Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Var Herðubreið eldfjall og gæti hún gosið?

Snæbjörn Guðmundsson

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Var Herðubreið eldfjall? Ef svo er, hvenær kulnaði hún og af hverju?

Herðubreið hefur oft verið nefnd drottning íslenskra fjalla. Hún skipar enda mikilvægan sess í huga margra Íslendinga og var raunar kosin „þjóðarfjall“ Íslendinga í óformlegri kosningu árið 2002, á ári fjallsins. Herðubreið blasir víða við af hálendinu norðan Vatnajökuls. Útsýnið á hana þykir einkar fallegt frá Möðrudal á Fjöllum en þaðan voru feðgarnir og listamennirnir Jón Stefánsson og Stefán Jónsson, sem gerðu Herðubreið ódauðlega í málverkum sínum.

Herðubreið var fyrst klifin svo öruggt sé árið 1908 af þýska jarðfræðingnum Hans Reck og Sigurði Sumarliðasyni. 30 árum fyrr sagðist reyndar bandarískur ævintýramaður, William Lee Howard, hafa klifið fjallið í Íslandsferð sinni en frásögn hans af ferðinni birtist haustið 1881 í bandaríska dagblaðinu New York Tribune. Howard sagðist hafa verið 38 klukkustundir á leiðinni og notað flugdreka til að festa klifurlínu í klettum fjallsins, áður en hann hífði sig upp. Það er kannski óþarfi að taka það fram en fáir hafa tekið mark á þessari ýkjusögu en Howard var þó líklegast fyrstur til að fullyrða að Herðubreið væri eldfjall, en vísindamenn voru almennt ekki þeirrar skoðunar fyrr en Hans og Sigurður lýstu toppgíg fjallsins eftir göngu sína 1908.

Herðubreið er sem sagt eldstöð en ólíkt hinum miklu megineldstöðvum landsins, svo sem Öskju og Kröflu, þá myndaðist Herðubreið að öllum líkindum í einu stöku eldgosi, þótt raunar hafi komið fram tilgáta um að Herðubreið hafi myndast í nokkrum eldgosum yfir langan tíma. Yfirleitt er hún þó tekin sem dæmi um eldstöð, sem gýs aðeins einu sinni en svo aldrei aftur, og á það líklegast við flestar eldstöðvar á Íslandi utan megineldstöðvanna. Slíkar eldstöðvar eru oft kallaðar „monogenetic“ á ensku, sem vísar til þess að þær eru nokkurs konar „einnar kynslóðar“ eldfjöll. Við þurfum því vart að hafa áhyggjur af gosi í Herðubreið enda er ekki litið á hana sem lifandi eða virka eldstöð.

Herðubreið er dæmi um eldstöð sem gýs aðeins einu sinni en svo aldrei aftur, og á það líklegast við flestar eldstöðvar á Íslandi utan megineldstöðvanna.

Aldursgreiningar benda til þess að Herðubreið hafi myndast fyrir um 10–11 þúsund árum, rétt undir lok ísaldar, og hefur gosið hafist undir þykkum ísaldarjökli. Við eldgos undir jökli hlaðast gosefnin upp og mynda fjall í stað þess að breiða úr sér líkt og gerist í hraungosum á íslausu landi. Þegar kvika kemur fyrst upp undir jökulbotn kemst hún í snertingu við kalt bræðsluvatn. Kvikan snöggkólnar af þeim völdum og getur þá annað tveggja gerst. Ef þrýstingur af völdum jökulsins er mikill getur kvikan runnið frá gosopinu og myndað svokallað bólstraberg. Við minni þrýsting, svo sem grunnt undir yfirborði jökulsins, tætist kvikan hins vegar í gjóskusprengingum og verður að gosösku, sem síðar harðnar í móberg.

