Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Saga heimspekinnar er ákaflega margbrotin og getur reynst þrautinni þyngra að átta sig á hvað var efst á baugi á ákveðnu árabili. Þetta á sérstaklega við um upphaf tuttugustu aldar enda voru þá umbrotatímar og mikil gerjun átti sér stað. Þær hræringar má skoða í samhengi við það sem var helst að gerast í raunvísindum á þeim tíma. Á fyrstu áratugum aldarinnar beindu vísindamenn sjónum sínum ekki síst að smæstu ögnum alheimsins. Fór þar fremstur Ernest Rutherford (1871–1937) sem varpaði skýrara ljósi á samsetningu atómsins en áður hafði verið gert.
Mynd sem sýnir aðalatriðin í atómlíkani Rutherfords frá árinu 1911. Í miðjunni er lítill en massamikill kjarni sem rafeindir sveima í kringum.
Margs konar „eindahyggja“ einkenndi einmitt heimspeki þessa tíma. Grunnhugmyndin var eitthvað á þá leið að tungumálið skiptist upp í einingar sem svo aftur féllu að einingum efnislegs veruleika. Ef slíkt samhengi væri ekki til staðar þá væri líklegast um merkingarlausar staðhæfingar að ræða. Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein (1889–1951) lauk við þekktasta heimspekiverk fyrri hluta tuttugustu aldar, Tractatus Logico-Philosophicus, árið 1918. Í því verki bregður ekki fyrir mörgum röksemdafærslum og er það fremur upptalning á atriðum sem Wittgenstein taldi vera hafin yfir allan vafa – nokkurs konar eindum mannlegrar þekkingar. Árið 1918 flutti breski heimspekingurinn Bertrand Russell einnig fyrirlestra sem hann kenndi við rökfræðilega eindahyggju eða „logical atomism“. Þær skoðanir sem hann settir fram í fyrirlestrunum sóttu að einhverju leyti innblástur í kynni hans við Wittgenstein.
Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein lauk við þekktasta heimspekiverk fyrri hluta tuttugustu aldar, Tractatus Logico-Philosophicus, árið 1918.
Upp úr fyrri heimstyrjöldinni ná þessar hugmyndir flugi hjá svokölluðum „Vínarhring“, hópi hugsuða í Vínarborg sem saman settu fram heimspekilega kenningu sem nefndist rökfræðileg raunhyggja. Takmarkaði hún að mörgu leyti heimspekilegar vangaveltur við aðferðafræði og tungumál raunvísinda. Síðar á öldinni þróuðust þær hugmyndir sem þarna komu fram í rökgreiningarheimspeki sem náði yfirhöndinni í enskumælandi löndum. Þá hafði reyndar eindahugsunin látið undan síga og voru rökgreiningarheimspekingar þá uppteknari af notkun tungumálsins og mörgum blæbrigðum þess.
Þegar rætt er um sögu heimspekinnar á tuttugustu öld er oft greint á milli rökgreiningarheimspeki annars vegar og meginlandsheimspeki hins vegar. Á greinarmunurinn meðal annars að varpa ljósi á hversu mikil áhrif rökgreiningarheimspekin hafði á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum og hvernig heimspekingar í Þýskalandi og Frakklandi tóku síður upp þá strauma. Í meginlandsheimspeki ber mest á fyrirbærafræði og tilvistarstefnu á tuttugustu öld og má segja að báðar stefnur hafni því að náttúruvísindi lýsi veruleikanum svo nákvæmlega að nálgun þeirra eigi að vera heimspeki til fyrirmyndar. Um 1918 bar Edmund Husserl (1859–1976) höfuð og herðar yfir aðra heimspekinga sem hugsuðu í þessum anda og lagði grunninn að þeirri heimspeki sem síðar má sjá í verkum Martins Heidegger (1889–1976) og Jean Pauls Sartre (1905–1980).
Verkið Frá sjónarheimi eftir Guðmund Finnbogason kom út árið 1918.
Á Íslandi kenndi Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) „forspjallsvísindi“ og „almenna heimspeki“ við Háskóla Íslands á árunum í kringum 1918. Eftir hann liggur mikið verk á sviði heimspeki. Guðmundur Finnbogason (1873–1944) gegndi einnig um tíma prófessorsstöðu við Háskóla Íslands og lagði stund á rannsóknir og kennslu á mörkum sálarfræði og heimspeki. Hið merka verk hans, Frá sjónarheimi, kom út 1918. Um þetta leyti var Björg C. Þorláksson (1874–1934) farin að hugsa sér til hreyfings með von um að komast í framhaldsnám í heimspeki og sálarfræði. Fékk hún styrki til náms 1920 og varð hún fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi árið 1926.
Mynd:
Mynd af atómlíkani Rutherfords er fengin úr bókinni Einstein, eindir og afstæði: Tímamótagreinar Einsteins frá 1905, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2015, bls. 56.
Henry Alexander Henrysson. „Hvað var að gerast í sögu heimspekinnar um 1918?“ Vísindavefurinn, 27. febrúar 2018, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75119.
Henry Alexander Henrysson. (2018, 27. febrúar). Hvað var að gerast í sögu heimspekinnar um 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75119
Henry Alexander Henrysson. „Hvað var að gerast í sögu heimspekinnar um 1918?“ Vísindavefurinn. 27. feb. 2018. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75119>.