Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvert er elsta berg landsins?

Snæbjörn Guðmundsson

Við utanverðan Súgandafjörð, á móts við byggðina á Suðureyri, skagar svipmikið fjall og hömrum girt út í Norður-Atlantshafið. Fjallið nefnist Göltur og er nokkurs konar bæjarfjall Suðureyringa, en margir þeirra munu hafa gengið þar upp. Án báts er þó ekki auðvelt að komast að Geltinum en enginn vegur liggur með Súgandafirði norðanverðum. Úr fjarska lítur Göltur út eins og þykk lagkaka, þar sem hvert hraunlagið liggur ofan á öðru. Eins og við er að búast eru hraunlögin við marflata fjallsbrúnina yngri en þau sem neðar liggja, og eru því allra elstu hraunlögin við sjávarmál. Þessi hraunlög eru raunar einhver elstu hraunlög Íslands ofan sjávarmáls því ystu annes norðanverðra Vestfjarða marka elsta hluta landsins.

Við utanverðan Súgandafjörð, á móts við byggðina á Suðureyri, skagar svipmikið fjall og hömrum girt út í Norður-Atlantshafið. Fjallið nefnist Göltur og er nokkurs konar bæjarfjall Súgfirðinga. Á myndinni sést Suðureyri í baksýn, séð til austurs.

Löngum hefur verið vitað að elsta berg á Íslandi mætti finna á Vestfjörðum og Austfjörðum. Löngu áður en flekakenningin náði fótfestu höfðu jarðfræðingar ætlað að blágrýti þessara landshluta væru forn hraunlög og voru þau réttilega sögð vera frá tertíertímabilinu. Að sama skapi var talið að móbergið og hraunin, sem finna mætti um miðbik landsins, væru yngri jarðmyndanir. Útskýringar á þessari aldursdreifingu jarðlaga á Íslandi voru hins vegar langsóttar, þar sem jarðfræðingar gerðu ráð fyrir að Ísland væri leifar fornrar landbrúar milli Grænlands og Noregs.

Með uppgangi flekakenningarinnar á seinni hluta 20. aldar varð hins vegar auðvelt að útskýra aldur mismunandi hluta Íslands. Þannig varð auðskilið af hverju Vestfirðir og Austfirðir væru elstir, því þeir væru lengst frá miðju landsins og því væri lengst síðan að þeir mynduðust. En þótt jarðfræðingar hefðu áttað sig á aldri mismunandi landshluta Íslands þá stóð spurningin enn eftir hve gamlir þessir hlutar væru í raun og veru.

Aldur jarðlaga er ákvarðaður með nokkrum mismunandi aðferðum. Einfaldasta aðferðin er að greina myndunarröð jarðlaga í jarðlagastafla. Þannig gefur augaleið að neðstu lögin í hraunlagastafla Vestfjarða eru elst en þau efstu yngst. Innskotsberg, til dæmis gangar eða berghleifar, er einnig yngra en bergið, sem umlykur innskotið. Steingervingar, sem lifðu á ákveðnum tímabilum í jarðsögunni, eru svo notaðir til að bera saman aldur ýmissa jarðmyndana, sem liggja fjarri hver annarri. Þessar aldursgreiningaraðferðir gefa hins vegar ekki upp raunaldur jarðlaga einar og sér.

Það er ekki ólíklegt að neðstu hraunlögin í Gelti séu meðal elsta bergs sem finna megi ofansjávar á Íslandi. Á myndinni sést Suðureyri til vesturs og Göltur í baksýn. Elsta berg Íslands er alla jafna talið vera á milli 15 og 16 milljón ára gamalt.

Til að finna raunaldur jarðlaga þarf að mæla magn geislavirkra frumefna í berginu. Sú aðferð er ekki gömul þar sem geislavirkni frumefna uppgötvaðist ekki fyrr en um aldamótin 1900. Með rannsóknum á geislavirkni fóru jarðfræðingar að þróa aldursgreiningaraðferðir þar sem hrörnun geislavirkra efna var mæld til að fá fram raunaldur jarðlaga í stað afstæðs aldurs einvörðungu. Fyrstu aldursgreiningar á íslensku bergi voru gerðar um 1950 en þróun greiningaraðferða var töluvert hröð um miðbik aldarinnar. Þó var elsta berg landsins ekki aldursgreint fyrr en á síðari hluta 7. áratugarins.

Niðurstöður fyrstu aldursgreininganna voru birtar árið 1968, þegar tímamótagrein var birt um aldur elstu hraunlaga á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sú rannsókn gaf þá niðurstöðu að elsta bergið væri um 16 milljón ára gamalt á Vestfjörðum en áður hafði það verið talið vera allt að 60 milljón ára gamalt. Þessar nýju aldursgreiningar gjörbreyttu hugmyndum manna um aldur og þróun Íslands. Má í raun segja að með tilkomu flekakenningarinnar og nýrra aldursgreiningaraðferða hafi nýtt tímabil hafist í jarðfræðirannsóknum á Íslandi, og raunar víðast hvar annars staðar í heiminum.

