Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík
Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Þorgeirsdóttir stundað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Sigríður Þorgeirsdóttir er fyrst kvenna til að gegna fastri stöðu í heimspeki við Háskóla Íslands. Heimspeki hennar hefur á margan hátt endurspeglað þessa staðreynd, en Sigríður hefur ötullega unnið að framgangi femínískrar heimspeki sem að hennar dómi er eitt helsta endurnýjunarafl heimspekinnar í samtímanum.

Ef ein af grundvallarspurningum heimspekinnar lýtur að því hver maðurinn er, þá hafa rannsóknir Sigríðar beinst að því að draga fram fjölbreyttari mannskilning með tilliti til þess að viðhorf hefðbundinnar heimspeki hefur lengst af verið karlhverft. Ef litið er svo á að heimspeki sé orðræða orðræðanna, það er ef heimspekin snýst um greiningu á grundvallarhugtökum, þá hafa rannsóknir og kennsla Sigríðar einkennst af því að leita leiða til þess að efla þá heimspekilegu hugsun sem býr innra með okkur öllum, hversu ólík sem við annars erum.

Sigríður hefur unnið ötullega að framgangi femínískrar heimspeki sem að hennar dómi er eitt helsta endurnýjunarafl heimspekinnar í samtímanum.

Sigríður lagði grunn að rannsóknum sínum með doktorsritgerð um heimspeki Friedrichs Nietzsche sem hún heillaðist snemma af, meðal annars vegna þess hve hann gróf undan úreltum hugmyndum um mann og vitsmuni. Í þessu sambandi hefur Sigríður bent á hvernig Nietzsche varð áhrifavaldur fyrir mannskilning femínískrar heimspeki á 20. öld. Með því að líta á manninn sem heild hugar og líkama, það er með áherslu sinni á manninn sem líkamsveru og tilfinningaveru, gafst betri forsenda til að hugsa manninn í margbreytileika sínum.

Sigríður hefur í framhaldinu skrifað um femínískan mannskilning út frá líkamsverunni í heimspeki höfunda á borð við Simone de Beauvoir, Hannah Arendt, Luce Irigaray og Judith Butler.

Í skrifum sínum um heimspeki umhverfis og náttúru hefur Sigríður einnig túlkað manninn sem líkamsveru í samhengi náttúrunnar og tengsla við aðrar verur. Þessar áherslur Sigríðar endurspegla þá sannfæringu hennar að norræn heimspekihefð hafi hlutverki að gegna innan femínískrar heimspeki og heimspeki náttúrunnar. Í þessu sambandi hefur Sigríður stýrt alþjóðlegum sumarskólum um heimspeki og kyn í samstarfi við aðra norræna háskóla þar sem meðal annars hefur verið leitast við að þróa og innleiða nýjar kennsluaðferðir í heimspeki á grundvelli rannsókna innan femínískrar heimspeki (sjá https://genderandphilosophy.weebly.com/).

Sigríður hefur meðal annars skrifað um femínískan mannskilning út frá líkamsverunni í heimspeki höfunda á borð við Hannah Arnendt sem hér sést á myndinni.

Sem formaður kynjanefndar heimssamtaka heimspekinnar (FISP) hefur Sigríður lagt áherslu á að kynna rannsóknir á konum í sögu heimspekinnar. Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að konur hafa allt frá fornöld lagt stund á heimspeki þótt löngum hafi verið gert lítið úr framlagi þeirra. Fyrir næsta heimsþing heimspekinnar sem verður haldið í Beijing sumarið 2018 ritstýrir Sigríður útgáfu bókar um kvenheimspekinga fyrri tíma alls staðar að úr heiminum. Heimspeki kynjanna í hnattrænu samhengi hefur verið Sigríði hugleikin og um leið löngun til að virkja hana með hagnýtum hætti. Hún er einn stofnenda alþjóðlegs Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna sem er starfræktur við Háskóla Íslands. Þörfin til að endurskoða hugmyndir okkar um kynin gefur þeim færi á að mætast á nýjum forsendum og að læra að virða og elska hvort/hvert annað laus úr viðjum heftandi hugmynda.

Rannsóknir Sigríðar á heimspeki líkamans hafa einnig leitt hana inn á nýjar brautir rannsókna á kennslu heimspekilegrar hugsunar. Undanfarin ár hefur Sigríður aflað sér þjálfunar í aðferð við heimspekilega hugsun sem kallast á ensku Thinking at the Edge og var þróuð af Eugene Gendlin og Mary Hendricks. Til að dýpka jafnt gagnrýna sem skapandi hugsun er nauðsynlegt að virkja dýpri lög hugsunar mannsins sem hugsandi veru og tilfinningaveru. Á tímum þegar við erum ofmettuð af flóði upplýsinga og undir stöðugu áreiti netmiðla er sífellt örðugra að vita hvað okkur finnst og athyglin brestur. Með þessum nýju aðferðum er nemendum í heimspeki markvisst kennt að hugsa sjálfstætt og að treysta eigin dómgreind sem hefur verið aðalsmerki heimspekinnar allt frá því þegar Sókrates sagðist hlusta á innri rödd sína.

Sigríður er fædd 1958 í Reykjavík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1977 og nam heimspeki í Boston í Bandaríkjunum og í Berlín í Þýskalandi þaðan sem hún lauk doktorsprófi 1993. Hún kenndi áður við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og var Jane og Aatos Erkko-prófessor við Háskólann í Helsinki 2014-2015. Hún hefur kennt heimspeki víða um heim og er alþjólega eftirsóttur fyrirlesari.

