Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um barrskógabeltið?

Jón Már Halldórsson

Barrskógabelti jarðar, sem gengur gjarnan undir orðinu taiga í erlendum málum, liggur aðallega á svæðum á milli 50° og 60° norðlægrar breiddar, allt í kringum norðurpól. Mestir eru barrskógarnir í Rússlandi þar sem langstærstur hluti þeirra vex, auk þess sem skógarnir teygja sig suður yfir landamærin til norðurhluta Kasakstan. Einnig eru miklir barrskógar í Kanada, Skandinavíu og í nyrstu fylkjum Bandaríkjanna. Af öðrum stöðum má nefna að barrskógar vaxa á nokkrum Kyrrahafseyjum svo sem Hokkaídó-eyju í Japan og Sakhalín-eyju sem tilheyrir Rússlandi.



Útbreiðsla barrskógabeltisins sýnd með grænum lit.

Helstu einkenni barrskóganna eru:

  • Kaldir og snjóþungir vetur.
  • Úrkoma er aðallega í formi snjókomu.
  • Jarðvegur er þunnur og næringarrýr og sýrustig hans hærra en í laufskógum.
  • Mun rýrari undirgróður samanborið við laufskóga því að sólarljósið nær ekki eins greiðlega að skógarbotninum þar sem barrskógar eru mjög þéttir.
  • Mun minni tegundafjölbreytni en í öðrum skógum.

Vistfræðingar greina barrskóga í tvo meginflokka, annars vegar lokaða skóga sem eru þéttir og ógreiðfærir með mosavöxnum skógarbotni og hins vegar gisnari skóga með miklu lynggróðri.

Öll rotnun er mun hægar í barrskógum en í laufskógum. Afleiðingin er sú að geysimikið magn af hálfrotnandi gróðurleifum þekja skógarbotninn þannig að hann er afar mjúkur þegar gengið er um hann.

Tiltölulega fáar tegundir trjágróðurs þekja mikil svæði í barrskógunum. Þetta eru tegundir af fjórum meginættkvíslum; lerki (Larix), greni (Picea), þinur (Abies) og fura (Pinus). Í Norður-Ameríku eru tvær tegundir af þin og tvær tegundir af greni ríkjandi en í Skandinavíu og vestur Rússlandi er skógarfuran (Pinus sylvestris) afar útbreidd. Það eru ekki aðeins sígræn tré sem vaxa í barrskógabeltinu heldur einnig tegundir eins og birki, aspir, reyniviður og víðitegundir.

Silfurþinur (Abies amabilis).

Í samanburði við laufskógana í suðri státa barrskógarnir ekki af miklum fjölbreytileika þegar kemur að dýrategundum. Þær tegundir sem lifa í barrskógunum eru oftast afar útbreiddar svo sem úlfar (Canis lupus) og skógarbirnir (Ursus arctos). Einnig má nefna tegundir eins og krossnef (Loxia curvirostra), rauðíkorna (Sciurus vulgaris) og fjölda annarra tegunda sem lifa á fræjum, könglum og hnetum sem falla til í miklu magni.

Í barrskógunum lifa líka stórir grasbítar, svo sem elgir (Alces alces), sem lifa á trjágróðri eða plöntum sem finnast á skógarbotninum. Skógarhjörturinn eða vapiti-hjörturinn (Cervus canadiensis) er einnig afar áberandi og mikilfenglegur íbúi barrskóganna en hefur þó ekki jafn mikla útbreiðslu og elgurinn. Skógarhirtir finnast í vesturhluta Norður-Ameríku og í barrskógunum austast í Síberíu (eða austur Rússlandi). Hins vegar hafa þeir horfið víða af svæðum þar sem þeir lifðu áður, til dæmis audobon-hjörturinn sem lifði í austurhluta Norður-Ameríku. Meðal mest áberandi grasbíta í barrskógum Skandinavíu og vestur Rússlands er rádýrið (Capreolus capreolus) sem getur verið mjög algengt á svæðum þar sem veiðiálag er ekki of mikið.

Fjölmargar tegundir smærri nagdýra, svo sem skógarmýs og læmingjar, finnast á skógarbotninum þar sem þau lifa á margvíslegri fæðu, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Áhrif bjórsins eða bifursins (Castor canadensis) geta verið veruleg á votlendissvæðum víða í barrskógunum, sérstaklega í Kanada þar sem talsvert er um hann. Önnur tegund bifurs er evrópski bifurinn (Castor fiber) sem var nærri útdauður fyrir um öld síðan en virðist vera að ná sér á ný. Bifurinn er ekki aðeins bundinn við barrskóga eins og söguleg útbreiðsla hans sýnir í Evrópu heldur teygir hann útbreiðslu sína einnig suður í laufskóga.


