Sólin Sólin Rís 08:30 • sest 18:51 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:02 • Sest 08:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:10 • Síðdegis: 22:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:09 • Síðdegis: 16:19 í Reykjavík

Hvað gæti orðið hlýtt á jörðinni í lok 21. aldar og hvaða áhrif hefði það á náttúruna?

Helgi Björnsson

Talið er að um næstu aldamót verði um 2 til 4°C hlýrra á jörðinni heldur en nú er ef allar þjóðir heims ná ekki að sameinast um að draga verulega úr bruna jarðefnaeldsneytis. Þá yrðu jöklar á Íslandi orðnir helmingi minni en þeir eru nú og jökulárnar hefðu tvöfaldast að vatnsmagni. Ef hlýnunin héldi síðan áfram með sama hraða yrðu jöklar að mestu horfnir af landinu eftir 150 til 200 ár.

Afrennsli frá jöklunum færi að rýrna hratt eftir næstu aldamót og að lokum yrðu engar jökulár hér á landi. Víða um heim treysta menn á að fá jökulvatn að vori og sumri til þess að vökva gróður, einkum í þurrkatíð. Flestir jöklar utan heimskautasvæða hyrfu einnig, frost færi úr jörðu og við það losnuðu lofttegundirnar koltvísýringur og metan úr jarðvegi. Þær bærust upp í andrúmsloftið og það flýtti fyrir hlýnun þess. Grænlandsjökull myndi bráðna svo á næstu hundrað árum að sjávarborð risi um 5 cm. Bráðnun myndi einnig stóraukast á stærsta jökli heims á Suðurskautslandinu.

Um næstu aldamót gæti sjávarborð hafa risið um 50 cm, jafnvel allt að 2 m. Strandrof myndi aukast og láglendi fara á kaf um allan heim. Áhrifin af hækkun sjávarborðs verða ekki þau sömu um allan heim; hækkunin verður mest um miðbaug en minni nær heimskautunum. Við suðausturströnd Íslands gæti landris vegna rýrnunar Vatnajökuls vegið upp hækkun sjávar svo að núverandi fjörumörk yrðu um 2 m yfir sjávarborði. Sjór myndi hins vegar ganga inn á suðvesturhorn landsins og valda þar tjóni í þéttbýli við sjávarsíðuna.

Um næstu aldamót gæti sjávarborð hafa risið um 50 cm, jafnvel allt að 2 m.

Spáð er að íslaust verði að sumri á Norður-Íshafi fyrir miðja þessa öld. Þá gerbreytist endurkast sólgeislunar frá stórum hluta jarðar og hafið fær aukinn hita frá sólinni. Við það breytist loftslag við Norður-Atlantshaf. Allt að tveir þriðju hlutar af sífrerasvæðum jarðar gætu þiðnað fyrir árið 2200.

Hlýnandi loftslag hefur mikil áhrif á allt líf manna, dýra og gróðurs á jörðinni, bæði á landi og í sjó. Á flestum svæðum jarðar yrði erfitt fyrir lífríkið að laga sig að nýjum aðstæðum.

Loftslagsbelti og hafstraumar flytjast til og hringrás vatns á jörðinni breytist. Það hefði áhrif á framleiðslu matvæla í landbúnaði og sjávarútvegi. Hitabylgjur og þurrkar yllu víða vatnsskorti og ofsaveður yrðu sums staðar tíðari en nú. Hafið súrnar og hafís minnkar. Varanleg hlýnun breytir öllu umhverfi á jörðinni svo að það verður aldrei aftur eins og það var. Náttúran mun að vísu að lokum laga sig að nýjum aðstæðum en veröldin verður allt öðruvísi en mannkynið hefur nokkurn tíma þekkt.


Þetta svar er úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Myndin er úr sömu bók og er eftir Þórarin Má Baldursson. Hvort tveggja er birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.

Upprunaleg spurning Atla Más hljóðaði svona:

Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á líf manna og dýra?

Höfundur

Helgi Björnsson

prófessor emeritus í jöklafræði

Útgáfudagur

18.11.2016

Spyrjandi

Atli Már Eyjólffson

Tilvísun

Helgi Björnsson. „Hvað gæti orðið hlýtt á jörðinni í lok 21. aldar og hvaða áhrif hefði það á náttúruna?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2016. Sótt 2. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72458.

