Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hver var Stjörnu-Oddi Helgason og fyrir hvað er hann þekktur?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson

Eitt merkasta framlag Íslendinga á miðöldum til viðfangsefna raunvísinda er svokölluð Odda tala sem er eignuð norðlenska vinnumanninum Stjörnu-Odda,1 en hann virðist hafa verið uppi á tólftu öld, líkast til fyrri partinn.2 Þá er ritöld hafin á Íslandi og vitað að tiltekin erlend rit um stjarnvísindi og fleira þeim skylt voru til í landinu. Það kemur meðal annars fram í ritinu Rímbeglu frá því um eða eftir miðja tólftu öld, en þar segir frá ýmsum innfluttum fróðleik um stjörnur og rím (tímatal; e. time reckoning). Auk þess getur þar að lesa nokkra kafla sem bera glöggt vitni um sjálfstæðar athuganir íslenskra manna, og er Odda tala helst þeirra.

Eina heimild okkar um Odda sjálfan er í svokölluðum Stjörnu-Odda draumi, sem er einn af Íslendingaþáttum. Í upphafi hans segir svo:
Þórður hét maður er bjó í Múla norður í Reykjardal. Þar var á vist með honum sá maður er Oddi hét og var Helgason. Hann var kallaður Stjörnu-Oddi. Hann var rímkænn maður svo að engi maður var hans maki honum samtíða á öllu Íslandi, og að mörgu var hann annars vitur. Ekki var hann skáld né kvæðinn. Þess er og einkum getið um hans ráð að það höfðu menn fyrir satt að hann lygi aldrei ef hann vissi satt að segja, og að öllu var hann ráðvandur kallaður og tryggðarmaður hinn mesti. Félítill var hann og ekki mikill verkmaður.3
Síðan segir frá því að Þórður húsbóndi Odda sendi hann út til Flateyjar á vit fiska og þar dreymir hann drauminn sem er hin eiginlega saga. Efni hennar er við fyrstu sýn ótengt Odda sjálfum, en hins vegar segir frá því að hann vaknaði í miðjum draumi og gekk út og hugði að stjörnum sem hann átti venju til jafnan er hann sá „út um nætur þá er sjá mátti stjörnur“.4 Í lok þáttarins er sagt að efni hans megi þykja undarlegt og fáheyrt en þó muni vera rétt frá sagt „því að Oddi var reiknaður bæði fróður og sannsögull“.5

Hér með er upp talið það sem við vitum um persónu og hagi Stjörnu-Odda og er svo sem ekkert einsdæmi í vísindasögunni að lítið sé vitað um persónurnar þótt verkin lifi. En hin stóru orð sem höfð eru um rímkænsku Odda í textanum hér á undan eru ásamt öðru góð rök fyrir því að eigna honum Odda tölu. Jafnframt má hafa þau til marks um það að hann og verk hans hafi verið mörgum kunn um þó nokkurt skeið.

Odda tala er um tvær blaðsíður að lengd í venjulegri prentun. Hún er felld inn í Rímbeglu auk þess sem talan er varðveitt sem sjálfstætt rit í handritinu Gammel kongelig samling 1812 4to, og tveir fyrri kaflar hennar eru felldir inn í texta Hauksbókar. Talan hefur nokkrum sinnum verið gefin út fræðilega á prenti.

Öll umgerð Odda tölu er á þann veg að hún og efni hennar hafi orðið til hér á landi, og ekki er vitað um neinar hliðstæður í miðaldatextum. Talan er í þremur köflum og fjallar sá fyrsti um það, hvenær sólstöður (e. solstices) verði á sumri og vetri, fyrst í hlaupári og síðan í þrjú ár þaðan í frá þar til hringurinn lokast og sagan endurtekur sig. Annar kaflinn lýsir því hversu sólar gangur vex að sýn frá vetrarsólstöðum til sumarsólhvarfa og þverr síðan til næstu vetrarsólhvarfa. Í þriðja kafla er gerð grein fyrir því, hvernig stefnan til dögunar og dagseturs breytist yfir árið.

