Sólin Sólin Rís 03:43 • sest 23:08 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:44 • Síðdegis: 19:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 12:50 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um eldstöðvakerfið í Ljósufjöllum?

Haukur Jóhannesson

Ljósufjallareinin teygir sig frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í Borgarfirði. Hún er nær 90 kílómetra löng og stefnir vestnorðvestur til austsuðausturs. Miðja hennar virðist vera í Ljósufjöllum, og dregur hún því nafn sitt af þeim. Þar er eldvirknin mest og fjölbreyttust.

Ljósufjöll standa fyrir miðjum vesturenda Snæfellsnesbrotabeltisins og er verulegur munur á eldvirkni þar og svæðinu vestur af, borið saman við landið austan þeirra. Vestan Ljósufjalla er eldvirknin bundin tiltölulega mjóu belti, einn til þrír kílómetrar, gagnstætt því sem er austan þeirra. Ekki verður séð að misgengishreyfingar verði samfara eldgosum þar. Þó verður að ætla að eldgosin verði á sprungum, þótt þeirra sjáist lítil merki. Á vestursvæðinu má rekja beltið auðveldlega. Vestast er Seljafell við Hraunsfjörð. Þá taka við kúlurnar í Berserkjahrauni. Enn austar er Hafrafell, Kerlingarfjall, Grímsfjall, og svo hver eldstöðin af annarri, uns komið er að Ljósufjöllum. Austan Ljósufjalla er öðruvísi um að litast. Þar eru gosstöðvarnar dreifðar á nær 20 kílómetra breitt belti. Þar ná jarðlög frá ísöld heldur ekki að mynda samfelldan stafla eins og víðast á vestursvæðinu. Athygli vekur að beltið er nær jafnbreitt því svæði sem norðvestur-suðaustur brot Snæfellsnesbrotabeltisins ná yfir. Þetta á einkum við vestan Langavatns. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að flest eldgos á þessu svæði hafa orðið á gömlum norðvestur- til suðausturs brotum. Þó er það ekki án undantekninga.

Séð norður yfir Ljósufjöll. Hvammsfjörður í baksýn. Fjöllin eru að mestu úr ríólíti. Tveir ríólíthryggir liggja þvert á þau. Þeir hafa myndast þegar ríólítkvika rann eftir hlauprásum í jöklum ísaldar.

Elstu jarðlög sem með vissu er hægt að tengja Ljósufjallaeldstöðinni, eru um 800.000 ára. Þau eru í Seljafelli í Kerlingarskarði. Þar er að finna óregluleg til öfugt segulmögnuð lög. Efst í Drápuhlíðarfjalli er örlítill hraunsnepill, einnig með öfuga segulstefnu. Allt annað berg er rétt segulmagnað. Á nokkrum stöðum má með vissu rekja sig að minnsta kosti aftur á þriðja síðasta jökulskeið í nokkuð samfelldum stafla.

Ísúrt og súrt berg er algengt á svæðinu frá Kerlingarskarði austur fyrir Ljósufjöll. Mest ber þó á því í Ljósufjöllum sjálfum, sem eru að mestu úr súru bergi mynduðu við gos undir eða í jöklum síðasta jökulskeiðs. Aldur súra bergsins er á bilinu 100-700 þúsund ár.[1][2]

Í háfjallshryggnum ber mest á móbergi, en hraunum er út frá honum dregur. Þetta stafar af því að á jökulskeiðum náðu gosefnin ekki að dreifast frá gossprungum, heldur mynduðu móbergshryggi og hrúgur. Á hlýskeiðum eins og á nútíma náðu hraun að renna niður hlíðarnar og fram dali. Lengst hefur hraun borið að minnsta kosti 15 kílómetra út frá fjallgarðinum. Það rann út eftir Stóra-Langadal á Skógarströnd, og sjást leifar þess í Virkishólma í mynni Hvammsfjarðar og í Gvendareyjum.

Ljósufjöll urðu til við gos undir jökli. Fyrst opnaðist NNV-SSA sprunga og upp kom ríólítkvika sem myndaði meginhluta fjallanna. Hún bræddi geil í jökulinn sem fylltist af bræðsluvatni að hluta til. Það náði að mynda a.m.k. tvær rásir til suðurs og kvikan rann eftir þeim niður hlíðarnar. Þannig mynduðust hryggirnir sem eru svo áberandi sunnan fjallanna.

Á nútíma, eða síðustu 10.000 ár, hefur gosið 23 sinnum í gosrein Ljósufjalla. Austast er Grábrókarhraun en vestast Berserkjahraun í Helgafellssveit. Flest eru þó hraunin í Hnappadal og Hítardal. Aldur þeirra er mismunandi, og er ekki annað að sjá en eldvirkni hafi dreifst jafnt yfir allan nútímann. Elstu hraunin hafa myndast nokkuð snemma á nútíma, svo sem Gullborgarhraun, Eldborgarhraun og Hagahraun í Hítardal, auk hrauna í Ljósufjöllum sjálfum. Vitað er nánar um aldur nokkurra hrauna. Rauðhálsahraun er frá því á tíundu öld (frá sögulegum tíma),[3] Rauðamelskúlur um 2.600 ára gamlar[4], og Grábrókarhraun er nokkru yngra en 3.600 ára. Hólmshraun í Hítardal er unglegt og gæti hafa runnið skömmu fyrir landnám. Flest þessara gosa virðast hafa byrjað á stuttum sprungum, en eldvirkni síðan dregist saman í einn eða fleiri stærri gíga sem oftar en ekki verða að lokum stórir og kúlumyndaðir. Minnstu hraunin í Ljósafjöllum hafa komið úr slíkum sprungum. Þar eru þó gígarnir litlir og kleprakenndir, en ekki stórar og gjallkenndar kúlur eins og þegar gosin hafa dregist á langinn.

Tilvísanir:
  1. ^ Flude og fleiri, 2008. Silicic volcanism at Ljósufjöll, Iceland: Insights into evolution and eruptive history from Ar-Ar dating. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 169, 154-171.
  2. ^ Ingibjörg Snædal Guðmundsdóttir og Olgeir Sigurgeirsson, 2008. Aldur yngsta bergs Ljósufjalla á Snæfellsnesi. Náttúrufræðingurinn, 77(1-2), 19-23.
  3. ^ Haukur Jóhannesson, 1977. Náttúrufræðingurinn, 47, 129-141.
  4. ^ Kristján Sæmundsson, 1966. Zwei neue C14-Datierungen isländischer Vulkanausbrüche. Eiszeitalter und Gegenwart, 17, 85-86.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Snæfellsnes í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 374-375.

Höfundur

Haukur Jóhannesson

jarðfræðingur

Útgáfudagur

5.8.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Haukur Jóhannesson. „Hvað getið þið sagt mér um eldstöðvakerfið í Ljósufjöllum?“ Vísindavefurinn, 5. ágúst 2021. Sótt 24. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76146.

Haukur Jóhannesson. (2021, 5. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um eldstöðvakerfið í Ljósufjöllum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76146

Haukur Jóhannesson. „Hvað getið þið sagt mér um eldstöðvakerfið í Ljósufjöllum?“ Vísindavefurinn. 5. ágú. 2021. Vefsíða. 24. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76146>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um eldstöðvakerfið í Ljósufjöllum?
Ljósufjallareinin teygir sig frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í Borgarfirði. Hún er nær 90 kílómetra löng og stefnir vestnorðvestur til austsuðausturs. Miðja hennar virðist vera í Ljósufjöllum, og dregur hún því nafn sitt af þeim. Þar er eldvirknin mest og fjölbreyttust.

Ljósufjöll standa fyrir miðjum vesturenda Snæfellsnesbrotabeltisins og er verulegur munur á eldvirkni þar og svæðinu vestur af, borið saman við landið austan þeirra. Vestan Ljósufjalla er eldvirknin bundin tiltölulega mjóu belti, einn til þrír kílómetrar, gagnstætt því sem er austan þeirra. Ekki verður séð að misgengishreyfingar verði samfara eldgosum þar. Þó verður að ætla að eldgosin verði á sprungum, þótt þeirra sjáist lítil merki. Á vestursvæðinu má rekja beltið auðveldlega. Vestast er Seljafell við Hraunsfjörð. Þá taka við kúlurnar í Berserkjahrauni. Enn austar er Hafrafell, Kerlingarfjall, Grímsfjall, og svo hver eldstöðin af annarri, uns komið er að Ljósufjöllum. Austan Ljósufjalla er öðruvísi um að litast. Þar eru gosstöðvarnar dreifðar á nær 20 kílómetra breitt belti. Þar ná jarðlög frá ísöld heldur ekki að mynda samfelldan stafla eins og víðast á vestursvæðinu. Athygli vekur að beltið er nær jafnbreitt því svæði sem norðvestur-suðaustur brot Snæfellsnesbrotabeltisins ná yfir. Þetta á einkum við vestan Langavatns. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að flest eldgos á þessu svæði hafa orðið á gömlum norðvestur- til suðausturs brotum. Þó er það ekki án undantekninga.

Séð norður yfir Ljósufjöll. Hvammsfjörður í baksýn. Fjöllin eru að mestu úr ríólíti. Tveir ríólíthryggir liggja þvert á þau. Þeir hafa myndast þegar ríólítkvika rann eftir hlauprásum í jöklum ísaldar.

Elstu jarðlög sem með vissu er hægt að tengja Ljósufjallaeldstöðinni, eru um 800.000 ára. Þau eru í Seljafelli í Kerlingarskarði. Þar er að finna óregluleg til öfugt segulmögnuð lög. Efst í Drápuhlíðarfjalli er örlítill hraunsnepill, einnig með öfuga segulstefnu. Allt annað berg er rétt segulmagnað. Á nokkrum stöðum má með vissu rekja sig að minnsta kosti aftur á þriðja síðasta jökulskeið í nokkuð samfelldum stafla.

Ísúrt og súrt berg er algengt á svæðinu frá Kerlingarskarði austur fyrir Ljósufjöll. Mest ber þó á því í Ljósufjöllum sjálfum, sem eru að mestu úr súru bergi mynduðu við gos undir eða í jöklum síðasta jökulskeiðs. Aldur súra bergsins er á bilinu 100-700 þúsund ár.[1][2]

Í háfjallshryggnum ber mest á móbergi, en hraunum er út frá honum dregur. Þetta stafar af því að á jökulskeiðum náðu gosefnin ekki að dreifast frá gossprungum, heldur mynduðu móbergshryggi og hrúgur. Á hlýskeiðum eins og á nútíma náðu hraun að renna niður hlíðarnar og fram dali. Lengst hefur hraun borið að minnsta kosti 15 kílómetra út frá fjallgarðinum. Það rann út eftir Stóra-Langadal á Skógarströnd, og sjást leifar þess í Virkishólma í mynni Hvammsfjarðar og í Gvendareyjum.

Ljósufjöll urðu til við gos undir jökli. Fyrst opnaðist NNV-SSA sprunga og upp kom ríólítkvika sem myndaði meginhluta fjallanna. Hún bræddi geil í jökulinn sem fylltist af bræðsluvatni að hluta til. Það náði að mynda a.m.k. tvær rásir til suðurs og kvikan rann eftir þeim niður hlíðarnar. Þannig mynduðust hryggirnir sem eru svo áberandi sunnan fjallanna.

Á nútíma, eða síðustu 10.000 ár, hefur gosið 23 sinnum í gosrein Ljósufjalla. Austast er Grábrókarhraun en vestast Berserkjahraun í Helgafellssveit. Flest eru þó hraunin í Hnappadal og Hítardal. Aldur þeirra er mismunandi, og er ekki annað að sjá en eldvirkni hafi dreifst jafnt yfir allan nútímann. Elstu hraunin hafa myndast nokkuð snemma á nútíma, svo sem Gullborgarhraun, Eldborgarhraun og Hagahraun í Hítardal, auk hrauna í Ljósufjöllum sjálfum. Vitað er nánar um aldur nokkurra hrauna. Rauðhálsahraun er frá því á tíundu öld (frá sögulegum tíma),[3] Rauðamelskúlur um 2.600 ára gamlar[4], og Grábrókarhraun er nokkru yngra en 3.600 ára. Hólmshraun í Hítardal er unglegt og gæti hafa runnið skömmu fyrir landnám. Flest þessara gosa virðast hafa byrjað á stuttum sprungum, en eldvirkni síðan dregist saman í einn eða fleiri stærri gíga sem oftar en ekki verða að lokum stórir og kúlumyndaðir. Minnstu hraunin í Ljósafjöllum hafa komið úr slíkum sprungum. Þar eru þó gígarnir litlir og kleprakenndir, en ekki stórar og gjallkenndar kúlur eins og þegar gosin hafa dregist á langinn.

Tilvísanir:
  1. ^ Flude og fleiri, 2008. Silicic volcanism at Ljósufjöll, Iceland: Insights into evolution and eruptive history from Ar-Ar dating. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 169, 154-171.
  2. ^ Ingibjörg Snædal Guðmundsdóttir og Olgeir Sigurgeirsson, 2008. Aldur yngsta bergs Ljósufjalla á Snæfellsnesi. Náttúrufræðingurinn, 77(1-2), 19-23.
  3. ^ Haukur Jóhannesson, 1977. Náttúrufræðingurinn, 47, 129-141.
  4. ^ Kristján Sæmundsson, 1966. Zwei neue C14-Datierungen isländischer Vulkanausbrüche. Eiszeitalter und Gegenwart, 17, 85-86.


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Snæfellsnes í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 374-375....