Sólin Sólin Rís 08:30 • sest 18:51 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:02 • Sest 08:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:10 • Síðdegis: 22:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:09 • Síðdegis: 16:19 í Reykjavík

Hvernig er gróðurfarið í Norður-Ameríku?

Jón Már Halldórsson

Í þessu svari er miðað við að mörkin á milli Norður- og Suður-Ameríku liggi um Panamaeiðið en stundum eru notuð önnur viðmið eins og greint er frá í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis við spurningunni Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku? Í norðri nær Norður-Ameríka að heimskautaströndum Alaska, Kanada og Grænlands. Flatarmál Norður-Ameríku er rúmlega 24,7 milljónir km2. Eins og gefur að skilja þá er gróðurfar mjög fjölbreytt á svo víðfeðmu landsvæði, allt frá regnskógum í suðri að túndrum í norðri, og því verður að stikla á stóru, eða frekar mjög stóru, í þessu svari.

Í syðsta hluta álfunnar og allt til suðurhluta Mexíkó eru þéttir regnskógar langmest áberandi. Miðhluti Mexíkó samanstendur af skógum í þremur fjallgörðum en mikið af þessum svæðum hafa nú verið brotin til ræktunar enda er landbúnaður umfangsmikill í landinu. Þessa skóga getum við kallað tempraða en þeir samanstanda af tegundum eins og furu, mahóní, eik og sedrusviði svo dæmi séu nefnd.

Í norðurhluta Mexíkó eru eyðimerkursvæði, bæði Chihuahua-eyðimörkin, sem er stærsta eyðimörk Norður-Ameríku, og Sonora-eyðimörkin. Áberandi gróður í þessum eyðimörkum eru kaktusar, meðal annars af ættkvíslinni Ferocactus sem er algengur í norðvesturhluta Mexíkó og suðvesturhluta Bandaríkjanna.

Gróðurbelti í Norður-Ameríku, eins og þau gætu verið án afskipta mannsins, það er án landbúnaðar síðustu 500 árin.

Ef við fikrum okkur norður yfir landamærin til Bandaríkjanna þá eru einkennandi gróðursvæði meðal annars tempraðir skógar og gresjur í mið- og austurhluta landsins en eyðimerkur í suðurhluta landsins. Chihuahua- og Sonora-eyðimerkurnar teygja sig yfir landamærin. Sonora-eyðimörkin þekur Arizona og hluta af Kaliforníuríki en Chihuahua-eyðimörkin þekur vesturhluta Texas og hluta af Nýju-Mexíkó.

Í fjallgörðum, svo sem í Klettafjöllunum, eru breytilegar gróðurgerðir. Þar eru barrskógar í nokkurri hæð sem taka við af sumargrænum lauftrjám. Við slíkar aðstæður má sjá áberandi beltaskiptingu gróðurs eftir því sem ofar dregur í fjöllin líkt og beltaskipting sem sést þegar farið er frá suðri til norðurs.

Í þessari örstuttu yfirferð yfir gróðurfar Norður-Ameríku er ekki hægt að sleppa hinum merkilegu skógum við Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Þar má finna leifar af skóglendi risafura í þjóðgörðum í Kaliforníu, meðal annars í Sequoia-þjóðgarðinum í hlíðum Sierra Nevada. Þar má til að mynda finna risafuru sem gengur undir nafninu Sherman hershöfðingi og er fræg fyrir að vera talin sú lífvera á jörðinni sem er mest að rúmmáli og jafnframt þyngst.

Barrskógur í norðurhluta Kaliforníuríkis.

Við vesturströnd Kanada teygja sumargrænir skógar sig nokkuð langt í norður en í sunnanverðu landinu eru hinir víðáttumiklu barrskógar mest áberandi. Barrskógarnir í Norður-Ameríku, eða taigan en taiga er rússnesk heiti yfir barrskóga, teljast vera meðal mestu skóga á jörðinni. Barrskógarnir liggja eins og belti umhverfis jörðina og er nærri einn þriðji af heildarstærð þeirra í Norður-Ameríku, þar sem þeir liggja fyrir norðan 50. breiddargráðu frá Kyrrahafsströndinni og austur til strandar Atlantshafsins

Þegar komið er að ytri mörkum barrskógabeltisins verður gisnari og lágvaxnari túndrugróður meira áberandi. Nafnið túndra er komið úr finnsku, tunturia sem þýðir bert land. Það sem helst einkennir túndrur er ekki aðeins lágvaxinn gróður heldur einnig sífrerinn þar sem jarðvegurinn undir efsta laginu, frá 25-100 cm, er frosinn og hindrar að stórvaxnari tré geti vaxið þar. Í sumarhitunum bráðnar efsta lagið. Við það myndast tjarnir og mýrlendi sem eru kjörlendi fyrir fugla sem koma sunnan að til að verpa enda er blómlegt fuglalíf á túndrusvæðum Norður-Ameríku á sumrin auk þess sem skordýr, svo sem moskítóflugur, eru afar áberandi.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

1.10.2012

Spyrjandi

Guðný Jónsdóttir, f. 1998

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er gróðurfarið í Norður-Ameríku?“ Vísindavefurinn, 1. október 2012. Sótt 2. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61941.

