Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skattar eru lagðir á með pólitískum ákvörðunum. Því er allur gangur á því hvort hægt sé að finna sérstaka réttlætingu fyrir álagningu þeirra. Álagning tiltekins skatts er einfaldlega niðurstaða sem fengist hefur á vettvangi stjórnmálanna. Engu að síður getur verið áhugavert að skoða forsögu málsins og sérstaklega hvaða sjónarmiðum hefur verið haldið á lofti í umræðunni um álagningu tiltekins skatts.
Hagfræðin hefur ýmislegt um skatta og ríkisútgjöld að segja, svo mikið að hér verður ekki einu sinni reynt að segja frá því helsta. Við skulum þó skoða tvo þætti er snerta skatta, annars vegar svokallaða umframbyrði skatta og hins vegar áhrif þeirra á tekju- og eignaskiptingu.
Umframbyrði skatta er skýrð í öðru svari hér á Vísindavefnum. Í stuttu máli þá er átt við að kostnaður skattgreiðenda vegna álagningar tiltekins skatts getur verið mun meiri en tekjurnar sem hann skilar til hins opinbera. Helsta skýringin á þessu er að skattar breyta hegðan manna, sérstaklega þannig að þeir reyna að komast hjá því að greiða skattana og það getur leitt til sóunar.
Þegar hagfræðingar skoða kosti og galla einstakra skatta horfa þeir mjög til umframbyrði. Skattur sem hefur í för með sér litla umframbyrði er að öðru jöfnu ákjósanlegri en skattur sem kallar á mikla umframbyrði. Þegar teknar eru ákvarðanir um skatta á vettvangi stjórnmálanna gætir þessa sjónarmiðs oft að ákveðnu marki. Ekki skiptir síður máli hvaða áhrif skatturinn hefur á einstaka hópa í þjóðfélaginu, það er tekju- og/eða eignaskiptingu þegnanna. Vitaskuld er alla jafna mjög misjafnt hvaða skoðanir menn hafa á ágæti tiltekinnar breytingar á tekju- og/eða eignaskiptingu, meðal annars eftir því hvaða hópi þeir tilheyra og hvernig skattbreytingin hefur áhrif á þann hóp.
Ekki liggur fyrir haldgóð greining á áhrifum erfðafjárskatts á Íslandi, hvorki hvað varðar umframbyrði skattsins né áhrif hans á tekju- eða eignaskiptingu. Umframbyrði erfðafjárskatts gæti til dæmis komið til vegna þess að aldraðir reyni að skila fé til tilvonandi erfingja sinna án þess að greiða af því skatt með ýmsum eignatilfærslum sem geta verið kostnaðarsamar. Önnur leið til að komast hjá greiðslu erfðafjárskatts er augljóslega sú að ganga á eignir fyrir andlát. Umframbyrði þessa skatts er þó að öllum líkindum minni en margra annarra vegna þess að sá atburður sem kallar á greiðslu skattsins er óhjákvæmilegur, fyrr eða síðar. Það er ekki hægt að reyna að lifa að eilífu til að komast hjá greiðslu erfðafjárskatts!
Áhrifin á eignaskiptingu eru ljósari, að minnsta kosti hvað það varðar að erfðafjárskattur leggst þyngra á auðugar fjölskyldur en fátækar, bæði hlutfallslega og í krónum talið. Frá sjónarhóli hagfræðinnar hefur því skatturinn þann kost helstan að honum fylgir tiltölulega lítil umframbyrði, samanborið við marga aðra skatta. Hvort mönnum líkar áhrif skattsins á eignaskiptingu í þjóðfélaginu er annað mál. Víða um heim hefur verið hart tekist á um erfðafjárskatta og færð hafa verið rök fyrir öllu frá afnámi hans til 100% erfðafjárskatts.
Nú er skatthlutfall erfðafjárskatts á Íslandi allt frá 0% til 45%, eftir því hve mikið er til skiptanna og hve náskyldir erfingjarnir eru hinum látna. Maki hins látna greiðir engan erfðafjárskatt. Börn hins látna og afkomendur þeirra greiða næstminnst eða frá 5% til 10% eftir því hve mikið erfist. Afar og ömmur og fjarskyldari eða alls óskyldir erfingjar greiða hæsta hlutfallið eða allt að 45%.
Í mörgum löndum Vestur-Evrópu má rekja álagningu erfðafjárskatts til lénskerfis miðalda. Þá var gjarnan litið svo á að flestar eignir og sérstaklega landareignir tilheyrðu viðkomandi þjóðhöfðingja og leyfi hans þyrfti til að færa þær til erfingja við andlát. Ef hinn látni átti enga afkomendur þurftu ættingjar hans að greiða þjóðhöfðingjanum fé fyrir að fá umráð yfir eignunum. Saga erfðafjárskatts er þó miklu lengri. Í Rómaveldi var til dæmis lagður á 5% erfðafjárskattur og afraksturinn notaður til að greiða eftirlaun hermanna.
Nokkuð er misjafnt hvort skatturinn er lagður á dánarbúið, þá er talað um estate tax á ensku, eða á erfingjana, þá er talað um inheritance tax á ensku. Á Íslandi á hið síðara við. Í Bandaríkjunum eru báðar tegundir notaðar, alríkisstjórnin leggur skatt á dánarbú en fylkin leggja flest skatt á erfingjana. Alríkisstjórnin lagði fyrst skatt á dánarbú árið 1898 til að greiða fyrir stríðsrekstur gegn Spáni. Skatturinn var afnuminn árið 1902 en svo lagður á aftur 1916 til að greiða hernaðarútgjöld vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann hefur ekki verið afnuminn síðan þótt því stríði sé löngu lokið. Það er í sjálfu sér ágætt dæmi um að skattar lifa oft mun lengur en rökin fyrir álagningu þeirra.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gylfi Magnússon. „Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2653.
Gylfi Magnússon. (2002, 19. ágúst). Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2653
Gylfi Magnússon. „Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2653>.