Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:13 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:20 • Sest 09:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:21 • Síðdegis: 16:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 22:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Geta fuglar valdið ofnæmi?

Davíð Gíslason

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Eru fuglar ofnæmisvaldandi og hvað er það þá sem veldur ofnæminu?

Stutta svarið við þessari spurningu er já. Fuglar geta valdið bráðaofnæmi, sem er algengasta ofnæmi hér á landi. Það er samskonar ofnæmi og fyrir frjókornum, dýrum með feldi, ýmsum fæðutegundum og lyfjum. Þeir sem eru útsettir fyrir ofnæmisvöldum af þessari gerð fá einkenni innan tveggja tíma. Ef ofnæmisvaldurinn er sem ryk í andrúmsloftinu koma einkennin fram í nefi, lungum og í augum, auk þess sem hann getur valdið kláða og roða í húð.

Einkennin eru þannig til komin, að sá sem hefur ofnæmi myndar sértæk IgE-mótefni fyrir prótínsameindum frá ofnæmisvaldinum. IgE-mótefni setjast á svonefndar mastfrumur, sem mikið er af í slímhúðum og húð. Þær innihalda margskonar efni sem virka sterkt á háræðar og slétta vöðva. Þekktast þessara efna er histamín. Komi ofnæmisvaldurinn í snertingu við slímhúðir þeirra sem hafa myndað sértæk IgE-mótefni, ryðja mastfrumurnar úr sér þessum efnum líkt og þegar flugeldur springur. Þetta veldur einkennum bráðaofnæmis. Ofnæmisvakar fuglanna koma úr fiðrinu eða driti fuglanna.

Svonefndar mastfrumur innihalda histamín og fjölda annarra virkra efna sem geta framkallað fjölmörg viðbrögð í líkamanum frá hnerrum og kláða í augum upp í lost sem leitt getur til dauða á fáeinum mínútum. Það má líkja mastfrumunni við púðurtunnu þar sem kveikjuþráðurinn er IgE-mótefnið og kveikjarinn, sem kveikir í þræðinum, er ofnæmisvakinn.

Einkenni bráðaofnæmis fyrir fuglum eru kláði, hnerrar, nefrennsli, og nefstíflur, kláði og roði frá augum og astma. Einkennin eru langvinn, eða svo lengi sem hinn sjúki er útsettur fyrir ofnæmisvaldinum.

Fuglar valda ekki einungis bráðaofnæmi því þeir geta einnig valdið ofnæmi sem kallað er á íslensku fuglavinafár (e. bird fancier's lung). Ofnæmisviðbrögð af þessari gerð kallast seinsvörun, því einkennin koma ekki fyrr en 6-8 klukkustundum eftir að viðkomandi einstaklingur hefur komist í snertingu við ofnæmisvaldinn. Ofnæmisvakinn kemur eins og við bráðaofnæmi frá fiðri eða driti fuglanna. En nú eru mótefnin sem myndast af gerðinni IgG, og þau myndast oft án þess að valda einkennum, en þeim mun meira magn sem myndast af þeim, þeim mun meiri líkur eru á að þau valdi einkennum.

Einkenni fuglavinafárs eru þau sömu og við heysótt og flokkast undir ofnæmislungnabólgu, en heysótt var vafalaust algengur sjúkdómur hér á landi á liðnum öldum. Læknirinn Fuller lýsti einkennum heysóttar 1953 og má vísa til þeirrar lýsingar um einkenni fuglavinafárs.[1] Fyrsta stigi fylgja bráðaeinkenni með hita og næstu daga hósti, lystarleysi, höfuðverkur og þreyta. Stundum fylgir surg- og brakhljóð við hlustun yfir lungum. Á þessu stigi er röntgenmynd oftast eðlileg. Á öðru stigi sjúkdómsins, ef sá sjúki heldur áfram að umgangast fugla, er vaxandi mæði, hósti, blámi og brakhljóð við hlustun. Á röntgenmynd sjást fíngerðar þéttingar á lungnablöðrum. Þessi einkenni geta horfið ef hinn sjúki heldur sig alveg frá fuglum. Þriðja stigið kemur eftir langvarandi umgengni við fugla. Þá sjást varanlegar bandvefsbreytingar í lungum.

Líklega ganga þó einkenni og lungnabreytingar töluvert hægar fyrir sig við fuglavinafár en við heysóttina, enda minna magn af ofnæmisvökum í loftinu en við gegningar í hlöðu.

Allir fuglar sem við umgöngumst geta valdið bráðaofnæmi eða fuglavinafári en slíkt ofnæmi virðist þó vera sjaldgæft miðað við ofnæmi fyrir öðrum dýrum.

Allir fuglar sem við umgöngumst geta valdið þessum tveimur tegundum af ofnæmi. Þetta eru fuglar sem við umgöngumst við störf okkar svo sem hænsn og kjúklingar, endur, gæsir og kalkúnar svo og fuglar í dýraverslunum. Svo geta dúfur, sem menn ala sér til ánægju og fuglar, sem aldir eru sem stofustáss, valdið ofnæmi. Líklega er þaðan komið nafnið fuglavinafár.

Í rannsókn sem gerð var á handahófsvöldu úrtaki ungs fólks á Reykjavíkursvæðinu árið 1990 var kannað dýrahald á æskudögum þátttakenda í könnuninni.[2] Þá höfðu 35% þátttakenda umgengist fugla, og aðeins kettir voru algengari sem tómstunda- og gæludýr.

Við greiningu á ofnæmi er sjúkrasagan alltaf mikilvægust. Þeir sem eru með fuglavinafár hafa oft væg einkenni um hitavott, hósta, þreytu og mæði meðan þeir eru í stöðugri snertingu við ofnæmisvaldinn. Ef um fugla á heimili er að ræða geta einkennin horfið við að fara að heiman tvær til þrjár vikur. Þegar komið er til baka blossa einkennin upp eftir um það bil 6 klukkustundir með háum hita og andþyngslum. Þetta hjálpar oft við greininguna. Einnig er hægt að mæla IgE-mótefni fyrir fiðri og driti allra þessara fugla, ef grunur er um bráðaofnæmi, og svonefnd fellimótefni af IgG-gerð, ef grunur er um fuglavinafár. Sömuleiðis er hægt að gera húðpróf fyrir einstökum fuglategundum með svonefndri pikk-aðferð eða með sprautu í húðina, en líklega eru þessi próf ekki mjög ábyggileg. Fellimótefnin geta verið jákvæð án þess að um nokkurn sjúkdóm sé að ræða. Því þarf alltaf að skoða niðurstöðu þeirra prófa í samhengi við einkennin.

Ég hef starfað við ofnæmi hér á landi frá árinu 1977 og mér virðist ofnæmi fyrir fuglum afar sjaldgæft miðað við önnur húsdýr eins og hunda og ketti. Sömuleiðis hef ég mjög sjaldan séð sjúklinga sem starfa við kjúklingabú, en hugsanlega hætta menn bara í vinnunni án þess að leita til læknis, ef þeir finna að þeir þoli hana illa.

Tilvísanir:
  1. ^ Fuller CJ. Farmer's Lung: a Review of Present Knowledge. Thorax 1953; 8: 59-64.
  2. ^ Davíð Gíslason, Þórarinn Gíslason, Þorsteinn Blöndal, Hrafnkell Helgason. Bráðaofnæmi hjá 20-44 ára Íslendingum. Læknablaðið 1995; 81: 606-12.

Myndir:

Höfundur

Davíð Gíslason

sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum

Útgáfudagur

5.9.2022

Spyrjandi

Sigurður Helgason

Tilvísun

Davíð Gíslason. „Geta fuglar valdið ofnæmi?“ Vísindavefurinn, 5. september 2022, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83918.

Davíð Gíslason. (2022, 5. september). Geta fuglar valdið ofnæmi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83918

Davíð Gíslason. „Geta fuglar valdið ofnæmi?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2022. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83918>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Geta fuglar valdið ofnæmi?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Eru fuglar ofnæmisvaldandi og hvað er það þá sem veldur ofnæminu?

Stutta svarið við þessari spurningu er já. Fuglar geta valdið bráðaofnæmi, sem er algengasta ofnæmi hér á landi. Það er samskonar ofnæmi og fyrir frjókornum, dýrum með feldi, ýmsum fæðutegundum og lyfjum. Þeir sem eru útsettir fyrir ofnæmisvöldum af þessari gerð fá einkenni innan tveggja tíma. Ef ofnæmisvaldurinn er sem ryk í andrúmsloftinu koma einkennin fram í nefi, lungum og í augum, auk þess sem hann getur valdið kláða og roða í húð.

Einkennin eru þannig til komin, að sá sem hefur ofnæmi myndar sértæk IgE-mótefni fyrir prótínsameindum frá ofnæmisvaldinum. IgE-mótefni setjast á svonefndar mastfrumur, sem mikið er af í slímhúðum og húð. Þær innihalda margskonar efni sem virka sterkt á háræðar og slétta vöðva. Þekktast þessara efna er histamín. Komi ofnæmisvaldurinn í snertingu við slímhúðir þeirra sem hafa myndað sértæk IgE-mótefni, ryðja mastfrumurnar úr sér þessum efnum líkt og þegar flugeldur springur. Þetta veldur einkennum bráðaofnæmis. Ofnæmisvakar fuglanna koma úr fiðrinu eða driti fuglanna.

Svonefndar mastfrumur innihalda histamín og fjölda annarra virkra efna sem geta framkallað fjölmörg viðbrögð í líkamanum frá hnerrum og kláða í augum upp í lost sem leitt getur til dauða á fáeinum mínútum. Það má líkja mastfrumunni við púðurtunnu þar sem kveikjuþráðurinn er IgE-mótefnið og kveikjarinn, sem kveikir í þræðinum, er ofnæmisvakinn.

Einkenni bráðaofnæmis fyrir fuglum eru kláði, hnerrar, nefrennsli, og nefstíflur, kláði og roði frá augum og astma. Einkennin eru langvinn, eða svo lengi sem hinn sjúki er útsettur fyrir ofnæmisvaldinum.

Fuglar valda ekki einungis bráðaofnæmi því þeir geta einnig valdið ofnæmi sem kallað er á íslensku fuglavinafár (e. bird fancier's lung). Ofnæmisviðbrögð af þessari gerð kallast seinsvörun, því einkennin koma ekki fyrr en 6-8 klukkustundum eftir að viðkomandi einstaklingur hefur komist í snertingu við ofnæmisvaldinn. Ofnæmisvakinn kemur eins og við bráðaofnæmi frá fiðri eða driti fuglanna. En nú eru mótefnin sem myndast af gerðinni IgG, og þau myndast oft án þess að valda einkennum, en þeim mun meira magn sem myndast af þeim, þeim mun meiri líkur eru á að þau valdi einkennum.

Einkenni fuglavinafárs eru þau sömu og við heysótt og flokkast undir ofnæmislungnabólgu, en heysótt var vafalaust algengur sjúkdómur hér á landi á liðnum öldum. Læknirinn Fuller lýsti einkennum heysóttar 1953 og má vísa til þeirrar lýsingar um einkenni fuglavinafárs.[1] Fyrsta stigi fylgja bráðaeinkenni með hita og næstu daga hósti, lystarleysi, höfuðverkur og þreyta. Stundum fylgir surg- og brakhljóð við hlustun yfir lungum. Á þessu stigi er röntgenmynd oftast eðlileg. Á öðru stigi sjúkdómsins, ef sá sjúki heldur áfram að umgangast fugla, er vaxandi mæði, hósti, blámi og brakhljóð við hlustun. Á röntgenmynd sjást fíngerðar þéttingar á lungnablöðrum. Þessi einkenni geta horfið ef hinn sjúki heldur sig alveg frá fuglum. Þriðja stigið kemur eftir langvarandi umgengni við fugla. Þá sjást varanlegar bandvefsbreytingar í lungum.

Líklega ganga þó einkenni og lungnabreytingar töluvert hægar fyrir sig við fuglavinafár en við heysóttina, enda minna magn af ofnæmisvökum í loftinu en við gegningar í hlöðu.

Allir fuglar sem við umgöngumst geta valdið bráðaofnæmi eða fuglavinafári en slíkt ofnæmi virðist þó vera sjaldgæft miðað við ofnæmi fyrir öðrum dýrum.

Allir fuglar sem við umgöngumst geta valdið þessum tveimur tegundum af ofnæmi. Þetta eru fuglar sem við umgöngumst við störf okkar svo sem hænsn og kjúklingar, endur, gæsir og kalkúnar svo og fuglar í dýraverslunum. Svo geta dúfur, sem menn ala sér til ánægju og fuglar, sem aldir eru sem stofustáss, valdið ofnæmi. Líklega er þaðan komið nafnið fuglavinafár.

Í rannsókn sem gerð var á handahófsvöldu úrtaki ungs fólks á Reykjavíkursvæðinu árið 1990 var kannað dýrahald á æskudögum þátttakenda í könnuninni.[2] Þá höfðu 35% þátttakenda umgengist fugla, og aðeins kettir voru algengari sem tómstunda- og gæludýr.

Við greiningu á ofnæmi er sjúkrasagan alltaf mikilvægust. Þeir sem eru með fuglavinafár hafa oft væg einkenni um hitavott, hósta, þreytu og mæði meðan þeir eru í stöðugri snertingu við ofnæmisvaldinn. Ef um fugla á heimili er að ræða geta einkennin horfið við að fara að heiman tvær til þrjár vikur. Þegar komið er til baka blossa einkennin upp eftir um það bil 6 klukkustundir með háum hita og andþyngslum. Þetta hjálpar oft við greininguna. Einnig er hægt að mæla IgE-mótefni fyrir fiðri og driti allra þessara fugla, ef grunur er um bráðaofnæmi, og svonefnd fellimótefni af IgG-gerð, ef grunur er um fuglavinafár. Sömuleiðis er hægt að gera húðpróf fyrir einstökum fuglategundum með svonefndri pikk-aðferð eða með sprautu í húðina, en líklega eru þessi próf ekki mjög ábyggileg. Fellimótefnin geta verið jákvæð án þess að um nokkurn sjúkdóm sé að ræða. Því þarf alltaf að skoða niðurstöðu þeirra prófa í samhengi við einkennin.

Ég hef starfað við ofnæmi hér á landi frá árinu 1977 og mér virðist ofnæmi fyrir fuglum afar sjaldgæft miðað við önnur húsdýr eins og hunda og ketti. Sömuleiðis hef ég mjög sjaldan séð sjúklinga sem starfa við kjúklingabú, en hugsanlega hætta menn bara í vinnunni án þess að leita til læknis, ef þeir finna að þeir þoli hana illa.

Tilvísanir:
  1. ^ Fuller CJ. Farmer's Lung: a Review of Present Knowledge. Thorax 1953; 8: 59-64.
  2. ^ Davíð Gíslason, Þórarinn Gíslason, Þorsteinn Blöndal, Hrafnkell Helgason. Bráðaofnæmi hjá 20-44 ára Íslendingum. Læknablaðið 1995; 81: 606-12.

Myndir:...