Sólin Sólin Rís 10:50 • sest 15:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:07 • Sest 03:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:25 í Reykjavík

Eru sjávarskrímsli til?

Arngrímur Vídalín

Allt frá fyrstu tíð virðist mannskepnan hafa óttast hið óþekkta og fyllt upp í eyður þekkingar sinnar með ímyndunaraflinu. Stærstu ósvöruðu spurningar nútímans leynast í óravíddum geimsins og alheimsins og fjöldamörg dæmi úr vísindaskáldsögum bera ímyndunarafli okkar fagurt vitni. Fyrr á öldum var himinninn meira eða minna þekktur að talið var og þá var hið stóra ókannaða dýpi ekki að finna þar heldur í hinum stóru heimshöfum.

Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar úr kortasafni Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terranum (1590). Ef til vill geta lesendur borið kennsl á nauthveli og rauðkembing á myndinni.

Ótal sögum fer af ófreskjum við eða í hafi og vötnum allt frá árdögum ritunar, frá Skyllu og sírenum Ódysseifskviðu til Katanesdýrsins á síðasta fjórðungi nítjándu aldar, svo dæmi séu tekin. Trú á hafskrímsl virðist hafa verið nokkuð almenn miðað við tíðni þeirra í heimildum, svo sem í sögunum af dýrlingunum Brendan og Kólumkilla, Konungs skuggsjá og víðar. Í lengri gerð Örvar-Odds sögu koma fyrir tvö hafskrímsl sem svo er lýst og virðist lyngbakurinn vera töluvert skyldur eyfisknum Jasconiusi úr áðurnefndri sögu af heilögum Brendan:

Nú mun ek segja þér, at þetta eru sjóskrímsl tvau. Heitir annat hafgufa, en annat lyngbakr. Er hann mestr allra hvala í heiminum, en hafgufa er mest skrímsl skapat í sjónum. Er þat hennar náttúra, at hún gleypir bæði menn ok skip ok hvali ok allt þat hún náir. Hún er í kafi, svá at dægrum skiptir, ok þá hún skýtr upp höfði sínu ok nösum, þá er þat aldri skemmr en sjávarfall, at hún er uppi. Nú var þat leiðar sundit, er vér fórum á millum kjapta hennar, en nasir hennar ok inn neðri kjaptrinn váru klettar þeir, er yðr sýndist í hafinu, en lyngbakr var ey sjá, er niðr sökk.(21. kapítuli)

Trú á slíkar skepnur einskorðaðist ekki við miðaldir. Daninn Peder Hansen Resen nefnir til að mynda bæði vatnaskrímsl í Íslandslýsingu sinni (1684-87) og sjávarferlíki. Mitt í upptalningu á raunverulegum dýrategundum birtist skyndilega hrosshvalur:

kallaður svo af eins konar hrossmakka sem þekur mikinn hluta baks þeirra. Hann er mjög sólginn í mannakjöt, stingur hausnum upp úr sjónum, lætur augnlokin síga svo að augun lokast og hann sér ekkert [...] Sjöunda hvalategund er nauthvalur. Þeir eru nefndir svo af einhverju ógurlegu öskri, líku nautsöskri, sem þeir reka upp þegar þeir eru soltnir, og það af slíkum ofsa að undir tekur í nálægum ströndum. Þeir eru og mönnum sérlega fjandsamlegir, geysast um allan sjó til þess að hremma þá og háma í sig. Þess vegna forðast fiskimenn að fara á sjó ef þeir heyra þetta nautsöskur og sitja þá um kyrrt í landi. Áttunda tegund er einnig fjandsamleg mönnum og kölluð rauðkembingur af rauðleitum lit. Níunda tegund er sú sem dregur nafn af óhrjálegum hrjúfum og skelþöktum skrokk og er kölluð skeljungur. Þeir eru að sjá alþaktir skeljum og þörungum. Þeir verða allt að 60 eða 70 álna langir og eru jafn fjandsamlegir mönnum eins og hinir fyrrnefndu, og því koma þeir á móti skipum á siglingu til þess að þau rekist á þá og hvolfist eða brotni. (155-57)

Nefna má einnig töluvert lífsseiga trú á að skrímsli hafist við í Loch Ness og frásagnir af risakolkrabbanum Kraken sem talið hefur verið að leynist einhversstaðar í hafinu umhverfis Noreg og stundum Grænland en þá förum við raunar að nálgast hugmyndir nútímamanna um ógnvalda undirdjúpanna og þá þarf að ákvarða fyrst hvaða merkingu við viljum leggja í orðið skrímsli. Oftast í daglegu tali hefur skrímsli tvenna merkingu, annað hvort sem myndlíking eins og þegar manneskja drýgir glæp sem þykir sérstaklega viðurstyggilegur, eða til að tilgreina yfirskilvitlegan uppruna einhverrar skepnu og þá oftast í listaverki, til dæmis í kvikmynd eða skáldverki.