Í gosum undir jökli verður oft fyrst til bólstraberg, sem hleðst upp í bólstrabergsbing. Þegar tekur að grynnka á gosopinu breytist svo fasi eldgossins og aska tekur að myndast samfara gjóskusprengingum. Askan hleðst ofan á bólstrabergið og myndar þykkan gjóskubunka. Ef gosið er langlíft hefst þriðji kaflinn þegar gosopið nær upp úr jöklinum en þá hefur bræðsluvatn ekki lengur greiðan aðgang að gígnum. Þá hætta gjóskusprengingarnar og við tekur hraunrennsli frá gígnum. Í þessum síðasta fasa verður hraunhetta til á kolli fjallsins en fjöll með hraunhettur eru nefnd stapar. Herðubreið er gott dæmi um slíka myndun.

Toppur Herðubreiðar er í 1682 metra hæð yfir sjávarmáli en hásléttan umhverfis fjallið liggur um 1100 metrum lægra. Hæðin frá hásléttunni upp í klettabeltin í hraunhettu Herðubreiðar er um 800-1000 metrar. Þar sem hraunhettan á toppnum byrjar fyrst að myndast þegar gosið hefur náð upp úr jöklinum gefur þykkt sökkulsins undir hraunhettunni okkur nokkra vísbendingu um þykkt jökulsins á svæðinu þegar gaus í Herðubreið og hefur hann verið hátt í þúsund metra þykkur. Það segir þó ekki alla söguna um hámarksþykkt jökulsins á ísöldinni því jökullinn hefur verið tekinn að þynnast þegar gaus, og er raunar líklegt að jökullinn hafi verið á milli eins og tveggja kílómetra þykkur á hálendinu við hámark ísaldarinnar.

Ein uppgönguleið er á Herðubreið og er hún yfirleitt fær vönu göngufólki, þó stundum sé hún illfær fram á sumar vegna snjóa. Vegna hættu á grjóthruni ætti alltaf að klífa fjallið með hjálm, og þar að auki er nauðsynlegt að hafa fjallgöngubrodda og ísexi með í för ef mikill snjór er á leiðinni. Þegar komið er upp á topp Herðubreiðar blasir fallegur hringlaga toppgígur við, hálffylltur vatni og fram eftir sumri liggur ís á vatninu. Umhverfis gíginn er þykkur hraunabunki, veðraður og sprunginn en frá toppnum er geysimikið útsýni yfir norður- og norðausturhluta landsins.

Neðan frá sést illa hvernig toppur Herðubreiðar er útlits og var raunar talið af flestum að hann væri þakinn jökli allt þar til Hans og Sigurliði komust upp árið 1908 og leiðréttu þá hugmynd. Í fyrrnefndu viðtali við William Lee Howard frá 1881 fullyrti hann að toppurinn væri þakinn hrauni og þetta hlyti því að vera eldfjall, þótt ekki hafi hann talað um toppgíg. Lýsing Howards á uppbyggingu Herðubreiðar liggur reyndar svo nærri sannleikanum að sú spurning hlýtur að vakna hvort hann hafi ef til vill eftir allt saman komist upp á fjallið. Lét hann kannski rótgróinn ýkjustíl sinn hlaupa með sig í gönur með því að breyta frásögn af ósköp venjulegri fjallgöngu í tröllasögu svo enginn trúði því að hann hefði raunverulega komist á toppinn?

Heimildir:
  • Licciardi, J. M., Kurz, M. D. og Curtice, J. M. 2007. Glacial and volcanic history of Icelandic table mountains from cosmogenic 3He exposure ages. Quaternary Science Reviews 26, 1529-1546.
  • Sveinn P. Jakobsson og Magnús T. Guðmundsson. 2008. Subglacial and intraglacial volcanic formations in Iceland. Jökull 58, 179-196.
  • Sveinn P. Jakobsson og Magnús T. Guðmundsson. 2012. Móbergsmyndunin og gos undir jöklum. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4), 113-125.
  • Werner, R., Schmincke, H. U. og Guðmundur E. Sigvaldason. 1996. A new model for the evolution of table mountains: volcanological and petrological evidence from Herdubreid and Herdubreidartögl volcanoes (Iceland). Geologische Rundschau 85, 390-397.

Mynd:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

23.12.2016

Spyrjandi

Eva Laufey Eggertsdóttir

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Var Herðubreið eldfjall og gæti hún gosið?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2016, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56063.

