Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:51 • Sest 14:06 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:34 • Síðdegis: 16:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:47 • Síðdegis: 22:54 í Reykjavík

Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til?

Snæbjörn Guðmundsson

Á milli Gróttu og Suðurness yst á Seltjarnarnesi liggur breið vík, kölluð Seltjörn, og er nesið kennt við hana. Svæðið við Seltjörn er vinsælt útivistarsvæði og fjöldi fólks fer daglega út að Gróttu til að njóta sjávarloftsins. Það er þó ekki víst að allir sem þar eiga leið um átti sig á þeirri jarðfræðigersemi sem nesið er. Seltjörn er nefnilega einn af áhugaverðari stöðum höfuðborgarsvæðisins til að rannsaka og átta sig á hinum miklu sjávarstöðubreytingum, sem orðið hafa við strendur Íslands síðustu árþúsundin.

Seltjarnarnes og Reykjavík séð til austurs. Í forgrunni er Suðurnes en þar er golfvöllur. Til vinstri á myndinni má sjá glitta í Gróttu en víkin á milli Gróttu og Suðurness heitir Seltjörn. Seltjarnarnes dregur nafn sitt af Seltjörn.

Á síðustu 2-3 milljónum ára, tímabilinu sem jafnan er talað um sem ísöld, hefur Ísland reglulega gengið í gengum umfangsmikil jökulskeið. Ummerki ísaldarjökulsins má einmitt sjá á utanverðu Suðurnesinu á móts við Gróttu, þar sem greina má jökulrákir á nokkrum stöðum í fjöruklöppum. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum með gríðarlegum náttúrufarsbreytingum. Ísaldarjökullinn, sem hafði pressað niður landið um tugi metra í tugþúsundir ára, hvarf á stuttum tíma en við það gekk sjór langt upp á land og má sjá fornar strandlínur víða umhverfis landið í töluverðri hæð yfir núverandi sjávarmáli.

Jarðskorpan undir Íslandi er hins vegar mjög sveigjanleg og brást hún fljótt við þrýstingsléttinum þegar jökullinn hvarf. Land reis því hratt samhliða þynningu ísaldarjökulsins og sjávaryfirborð við landið lækkaði á afar skömmum tíma. Fyrir tæpum ellefu þúsund árum náði sjávarborð núverandi stöðu en þá var enn töluvert af vatnsmagni úthafanna bundið í ísaldarjöklum Norður-Ameríku og Skandinavíu, þar sem þeir höfðu enn ekki bráðnað til fulls. Yfirborð sjávar við Ísland hélt því áfram að falla í um þúsund ár á meðan landið hélt áfram að rísa.

Sjávarborð náði lágmarki fyrir um tíu þúsund árum og lá það þá víða um 30-40 metrum lægra við landið en nú. Mikið af þeim grynningum, sem nú finnast skammt undan landinu, einkum vestanlands, hafa þá staðið á þurru. Ef sjókort af Faxaflóa er til að mynda skoðað sjást grynningar víða um flóann, sem liggja á minna en 30-40 metra dýpi. Mestar þeirra eru hin svokölluðu Hraun, Syðrahraun og Vestrahraun, en þau eru líklegast að mestu úr jökulruðningi sem ísaldarjökullinn skyldi eftir sig. Til marks um hið lága sjávarborð við vesturströnd landsins þá hefur á toppi Syðrahrauns fundist forn fjörumór, sem nú er á 15-30 metra dýpi. Mór myndast aðeins í ferskvatnsumhverfi og hafa því greinilega verið nokkuð umfangsmiklar eyjar úti á Faxaflóa á þessum tíma.

Nokkru áður en fjörumórinn tók að myndast í Hraununum hófst saga Seltjarnar þegar sjávarborð datt fyrst niður fyrir núverandi yfirborð sjávar. Þegar litið er út á Seltjarnarvíkina nú má sjá þykka moldarhnausa rétt undan landi, en þeir standa raunar hér um bil á þurru á fjöru. Þetta eru leifar fjörumós, sem tók að myndast í tjörninni fyrir um 10.600 árum. Þá hefur sjávarborð verið fallið um 2,5 metra niður fyrir núverandi yfirborð sjávar og brátt var Seltjörn orðin að hinni ágætustu ferskvatnstjörn. Eftir því sem ísaldarjöklar erlendis héldu áfram að bráðna reis yfirborð sjávar á heimsvísu og fóru Hraunin á Faxaflóa aftur í kaf á örfáum árþúsundum.