Bifurinn byggir stíflur og getur haft veruleg áhrif á nánasta umhverfi sitt í barrskógunum.

Á meðal fugla sem eru áberandi í barrskógum í austurhluta Síberíu má nefna apalþröstinn (Zoothera sibirica) sem étur ýmsa hryggleysingja af skógarbotninum. Annar fugl, sem hefur nú numið land hér á landi, er glókollurinn (Regulus regulus). Báðar eru þessar tegundir farfuglar og yfirgefa barrskógana á haustin. Af algengum fuglategundum í barrskógum Kanada má nefna hörputittling (Zonotrichia albicollis), sem meðal annars hefur flækst hingað til lands á farflugi sínu, og bláskríkju (Dendroica virens). Helstu ránfuglar barrskóganna eru meðal annars fjallvákur (Buteo lagopus) í Norður-Ameríku, gullörn (Aquila chrysaetos) í Asíu og hrafninn (Corvus corax) sem bæði er afar drjúgur afræningi og hræfugl um allt barrskógabeltið.

Í barrskógunum þurfa spendýr að glíma við langan og harðan vetur, annað hvort með því að leggjast í dvala líkt og birnir eða með því að þreyja þorrann og takast á við mikla vetrarkulda með hjálp hlýs feldar, eins og gaupur (Lynx lynx) og úlfar (Canis lupus) gera. Mikill hluti varpfugla barrskóganna hverfur hins vegar suður á bóginn yfir vetrartímann, en þó eru tegundir svo sem uglur sem halda kyrru fyrir allt árið og lifa á nagdýrum sem halda til undir snjólagi.

Þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun um fugla og spendýr barrskóganna enda eiga hundruð tegunda, ásamt skriðdýrum og fáeinum tegunda froska, heimkynni sín í þessu mikla skóglendi.

Myndir:


Í heild hljóðaði spurningin svona:

Getið þið sagt mér allt um barrskógabeltið? Til dæmis hvað það nær yfir, hvaða dýr lifa þar og svo framvegis.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

7.5.2009

Síðast uppfært

28.5.2024

Spyrjandi

Alexandra Kristjánsdóttir, f. 1996, Valdís Björk Þorgeirsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um barrskógabeltið?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2009, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51435.

Jón Már Halldórsson. (2009, 7. maí). Hvað getið þið sagt mér um barrskógabeltið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51435

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um barrskógabeltið?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2009. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51435>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um barrskógabeltið?
Barrskógabelti jarðar, sem gengur gjarnan undir orðinu taiga í erlendum málum, liggur aðallega á svæðum á milli 50° og 60° norðlægrar breiddar, allt í kringum norðurpól. Mestir eru barrskógarnir í Rússlandi þar sem langstærstur hluti þeirra vex, auk þess sem skógarnir teygja sig suður yfir landamærin til norðurhluta Kasakstan. Einnig eru miklir barrskógar í Kanada, Skandinavíu og í nyrstu fylkjum Bandaríkjanna. Af öðrum stöðum má nefna að barrskógar vaxa á nokkrum Kyrrahafseyjum svo sem Hokkaídó-eyju í Japan og Sakhalín-eyju sem tilheyrir Rússlandi.



Útbreiðsla barrskógabeltisins sýnd með grænum lit.

Helstu einkenni barrskóganna eru:

  • Kaldir og snjóþungir vetur.
  • Úrkoma er aðallega í formi snjókomu.
  • Jarðvegur er þunnur og næringarrýr og sýrustig hans hærra en í laufskógum.
  • Mun rýrari undirgróður samanborið við laufskóga því að sólarljósið nær ekki eins greiðlega að skógarbotninum þar sem barrskógar eru mjög þéttir.
  • Mun minni tegundafjölbreytni en í öðrum skógum.

Vistfræðingar greina barrskóga í tvo meginflokka, annars vegar lokaða skóga sem eru þéttir og ógreiðfærir með mosavöxnum skógarbotni og hins vegar gisnari skóga með miklu lynggróðri.

Öll rotnun er mun hægar í barrskógum en í laufskógum. Afleiðingin er sú að geysimikið magn af hálfrotnandi gróðurleifum þekja skógarbotninn þannig að hann er afar mjúkur þegar gengið er um hann.