Jón Már Halldórsson. (2012, 1. október). Hvernig er gróðurfarið í Norður-Ameríku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61941

Jón Már Halldórsson. „Hvernig er gróðurfarið í Norður-Ameríku?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2012. Vefsíða. 2. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61941>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er gróðurfarið í Norður-Ameríku?
Í þessu svari er miðað við að mörkin á milli Norður- og Suður-Ameríku liggi um Panamaeiðið en stundum eru notuð önnur viðmið eins og greint er frá í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis við spurningunni Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku? Í norðri nær Norður-Ameríka að heimskautaströndum Alaska, Kanada og Grænlands. Flatarmál Norður-Ameríku er rúmlega 24,7 milljónir km2. Eins og gefur að skilja þá er gróðurfar mjög fjölbreytt á svo víðfeðmu landsvæði, allt frá regnskógum í suðri að túndrum í norðri, og því verður að stikla á stóru, eða frekar mjög stóru, í þessu svari.

Í syðsta hluta álfunnar og allt til suðurhluta Mexíkó eru þéttir regnskógar langmest áberandi. Miðhluti Mexíkó samanstendur af skógum í þremur fjallgörðum en mikið af þessum svæðum hafa nú verið brotin til ræktunar enda er landbúnaður umfangsmikill í landinu. Þessa skóga getum við kallað tempraða en þeir samanstanda af tegundum eins og furu, mahóní, eik og sedrusviði svo dæmi séu nefnd.

Í norðurhluta Mexíkó eru eyðimerkursvæði, bæði Chihuahua-eyðimörkin, sem er stærsta eyðimörk Norður-Ameríku, og Sonora-eyðimörkin. Áberandi gróður í þessum eyðimörkum eru kaktusar, meðal annars af ættkvíslinni Ferocactus sem er algengur í norðvesturhluta Mexíkó og suðvesturhluta Bandaríkjanna.

Gróðurbelti í Norður-Ameríku, eins og þau gætu verið án afskipta mannsins, það er án landbúnaðar síðustu 500 árin.

Ef við fikrum okkur norður yfir landamærin til Bandaríkjanna þá eru einkennandi gróðursvæði meðal annars tempraðir skógar og gresjur í mið- og austurhluta landsins en eyðimerkur í suðurhluta landsins. Chihuahua- og Sonora-eyðimerkurnar teygja sig yfir landamærin. Sonora-eyðimörkin þekur Arizona og hluta af Kaliforníuríki en Chihuahua-eyðimörkin þekur vesturhluta Texas og hluta af Nýju-Mexíkó.

Í fjallgörðum, svo sem í Klettafjöllunum, eru breytilegar gróðurgerðir. Þar eru barrskógar í nokkurri hæð sem taka við af sumargrænum lauftrjám. Við slíkar aðstæður má sjá áberandi beltaskiptingu gróðurs eftir því sem ofar dregur í fjöllin líkt og beltaskipting sem sést þegar farið er frá suðri til norðurs.

Í þessari örstuttu yfirferð yfir gróðurfar Norður-Ameríku er ekki hægt að sleppa hinum merkilegu skógum við Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Þar má finna leifar af skóglendi risafura í þjóðgörðum í Kaliforníu, meðal annars í Sequoia-þjóðgarðinum í hlíðum Sierra Nevada. Þar má til að mynda finna risafuru sem gengur undir nafninu Sherman hershöfðingi og er fræg fyrir að vera talin sú lífvera á jörðinni sem er mest að rúmmáli og jafnframt þyngst.

Barrskógur í norðurhluta Kaliforníuríkis.

Við vesturströnd Kanada teygja sumargrænir skógar sig nokkuð langt í norður en í sunnanverðu landinu eru hinir víðáttumiklu barrskógar mest áberandi. Barrskógarnir í Norður-Ameríku, eða taigan en taiga er rússnesk heiti yfir barrskóga, teljast vera meðal mestu skóga á jörðinni. Barrskógarnir liggja eins og belti umhverfis jörðina og er nærri einn þriðji af heildarstærð þeirra í Norður-Ameríku, þar sem þeir liggja fyrir norðan 50. breiddargráðu frá Kyrrahafsströndinni og austur til strandar Atlantshafsins

Þegar komið er að ytri mörkum barrskógabeltisins verður gisnari og lágvaxnari túndrugróður meira áberandi. Nafnið túndra er komið úr finnsku, tunturia sem þýðir bert land. Það sem helst einkennir túndrur er ekki aðeins lágvaxinn gróður heldur einnig sífrerinn þar sem jarðvegurinn undir efsta laginu, frá 25-100 cm, er frosinn og hindrar að stórvaxnari tré geti vaxið þar. Í sumarhitunum bráðnar efsta lagið. Við það myndast tjarnir og mýrlendi sem eru kjörlendi fyrir fugla sem koma sunnan að til að verpa enda er blómlegt fuglalíf á túndrusvæðum Norður-Ameríku á sumrin auk þess sem skordýr, svo sem moskítóflugur, eru afar áberandi.

Myndir:...