Risasmokkfiskur ræðst á skip.

Nú þegar tækniframfarir gera okkur sífellt auðveldar um vik að rannsaka mesta dýpi sjávar finnast reglulega áður óþekktar dýrategundir og tilvist annarra sem grunað var að væru til hefur stundum verið hægt að staðfesta. Norski risakolkrabbinn Kraken reyndist þannig eiga sér raunverulega hliðstæðu í risasmokkfisknum, sem stundum er nefndur skrímslasmokkfiskur (e. monster squid), sem vísindamenn hafa enn takmarkaða þekkingu á.

Japanskir vísindamenn veiða risasmokkfisk.

Ef við túlkum orðið skrímsli sem eitthvert ógnarstórt ferlíki þá má með sanni segja að tilvist sjávarskrímsla hafi verið staðfest með nútímatækni. Á dögum Resens náði þekking ekki eins langt og nú svo meðal venjulegra stórhvela á við steypireyð í upptalningu hans mátti finna yfirskilvitleg, blóðþyrst sjávarskrímsli sem lögðu sérstaka fæð á mannfólk, sem áður er nefnt. Slíkur samsláttur raunverulegra og óraunverulegra dýra virðist vera tíður í umfjöllun fyrri alda á sjávardýrum og bendir það til þess að hefðin fyrir þessari nálgun á skrímslahugtakið í þessu tiltekna samhengi sé bæði gömul og rótföst. Þangað til lyngbakur eða rauðkembingur lætur á sér kræla reiknum við með því að slíkar skepnur séu ekki til en búrhvalir og risasmokkfiskar eru á hinn bóginn sannarlega til og í þessum skilningi eru þær ógnarstóru lífverur engu minni skrímsli en hin sem enn kunna að leynast í hinu myrka mararskauti.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Arngrímur Vídalín

doktor í íslenskum bókmenntum frá HÍ

Útgáfudagur

11.6.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Arngrímur Vídalín. „Eru sjávarskrímsli til?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2014. Sótt 3. desember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=67629.

Arngrímur Vídalín. (2014, 11. júní). Eru sjávarskrímsli til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67629

Arngrímur Vídalín. „Eru sjávarskrímsli til?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2014. Vefsíða. 3. des. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67629>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru sjávarskrímsli til?
Allt frá fyrstu tíð virðist mannskepnan hafa óttast hið óþekkta og fyllt upp í eyður þekkingar sinnar með ímyndunaraflinu. Stærstu ósvöruðu spurningar nútímans leynast í óravíddum geimsins og alheimsins og fjöldamörg dæmi úr vísindaskáldsögum bera ímyndunarafli okkar fagurt vitni. Fyrr á öldum var himinninn meira eða minna þekktur að talið var og þá var hið stóra ókannaða dýpi ekki að finna þar heldur í hinum stóru heimshöfum.

Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar úr kortasafni Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terranum (1590). Ef til vill geta lesendur borið kennsl á nauthveli og rauðkembing á myndinni.

Ótal sögum fer af ófreskjum við eða í hafi og vötnum allt frá árdögum ritunar, frá Skyllu og sírenum Ódysseifskviðu til Katanesdýrsins á síðasta fjórðungi nítjándu aldar, svo dæmi séu tekin. Trú á hafskrímsl virðist hafa verið nokkuð almenn miðað við tíðni þeirra í heimildum, svo sem í sögunum af dýrlingunum Brendan og Kólumkilla, Konungs skuggsjá og víðar. Í lengri gerð Örvar-Odds sögu koma fyrir tvö hafskrímsl sem svo er lýst og virðist lyngbakurinn vera töluvert skyldur eyfisknum Jasconiusi úr áðurnefndri sögu af heilögum Brendan:

Nú mun ek segja þér, at þetta eru sjóskrímsl tvau. Heitir annat hafgufa, en annat lyngbakr. Er hann mestr allra hvala í heiminum, en hafgufa er mest skrímsl skapat í sjónum. Er þat hennar náttúra, at hún gleypir bæði menn ok skip ok hvali ok allt þat hún náir. Hún er í kafi, svá at dægrum skiptir, ok þá hún skýtr upp höfði sínu ok nösum, þá er þat aldri skemmr en sjávarfall, at hún er uppi. Nú var þat leiðar sundit, er vér fórum á millum kjapta hennar, en nasir hennar ok inn neðri kjaptrinn váru klettar þeir, er yðr sýndist í hafinu, en lyngbakr var ey sjá, er niðr sökk.(21. kapítuli)