Seltjörn hélst hins vegar sem ferskvatnstjörn í nokkur þúsund ár en efsta lag fjörumósins í henni hefur verið aldursgreint og er það um þrjú þúsund ára gamalt. Bendir það mögulega til þess að þá hafi saltvatn tekið að berast í hana og stöðvað myndun mósins, en við vitum að á þeim tíma hefur sjávarborð verið búið að ná núverandi hæð eða því sem næst.

Litið út á Seltjarnarvíkina með Gróttu í bakgrunni. Hér má sjá setlög úr sandi og möl.

En hvað með nafnið, var Seltjörn einhvern tímann eiginleg tjörn, lokuð frá hafi svipað og núverandi Bakkatjörn? Við vitum að Grótta var um aldir landfastur tangi og sést það til að mynda á kortum og í gögnum danskra sjómælingamanna frá síðari hluta átjándu aldar. Grótta varð hins vegar að eyju 9. janúar 1799 þegar grandinn út í eyjuna brotnaði endanlega niður í mesta sjávarflóði síðari tíma við Ísland, hinu svokallaða Básendaflóði. Úti fyrir Seltjörn sést hins vegar votta fyrir enn eldri granda á milli Gróttu og Suðurness, sem nú er sjávarrif, oft kallað Seltjarnarrif. Rifið kemur að töluverðu leyti upp á stórstraumsfjöru og sést þá móta fyrir hinni fornu tjörn.

Það verður þó illa ráðið af heimildum, hvort sem er jarðfræðilegum eða sagnfræðilegum, hvenær Seltjörn breyttist úr tjörn í vík. Sumir telja að hún hafi haldist sem vík fram á átjándu öld en það er alls ekki ljóst. Sveinn Jakobsson jarðfræðingur skrifaði kafla um jarðfræði Seltjarnarness í bókinni Náttúrufar á Seltjarnarnesi árið 1997 og fjallar kaflinn að miklu leyti um Seltjörn og ysta hluta Seltjarnarnessins. Þar bendir Sveinn raunar á að ekki sé yfirhöfuð víst að Seltjörn hafi verið eiginleg ferskvatnstjörn við landnám, en hann telur að orðið „tjörn“ hafi til forna mögulega einnig verið notað um sjávarlón, sem tengd voru til sjávar eða þar sem sjávarfalla gætti.

Hvort sem er, þá var Seltjörn ferskvatnstjörn lungann af tímanum sem liðið hefur frá lokum síðasta ísaldarskeiðs. Mórinn í víkinni, sem kemur upp á fjöru, segir okkur merkilega sögu sjávarbreytinga, bæði snemma eftir að jökla leysti og ekki síður undanfarin árþúsund. Þar sem efsta lag mósins er nú að mestu undir yfirborði sjávar bendir það til þess að sjávarborð yst á nesinu hafi risið umtalsvert síðan mórinn hætti að myndast fyrir um 3000 árum, mögulega nokkra metra. Reynt hefur verið að meta heildaryfirborðshækkunina og er hún líklegast um hálfur til einn millimetri á ári síðust árþúsundin, eða um hálfur til einn metri á hverjum þúsund árum. Rannsóknir benda þó til þess að sjávarborð frá því mórinn hætti að myndast hafi verið meira flöktandi en áður var talið og yfirborðshækkun sjávar við Seltjörn hefur því ekki endilega verið jöfn síðustu árþúsundir.