Snæbjörn Guðmundsson. (2016, 23. desember). Var Herðubreið eldfjall og gæti hún gosið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56063

Snæbjörn Guðmundsson. „Var Herðubreið eldfjall og gæti hún gosið?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2016. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56063>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Var Herðubreið eldfjall og gæti hún gosið?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:

Var Herðubreið eldfjall? Ef svo er, hvenær kulnaði hún og af hverju?

Herðubreið hefur oft verið nefnd drottning íslenskra fjalla. Hún skipar enda mikilvægan sess í huga margra Íslendinga og var raunar kosin „þjóðarfjall“ Íslendinga í óformlegri kosningu árið 2002, á ári fjallsins. Herðubreið blasir víða við af hálendinu norðan Vatnajökuls. Útsýnið á hana þykir einkar fallegt frá Möðrudal á Fjöllum en þaðan voru feðgarnir og listamennirnir Jón Stefánsson og Stefán Jónsson, sem gerðu Herðubreið ódauðlega í málverkum sínum.

Herðubreið var fyrst klifin svo öruggt sé árið 1908 af þýska jarðfræðingnum Hans Reck og Sigurði Sumarliðasyni. 30 árum fyrr sagðist reyndar bandarískur ævintýramaður, William Lee Howard, hafa klifið fjallið í Íslandsferð sinni en frásögn hans af ferðinni birtist haustið 1881 í bandaríska dagblaðinu New York Tribune. Howard sagðist hafa verið 38 klukkustundir á leiðinni og notað flugdreka til að festa klifurlínu í klettum fjallsins, áður en hann hífði sig upp. Það er kannski óþarfi að taka það fram en fáir hafa tekið mark á þessari ýkjusögu en Howard var þó líklegast fyrstur til að fullyrða að Herðubreið væri eldfjall, en vísindamenn voru almennt ekki þeirrar skoðunar fyrr en Hans og Sigurður lýstu toppgíg fjallsins eftir göngu sína 1908.

Herðubreið er sem sagt eldstöð en ólíkt hinum miklu megineldstöðvum landsins, svo sem Öskju og Kröflu, þá myndaðist Herðubreið að öllum líkindum í einu stöku eldgosi, þótt raunar hafi komið fram tilgáta um að Herðubreið hafi myndast í nokkrum eldgosum yfir langan tíma. Yfirleitt er hún þó tekin sem dæmi um eldstöð, sem gýs aðeins einu sinni en svo aldrei aftur, og á það líklegast við flestar eldstöðvar á Íslandi utan megineldstöðvanna. Slíkar eldstöðvar eru oft kallaðar „monogenetic“ á ensku, sem vísar til þess að þær eru nokkurs konar „einnar kynslóðar“ eldfjöll. Við þurfum því vart að hafa áhyggjur af gosi í Herðubreið enda er ekki litið á hana sem lifandi eða virka eldstöð.

Herðubreið er dæmi um eldstöð sem gýs aðeins einu sinni en svo aldrei aftur, og á það líklegast við flestar eldstöðvar á Íslandi utan megineldstöðvanna.

Aldursgreiningar benda til þess að Herðubreið hafi myndast fyrir um 10–11 þúsund árum, rétt undir lok ísaldar, og hefur gosið hafist undir þykkum ísaldarjökli. Við eldgos undir jökli hlaðast gosefnin upp og mynda fjall í stað þess að breiða úr sér líkt og gerist í hraungosum á íslausu landi. Þegar kvika kemur fyrst upp undir jökulbotn kemst hún í snertingu við kalt bræðsluvatn. Kvikan snöggkólnar af þeim völdum og getur þá annað tveggja gerst. Ef þrýstingur af völdum jökulsins er mikill getur kvikan runnið frá gosopinu og myndað svokallað bólstraberg. Við minni þrýsting, svo sem grunnt undir yfirborði jökulsins, tætist kvikan hins vegar í gjóskusprengingum og verður að gosösku, sem síðar harðnar í móberg.