Trú á slíkar skepnur einskorðaðist ekki við miðaldir. Daninn Peder Hansen Resen nefnir til að mynda bæði vatnaskrímsl í Íslandslýsingu sinni (1684-87) og sjávarferlíki. Mitt í upptalningu á raunverulegum dýrategundum birtist skyndilega hrosshvalur:

kallaður svo af eins konar hrossmakka sem þekur mikinn hluta baks þeirra. Hann er mjög sólginn í mannakjöt, stingur hausnum upp úr sjónum, lætur augnlokin síga svo að augun lokast og hann sér ekkert [...] Sjöunda hvalategund er nauthvalur. Þeir eru nefndir svo af einhverju ógurlegu öskri, líku nautsöskri, sem þeir reka upp þegar þeir eru soltnir, og það af slíkum ofsa að undir tekur í nálægum ströndum. Þeir eru og mönnum sérlega fjandsamlegir, geysast um allan sjó til þess að hremma þá og háma í sig. Þess vegna forðast fiskimenn að fara á sjó ef þeir heyra þetta nautsöskur og sitja þá um kyrrt í landi. Áttunda tegund er einnig fjandsamleg mönnum og kölluð rauðkembingur af rauðleitum lit. Níunda tegund er sú sem dregur nafn af óhrjálegum hrjúfum og skelþöktum skrokk og er kölluð skeljungur. Þeir eru að sjá alþaktir skeljum og þörungum. Þeir verða allt að 60 eða 70 álna langir og eru jafn fjandsamlegir mönnum eins og hinir fyrrnefndu, og því koma þeir á móti skipum á siglingu til þess að þau rekist á þá og hvolfist eða brotni. (155-57)

Nefna má einnig töluvert lífsseiga trú á að skrímsli hafist við í Loch Ness og frásagnir af risakolkrabbanum Kraken sem talið hefur verið að leynist einhversstaðar í hafinu umhverfis Noreg og stundum Grænland en þá förum við raunar að nálgast hugmyndir nútímamanna um ógnvalda undirdjúpanna og þá þarf að ákvarða fyrst hvaða merkingu við viljum leggja í orðið skrímsli. Oftast í daglegu tali hefur skrímsli tvenna merkingu, annað hvort sem myndlíking eins og þegar manneskja drýgir glæp sem þykir sérstaklega viðurstyggilegur, eða til að tilgreina yfirskilvitlegan uppruna einhverrar skepnu og þá oftast í listaverki, til dæmis í kvikmynd eða skáldverki.

Risasmokkfiskur ræðst á skip.

Nú þegar tækniframfarir gera okkur sífellt auðveldar um vik að rannsaka mesta dýpi sjávar finnast reglulega áður óþekktar dýrategundir og tilvist annarra sem grunað var að væru til hefur stundum verið hægt að staðfesta. Norski risakolkrabbinn Kraken reyndist þannig eiga sér raunverulega hliðstæðu í risasmokkfisknum, sem stundum er nefndur skrímslasmokkfiskur (e. monster squid), sem vísindamenn hafa enn takmarkaða þekkingu á.

Japanskir vísindamenn veiða risasmokkfisk.

Ef við túlkum orðið skrímsli sem eitthvert ógnarstórt ferlíki þá má með sanni segja að tilvist sjávarskrímsla hafi verið staðfest með nútímatækni. Á dögum Resens náði þekking ekki eins langt og nú svo meðal venjulegra stórhvela á við steypireyð í upptalningu hans mátti finna yfirskilvitleg, blóðþyrst sjávarskrímsli sem lögðu sérstaka fæð á mannfólk, sem áður er nefnt. Slíkur samsláttur raunverulegra og óraunverulegra dýra virðist vera tíður í umfjöllun fyrri alda á sjávardýrum og bendir það til þess að hefðin fyrir þessari nálgun á skrímslahugtakið í þessu tiltekna samhengi sé bæði gömul og rótföst. Þangað til lyngbakur eða rauðkembingur lætur á sér kræla reiknum við með því að slíkar skepnur séu ekki til en búrhvalir og risasmokkfiskar eru á hinn bóginn sannarlega til og í þessum skilningi eru þær ógnarstóru lífverur engu minni skrímsli en hin sem enn kunna að leynast í hinu myrka mararskauti.

Heimildir:

Myndir:

...