Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Landmannalaugar eru einn fjölsóttasti áfangastaðurinn á hálendi Íslands og einn sá mest ljósmyndaði. Svæðið umhverfis Laugar er enda eitt það fjölbreyttasta og litríkasta á hálendinu.
Landmannalaugasvæðið er þekkt fyrir margbreytilega og býsna flókna jarðfræði. Eldvirknin við Landmannalaugar tengist mikilli megineldstöð, sem kennd er við Torfajökul, þótt sjálfur jökullinn og fjallið undir honum sé í raun aðeins lítill hluti eldstöðvarinnar. Torfajökulseldstöðin hefur verið virk í nokkuð langan tíma. Elsta aldursgreinda berg eldstöðvarinnar er um 400.000 ára gamalt en elstu jarðmyndanirnar eru jafnvel taldar allt að helmingi eldri. Á æviskeiði sínu hefur eldstöðinni tekist að búa til umfangsmesta líparítsvæði Íslands og er hún enn að, enda hefur tvisvar sinnum gosið þar eftir að land byggðist, auk þess sem þar er víðáttumesta og eitt öflugasta háhitasvæði landsins.
Landmannalaugar eru einn fjölsóttasti áfangastaðurinn á hálendi Íslands. Eldvirknin við Landmannalaugar tengist mikilli megineldstöð, sem kennd er við Torfajökul.
Eins og títt er um þróaðar megineldstöðvar eins og Torfajökulseldstöðina ægir mismunandi brotum hennar saman í nánast einum risastórum hrærigraut svo örðugt getur reynst að greina á milli misgamalla jarðmyndana. Það hefur því þurft mikla rannsóknarvinnu og yfirlegu til að greiða úr öllum flækjunum og er þeirri vinnu alls ekki lokið því margt er enn óljóst. Árið 2001 birtist afar góð yfirlitsskýrsla yfir jarðfræði Torfajökulssvæðisins eftir jarðfræðingana Kristján Sæmundsson og Guðmund Ómar Friðleifsson, en hún er byggð á þrotlausri vinnu þeirra og margra annarra. Til að gera sér grein fyrir flækjustigi jarðfræðirannsóknanna á svæðinu mætti skoða jarðfræðikortið í skýrslunni, en það er nánast algjörlega ólæsilegt öðrum en reyndum jarðfræðingum.
En jarðfræði Torfajökulseldstöðvarinnar er ekki aðeins flókin heldur að sama skapi afar áhugaverð. Lengst af æviskeiði eldstöðvarinnar kom nær einvörðungu upp líparít í eldgosum innan hennar, sem er sérstakt fyrir íslenska megineldstöð. Á síðasta jökulskeiði tók fyrst að bera á basaltgosum en í kjarna eldstöðvarinnar hefur þó áfram gosið líparíti, eins og sést á yngstu hraununum. Í miðju Torfajökulseldstöðvarinnar leynist stærsta öskjumyndun Íslands, en öskjur í megineldstöðum eru nokkurs konar sigdældir, sem myndast hafa við stórfellt landsig, oft í kjölfar mikilla eldgosa. Jarðfræðingar áttuðu sig fyrst á tilvist Torfajökulsöskjunnar og stærð hennar um og upp úr 1970.
Askjan liggur bogadregin og nokkuð ílöng frá Torfajökli í suðaustri vestur að Reykjadölum þar sem efstu upptök Markarfljóts liggja. Í raun er þarna um að ræða þrjár misgamlar öskjur, sem skarast nokkuð hver við aðra, en ysta askjan er elst og sést hún jafnframt best í landslaginu. Suðurbrún þeirrar öskju liggur meðal annars um Ljósárfjöll og Jökultungur, þar sem Laugavegurinn er genginn niður í Álftavatn, á meðan norðurbrúnin liggur um hin bogadregnu fjöll utan við Landmannalaugar, Hábarm, Barm og Suðurnám.
Í miðju Torfajökulseldstöðvarinnar leynist stærsta öskjumyndun Íslands, en öskjur í megineldstöðum eru nokkurs konar sigdældir, sem myndast hafa við stórfellt landsig, oft í kjölfar mikilla eldgosa.
Í Landmannalaugum takast á miklar og skarpar andstæður í landslagi. Litadýrð fjallanna, sem standa allt í kring, er óvenjuleg og má þar finna ýmiss konar gul, rauð, blá og græn litbrigði. Þegar komið er inn í laugarnar grípur þó ekki síður augað biksvart og úfið hraun sem vakir yfir svæðinu. Nefnist það Laugahraun og kom upp í stuttu sprungugosi árið 1477, í sömu goshrinu og hið mikla Veiðivatnagos, sem kom upp norðaustur af Landmannalaugum. Hraunið er nýjasta afurð Torfajökulssvæðisins, en þar sem áðurnefnd fjöll í öskjubarminum norðan Landmannalauga, Barmur og Suðurnámur, eru með elstu myndunum á svæðinu má segja að þarna mætist elstu og yngstu hlutar Torfajökulseldstöðvarinnar.