Frá 1968 hafa fleiri aldursgreiningar verið framkvæmdar á hraunlagastafla Vestfjarða og hafa þær verið í nokkuð góðu samræmi við fyrstu greiningarnar. Það er því nokkuð öruggt að elsta berg Íslands finnst neðst í hraunlagastaflanum á ystu annesjum Vestfjarða, og er það alla jafna talið vera á milli 15 og 16 milljón ára gamalt. Elsta bergsýni sem greint hefur verið í þessum rannsóknum er í Súgandafirði en þó ekki frá Gelti heldur sunnan fjarðarins, úr fjallinu Spilli ofan við Suðureyri.

Spurningunni hvar allra elsta bergið sé að finna verður hins vegar ekki svarað nema með frekari rannsóknum. Það er þó ekki ólíklegt að neðstu hraunlögin í Gelti séu meðal elsta bergs sem finna megi ofansjávar á Íslandi. Hafi lesendur hug á að skoða aðra mögulega staði má til að mynda fara um Sandsheiði yfir á Ingjaldssand við utanverðan Önundarfjörð, frá Bolungarvík yfir í Skálavík eða skoða ystu annes Hornstranda.

Heimildir:
  • Björn S. Harðarson, Fitton, J. G., Ellam, R. M. og Pringle, M. S. 1997. Rift relocation -- a geochemical and geochronological investigation of a palaeo-rift in Northwest Iceland. Earth and Planetary Science Letters 153, 181-196.
  • Leó Kristjánsson. 1992. Saga hugmynda um aldur Íslands. Jökull 42, 45-64.
  • Leó Kristjánsson, Björn S. Harðarson og Haraldur Auðunsson. 2003. A detailed paleomagnetic study of the oldest (ca. 15 Myr) lava sequences in Northwest Iceland. Geophysical Journal International 155, 991-1005.
  • McDougall, I., Leó Kristjánsson og Kristján Sæmundsson. 1984. Magnetostratigraphy and geochronology of Northwest Iceland. Journal of Geophysical Research 89, 7029-7060.
  • Moorbath, S., Haraldur Sigurðsson og Goodwin, R. 1968. K-Ar ages of the oldest exposed rocks in Iceland. Earth and Planetary Science Letters 4, 197-205.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Þröstur Sveinn spurði bæði um elsta og yngsta berg landsins og var svarað í stuttu máli hér en nú með ýtarlegu svari um elsta bergið.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

3.1.2017

Spyrjandi

Þröstur Sveinn Reynisson

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvert er elsta berg landsins?“ Vísindavefurinn, 3. janúar 2017. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70346.

Snæbjörn Guðmundsson. (2017, 3. janúar). Hvert er elsta berg landsins? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70346

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvert er elsta berg landsins?“ Vísindavefurinn. 3. jan. 2017. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70346>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvert er elsta berg landsins?
Við utanverðan Súgandafjörð, á móts við byggðina á Suðureyri, skagar svipmikið fjall og hömrum girt út í Norður-Atlantshafið. Fjallið nefnist Göltur og er nokkurs konar bæjarfjall Suðureyringa, en margir þeirra munu hafa gengið þar upp. Án báts er þó ekki auðvelt að komast að Geltinum en enginn vegur liggur með Súgandafirði norðanverðum. Úr fjarska lítur Göltur út eins og þykk lagkaka, þar sem hvert hraunlagið liggur ofan á öðru. Eins og við er að búast eru hraunlögin við marflata fjallsbrúnina yngri en þau sem neðar liggja, og eru því allra elstu hraunlögin við sjávarmál. Þessi hraunlög eru raunar einhver elstu hraunlög Íslands ofan sjávarmáls því ystu annes norðanverðra Vestfjarða marka elsta hluta landsins.

Við utanverðan Súgandafjörð, á móts við byggðina á Suðureyri, skagar svipmikið fjall og hömrum girt út í Norður-Atlantshafið. Fjallið nefnist Göltur og er nokkurs konar bæjarfjall Súgfirðinga. Á myndinni sést Suðureyri í baksýn, séð til austurs.

Löngum hefur verið vitað að elsta berg á Íslandi mætti finna á Vestfjörðum og Austfjörðum. Löngu áður en flekakenningin náði fótfestu höfðu jarðfræðingar ætlað að blágrýti þessara landshluta væru forn hraunlög og voru þau réttilega sögð vera frá tertíertímabilinu. Að sama skapi var talið að móbergið og hraunin, sem finna mætti um miðbik landsins, væru yngri jarðmyndanir. Útskýringar á þessari aldursdreifingu jarðlaga á Íslandi voru hins vegar langsóttar, þar sem jarðfræðingar gerðu ráð fyrir að Ísland væri leifar fornrar landbrúar milli Grænlands og Noregs.

Með uppgangi flekakenningarinnar á seinni hluta 20. aldar varð hins vegar auðvelt að útskýra aldur mismunandi hluta Íslands. Þannig varð auðskilið af hverju Vestfirðir og Austfirðir væru elstir, því þeir væru lengst frá miðju landsins og því væri lengst síðan að þeir mynduðust. En þótt jarðfræðingar hefðu áttað sig á aldri mismunandi landshluta Íslands þá stóð spurningin enn eftir hve gamlir þessir hlutar væru í raun og veru.

