Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 20:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:06 • Síðdegis: 24:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:53 • Síðdegis: 18:06 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt um heimspekinginn Simone Weil?

Erla Karlsdóttir

Franski heimspekingurinn og baráttukonan Simone Weil (1909-1943) var dóttir læknisins Bernards Weils og konu hans Salomea sem vann alla tíð þétt við hlið manns síns og var vel að sér í læknisfræði. Á æskuheimilinu var mikið lagt upp úr menntun og sá Salomea um nám barna sinna tveggja, Simone og André sem bæði voru afburðanemendur og áttu eftir að vaxa úr grasi og skapa sér nafn hvort á sínu fræðasviði.

Simone Weil (1909-1943).

Weil fékk fljótt mikinn áhuga á klassískum fræðum og náði mikilli færni í bæði forngrísku og sanskrít og þessi áhugasvið hennar leiddu hana áfram í átt að heimspeki og síðar kristinni dulhyggju. Nítján ára fékk Weil inngöngu í einn virtasta skóla Parísar, École Normale Supérieure, eftir að hafa staðið sig best á inntökuprófi skólans, en nafna hennar, heimspekingurinn Simone de Beauvoir (1908-1986), sem var henni samtíða, var önnur á prófinu. Að loknu námi átti Weil eftir að starfa við kennslu auk þess sem hún var um nokkurt skeið virk baráttukona fyrir bættum kjörum verkamanna í Frakklandi. Einnig tók Weil þátt í spænsku borgarastyrjöldinni en þurfti fljótt frá að hverfa vegna meiðsla.

Félagsleg einangrun Weil í uppvextinum og skapferli hennar hafði þó nokkur áhrif á félagsleg samskipti. Weil sat ekki á skoðunum sínum, sem oft voru einstrengingslegar og samrýmdust ekki viðteknum viðhorfum, og sóttist lítið eftir því að miðla málum. Auk þessa beitti Weil sjálfa sig miklum sjálfsaga og lifði að mörgu leyti lífi meinlætamanneskju sem átti eftir að endurspeglast í kenningum hennar um trúmál og stjórnmál þegar leið á ævina.

Frá unga aldri hafði Weil sterka réttlætiskennd og er yfirleitt talað um að hún hafi aðhyllst sósíalisma. Vinur hennar, Gustav Thibon (1902-2001), skrifar hins vegar í inngangi sínum að riti hennar Þungamiðja og náð að: „[e]nginn flokkur, engin félagsleg hugmyndafræði hefur rétt á því að eigna sér [Weil]. Ást hennar á manneskjum og hatur hennar á hvers kyns undirokun nægir ekki til að staðsetja hana til vinstri frekar en íhaldssemi sem birtist í efasemdum hennar um ýmis framfaraskref og virðing hennar fyrir hefðum leyfir okkur að staðsetja hana til hægri.“ (Weil, 1987, bls. xvi.)

Nítján ára fékk Weil inngöngu í einn virtasta skóla Parísar, École Normale Supérieure, eftir að hafa staðið sig best á inntökuprófi skólans.

Weil gagnrýndi bilið sem hún sagði vera til staðar milli leiðtoga sósíalistahreyfinga og verkamanna og sem hún taldi að væri meðal annars komið til af þeim sökum að leiðtogarnir höfðu enga beina reynslu af striti verkamanna. Í þessum efnum, sem mörgum öðrum, sýndi Weil hug sinn í verki og réði sig til vinnu í verksmiðju, annars vegar til þess að geta skilið betur málstaðinn en hins vegar af þeirri ástæðu að hún taldi skorta sameinað átak verkamanna og vonaðist til þess að geta virkjað hið kúgaða samverkafólk sitt. Þrátt fyrir góðan vilja var þetta ekki auðvelt fyrir Weil ekki síst vegna þess að hún hafði frá unga aldri verið heilsuveil. Greinar Weil um stjórnmál komu út í ritgerðarsafninu Kúgun og frelsi sem kom út eftir andlát hennar. Í upphafsgrein bókarinnar gagnrýnir Weil ekki einungis kapítalisma heldur einnig sósíalisma og marxisma, en grein þessi birtist í frönsku, sósíalísku dagblaði sem olli meðal annars deilum milli Weil og Levs Trotskíjs (1879-1940). Trotskíj átti þó síðar eftir að tala vel um Weil sem sá meðal annars til þess að foreldrar hennar hýstu hann um tíma er hann var í útlegð í Frakklandi.