Tiltölulega fáar tegundir trjágróðurs þekja mikil svæði í barrskógunum. Þetta eru tegundir af fjórum meginættkvíslum; lerki (Larix), greni (Picea), þinur (Abies) og fura (Pinus). Í Norður-Ameríku eru tvær tegundir af þin og tvær tegundir af greni ríkjandi en í Skandinavíu og vestur Rússlandi er skógarfuran (Pinus sylvestris) afar útbreidd. Það eru ekki aðeins sígræn tré sem vaxa í barrskógabeltinu heldur einnig tegundir eins og birki, aspir, reyniviður og víðitegundir.

Silfurþinur (Abies amabilis).

Í samanburði við laufskógana í suðri státa barrskógarnir ekki af miklum fjölbreytileika þegar kemur að dýrategundum. Þær tegundir sem lifa í barrskógunum eru oftast afar útbreiddar svo sem úlfar (Canis lupus) og skógarbirnir (Ursus arctos). Einnig má nefna tegundir eins og krossnef (Loxia curvirostra), rauðíkorna (Sciurus vulgaris) og fjölda annarra tegunda sem lifa á fræjum, könglum og hnetum sem falla til í miklu magni.

Í barrskógunum lifa líka stórir grasbítar, svo sem elgir (Alces alces), sem lifa á trjágróðri eða plöntum sem finnast á skógarbotninum. Skógarhjörturinn eða vapiti-hjörturinn (Cervus canadiensis) er einnig afar áberandi og mikilfenglegur íbúi barrskóganna en hefur þó ekki jafn mikla útbreiðslu og elgurinn. Skógarhirtir finnast í vesturhluta Norður-Ameríku og í barrskógunum austast í Síberíu (eða austur Rússlandi). Hins vegar hafa þeir horfið víða af svæðum þar sem þeir lifðu áður, til dæmis audobon-hjörturinn sem lifði í austurhluta Norður-Ameríku. Meðal mest áberandi grasbíta í barrskógum Skandinavíu og vestur Rússlands er rádýrið (Capreolus capreolus) sem getur verið mjög algengt á svæðum þar sem veiðiálag er ekki of mikið.

Fjölmargar tegundir smærri nagdýra, svo sem skógarmýs og læmingjar, finnast á skógarbotninum þar sem þau lifa á margvíslegri fæðu, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Áhrif bjórsins eða bifursins (Castor canadensis) geta verið veruleg á votlendissvæðum víða í barrskógunum, sérstaklega í Kanada þar sem talsvert er um hann. Önnur tegund bifurs er evrópski bifurinn (Castor fiber) sem var nærri útdauður fyrir um öld síðan en virðist vera að ná sér á ný. Bifurinn er ekki aðeins bundinn við barrskóga eins og söguleg útbreiðsla hans sýnir í Evrópu heldur teygir hann útbreiðslu sína einnig suður í laufskóga.


Bifurinn byggir stíflur og getur haft veruleg áhrif á nánasta umhverfi sitt í barrskógunum.

Á meðal fugla sem eru áberandi í barrskógum í austurhluta Síberíu má nefna apalþröstinn (Zoothera sibirica) sem étur ýmsa hryggleysingja af skógarbotninum. Annar fugl, sem hefur nú numið land hér á landi, er glókollurinn (Regulus regulus). Báðar eru þessar tegundir farfuglar og yfirgefa barrskógana á haustin. Af algengum fuglategundum í barrskógum Kanada má nefna hörputittling (Zonotrichia albicollis), sem meðal annars hefur flækst hingað til lands á farflugi sínu, og bláskríkju (Dendroica virens). Helstu ránfuglar barrskóganna eru meðal annars fjallvákur (Buteo lagopus) í Norður-Ameríku, gullörn (Aquila chrysaetos) í Asíu og hrafninn (Corvus corax) sem bæði er afar drjúgur afræningi og hræfugl um allt barrskógabeltið.

Í barrskógunum þurfa spendýr að glíma við langan og harðan vetur, annað hvort með því að leggjast í dvala líkt og birnir eða með því að þreyja þorrann og takast á við mikla vetrarkulda með hjálp hlýs feldar, eins og gaupur (Lynx lynx) og úlfar (Canis lupus) gera. Mikill hluti varpfugla barrskóganna hverfur hins vegar suður á bóginn yfir vetrartímann, en þó eru tegundir svo sem uglur sem halda kyrru fyrir allt árið og lifa á nagdýrum sem halda til undir snjólagi.

Þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun um fugla og spendýr barrskóganna enda eiga hundruð tegunda, ásamt skriðdýrum og fáeinum tegunda froska, heimkynni sín í þessu mikla skóglendi.

Myndir:


Í heild hljóðaði spurningin svona:

Getið þið sagt mér allt um barrskógabeltið? Til dæmis hvað það nær yfir, hvaða dýr lifa þar og svo framvegis.
...