Aldur jarðlaga er ákvarðaður með nokkrum mismunandi aðferðum. Einfaldasta aðferðin er að greina myndunarröð jarðlaga í jarðlagastafla. Þannig gefur augaleið að neðstu lögin í hraunlagastafla Vestfjarða eru elst en þau efstu yngst. Innskotsberg, til dæmis gangar eða berghleifar, er einnig yngra en bergið, sem umlykur innskotið. Steingervingar, sem lifðu á ákveðnum tímabilum í jarðsögunni, eru svo notaðir til að bera saman aldur ýmissa jarðmyndana, sem liggja fjarri hver annarri. Þessar aldursgreiningaraðferðir gefa hins vegar ekki upp raunaldur jarðlaga einar og sér.

Það er ekki ólíklegt að neðstu hraunlögin í Gelti séu meðal elsta bergs sem finna megi ofansjávar á Íslandi. Á myndinni sést Suðureyri til vesturs og Göltur í baksýn. Elsta berg Íslands er alla jafna talið vera á milli 15 og 16 milljón ára gamalt.

Til að finna raunaldur jarðlaga þarf að mæla magn geislavirkra frumefna í berginu. Sú aðferð er ekki gömul þar sem geislavirkni frumefna uppgötvaðist ekki fyrr en um aldamótin 1900. Með rannsóknum á geislavirkni fóru jarðfræðingar að þróa aldursgreiningaraðferðir þar sem hrörnun geislavirkra efna var mæld til að fá fram raunaldur jarðlaga í stað afstæðs aldurs einvörðungu. Fyrstu aldursgreiningar á íslensku bergi voru gerðar um 1950 en þróun greiningaraðferða var töluvert hröð um miðbik aldarinnar. Þó var elsta berg landsins ekki aldursgreint fyrr en á síðari hluta 7. áratugarins.

Niðurstöður fyrstu aldursgreininganna voru birtar árið 1968, þegar tímamótagrein var birt um aldur elstu hraunlaga á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sú rannsókn gaf þá niðurstöðu að elsta bergið væri um 16 milljón ára gamalt á Vestfjörðum en áður hafði það verið talið vera allt að 60 milljón ára gamalt. Þessar nýju aldursgreiningar gjörbreyttu hugmyndum manna um aldur og þróun Íslands. Má í raun segja að með tilkomu flekakenningarinnar og nýrra aldursgreiningaraðferða hafi nýtt tímabil hafist í jarðfræðirannsóknum á Íslandi, og raunar víðast hvar annars staðar í heiminum.

Frá 1968 hafa fleiri aldursgreiningar verið framkvæmdar á hraunlagastafla Vestfjarða og hafa þær verið í nokkuð góðu samræmi við fyrstu greiningarnar. Það er því nokkuð öruggt að elsta berg Íslands finnst neðst í hraunlagastaflanum á ystu annesjum Vestfjarða, og er það alla jafna talið vera á milli 15 og 16 milljón ára gamalt. Elsta bergsýni sem greint hefur verið í þessum rannsóknum er í Súgandafirði en þó ekki frá Gelti heldur sunnan fjarðarins, úr fjallinu Spilli ofan við Suðureyri.

Spurningunni hvar allra elsta bergið sé að finna verður hins vegar ekki svarað nema með frekari rannsóknum. Það er þó ekki ólíklegt að neðstu hraunlögin í Gelti séu meðal elsta bergs sem finna megi ofansjávar á Íslandi. Hafi lesendur hug á að skoða aðra mögulega staði má til að mynda fara um Sandsheiði yfir á Ingjaldssand við utanverðan Önundarfjörð, frá Bolungarvík yfir í Skálavík eða skoða ystu annes Hornstranda.

Heimildir:
  • Björn S. Harðarson, Fitton, J. G., Ellam, R. M. og Pringle, M. S. 1997. Rift relocation -- a geochemical and geochronological investigation of a palaeo-rift in Northwest Iceland. Earth and Planetary Science Letters 153, 181-196.
  • Leó Kristjánsson. 1992. Saga hugmynda um aldur Íslands. Jökull 42, 45-64.
  • Leó Kristjánsson, Björn S. Harðarson og Haraldur Auðunsson. 2003. A detailed paleomagnetic study of the oldest (ca. 15 Myr) lava sequences in Northwest Iceland. Geophysical Journal International 155, 991-1005.
  • McDougall, I., Leó Kristjánsson og Kristján Sæmundsson. 1984. Magnetostratigraphy and geochronology of Northwest Iceland. Journal of Geophysical Research 89, 7029-7060.
  • Moorbath, S., Haraldur Sigurðsson og Goodwin, R. 1968. K-Ar ages of the oldest exposed rocks in Iceland. Earth and Planetary Science Letters 4, 197-205.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Þröstur Sveinn spurði bæði um elsta og yngsta berg landsins og var svarað í stuttu máli hér en nú með ýtarlegu svari um elsta bergið.

...