Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hver er skilgreining ykkar á hugtakinu „náttúruréttur“?

Henry Alexander Henrysson

Náttúruréttur er sú hugsun að þau gæði sem hafa náttúrulegt aðdráttarafl fyrir alla menn eigi að vera siðferðilegur grundvöllur þeirra laga sem yfirvöld setja. Svokölluð „náttúrulög“ eru þau boð eða fyrirmæli sem skynsemi okkar telur að sýni þessum gæðum rétta virðingu. Mannlegar athafnir eru dæmdar siðferðilega réttar eða rangar eftir því hvort þær ganga gegn gæðunum eða styrkja þau. Og sett lög sem hindra menn í að fylgja þessu náttúrulega aðdráttarafli teljast vera ólög. Í þessum skilningi er náttúruréttur réttarheimspekileg kenning sem segir að nauðsynleg tengsl eigi að vera milli settra laga og siðferðis náttúrulaga.

Margar kenningar um náttúrurétt sækja sér efnivið í verk Tómasar af Aquino (1225-1274).

Það getur hins vegar verið býsna snúið að finna út hver þessi grundvallargæði eru sem náttúrulögin vísa til. Samkvæmt hefðbundnum kenningum sem flestar eiga sér rætur hjá Tómasi af Aquino (1225-1274) þá tengjast þau náttúrulegum tilhneigingum mannsins. Maðurinn hefur enga hvöt til að bíta gras, svo dæmi sé tekið, en hann hefur tilhneigingu til að leita sér þekkingar og auka við skilning sinn á heiminum. Þekking er þá nokkurs konar grundvallargæði sem er siðferðilega rangt að neita manninum um. Grundvallargæði af þessu tagi eru tiltölulega óumdeild. En menn gætu einnig sagt sem svo að það sé manninum eðlislægt að auka við kyn sitt. Eiga lög þá að banna hegðun sem gengur gegn þeirri grunnhvöt? Og má þá kannski ekki fordæma neinn þann verknað sem byggist á sjálfsbjargarviðleitni, en hún hlýtur að teljast vera einkennandi fyrir mannkynið?

Fleiri atriði varðandi náttúrurétt hafa ruglað menn í ríminu. Lykilhugtök hafa lengi verið óljós og náttúruréttur getur því vísað til svokallaðra náttúrulagakenninga (e. Theory of Natural Law) í siðfræði. Samkvæmt þeim skilningi er hann siðfræðileg kenning sem gerir grein fyrir grundvelli siðferðisins en einblínir ekki á þau lög og siði sem gilda í samfélaginu. Hann er kenning sem styður þá fullyrðingu að allar skyldur okkar, réttindi, boð og bönn eigi sér forsendur í áðurnefndum grundvallargæðum og að það sé skynsemin sem geri mikilvægi tiltekinna lífsgæða augljóst í huga okkar. Siðfræðingar hafa svo sett fram mislanga lista yfir þessi gæði og byggjast þeir flestir á þekkingu, vináttu, fegurð, verklegri skynsemi og lífinu sjálfu.

Oft er látið eins og þess konar siðfræði eigi aðeins fylgi að fagna innan kaþólsku kirkjunnar. Það er ekki alls kostar rétt enda veitir trú okkur engan sérstakan aðgang að grunngæðunum samkvæmt henni. Siðferðileg hluthyggja í anda náttúruréttar hefur eignast sífellt fleiri talsmenn á undanförnum árum sem líta ekki svo á að guðleg viska sé nauðsynleg til að skapa hlutlæg siðferðileg lögmál. Trú á skynsemi mannsins dugi til að aðhyllast náttúrurétt. Einn helsti kostur þessarar siðfræði er að hún getur fundið vissan samhljóm með mörgu úr helstu siðfræðikenningum sögunnar og forðast um leið galla þeirra. Náttúruréttur getur horft til dygðasiðfræði, nýtt sér skylduhugtak Kants og tekið undir mikilvægi afleiðinga athafna okkar í anda nytjastefnu.

John Locke (1632-1704) taldi að náttúruréttur tilheyrði einstaklingum óháð ákvörðunum ríkisvalds.

