Samanlagt skatthlutfall tekjuskatts og útsvars í staðgreiðslukerfinu er því nú 22,75%+12,97% eða 35,72%. Það þýðir að ekki er innheimt staðgreiðsla af þeim sem hafa innan við 34.034/35,72% eða 95.280 krónur á mánuði eða 1.143.359 á ári í tekjur. Það eru jafnframt meðalskattleysismörkin. Þeir sem búa í sveitarfélögum sem leggja á minna en meðalútsvar hafa aðeins hærri skattleysismörk. Sömuleiðis hafa þeir sem búa í sveitarfélögum sem leggja á hærra útsvar aðeins lægri skattleysismörk. Skattleysismörk sjómanna eru hærri en annarra vegna svokallaðs sjómannaafsláttar. Hann er nú 874 krónur fyrir hvern dag á sjó, talið samkvæmt ákveðnum reglum, sem bætast við persónuafslátt.
Rétt er að hafa í huga að draga má framlag einstaklings í lífeyrissjóð frá skattstofni, bæði skylduframlag og framlag vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Skattleysismörkin sem rætt er um að framan eiga við laun þegar búið er að draga slík framlög frá. Frádráttarbært skylduframlag í lífeyrissjóð er nú 4% og hægt er að bæta allt að öðrum 4% við vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Sé tekið tillit til þessa þá eru meðalskattleysismörk allt að 103.565 á mánuði. Hér verður þó jafnframt að hafa í huga að greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattskyldar. Þannig fresta framlög í lífeyrissjóði því að greiddur sé skattur af viðkomandi tekjum. Skattgreiðslurnar falla hins vegar ekki niður, nema viðkomandi verði með tekjur undir skattleysismörkum þegar hann þiggur lífeyrisgreiðslur.
Loks má benda á að aðrar reglur gilda um skattlagningu fjármagnstekna en launatekna. Umræðan að ofan á því ekki við um fjármagnstekjur.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Mortage rate blog. Sótt 4.6.2008.