Önnur helsta gagnrýni Weil á marxismann fólst í því að hún taldi aukið skrifræði og völd verkalýðsforingja valda því að tilgangurinn, að bæta hag verkamannanna, gleymdist. Weil gagnrýndi einnig kapítalisma og gagnrýni hennar á þessar tvær stefnur var að ýmsu leyti af svipuðum meiði þar sem hún benti á að gríðarleg áhersla á framleiðslu og afköst komi niður á því að hugað væri að lífskjörum, aðstæðum og launakjörum verkamannsins. Weil hafði einnig litla trú á því að bylting væri svarið þar sem hún taldi byltinguna í Rússlandi hafa verið misheppnaða í meginatriðum varðandi það að bæta kjör og frelsa öreigana úr vonlausum aðstæðum.

Lev Trotskíj (1879-1940)

Weil var af gyðingaættum og voru báðir foreldrar hennar gyðingar. Foreldrarnir ólu þau systkini þó meðvitað upp í trúleysi. Weil hafði mikinn áhuga á trúarbrögðum en hún hafnaði Gamla testamentinu sem trúarriti og átti eftir að fá mikinn áhuga á kristni. Weil aðhylltist kaþólska trú upp að vissu marki en fannst hún aldrei vera nægilega samþykk kenningum kirkjunnar, sem hún gagnrýndi stöðugt, til að taka skírn. Hún taldi sig hafa fæðst kristna en fannst samt óviðeigandi að festa trú í ákveðnum kennisetningum eða innan kirkjudeilda.

Kenningar Weil um kristindóminn eru á margan hátt mjög áhugaverðar. Weil var sannfærð um að í bókmenntum Forngrikkja væri að finna trúarlegan sannleika á svipaðan hátt og guðspjöllunum og áttu kristni og grísk heimspeki oft í samtali í ritgerðum hennar um trúarleg álitamál. Weil rýndi einnig í önnur trúarbrögð eins og búddisma og hindúisma sem hún taldi að fælu í sér guðlegan sannleika ekki síður en kristni. Weil var undir áhrifum dulhyggju og þau áhrif birtust ekki síst í skrifum um hennar eigin dulrænu reynslu og trúarupplifanir sem hún varð fyrir í tengslum við þjáninguna. Weil trúði því ekki að hægt væri að elska guð milligöngulaust heldur einungis óbeint, gegnum trúarathafnir, fegurð heimsins og náungann.

Eftir Weil liggja nokkur rit sem öll voru gefin út eftir andlát hennar. Eitt þeirra er Þungamiðja og náð sem er samansafn af hugleiðingum Weil um trúarleg efni sem Gustav Thibon bjó til prentunar út frá minnisbókum hennar. Bókinni er skipt niður í nokkra flokka eins og ást, fegurð, þjáningu og illsku þar sem fram koma vangaveltur hennar í tengslum við hvert efni fyrir sig. Í Þungamiðju og náð birtist afstaða hennar til Guðs en hún taldi Guð hafa skapað heiminn og væri fegurð heimsins til vitnis um þessi ígrip Guðs en Guð hafi síðan fjarlægt sig úr heiminum til að rýma fyrir tilvist manneskjunnar. Meginhugmynd í trúfræði Weil var hugmyndin um aðdráttarafl sem hún taldi vera jafnt til staðar í sál manneskjunnar sem í líkama hennar og náttúrunni. Weil telur það vera vegna aðdráttaraflsins sem við syndgum og breytum rangt og á við að við gerum það ósjálfrátt. Það eina sem hún segir geta komið í veg fyrir að við hlýðum þessu afli er náðin eða yfirnáttúruleg guðleg íhlutun.

Simone Weil ásamt bróður sínum, André Weil (1906-1998). Bæði áttu þau eftir að skapa sér nafn, hvort á sínu fræðasviði, en André varð þekktur stærðfræðingur.

Annað umfjöllunarefni Weil er þjáningin en hún þjáðist sjálf mikið. Hún meiddist í borgarstyrjöldinni á Spáni og í verksmiðjustritinu ásamt því að hún þjáðist af miklum höfuðverkjum stóran hluta ævinnar. Um þjáninguna segir Weil: „Við skyldum hvorki leitast eftir því að forðast þjáningu né því að þjást minna heldur skyldum við leitast eftir því að vera ósnortin af þjáningu.“ (Weil, 1959, bls. 73.) Þessi setning líkt og margar aðrar í hennar verkum minna á hugsun píslarvottsins en Thibon áréttaði að Weil reyndi sjálf að lifa einlæglega eftir þessum hugmyndum sínum og lífsspeki án þess að ætlast til þess að fá aðdáun fyrir.

Í bókinni Fyrirlestrar um heimspeki birtust tímaglósur sem fyrrum nemandi Weil í heimspeki tók niður af mikilli nákvæmni. Í þessum glósum er hægt að sjá að nokkru leyti hvernig afstaða Weil sjálfrar til heimspekinnar þróast. Í fyrirlestrunum fer Weil yfir sögu mannsandans út frá hugmyndum efnishyggjunnar og er helsta viðfangsefni hennar þar vangaveltur um sannleikann sem hún nálgast út frá fyrirbærafræði og sálfræði.

Weil var aðeins þekkt innan ákveðinna hópa fólks á meðan hún lifði en það breyttist hratt eftir andlát hennar. Helstu áhrif Weil komu annars vegar til vegna þeirrar sérstöku afstöðu sem hún hafði til trúarinnar en einnig heillaði skörp sýn hennar á velferð einstaklingsins í samfélaginu. Trúarafstaða hennar hefur laðað til sín lesendur úr mörgum ólíkum trúarbrögðum og síðar átti eftir að koma í ljós að tekið var undir margt í gagnrýni Weil á marxismann sem sýnir enn frekar skarpskyggni hennar. Hin sterka réttlætiskennd og samlíðan Weil með manneskjum birtist í lífi hennar, starfi og kenningum og vegna þess er einnig oft talað um hana sem dýrling og lífi hennar líkt við líf píslarvottsins. Fyrir þau sem hafa áhuga fyrir því að kynna sér skrif Weil frekar er hægt að vitna í orð Susan Sontag þar sem hún segir að „allt sem kemur úr penna Weil er þess virði að lesa“ (Sontag, 1963).

Heimildir:
 • Du Plessix Gray, Francine. Simone Weil. New York: Penguin Books, 2001.
 • Plant, Stephen. Simone Weil: A Brief Introduction. London: Orbis Books, 1996.
 • Sontag, Susan. 1963. Simone Weil. The New York Review of Books. (Skoðað 17.2.2013).
 • Weil, Simone. Lectures on Philosophy. New York: Cambridge University Press, 1979.
 • Weil, Simone. Gravity and Grace. London og New York: Ark Paperbacks, 1987.
 • Weil, Simone. The Need for Roots. London og New York: Routledge Classics, 2002.
 • Weil, Simone. Opression and Freedom. London og New York: Routledge Classics, 2002.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljómaði svona:
Hvað getið þið sagt um kvenheimspekinginn Simone Weil?

Höfundur

doktorsnemi í heimspeki

Útgáfudagur

4.6.2013

Spyrjandi

Hulda Leifsdottir

Tilvísun

Erla Karlsdóttir. „Hvað getið þið sagt um heimspekinginn Simone Weil?“ Vísindavefurinn, 4. júní 2013. Sótt 29. mars 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=26558.

Erla Karlsdóttir. (2013, 4. júní). Hvað getið þið sagt um heimspekinginn Simone Weil? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=26558

Erla Karlsdóttir. „Hvað getið þið sagt um heimspekinginn Simone Weil?“ Vísindavefurinn. 4. jún. 2013. Vefsíða. 29. mar. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=26558>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt um heimspekinginn Simone Weil?
Franski heimspekingurinn og baráttukonan Simone Weil (1909-1943) var dóttir læknisins Bernards Weils og konu hans Salomea sem vann alla tíð þétt við hlið manns síns og var vel að sér í læknisfræði. Á æskuheimilinu var mikið lagt upp úr menntun og sá Salomea um nám barna sinna tveggja, Simone og André sem bæði voru afburðanemendur og áttu eftir að vaxa úr grasi og skapa sér nafn hvort á sínu fræðasviði.