Myndir:

Útgáfudagur

16.1.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Þorgeirsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2018. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75091.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 16. janúar). Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Þorgeirsdóttir stundað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75091

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Þorgeirsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2018. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75091>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða rannsóknir hefur Sigríður Þorgeirsdóttir stundað?
Sigríður Þorgeirsdóttir er fyrst kvenna til að gegna fastri stöðu í heimspeki við Háskóla Íslands. Heimspeki hennar hefur á margan hátt endurspeglað þessa staðreynd, en Sigríður hefur ötullega unnið að framgangi femínískrar heimspeki sem að hennar dómi er eitt helsta endurnýjunarafl heimspekinnar í samtímanum.

Ef ein af grundvallarspurningum heimspekinnar lýtur að því hver maðurinn er, þá hafa rannsóknir Sigríðar beinst að því að draga fram fjölbreyttari mannskilning með tilliti til þess að viðhorf hefðbundinnar heimspeki hefur lengst af verið karlhverft. Ef litið er svo á að heimspeki sé orðræða orðræðanna, það er ef heimspekin snýst um greiningu á grundvallarhugtökum, þá hafa rannsóknir og kennsla Sigríðar einkennst af því að leita leiða til þess að efla þá heimspekilegu hugsun sem býr innra með okkur öllum, hversu ólík sem við annars erum.

Sigríður hefur unnið ötullega að framgangi femínískrar heimspeki sem að hennar dómi er eitt helsta endurnýjunarafl heimspekinnar í samtímanum.

Sigríður lagði grunn að rannsóknum sínum með doktorsritgerð um heimspeki Friedrichs Nietzsche sem hún heillaðist snemma af, meðal annars vegna þess hve hann gróf undan úreltum hugmyndum um mann og vitsmuni. Í þessu sambandi hefur Sigríður bent á hvernig Nietzsche varð áhrifavaldur fyrir mannskilning femínískrar heimspeki á 20. öld. Með því að líta á manninn sem heild hugar og líkama, það er með áherslu sinni á manninn sem líkamsveru og tilfinningaveru, gafst betri forsenda til að hugsa manninn í margbreytileika sínum.

Sigríður hefur í framhaldinu skrifað um femínískan mannskilning út frá líkamsverunni í heimspeki höfunda á borð við Simone de Beauvoir, Hannah Arendt, Luce Irigaray og Judith Butler.

Í skrifum sínum um heimspeki umhverfis og náttúru hefur Sigríður einnig túlkað manninn sem líkamsveru í samhengi náttúrunnar og tengsla við aðrar verur. Þessar áherslur Sigríðar endurspegla þá sannfæringu hennar að norræn heimspekihefð hafi hlutverki að gegna innan femínískrar heimspeki og heimspeki náttúrunnar. Í þessu sambandi hefur Sigríður stýrt alþjóðlegum sumarskólum um heimspeki og kyn í samstarfi við aðra norræna háskóla þar sem meðal annars hefur verið leitast við að þróa og innleiða nýjar kennsluaðferðir í heimspeki á grundvelli rannsókna innan femínískrar heimspeki (sjá https://genderandphilosophy.weebly.com/).

Sigríður hefur meðal annars skrifað um femínískan mannskilning út frá líkamsverunni í heimspeki höfunda á borð við Hannah Arnendt sem hér sést á myndinni.

Sem formaður kynjanefndar heimssamtaka heimspekinnar (FISP) hefur Sigríður lagt áherslu á að kynna rannsóknir á konum í sögu heimspekinnar. Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að konur hafa allt frá fornöld lagt stund á heimspeki þótt löngum hafi verið gert lítið úr framlagi þeirra. Fyrir næsta heimsþing heimspekinnar sem verður haldið í Beijing sumarið 2018 ritstýrir Sigríður útgáfu bókar um kvenheimspekinga fyrri tíma alls staðar að úr heiminum. Heimspeki kynjanna í hnattrænu samhengi hefur verið Sigríði hugleikin og um leið löngun til að virkja hana með hagnýtum hætti. Hún er einn stofnenda alþjóðlegs Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna sem er starfræktur við Háskóla Íslands. Þörfin til að endurskoða hugmyndir okkar um kynin gefur þeim færi á að mætast á nýjum forsendum og að læra að virða og elska hvort/hvert annað laus úr viðjum heftandi hugmynda.

Rannsóknir Sigríðar á heimspeki líkamans hafa einnig leitt hana inn á nýjar brautir rannsókna á kennslu heimspekilegrar hugsunar. Undanfarin ár hefur Sigríður aflað sér þjálfunar í aðferð við heimspekilega hugsun sem kallast á ensku Thinking at the Edge og var þróuð af Eugene Gendlin og Mary Hendricks. Til að dýpka jafnt gagnrýna sem skapandi hugsun er nauðsynlegt að virkja dýpri lög hugsunar mannsins sem hugsandi veru og tilfinningaveru. Á tímum þegar við erum ofmettuð af flóði upplýsinga og undir stöðugu áreiti netmiðla er sífellt örðugra að vita hvað okkur finnst og athyglin brestur. Með þessum nýju aðferðum er nemendum í heimspeki markvisst kennt að hugsa sjálfstætt og að treysta eigin dómgreind sem hefur verið aðalsmerki heimspekinnar allt frá því þegar Sókrates sagðist hlusta á innri rödd sína.

Sigríður er fædd 1958 í Reykjavík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1977 og nam heimspeki í Boston í Bandaríkjunum og í Berlín í Þýskalandi þaðan sem hún lauk doktorsprófi 1993. Hún kenndi áður við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og var Jane og Aatos Erkko-prófessor við Háskólann í Helsinki 2014-2015. Hún hefur kennt heimspeki víða um heim og er alþjólega eftirsóttur fyrirlesari.

Myndir:

...