Laugahraun er líparíthraun, eitt fárra sem runnið hafa á Íslandi eftir landnám. Hraunflákinn er mjög þykkur og úfinn, og eftir því erfiður yfirferðar. Hraunið hefur greinilega verið ákaflega seigfljótandi þegar það kom upp en líparítkvika er yfirleitt miklu seigari en basalt, bæði vegna efnasamsetningar og einnig vegna þess að líparítkvika gýs að jafnaði við lægra hitastig. Til marks um þetta þá sjást gosopin í Laugahrauni varla því þykkfljótandi hraunið hefur illa náð að renna frá þeim heldur hlaðist upp yfir gígunum. Einn fallegasti hluti Laugahrauns er nokkru ofan við Landmannalaugar þar sem gossprungan liggur utan í Brennisteinsöldu, litríku líparítfjalli sem myndaðist í gosi undir jökli fyrir nokkur hundruð þúsund árum. Þarna hefur hraunið hálflekið niður hlíðina en kolsvartar kynjamyndir kallast á við nánast allt litrófið í Brennisteinsöldu. Litirnir í öldunni, líkt og öðrum fjöllum svæðisins, eru tilkomnir vegna háhita sem hefur sundursoðið bergið og ummyndað það á löngum tíma.
Það sem er hvað sérstakast við yngstu hraunin á Torfajökulssvæðinu, líkt og Laugahraun, er að þau virðast öll tengjast eldsumbrotum í sunnanverðu Bárðarbungukerfinu, sem liggur norðaustur af Landmannalaugum. Þannig gaus í Veiðivötnum á sama tíma og Laugahraun myndaðist, en um 500 árum fyrr varð Hrafntinnuhraun vestur af Hrafntinnuskeri til í eldgosi samhliða gosi í Vatnaöldum norðaustan við Landmannalaugar.
Þessi gos urðu öll á sprungum í framhaldi af Bárðarbungukerfinu, auk þess sem heildarmagn gosefna hefur minnkað frá því fyrr í jarðsögu Torfajökulseldstöðvarinnar, en þá urðu reglubundin stórgos. Þessi atriði benda til þess að dregið hafi úr virkni Torfajökulssvæðisins sem sjálfstæðs eldstöðvarkerfis en undir því sé hins vegar líparítkvika sem bregðist við eldvirkni í nálægum kerfum. Þegar Bárðarbungukerfið sendir kvikuskot til suðvesturs virðist það um leið hleypa af stað gosum í Torfajökulseldstöðinni.
Brennisteinsalda suður af Landmannalaugum. Brennisteinsalda er litríkt líparítfjall sem myndaðist í gosi undir jökli fyrir nokkur hundruð þúsund árum.
Háalda er með hærri fjöllum við Landmannalaugar og prýðilegt útsýnisfjall, en það myndaðist við gos undir jökli á svipuðum tíma og Brennisteinsalda. Nær laugunum liggur Bláhnúkur. Hann sker sig nokkuð úr fjallahringnum umhverfis Laugar enda svargrár að lit þótt hann sé úr líparíti líkt og hin fjöllin. Bláhnúkur myndaðist þó mikið síðar, undir jökli fyrir um 70 til 80 þúsund árum, og hefur bergið ekki ummyndast á sama hátt og annars staðar. Í hlíðum Bláhnúks má hins vegar sjá glitta í ljóst líparít sem var þar fyrir þegar gaus og í Grænagili er bergið gjörsamlega sundursoðið af jarðhita svo það hefur tekið á sig sterkan grænan lit. Bendir það til þess að bergið hafi áður verið á nokkru dýpi niðri í jörðunni þar sem háhiti hefur kraumað og má víða annars staðar á Torfajökulssvæðinu sjá þessa grænleitu slikju á berginu til marks um þann mikla hita sem þar ríkir.
Mögulegt er að komast akandi inn í Landmannalaugar eftir þremur fallegum hálendisleiðum, sem hver hefur sitt aðdráttarafl, en saman eru þær yfirleitt kallaðar Fjallabaksleið nyrðri.
Heimildir:
Gretar Ívarsson. 1992. Geology and petrochemistry of the Torfajökull central volcano in Central South Iceland, in association with the Icelandic hot spot and rift zones. Doktorsritgerð, University of Hawaii, Honolulu.
Guðrún Larsen. 1984. Recent volcanic history of the Veidivötn fissure swarm, southern Iceland -- an approach to volcanic risk assessment. Journal of Volcanology and Geothermal Research 22, 33-58.
Karl Grönvold, Níels Óskarsson, Johnsen, S. J., Clausen, H. B., Hammer, C. U., Bond, G., og Bard, E. 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land sediments. Earth and Planetary Science Letters 135, 149-155.
Kristján Sæmundsson. 1972. Jarðfræðiglefsur um Torfajökulssvæðið. Náttúrufræðingurinn 42, 81-99.
Kristján Sæmundsson og Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2001. Í Torfajökli. Jarðfræði- og jarðhitakort af Torfajökulssvæðinu. Orkustofnun, Reykjavík.
McGarvie, D.W., Burgess, R., Tindle, A. G., Tuffen, H. og Stevenson, J.A. 2006. Pleistocene rhyolite volcanism at Torfajökull, Iceland: eruption ages, glaciovolcanism and geochemical evolution. Jökull 56, 57-75.
Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.
Spurningu Hildu er hér svarað að hluta.
Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um jarðfræði Landmannalauga?“ Vísindavefurinn, 26. október 2018, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67683.
Snæbjörn Guðmundsson. (2018, 26. október). Hvað getið þið sagt mér um jarðfræði Landmannalauga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67683
Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um jarðfræði Landmannalauga?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2018. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67683>.