Sögu landbreytinga við utanvert Seltjarnarnes er svo engan veginn lokið en eins og flestir lesendur vita er útlit fyrir að jöklar jarðar muni bráðna hratt á næstu áratugum og öldum vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Beinar mælingar síðustu áratugi í Reykjavíkurhöfn benda til þess að yfirborðshækkun sjávar sé nú yfir tveir millimetrar á ári, að mestu vegna bráðnunar jökla á heimsvísu. Það er því fyrirséð að sjór muni ganga enn frekar á land á höfuðborgarsvæðinu á næstunni og mun Seltjörn og svæðið yst á Seltjarnarnesi vart fara varhluta af þeim breytingum.

Heimildir:
 • Hreggviður Norðdahl, Ólafur Ingólfsson og Halldór G. Pétursson. 2012. Ísaldarlok á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4), 73-86.
 • Kjartan Thors og Guðrún Helgadóttir. 1991. Evidence from South West Iceland of low sea level in early Flandrian times. Í Environmental change in Iceland: Past and present (Maizels, J.K. og Caseldine, C. ritstj.). Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, bls. 93-104.
 • Ólafur Ingólfsson, Hreggviður Norðdahl og Hafliði Hafliðason. 1995. Rapid isostatic rebound in southwestern Iceland at the end of the last glaciation. Boreas 24, 245-259.
 • Páll Einarsson. 1994. Crustal movements and relative sea level changes in Iceland. Í Proceedings of the Hornafjörður International Coastal Symposium (Gísli Viggósson ritstj.). Hafnamálastofnun ríkisins, Kópavogi, bls. 23-34.
 • Sigurður Þórarinsson. 1957. Mórinn í Seltjörn. Náttúrufræðingurinn 26 (4), 161-220.
 • Sigurður Þórarinsson. 1958. Ný aldursákvörðun á mónum í Seltjörn. Náttúrufræðingurinn 28 (2), 98-99.
 • Sveinn Jakobsson. 1997. Jarðmyndanir á Seltjarnarnesi. Í Náttúrufar á Seltjarnarnesi. Seltjarnarnesbær.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunalega spurningin var:
Hver eru helstu einkenni Seltjarnar?

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

24.8.2015

Spyrjandi

Margret Scheving

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til?“ Vísindavefurinn, 24. ágúst 2015. Sótt 10. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=25929.

Snæbjörn Guðmundsson. (2015, 24. ágúst). Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=25929

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til?“ Vísindavefurinn. 24. ágú. 2015. Vefsíða. 10. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=25929>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til?
Á milli Gróttu og Suðurness yst á Seltjarnarnesi liggur breið vík, kölluð Seltjörn, og er nesið kennt við hana. Svæðið við Seltjörn er vinsælt útivistarsvæði og fjöldi fólks fer daglega út að Gróttu til að njóta sjávarloftsins. Það er þó ekki víst að allir sem þar eiga leið um átti sig á þeirri jarðfræðigersemi sem nesið er. Seltjörn er nefnilega einn af áhugaverðari stöðum höfuðborgarsvæðisins til að rannsaka og átta sig á hinum miklu sjávarstöðubreytingum, sem orðið hafa við strendur Íslands síðustu árþúsundin.

Seltjarnarnes og Reykjavík séð til austurs. Í forgrunni er Suðurnes en þar er golfvöllur. Til vinstri á myndinni má sjá glitta í Gróttu en víkin á milli Gróttu og Suðurness heitir Seltjörn. Seltjarnarnes dregur nafn sitt af Seltjörn.

Á síðustu 2-3 milljónum ára, tímabilinu sem jafnan er talað um sem ísöld, hefur Ísland reglulega gengið í gengum umfangsmikil jökulskeið. Ummerki ísaldarjökulsins má einmitt sjá á utanverðu Suðurnesinu á móts við Gróttu, þar sem greina má jökulrákir á nokkrum stöðum í fjöruklöppum. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum með gríðarlegum náttúrufarsbreytingum. Ísaldarjökullinn, sem hafði pressað niður landið um tugi metra í tugþúsundir ára, hvarf á stuttum tíma en við það gekk sjór langt upp á land og má sjá fornar strandlínur víða umhverfis landið í töluverðri hæð yfir núverandi sjávarmáli.

Jarðskorpan undir Íslandi er hins vegar mjög sveigjanleg og brást hún fljótt við þrýstingsléttinum þegar jökullinn hvarf. Land reis því hratt samhliða þynningu ísaldarjökulsins og sjávaryfirborð við landið lækkaði á afar skömmum tíma. Fyrir tæpum ellefu þúsund árum náði sjávarborð núverandi stöðu en þá var enn töluvert af vatnsmagni úthafanna bundið í ísaldarjöklum Norður-Ameríku og Skandinavíu, þar sem þeir höfðu enn ekki bráðnað til fulls. Yfirborð sjávar við Ísland hélt því áfram að falla í um þúsund ár á meðan landið hélt áfram að rísa.

Sjávarborð náði lágmarki fyrir um tíu þúsund árum og lá það þá víða um 30-40 metrum lægra við landið en nú. Mikið af þeim grynningum, sem nú finnast skammt undan landinu, einkum vestanlands, hafa þá staðið á þurru. Ef sjókort af Faxaflóa er til að mynda skoðað sjást grynningar víða um flóann, sem liggja á minna en 30-40 metra dýpi. Mestar þeirra eru hin svokölluðu Hraun, Syðrahraun og Vestrahraun, en þau eru líklegast að mestu úr jökulruðningi sem ísaldarjökullinn skyldi eftir sig. Til marks um hið lága sjávarborð við vesturströnd landsins þá hefur á toppi Syðrahrauns fundist forn fjörumór, sem nú er á 15-30 metra dýpi. Mór myndast aðeins í ferskvatnsumhverfi og hafa því greinilega verið nokkuð umfangsmiklar eyjar úti á Faxaflóa á þessum tíma.

Nokkru áður en fjörumórinn tók að myndast í Hraununum hófst saga Seltjarnar þegar sjávarborð datt fyrst niður fyrir núverandi yfirborð sjávar. Þegar litið er út á Seltjarnarvíkina nú má sjá þykka moldarhnausa rétt undan landi, en þeir standa raunar hér um bil á þurru á fjöru. Þetta eru leifar fjörumós, sem tók að myndast í tjörninni fyrir um 10.600 árum. Þá hefur sjávarborð verið fallið um 2,5 metra niður fyrir núverandi yfirborð sjávar og brátt var Seltjörn orðin að hinni ágætustu ferskvatnstjörn. Eftir því sem ísaldarjöklar erlendis héldu áfram að bráðna reis yfirborð sjávar á heimsvísu og fóru Hraunin á Faxaflóa aftur í kaf á örfáum árþúsundum.

Seltjörn hélst hins vegar sem ferskvatnstjörn í nokkur þúsund ár en efsta lag fjörumósins í henni hefur verið aldursgreint og er það um þrjú þúsund ára gamalt. Bendir það mögulega til þess að þá hafi saltvatn tekið að berast í hana og stöðvað myndun mósins, en við vitum að á þeim tíma hefur sjávarborð verið búið að ná núverandi hæð eða því sem næst.

Litið út á Seltjarnarvíkina með Gróttu í bakgrunni. Hér má sjá setlög úr sandi og möl.

En hvað með nafnið, var Seltjörn einhvern tímann eiginleg tjörn, lokuð frá hafi svipað og núverandi Bakkatjörn? Við vitum að Grótta var um aldir landfastur tangi og sést það til að mynda á kortum og í gögnum danskra sjómælingamanna frá síðari hluta átjándu aldar. Grótta varð hins vegar að eyju 9. janúar 1799 þegar grandinn út í eyjuna brotnaði endanlega niður í mesta sjávarflóði síðari tíma við Ísland, hinu svokallaða Básendaflóði. Úti fyrir Seltjörn sést hins vegar votta fyrir enn eldri granda á milli Gróttu og Suðurness, sem nú er sjávarrif, oft kallað Seltjarnarrif. Rifið kemur að töluverðu leyti upp á stórstraumsfjöru og sést þá móta fyrir hinni fornu tjörn.

Það verður þó illa ráðið af heimildum, hvort sem er jarðfræðilegum eða sagnfræðilegum, hvenær Seltjörn breyttist úr tjörn í vík. Sumir telja að hún hafi haldist sem vík fram á átjándu öld en það er alls ekki ljóst. Sveinn Jakobsson jarðfræðingur skrifaði kafla um jarðfræði Seltjarnarness í bókinni Náttúrufar á Seltjarnarnesi árið 1997 og fjallar kaflinn að miklu leyti um Seltjörn og ysta hluta Seltjarnarnessins. Þar bendir Sveinn raunar á að ekki sé yfirhöfuð víst að Seltjörn hafi verið eiginleg ferskvatnstjörn við landnám, en hann telur að orðið „tjörn“ hafi til forna mögulega einnig verið notað um sjávarlón, sem tengd voru til sjávar eða þar sem sjávarfalla gætti.

Hvort sem er, þá var Seltjörn ferskvatnstjörn lungann af tímanum sem liðið hefur frá lokum síðasta ísaldarskeiðs. Mórinn í víkinni, sem kemur upp á fjöru, segir okkur merkilega sögu sjávarbreytinga, bæði snemma eftir að jökla leysti og ekki síður undanfarin árþúsund. Þar sem efsta lag mósins er nú að mestu undir yfirborði sjávar bendir það til þess að sjávarborð yst á nesinu hafi risið umtalsvert síðan mórinn hætti að myndast fyrir um 3000 árum, mögulega nokkra metra. Reynt hefur verið að meta heildaryfirborðshækkunina og er hún líklegast um hálfur til einn millimetri á ári síðust árþúsundin, eða um hálfur til einn metri á hverjum þúsund árum. Rannsóknir benda þó til þess að sjávarborð frá því mórinn hætti að myndast hafi verið meira flöktandi en áður var talið og yfirborðshækkun sjávar við Seltjörn hefur því ekki endilega verið jöfn síðustu árþúsundir.

Sögu landbreytinga við utanvert Seltjarnarnes er svo engan veginn lokið en eins og flestir lesendur vita er útlit fyrir að jöklar jarðar muni bráðna hratt á næstu áratugum og öldum vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Beinar mælingar síðustu áratugi í Reykjavíkurhöfn benda til þess að yfirborðshækkun sjávar sé nú yfir tveir millimetrar á ári, að mestu vegna bráðnunar jökla á heimsvísu. Það er því fyrirséð að sjór muni ganga enn frekar á land á höfuðborgarsvæðinu á næstunni og mun Seltjörn og svæðið yst á Seltjarnarnesi vart fara varhluta af þeim breytingum.

Heimildir:
 • Hreggviður Norðdahl, Ólafur Ingólfsson og Halldór G. Pétursson. 2012. Ísaldarlok á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4), 73-86.
 • Kjartan Thors og Guðrún Helgadóttir. 1991. Evidence from South West Iceland of low sea level in early Flandrian times. Í Environmental change in Iceland: Past and present (Maizels, J.K. og Caseldine, C. ritstj.). Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, bls. 93-104.
 • Ólafur Ingólfsson, Hreggviður Norðdahl og Hafliði Hafliðason. 1995. Rapid isostatic rebound in southwestern Iceland at the end of the last glaciation. Boreas 24, 245-259.
 • Páll Einarsson. 1994. Crustal movements and relative sea level changes in Iceland. Í Proceedings of the Hornafjörður International Coastal Symposium (Gísli Viggósson ritstj.). Hafnamálastofnun ríkisins, Kópavogi, bls. 23-34.
 • Sigurður Þórarinsson. 1957. Mórinn í Seltjörn. Náttúrufræðingurinn 26 (4), 161-220.
 • Sigurður Þórarinsson. 1958. Ný aldursákvörðun á mónum í Seltjörn. Náttúrufræðingurinn 28 (2), 98-99.
 • Sveinn Jakobsson. 1997. Jarðmyndanir á Seltjarnarnesi. Í Náttúrufar á Seltjarnarnesi. Seltjarnarnesbær.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunalega spurningin var:
Hver eru helstu einkenni Seltjarnar?

...