Efni Odda tölu stenst með prýði samanburð við það sem tíðkaðist í Evrópu á sama tíma. Víst má það nokkrum undrum sæta að vinnumaður norður í landi á tólftu öld hafi búið yfir þeirri þekkingu sem þarna er lýst og væntanlega tekið hana saman með einhverjum hætti þannig að talan væri fest á bókfell og síðan eignuð honum. Hitt ber einnig að hafa í huga að því aðeins er Odda tala okkur tiltæk nú að jarðvegur var fyrir hana á sínum tíma og áfram á miðöldum.

Forvitnilegt er að hugleiða notagildi þess fróðleiks sem fram kemur í Odda tölu. Sjómenn sem þurftu að sigla um hafið á öðrum tímum en kringum sumarsólhvörf, hefðu getað notað sér annan kafla tölunnar til þess að meta landfræðilega breidd (e. geographical latitude) út frá hádegishæð sólar. Menn voru yfirleitt ekki skemmra en viku í hafi og breytingin á stjörnubreidd (e. declination) sólar á þeim tíma getur numið nokkrum gráðum. Hádegishæð sólar minnkar sem því nemur ef miðað er við óbreytta landfræðilega breidd. Ef menn hafa ekki þekkt þessa breytingu og reynt að sigla þannig að hádegishæðin væri föst, þá hefur skipið borið af leið sem svarar nokkrum gráðum til norðurs eða suðurs.

Odda tala hefur til að mynda haft notagildi er kom að siglingum.

Notagildi þriðja kaflans í sjóferðum er ef til vill enn augljósara en þetta. Hugsum okkur til dæmis að menn hafi lent í hafvillu í þoku eða dumbungi og síðan létti til. Ef þeir þekkja þriðja kafla Odda tölu, þá geta þeir við þessar aðstæður notað stefnuna til dögunar eða dagseturs til að átta sig að nýju og stýra skipinu í þá átt sem þeir ætla sér.

Telja má vafalítið að Odda tala sé að mestu leyti reist á íslenskum athugunum og íslenskri hugsun. Erlend áhrif er helst hægt að hugsa sér sem munnlegan fróðleik frá meginlandi Evrópu sem hefur hvorki verið sérlega áreiðanlegur, nákvæmur né áþreifanlegur. Alltént hefur þurft bæði gagnrýna hugsun og sjálfstæða kunnáttu til að nýta slíkan fróðleik með þeirri skynsemi og nákvæmni sem gert er í Odda tölu.

Lærdómsríkt er að líta á fræði Odda sem vísi að stjörnufræði sem hefði getað þróast áfram sjálfstætt á grundvelli íslenskra athugana, ef menn hefðu ekki á sömu áratugum verið að komast í tæri við aðra fróðleiksbrunna. Spurningunni um hvernig einangruð íslensk stjörnufræði hefði þróast verður hver að svara fyrir sig, en líklegt virðist að í henni hefði verið lögð meiri áhersla á sólarganginn en gert var í stjörnufræðum suðlægari landa þegar þau voru að vaxa úr grasi. Vegna tímatals og almanaks hefði tunglinu einnig verið veitt vaxandi athygli, en fyrirbæri eins og gangur sólar miðað við Dýrahringinn (e. Zodiac) hefði setið á hakanum, enda miklu erfiðara að fylgjast með honum með beinum athugunum hér á norðurslóð en sunnar í álfum.

Landnám Íslands var einum þræði til marks um það að Norðurlandabúar bjuggu yfir þeirri kunnáttu og þekkingu sem þurfti til að halda uppi skipulegum siglingum um úthaf og samhæfðu mannlífi við erfið skilyrði á norðurhjara. Auk annars hefur þar verið um að ræða þekkingu í ætt við raunvísindi, þar á meðal stjarnvísi. Íslendingar þróuðu fljótlega með sér sjálfstæða þekkingu á slíkum fræðum, einkum þeim sem vörðuðu tímatal, enda var sérstök þörf á því í stóru og strjálbýlu landi þar sem sumar er stutt og því brýn þörf á að nýta það sem best. Einnig hefur komist á jákvæð víxlverkun milli siglinga og stjarnvísi eins og Odda tala virðist vera til vitnis um.