Í gosum undir jökli verður oft fyrst til bólstraberg, sem hleðst upp í bólstrabergsbing. Þegar tekur að grynnka á gosopinu breytist svo fasi eldgossins og aska tekur að myndast samfara gjóskusprengingum. Askan hleðst ofan á bólstrabergið og myndar þykkan gjóskubunka. Ef gosið er langlíft hefst þriðji kaflinn þegar gosopið nær upp úr jöklinum en þá hefur bræðsluvatn ekki lengur greiðan aðgang að gígnum. Þá hætta gjóskusprengingarnar og við tekur hraunrennsli frá gígnum. Í þessum síðasta fasa verður hraunhetta til á kolli fjallsins en fjöll með hraunhettur eru nefnd stapar. Herðubreið er gott dæmi um slíka myndun.

Toppur Herðubreiðar er í 1682 metra hæð yfir sjávarmáli en hásléttan umhverfis fjallið liggur um 1100 metrum lægra. Hæðin frá hásléttunni upp í klettabeltin í hraunhettu Herðubreiðar er um 800-1000 metrar. Þar sem hraunhettan á toppnum byrjar fyrst að myndast þegar gosið hefur náð upp úr jöklinum gefur þykkt sökkulsins undir hraunhettunni okkur nokkra vísbendingu um þykkt jökulsins á svæðinu þegar gaus í Herðubreið og hefur hann verið hátt í þúsund metra þykkur. Það segir þó ekki alla söguna um hámarksþykkt jökulsins á ísöldinni því jökullinn hefur verið tekinn að þynnast þegar gaus, og er raunar líklegt að jökullinn hafi verið á milli eins og tveggja kílómetra þykkur á hálendinu við hámark ísaldarinnar.

Ein uppgönguleið er á Herðubreið og er hún yfirleitt fær vönu göngufólki, þó stundum sé hún illfær fram á sumar vegna snjóa. Vegna hættu á grjóthruni ætti alltaf að klífa fjallið með hjálm, og þar að auki er nauðsynlegt að hafa fjallgöngubrodda og ísexi með í för ef mikill snjór er á leiðinni. Þegar komið er upp á topp Herðubreiðar blasir fallegur hringlaga toppgígur við, hálffylltur vatni og fram eftir sumri liggur ís á vatninu. Umhverfis gíginn er þykkur hraunabunki, veðraður og sprunginn en frá toppnum er geysimikið útsýni yfir norður- og norðausturhluta landsins.

Neðan frá sést illa hvernig toppur Herðubreiðar er útlits og var raunar talið af flestum að hann væri þakinn jökli allt þar til Hans og Sigurliði komust upp árið 1908 og leiðréttu þá hugmynd. Í fyrrnefndu viðtali við William Lee Howard frá 1881 fullyrti hann að toppurinn væri þakinn hrauni og þetta hlyti því að vera eldfjall, þótt ekki hafi hann talað um toppgíg. Lýsing Howards á uppbyggingu Herðubreiðar liggur reyndar svo nærri sannleikanum að sú spurning hlýtur að vakna hvort hann hafi ef til vill eftir allt saman komist upp á fjallið. Lét hann kannski rótgróinn ýkjustíl sinn hlaupa með sig í gönur með því að breyta frásögn af ósköp venjulegri fjallgöngu í tröllasögu svo enginn trúði því að hann hefði raunverulega komist á toppinn?

Heimildir:
  • Licciardi, J. M., Kurz, M. D. og Curtice, J. M. 2007. Glacial and volcanic history of Icelandic table mountains from cosmogenic 3He exposure ages. Quaternary Science Reviews 26, 1529-1546.
  • Sveinn P. Jakobsson og Magnús T. Guðmundsson. 2008. Subglacial and intraglacial volcanic formations in Iceland. Jökull 58, 179-196.
  • Sveinn P. Jakobsson og Magnús T. Guðmundsson. 2012. Móbergsmyndunin og gos undir jöklum. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4), 113-125.
  • Werner, R., Schmincke, H. U. og Guðmundur E. Sigvaldason. 1996. A new model for the evolution of table mountains: volcanological and petrological evidence from Herdubreid and Herdubreidartögl volcanoes (Iceland). Geologische Rundschau 85, 390-397.

Mynd:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda....