Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á ofnæmi og óþoli?

Davíð Gíslason

Skaðleg eða óæskileg áhrif af fæðu (e. adverse food reactions) hafa verið flokkuð í þrjá flokka: Áhrif miðluð af ónæmiskerfinu, áhrif óháð ónæmiskerfinu og eitranir.[1] (mynd 1).

Fæðuofnæmi eru skaðleg eða óþægileg viðbrögð við fæðu, sem endurtaka sig aftur og aftur, ef viðkomandi fæðu er neytt, en koma ekki fram sé fæðunnar ekki neytt. Ofnæmisviðbrögð má flokka eftir eðli þeirra í bráðaviðbrögð (IgE-miðluð og koma fram innan tveggja klukkustunda) og önnur ofnæmisviðbrögð, sem koma fram eftir nokkrar klukkustundir eða daga.

Óþol kemur fram óháð ónæmiskerfinu og getur verið af mismunandi toga. Það getur verið af lyfjafræðilegum toga eins og höfuðverkur og hraður hjartsláttur af óhóflegri kaffidrykkju. Það getur verið óeðlilegur roði í húð af víndrykkju eða kláði af svonefndum æðavirkum matvælum. Það getur verið skortur á efnahvötum í líkamanum eins og við mjólkursykuróþol, og það getur verið af óþekktum toga eins og við óþol fyrir aukefnum í mat.

Eitranir eiga ekki að koma fyrir í óskemmdum matvælum, en dæmi um þær er aflatoxín-eitrun sem kemur af myglunni Aspergillus flavus, en hún getur vaxið í jarðvegi, rotnandi jurtaleifum, maís, baunum og trjáhnetum. Hér á landi getur aflatoxín líklega helst fundist í hnetum.

Korndrjólaeitrun (e. Ergotism) kemur eftir langvarandi neyslu á kornvöru mengaðri af sveppnum Claviceps purpurae. Einkenni eru fyrst og fremst vegna samdráttar í æðum með köldum tám og fingrum, dofa og jafnvel drepi. Korndrjólaeitun kemur varla fyrir við nútíma búskaparhætti en mun hafa verið nokkuð algeng meðal fátæklinga í Evrópu fyrr á öldum. Efnið ergótamín í Claviceps purpurae, sem veldur korndrjólaeitrun, hefur verið notað sem lyf við mígreni og á þá eingöngu að notast í mígreniköstum. Höfundur hefur séð eitt tilfelli af drepi í tám þar sem sjúklingurinn hafði tekið ergótamín-lyf langtímum saman.

Krílfiskeitrun (e. scombroid poisoning) getur orðið eftir neyslu fisktegunda með dökkt hold og hátt innihald af histidíni, en decarboxýlasi frá Gram-neikvæðum bakteríum (til dæmis E. coli og Klebsíella) breytir histidíni í histamín. Klílfiskeitrun er algengust í túnfiski. Einkennin koma eingöngu þegar fiskurinn er farinn að skemmast og niðurbrot á holdi hans hafið. Einkenni eru roði og hiti í húð, hjartsláttur, ógleði, uppköst og niðurgangur. Þau líkjast bráðaofnæmi og koma innan tveggja klukkustunda eftir neyslu matarins. Fjórum tilfellum hefur verið lýst hér á landi.[2]

Þegar talað er um fæðuofnæmi er langoftast átt við bráðaofnæmi, og er þá miðað við að einkennin komi innan tveggja klukkustunda frá því að matarins er neytt. Án þess að fara nákvæmlega í atburðarásina þá koma þar við sögu ofnæmisvakar í fæðunni, sem viðkomandi einstaklingur hefur ofnæmi fyrir, sértæk mótefni af IgE-gerð fyrir þessum ákveðnu ofnæmisvökum (e. Immunoglobulin E) og svonefndar mastfrumur sem innihalda histamín og fjölda annarra virkra efna sem geta framkallað fjölmörg viðbrögð í líkamanum frá hnerrum og kláða í augum upp í lost sem leitt getur til dauða á fáeinum mínútum. Það má líkja mastfrumunni við púðurtunnu þar sem kveikjuþráðurinn er IgE-mótefnið og kveikjarinn, sem kveikir í þræðinum, er ofnæmisvakinn í fæðunni (mynd 2).

Viðbrögð við bráðaofnæmi.

Til að gera tiltölulega einfalda sögu flókna þá hefur komið í ljós á síðustu áratugum að hver tegund af fæðu inniheldur ekki einn ofnæmisvaka heldur marga ofnæmisvakaþætti (e. allergen components) sem eru misjafnlega hættulegir. Það einfaldar heldur ekki málið að sumir ofnæmisvakaþættir þola suðu og bakstur en aðrir hverfa við slíka matreiðslu. Oft koma sömu ofnæmisvakaþættir fyrir í fleiri fæðutegundum. Þetta á einkum við fæðu úr jurtaríkinu. Það er talað um að þessar tegundir af fæðu myndi krosssvörun. Þetta kemur einkum fyrir hjá þeim sem hafa ofnæmi fyrir birkifrjóum. Það er kallað oral allergy syndrome á ensku, en mætti kallast birkiofnæmis-heilkenni á íslensku. Yfirleitt eru þetta væg einkenni frá munni og koki, en stundum koma einnig einkenni frá nefi, augum og eyrum, þegar fólk með birkiofnæmi borðar ávexti með steinkjörnum, hnetur eða gulrætur. Einkennin geta líka verið hættuleg, einkum hjá þeim sem eru með ofnæmi fyrir matvælum sem mynda krosssvörun við malurt (Artemisis vulgaris) og latex-ofnæmi. Malurt er sjaldgæf á Íslandi en hún veldur oft ofnæmi á meginlandi Evrópu.

Hér verður ekki dvalið við annað ofnæmi svo sem iðrabólgur af völdum prótíns (e. food protein enterocolitis syndrome), glútenóþol (e. Celiac disease) og rauðkyrningabólgu í þörmum og vélinda (e. Eosinophilic gastroenteritis and oesophagitis). Hér er um sjaldgæfa sjúkdóma að ræða, en glútenóþol eða rauðkyrningabólga í vélinda kemur þó fyrir hjá nokkrum hundruðum Íslendinga.

Tilvísanir:
  1. ^ Turnbull JL, Adams HN, Gorard DA. Review article: the diagnosis and management of food allergy and food intolerance. Aliment Pharmacol Ther. 2015 Jan; 41(1): 3-25.
  2. ^ Guðrún Sigurðardóttir, Sigmundur Magnússon, Rögnvaldur Ingólfsson, Ingibjörg Rósa Þorvaldsdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir og Davíð Gíslason. Krílfiskieitrun á íslenskum veitingastað. Læknablaðið 2005; 91: 251-3

Myndir:

Höfundur

Davíð Gíslason

sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum

Útgáfudagur

26.3.2019

Síðast uppfært

29.3.2019

Spyrjandi

Sara Arndís Thorarensen

Tilvísun

Davíð Gíslason. „Hver er munurinn á ofnæmi og óþoli?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2019, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73001.

Davíð Gíslason. (2019, 26. mars). Hver er munurinn á ofnæmi og óþoli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73001

Davíð Gíslason. „Hver er munurinn á ofnæmi og óþoli?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2019. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73001>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á ofnæmi og óþoli?
Skaðleg eða óæskileg áhrif af fæðu (e. adverse food reactions) hafa verið flokkuð í þrjá flokka: Áhrif miðluð af ónæmiskerfinu, áhrif óháð ónæmiskerfinu og eitranir.[1] (mynd 1).

Fæðuofnæmi eru skaðleg eða óþægileg viðbrögð við fæðu, sem endurtaka sig aftur og aftur, ef viðkomandi fæðu er neytt, en koma ekki fram sé fæðunnar ekki neytt. Ofnæmisviðbrögð má flokka eftir eðli þeirra í bráðaviðbrögð (IgE-miðluð og koma fram innan tveggja klukkustunda) og önnur ofnæmisviðbrögð, sem koma fram eftir nokkrar klukkustundir eða daga.

Óþol kemur fram óháð ónæmiskerfinu og getur verið af mismunandi toga. Það getur verið af lyfjafræðilegum toga eins og höfuðverkur og hraður hjartsláttur af óhóflegri kaffidrykkju. Það getur verið óeðlilegur roði í húð af víndrykkju eða kláði af svonefndum æðavirkum matvælum. Það getur verið skortur á efnahvötum í líkamanum eins og við mjólkursykuróþol, og það getur verið af óþekktum toga eins og við óþol fyrir aukefnum í mat.

Eitranir eiga ekki að koma fyrir í óskemmdum matvælum, en dæmi um þær er aflatoxín-eitrun sem kemur af myglunni Aspergillus flavus, en hún getur vaxið í jarðvegi, rotnandi jurtaleifum, maís, baunum og trjáhnetum. Hér á landi getur aflatoxín líklega helst fundist í hnetum.

Korndrjólaeitrun (e. Ergotism) kemur eftir langvarandi neyslu á kornvöru mengaðri af sveppnum Claviceps purpurae. Einkenni eru fyrst og fremst vegna samdráttar í æðum með köldum tám og fingrum, dofa og jafnvel drepi. Korndrjólaeitun kemur varla fyrir við nútíma búskaparhætti en mun hafa verið nokkuð algeng meðal fátæklinga í Evrópu fyrr á öldum. Efnið ergótamín í Claviceps purpurae, sem veldur korndrjólaeitrun, hefur verið notað sem lyf við mígreni og á þá eingöngu að notast í mígreniköstum. Höfundur hefur séð eitt tilfelli af drepi í tám þar sem sjúklingurinn hafði tekið ergótamín-lyf langtímum saman.

Krílfiskeitrun (e. scombroid poisoning) getur orðið eftir neyslu fisktegunda með dökkt hold og hátt innihald af histidíni, en decarboxýlasi frá Gram-neikvæðum bakteríum (til dæmis E. coli og Klebsíella) breytir histidíni í histamín. Klílfiskeitrun er algengust í túnfiski. Einkennin koma eingöngu þegar fiskurinn er farinn að skemmast og niðurbrot á holdi hans hafið. Einkenni eru roði og hiti í húð, hjartsláttur, ógleði, uppköst og niðurgangur. Þau líkjast bráðaofnæmi og koma innan tveggja klukkustunda eftir neyslu matarins. Fjórum tilfellum hefur verið lýst hér á landi.[2]

Þegar talað er um fæðuofnæmi er langoftast átt við bráðaofnæmi, og er þá miðað við að einkennin komi innan tveggja klukkustunda frá því að matarins er neytt. Án þess að fara nákvæmlega í atburðarásina þá koma þar við sögu ofnæmisvakar í fæðunni, sem viðkomandi einstaklingur hefur ofnæmi fyrir, sértæk mótefni af IgE-gerð fyrir þessum ákveðnu ofnæmisvökum (e. Immunoglobulin E) og svonefndar mastfrumur sem innihalda histamín og fjölda annarra virkra efna sem geta framkallað fjölmörg viðbrögð í líkamanum frá hnerrum og kláða í augum upp í lost sem leitt getur til dauða á fáeinum mínútum. Það má líkja mastfrumunni við púðurtunnu þar sem kveikjuþráðurinn er IgE-mótefnið og kveikjarinn, sem kveikir í þræðinum, er ofnæmisvakinn í fæðunni (mynd 2).

Viðbrögð við bráðaofnæmi.

Til að gera tiltölulega einfalda sögu flókna þá hefur komið í ljós á síðustu áratugum að hver tegund af fæðu inniheldur ekki einn ofnæmisvaka heldur marga ofnæmisvakaþætti (e. allergen components) sem eru misjafnlega hættulegir. Það einfaldar heldur ekki málið að sumir ofnæmisvakaþættir þola suðu og bakstur en aðrir hverfa við slíka matreiðslu. Oft koma sömu ofnæmisvakaþættir fyrir í fleiri fæðutegundum. Þetta á einkum við fæðu úr jurtaríkinu. Það er talað um að þessar tegundir af fæðu myndi krosssvörun. Þetta kemur einkum fyrir hjá þeim sem hafa ofnæmi fyrir birkifrjóum. Það er kallað oral allergy syndrome á ensku, en mætti kallast birkiofnæmis-heilkenni á íslensku. Yfirleitt eru þetta væg einkenni frá munni og koki, en stundum koma einnig einkenni frá nefi, augum og eyrum, þegar fólk með birkiofnæmi borðar ávexti með steinkjörnum, hnetur eða gulrætur. Einkennin geta líka verið hættuleg, einkum hjá þeim sem eru með ofnæmi fyrir matvælum sem mynda krosssvörun við malurt (Artemisis vulgaris) og latex-ofnæmi. Malurt er sjaldgæf á Íslandi en hún veldur oft ofnæmi á meginlandi Evrópu.

Hér verður ekki dvalið við annað ofnæmi svo sem iðrabólgur af völdum prótíns (e. food protein enterocolitis syndrome), glútenóþol (e. Celiac disease) og rauðkyrningabólgu í þörmum og vélinda (e. Eosinophilic gastroenteritis and oesophagitis). Hér er um sjaldgæfa sjúkdóma að ræða, en glútenóþol eða rauðkyrningabólga í vélinda kemur þó fyrir hjá nokkrum hundruðum Íslendinga.

Tilvísanir:
  1. ^ Turnbull JL, Adams HN, Gorard DA. Review article: the diagnosis and management of food allergy and food intolerance. Aliment Pharmacol Ther. 2015 Jan; 41(1): 3-25.
  2. ^ Guðrún Sigurðardóttir, Sigmundur Magnússon, Rögnvaldur Ingólfsson, Ingibjörg Rósa Þorvaldsdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir og Davíð Gíslason. Krílfiskieitrun á íslenskum veitingastað. Læknablaðið 2005; 91: 251-3

Myndir:

...