Að lokum má nefna að rétturinn í „náttúrurétti“ getur ekki síst vísað til náttúrulegra réttinda okkar. Mannréttindahugtakið er sprottið úr þessum hugmyndum um grundvallarlífsgæði sem „allir menn hafa óháð staðbundnum kringumstæðum eins og samfélagsgerð eða efnahag.“ Pólitískar ástæður hafa síðar víkkað mannréttindahugtakið út og er því stundum vísað í nokkur grundvallarréttindi, svo sem eignarrétt, sem náttúrulegan rétt til aðgreiningar frá öðrum mannréttindum sem eru þá mannasetningar. Margir heimspekingar sem gera ráð fyrir slíkum náttúrurétt hafa reyndar efast um að nokkuð náttúrulegt eða eðlislægt komi þar við sögu og benda á að þarna komi aðeins til einhvers konar hefð eða vani. Mannkyn hafi lært það af biturri reynslu að ákveðin hegðun tryggi stöðugleika í samfélaginu. Aðrir heimspekingar hafna þessu og benda á að einmitt sú staðreynd að við áttum okkur á mikilvægi þessara réttinda í krafti skynseminnar sýni fram á að þau eigi sér eðlislægar forsendur. Sem dæmi um slíka forsendu er að maðurinn sé félagsvera og að vinátta teljist til grundvallargæða. Þar að auki benda þeir á að tal um náttúrurétt vísi fyrst og fremst til þess hvernig mannlegt samfélag ætti að vera og sé ekki lýsing á því hvernig ákveðið siðferði hefur komist á.

Frekara lesefni:

  • Garðar Gíslason. „Náttúruréttur í nýju ljósi“. Frelsið, 5 (2)/1984, bls. 143-154.
  • Henry Alexander Henrysson. „Manndómur. Hugleiðingar um Jón Eiríksson og bakgrunn náttúruréttarkennslu hans“. Hugur – tímarit um heimspeki, 21/2009, bls. 94-111.
  • Hjördís Hákonardóttir. „Um náttúrurétt“. Tímarit lögfræðinga, 45 (4)/1995, bls. 248–268.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

3.12.2012

Spyrjandi

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hver er skilgreining ykkar á hugtakinu „náttúruréttur“?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2012. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61410.

Henry Alexander Henrysson. (2012, 3. desember). Hver er skilgreining ykkar á hugtakinu „náttúruréttur“? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61410

Henry Alexander Henrysson. „Hver er skilgreining ykkar á hugtakinu „náttúruréttur“?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2012. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61410>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er skilgreining ykkar á hugtakinu „náttúruréttur“?
Náttúruréttur er sú hugsun að þau gæði sem hafa náttúrulegt aðdráttarafl fyrir alla menn eigi að vera siðferðilegur grundvöllur þeirra laga sem yfirvöld setja. Svokölluð „náttúrulög“ eru þau boð eða fyrirmæli sem skynsemi okkar telur að sýni þessum gæðum rétta virðingu. Mannlegar athafnir eru dæmdar siðferðilega réttar eða rangar eftir því hvort þær ganga gegn gæðunum eða styrkja þau. Og sett lög sem hindra menn í að fylgja þessu náttúrulega aðdráttarafli teljast vera ólög. Í þessum skilningi er náttúruréttur réttarheimspekileg kenning sem segir að nauðsynleg tengsl eigi að vera milli settra laga og siðferðis náttúrulaga.

Margar kenningar um náttúrurétt sækja sér efnivið í verk Tómasar af Aquino (1225-1274).

Það getur hins vegar verið býsna snúið að finna út hver þessi grundvallargæði eru sem náttúrulögin vísa til. Samkvæmt hefðbundnum kenningum sem flestar eiga sér rætur hjá Tómasi af Aquino (1225-1274) þá tengjast þau náttúrulegum tilhneigingum mannsins. Maðurinn hefur enga hvöt til að bíta gras, svo dæmi sé tekið, en hann hefur tilhneigingu til að leita sér þekkingar og auka við skilning sinn á heiminum. Þekking er þá nokkurs konar grundvallargæði sem er siðferðilega rangt að neita manninum um. Grundvallargæði af þessu tagi eru tiltölulega óumdeild. En menn gætu einnig sagt sem svo að það sé manninum eðlislægt að auka við kyn sitt. Eiga lög þá að banna hegðun sem gengur gegn þeirri grunnhvöt? Og má þá kannski ekki fordæma neinn þann verknað sem byggist á sjálfsbjargarviðleitni, en hún hlýtur að teljast vera einkennandi fyrir mannkynið?

Fleiri atriði varðandi náttúrurétt hafa ruglað menn í ríminu. Lykilhugtök hafa lengi verið óljós og náttúruréttur getur því vísað til svokallaðra náttúrulagakenninga (e. Theory of Natural Law) í siðfræði. Samkvæmt þeim skilningi er hann siðfræðileg kenning sem gerir grein fyrir grundvelli siðferðisins en einblínir ekki á þau lög og siði sem gilda í samfélaginu. Hann er kenning sem styður þá fullyrðingu að allar skyldur okkar, réttindi, boð og bönn eigi sér forsendur í áðurnefndum grundvallargæðum og að það sé skynsemin sem geri mikilvægi tiltekinna lífsgæða augljóst í huga okkar. Siðfræðingar hafa svo sett fram mislanga lista yfir þessi gæði og byggjast þeir flestir á þekkingu, vináttu, fegurð, verklegri skynsemi og lífinu sjálfu.

Oft er látið eins og þess konar siðfræði eigi aðeins fylgi að fagna innan kaþólsku kirkjunnar. Það er ekki alls kostar rétt enda veitir trú okkur engan sérstakan aðgang að grunngæðunum samkvæmt henni. Siðferðileg hluthyggja í anda náttúruréttar hefur eignast sífellt fleiri talsmenn á undanförnum árum sem líta ekki svo á að guðleg viska sé nauðsynleg til að skapa hlutlæg siðferðileg lögmál. Trú á skynsemi mannsins dugi til að aðhyllast náttúrurétt. Einn helsti kostur þessarar siðfræði er að hún getur fundið vissan samhljóm með mörgu úr helstu siðfræðikenningum sögunnar og forðast um leið galla þeirra. Náttúruréttur getur horft til dygðasiðfræði, nýtt sér skylduhugtak Kants og tekið undir mikilvægi afleiðinga athafna okkar í anda nytjastefnu.

John Locke (1632-1704) taldi að náttúruréttur tilheyrði einstaklingum óháð ákvörðunum ríkisvalds.

Að lokum má nefna að rétturinn í „náttúrurétti“ getur ekki síst vísað til náttúrulegra réttinda okkar. Mannréttindahugtakið er sprottið úr þessum hugmyndum um grundvallarlífsgæði sem „allir menn hafa óháð staðbundnum kringumstæðum eins og samfélagsgerð eða efnahag.“ Pólitískar ástæður hafa síðar víkkað mannréttindahugtakið út og er því stundum vísað í nokkur grundvallarréttindi, svo sem eignarrétt, sem náttúrulegan rétt til aðgreiningar frá öðrum mannréttindum sem eru þá mannasetningar. Margir heimspekingar sem gera ráð fyrir slíkum náttúrurétt hafa reyndar efast um að nokkuð náttúrulegt eða eðlislægt komi þar við sögu og benda á að þarna komi aðeins til einhvers konar hefð eða vani. Mannkyn hafi lært það af biturri reynslu að ákveðin hegðun tryggi stöðugleika í samfélaginu. Aðrir heimspekingar hafna þessu og benda á að einmitt sú staðreynd að við áttum okkur á mikilvægi þessara réttinda í krafti skynseminnar sýni fram á að þau eigi sér eðlislægar forsendur. Sem dæmi um slíka forsendu er að maðurinn sé félagsvera og að vinátta teljist til grundvallargæða. Þar að auki benda þeir á að tal um náttúrurétt vísi fyrst og fremst til þess hvernig mannlegt samfélag ætti að vera og sé ekki lýsing á því hvernig ákveðið siðferði hefur komist á.

Frekara lesefni:

  • Garðar Gíslason. „Náttúruréttur í nýju ljósi“. Frelsið, 5 (2)/1984, bls. 143-154.
  • Henry Alexander Henrysson. „Manndómur. Hugleiðingar um Jón Eiríksson og bakgrunn náttúruréttarkennslu hans“. Hugur – tímarit um heimspeki, 21/2009, bls. 94-111.
  • Hjördís Hákonardóttir. „Um náttúrurétt“. Tímarit lögfræðinga, 45 (4)/1995, bls. 248–268.

Myndir:

...