friðsamleg samskipti á sem víðtækustum sviðum. Upplýst umræða byggð á þekkingu, skynsemi, virðingu fyrir öðrum og auðmýkt frammi fyrir Guði og mönnum væri drifkraftur í mannlegum samskiptum og skapaði skilyrði fyrir sátt og einingu í samfélaginu. Í virðingarskyni við hann er áætlun Evrópuríkja um stúdentaskipti nefnd eftir honum, Erasmusáætlunin.

Myndir:
  • Mynd af Erasmusi: Desiderius Erasmus á Wikipedia. Málverk frá 1523 eftir Hans Holbein yngri (1497 –1543). Sótt 22. 8. 2011.
  • Mynd af styttu: Season 18. Styttan er eftir Hendrick de Keyser (1565-1621). Sótt 22. 8. 2011.
  • Mynd frá Erasmus-háskólanum í Rotterdam: TopMBA. Sótt 22. 8. 2011.
...