1 Björn M. Ólsen 1914; Beckman 1916; Þorkell Þorkelsson 1926; Zinner 1933; Reuter 1934; Þorsteinn Vilhjálmsson 1990. – Hlutar úr þeirri grein eru hér teknir nokkru fastari tökum. Tilvísanir hafa ekki allar verið endurteknar.

2 Beckman 1916, xxiv-xxv; Björn M. Ólsen 1914, 1-15.

3 Guðni Jónsson 1947, 379; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2231-32.

4 Guðni Jónsson 1947, 392; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2238.

5 Guðni Jónsson 1947, 405; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2243.


Heimildir:
  • Beckman, N., 1916. Inledning, hjá Beckman og Kålund, 1914-16, i-cxciv.
  • Beckman, N., og Kr. Kålund (udg.), 1914-16. Alfræði íslenzk: Islandsk encyklopædisk litteratur: II. Rímtöl, Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, København.
  • Björn M. Ólsen, 1914. Um Stjörnu-Odda og Oddatölu, Afmælisrit, 1-15.
  • Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson (ritstjórar), 1986. Íslendingasögur og þættir: Síðara bindi, Reykjavík.
  • Guðni Jónsson (bjó til prentunar), 1947. Íslendingasögur IX: Þingeyingasögur, Reykjavík.
  • Reuter, Otto Sigfrid, 1934. Germanische Himmelskunde: Untersuchungen zur Geschichte des Geistes, München.
  • Zinner, E., 1933. Die astronomischen Kenntnissen des Stern-Odde, Mannus: Zeitschrift für Vorgeschichte, 25, 301-306.
  • Þorkell Þorkelsson, 1926. Stjörnu-Oddi, Skírnir 100, 45-65.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1990. Raunvísindi á miðöldum. Íslensk þjóðmenning VII, 1-50.

Myndir:

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Ívar Daði Þorvaldsson

M.Sc. í hugbúnaðarverkfræði og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

4.8.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hver var Stjörnu-Oddi Helgason og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2011. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60299.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. (2011, 4. ágúst). Hver var Stjörnu-Oddi Helgason og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60299

Þorsteinn Vilhjálmsson og Ívar Daði Þorvaldsson. „Hver var Stjörnu-Oddi Helgason og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2011. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60299>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Stjörnu-Oddi Helgason og fyrir hvað er hann þekktur?
Eitt merkasta framlag Íslendinga á miðöldum til viðfangsefna raunvísinda er svokölluð Odda tala sem er eignuð norðlenska vinnumanninum Stjörnu-Odda,1 en hann virðist hafa verið uppi á tólftu öld, líkast til fyrri partinn.2 Þá er ritöld hafin á Íslandi og vitað að tiltekin erlend rit um stjarnvísindi og fleira þeim skylt voru til í landinu. Það kemur meðal annars fram í ritinu Rímbeglu frá því um eða eftir miðja tólftu öld, en þar segir frá ýmsum innfluttum fróðleik um stjörnur og rím (tímatal; e. time reckoning). Auk þess getur þar að lesa nokkra kafla sem bera glöggt vitni um sjálfstæðar athuganir íslenskra manna, og er Odda tala helst þeirra.

Eina heimild okkar um Odda sjálfan er í svokölluðum Stjörnu-Odda draumi, sem er einn af Íslendingaþáttum. Í upphafi hans segir svo:
Þórður hét maður er bjó í Múla norður í Reykjardal. Þar var á vist með honum sá maður er Oddi hét og var Helgason. Hann var kallaður Stjörnu-Oddi. Hann var rímkænn maður svo að engi maður var hans maki honum samtíða á öllu Íslandi, og að mörgu var hann annars vitur. Ekki var hann skáld né kvæðinn. Þess er og einkum getið um hans ráð að það höfðu menn fyrir satt að hann lygi aldrei ef hann vissi satt að segja, og að öllu var hann ráðvandur kallaður og tryggðarmaður hinn mesti. Félítill var hann og ekki mikill verkmaður.3
Síðan segir frá því að Þórður húsbóndi Odda sendi hann út til Flateyjar á vit fiska og þar dreymir hann drauminn sem er hin eiginlega saga. Efni hennar er við fyrstu sýn ótengt Odda sjálfum, en hins vegar segir frá því að hann vaknaði í miðjum draumi og gekk út og hugði að stjörnum sem hann átti venju til jafnan er hann sá „út um nætur þá er sjá mátti stjörnur“.4 Í lok þáttarins er sagt að efni hans megi þykja undarlegt og fáheyrt en þó muni vera rétt frá sagt „því að Oddi var reiknaður bæði fróður og sannsögull“.5