Helgi Björnsson. (2016, 18. nóvember). Hvað gæti orðið hlýtt á jörðinni í lok 21. aldar og hvaða áhrif hefði það á náttúruna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72458

Helgi Björnsson. „Hvað gæti orðið hlýtt á jörðinni í lok 21. aldar og hvaða áhrif hefði það á náttúruna?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2016. Vefsíða. 2. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72458>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gæti orðið hlýtt á jörðinni í lok 21. aldar og hvaða áhrif hefði það á náttúruna?
Talið er að um næstu aldamót verði um 2 til 4°C hlýrra á jörðinni heldur en nú er ef allar þjóðir heims ná ekki að sameinast um að draga verulega úr bruna jarðefnaeldsneytis. Þá yrðu jöklar á Íslandi orðnir helmingi minni en þeir eru nú og jökulárnar hefðu tvöfaldast að vatnsmagni. Ef hlýnunin héldi síðan áfram með sama hraða yrðu jöklar að mestu horfnir af landinu eftir 150 til 200 ár.

Afrennsli frá jöklunum færi að rýrna hratt eftir næstu aldamót og að lokum yrðu engar jökulár hér á landi. Víða um heim treysta menn á að fá jökulvatn að vori og sumri til þess að vökva gróður, einkum í þurrkatíð. Flestir jöklar utan heimskautasvæða hyrfu einnig, frost færi úr jörðu og við það losnuðu lofttegundirnar koltvísýringur og metan úr jarðvegi. Þær bærust upp í andrúmsloftið og það flýtti fyrir hlýnun þess. Grænlandsjökull myndi bráðna svo á næstu hundrað árum að sjávarborð risi um 5 cm. Bráðnun myndi einnig stóraukast á stærsta jökli heims á Suðurskautslandinu.

Um næstu aldamót gæti sjávarborð hafa risið um 50 cm, jafnvel allt að 2 m. Strandrof myndi aukast og láglendi fara á kaf um allan heim. Áhrifin af hækkun sjávarborðs verða ekki þau sömu um allan heim; hækkunin verður mest um miðbaug en minni nær heimskautunum. Við suðausturströnd Íslands gæti landris vegna rýrnunar Vatnajökuls vegið upp hækkun sjávar svo að núverandi fjörumörk yrðu um 2 m yfir sjávarborði. Sjór myndi hins vegar ganga inn á suðvesturhorn landsins og valda þar tjóni í þéttbýli við sjávarsíðuna.

Um næstu aldamót gæti sjávarborð hafa risið um 50 cm, jafnvel allt að 2 m.

Spáð er að íslaust verði að sumri á Norður-Íshafi fyrir miðja þessa öld. Þá gerbreytist endurkast sólgeislunar frá stórum hluta jarðar og hafið fær aukinn hita frá sólinni. Við það breytist loftslag við Norður-Atlantshaf. Allt að tveir þriðju hlutar af sífrerasvæðum jarðar gætu þiðnað fyrir árið 2200.

Hlýnandi loftslag hefur mikil áhrif á allt líf manna, dýra og gróðurs á jörðinni, bæði á landi og í sjó. Á flestum svæðum jarðar yrði erfitt fyrir lífríkið að laga sig að nýjum aðstæðum.

Loftslagsbelti og hafstraumar flytjast til og hringrás vatns á jörðinni breytist. Það hefði áhrif á framleiðslu matvæla í landbúnaði og sjávarútvegi. Hitabylgjur og þurrkar yllu víða vatnsskorti og ofsaveður yrðu sums staðar tíðari en nú. Hafið súrnar og hafís minnkar. Varanleg hlýnun breytir öllu umhverfi á jörðinni svo að það verður aldrei aftur eins og það var. Náttúran mun að vísu að lokum laga sig að nýjum aðstæðum en veröldin verður allt öðruvísi en mannkynið hefur nokkurn tíma þekkt.


Þetta svar er úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Myndin er úr sömu bók og er eftir Þórarin Má Baldursson. Hvort tveggja er birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.

Upprunaleg spurning Atla Más hljóðaði svona:

Hvaða áhrif hefur hnattræn hlýnun á líf manna og dýra?

...