Hér með er upp talið það sem við vitum um persónu og hagi Stjörnu-Odda og er svo sem ekkert einsdæmi í vísindasögunni að lítið sé vitað um persónurnar þótt verkin lifi. En hin stóru orð sem höfð eru um rímkænsku Odda í textanum hér á undan eru ásamt öðru góð rök fyrir því að eigna honum Odda tölu. Jafnframt má hafa þau til marks um það að hann og verk hans hafi verið mörgum kunn um þó nokkurt skeið.

Odda tala er um tvær blaðsíður að lengd í venjulegri prentun. Hún er felld inn í Rímbeglu auk þess sem talan er varðveitt sem sjálfstætt rit í handritinu Gammel kongelig samling 1812 4to, og tveir fyrri kaflar hennar eru felldir inn í texta Hauksbókar. Talan hefur nokkrum sinnum verið gefin út fræðilega á prenti.

Öll umgerð Odda tölu er á þann veg að hún og efni hennar hafi orðið til hér á landi, og ekki er vitað um neinar hliðstæður í miðaldatextum. Talan er í þremur köflum og fjallar sá fyrsti um það, hvenær sólstöður (e. solstices) verði á sumri og vetri, fyrst í hlaupári og síðan í þrjú ár þaðan í frá þar til hringurinn lokast og sagan endurtekur sig. Annar kaflinn lýsir því hversu sólar gangur vex að sýn frá vetrarsólstöðum til sumarsólhvarfa og þverr síðan til næstu vetrarsólhvarfa. Í þriðja kafla er gerð grein fyrir því, hvernig stefnan til dögunar og dagseturs breytist yfir árið.

Efni Odda tölu stenst með prýði samanburð við það sem tíðkaðist í Evrópu á sama tíma. Víst má það nokkrum undrum sæta að vinnumaður norður í landi á tólftu öld hafi búið yfir þeirri þekkingu sem þarna er lýst og væntanlega tekið hana saman með einhverjum hætti þannig að talan væri fest á bókfell og síðan eignuð honum. Hitt ber einnig að hafa í huga að því aðeins er Odda tala okkur tiltæk nú að jarðvegur var fyrir hana á sínum tíma og áfram á miðöldum.

Forvitnilegt er að hugleiða notagildi þess fróðleiks sem fram kemur í Odda tölu. Sjómenn sem þurftu að sigla um hafið á öðrum tímum en kringum sumarsólhvörf, hefðu getað notað sér annan kafla tölunnar til þess að meta landfræðilega breidd (e. geographical latitude) út frá hádegishæð sólar. Menn voru yfirleitt ekki skemmra en viku í hafi og breytingin á stjörnubreidd (e. declination) sólar á þeim tíma getur numið nokkrum gráðum. Hádegishæð sólar minnkar sem því nemur ef miðað er við óbreytta landfræðilega breidd. Ef menn hafa ekki þekkt þessa breytingu og reynt að sigla þannig að hádegishæðin væri föst, þá hefur skipið borið af leið sem svarar nokkrum gráðum til norðurs eða suðurs.

Odda tala hefur til að mynda haft notagildi er kom að siglingum.

Notagildi þriðja kaflans í sjóferðum er ef til vill enn augljósara en þetta. Hugsum okkur til dæmis að menn hafi lent í hafvillu í þoku eða dumbungi og síðan létti til. Ef þeir þekkja þriðja kafla Odda tölu, þá geta þeir við þessar aðstæður notað stefnuna til dögunar eða dagseturs til að átta sig að nýju og stýra skipinu í þá átt sem þeir ætla sér.

Telja má vafalítið að Odda tala sé að mestu leyti reist á íslenskum athugunum og íslenskri hugsun. Erlend áhrif er helst hægt að hugsa sér sem munnlegan fróðleik frá meginlandi Evrópu sem hefur hvorki verið sérlega áreiðanlegur, nákvæmur né áþreifanlegur. Alltént hefur þurft bæði gagnrýna hugsun og sjálfstæða kunnáttu til að nýta slíkan fróðleik með þeirri skynsemi og nákvæmni sem gert er í Odda tölu.

Lærdómsríkt er að líta á fræði Odda sem vísi að stjörnufræði sem hefði getað þróast áfram sjálfstætt á grundvelli íslenskra athugana, ef menn hefðu ekki á sömu áratugum verið að komast í tæri við aðra fróðleiksbrunna. Spurningunni um hvernig einangruð íslensk stjörnufræði hefði þróast verður hver að svara fyrir sig, en líklegt virðist að í henni hefði verið lögð meiri áhersla á sólarganginn en gert var í stjörnufræðum suðlægari landa þegar þau voru að vaxa úr grasi. Vegna tímatals og almanaks hefði tunglinu einnig verið veitt vaxandi athygli, en fyrirbæri eins og gangur sólar miðað við Dýrahringinn (e. Zodiac) hefði setið á hakanum, enda miklu erfiðara að fylgjast með honum með beinum athugunum hér á norðurslóð en sunnar í álfum.

Landnám Íslands var einum þræði til marks um það að Norðurlandabúar bjuggu yfir þeirri kunnáttu og þekkingu sem þurfti til að halda uppi skipulegum siglingum um úthaf og samhæfðu mannlífi við erfið skilyrði á norðurhjara. Auk annars hefur þar verið um að ræða þekkingu í ætt við raunvísindi, þar á meðal stjarnvísi. Íslendingar þróuðu fljótlega með sér sjálfstæða þekkingu á slíkum fræðum, einkum þeim sem vörðuðu tímatal, enda var sérstök þörf á því í stóru og strjálbýlu landi þar sem sumar er stutt og því brýn þörf á að nýta það sem best. Einnig hefur komist á jákvæð víxlverkun milli siglinga og stjarnvísi eins og Odda tala virðist vera til vitnis um.


1 Björn M. Ólsen 1914; Beckman 1916; Þorkell Þorkelsson 1926; Zinner 1933; Reuter 1934; Þorsteinn Vilhjálmsson 1990. – Hlutar úr þeirri grein eru hér teknir nokkru fastari tökum. Tilvísanir hafa ekki allar verið endurteknar.

2 Beckman 1916, xxiv-xxv; Björn M. Ólsen 1914, 1-15.

3 Guðni Jónsson 1947, 379; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2231-32.

4 Guðni Jónsson 1947, 392; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2238.

5 Guðni Jónsson 1947, 405; Bragi Halldórsson o.fl. 1986, 2243.


Heimildir:
  • Beckman, N., 1916. Inledning, hjá Beckman og Kålund, 1914-16, i-cxciv.
  • Beckman, N., og Kr. Kålund (udg.), 1914-16. Alfræði íslenzk: Islandsk encyklopædisk litteratur: II. Rímtöl, Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, København.
  • Björn M. Ólsen, 1914. Um Stjörnu-Odda og Oddatölu, Afmælisrit, 1-15.
  • Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson (ritstjórar), 1986. Íslendingasögur og þættir: Síðara bindi, Reykjavík.
  • Guðni Jónsson (bjó til prentunar), 1947. Íslendingasögur IX: Þingeyingasögur, Reykjavík.
  • Reuter, Otto Sigfrid, 1934. Germanische Himmelskunde: Untersuchungen zur Geschichte des Geistes, München.
  • Zinner, E., 1933. Die astronomischen Kenntnissen des Stern-Odde, Mannus: Zeitschrift für Vorgeschichte, 25, 301-306.
  • Þorkell Þorkelsson, 1926. Stjörnu-Oddi, Skírnir 100, 45-65.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1990. Raunvísindi á miðöldum. Íslensk þjóðmenning VII, 1-50.

Myndir:...