Simone Weil (1909-1943).

Weil fékk fljótt mikinn áhuga á klassískum fræðum og náði mikilli færni í bæði forngrísku og sanskrít og þessi áhugasvið hennar leiddu hana áfram í átt að heimspeki og síðar kristinni dulhyggju. Nítján ára fékk Weil inngöngu í einn virtasta skóla Parísar, École Normale Supérieure, eftir að hafa staðið sig best á inntökuprófi skólans, en nafna hennar, heimspekingurinn Simone de Beauvoir (1908-1986), sem var henni samtíða, var önnur á prófinu. Að loknu námi átti Weil eftir að starfa við kennslu auk þess sem hún var um nokkurt skeið virk baráttukona fyrir bættum kjörum verkamanna í Frakklandi. Einnig tók Weil þátt í spænsku borgarastyrjöldinni en þurfti fljótt frá að hverfa vegna meiðsla.

Félagsleg einangrun Weil í uppvextinum og skapferli hennar hafði þó nokkur áhrif á félagsleg samskipti. Weil sat ekki á skoðunum sínum, sem oft voru einstrengingslegar og samrýmdust ekki viðteknum viðhorfum, og sóttist lítið eftir því að miðla málum. Auk þessa beitti Weil sjálfa sig miklum sjálfsaga og lifði að mörgu leyti lífi meinlætamanneskju sem átti eftir að endurspeglast í kenningum hennar um trúmál og stjórnmál þegar leið á ævina.

Frá unga aldri hafði Weil sterka réttlætiskennd og er yfirleitt talað um að hún hafi aðhyllst sósíalisma. Vinur hennar, Gustav Thibon (1902-2001), skrifar hins vegar í inngangi sínum að riti hennar Þungamiðja og náð að: „[e]nginn flokkur, engin félagsleg hugmyndafræði hefur rétt á því að eigna sér [Weil]. Ást hennar á manneskjum og hatur hennar á hvers kyns undirokun nægir ekki til að staðsetja hana til vinstri frekar en íhaldssemi sem birtist í efasemdum hennar um ýmis framfaraskref og virðing hennar fyrir hefðum leyfir okkur að staðsetja hana til hægri.“ (Weil, 1987, bls. xvi.)

Nítján ára fékk Weil inngöngu í einn virtasta skóla Parísar, École Normale Supérieure, eftir að hafa staðið sig best á inntökuprófi skólans.

Weil gagnrýndi bilið sem hún sagði vera til staðar milli leiðtoga sósíalistahreyfinga og verkamanna og sem hún taldi að væri meðal annars komið til af þeim sökum að leiðtogarnir höfðu enga beina reynslu af striti verkamanna. Í þessum efnum, sem mörgum öðrum, sýndi Weil hug sinn í verki og réði sig til vinnu í verksmiðju, annars vegar til þess að geta skilið betur málstaðinn en hins vegar af þeirri ástæðu að hún taldi skorta sameinað átak verkamanna og vonaðist til þess að geta virkjað hið kúgaða samverkafólk sitt. Þrátt fyrir góðan vilja var þetta ekki auðvelt fyrir Weil ekki síst vegna þess að hún hafði frá unga aldri verið heilsuveil. Greinar Weil um stjórnmál komu út í ritgerðarsafninu Kúgun og frelsi sem kom út eftir andlát hennar. Í upphafsgrein bókarinnar gagnrýnir Weil ekki einungis kapítalisma heldur einnig sósíalisma og marxisma, en grein þessi birtist í frönsku, sósíalísku dagblaði sem olli meðal annars deilum milli Weil og Levs Trotskíjs (1879-1940). Trotskíj átti þó síðar eftir að tala vel um Weil sem sá meðal annars til þess að foreldrar hennar hýstu hann um tíma er hann var í útlegð í Frakklandi.

Önnur helsta gagnrýni Weil á marxismann fólst í því að hún taldi aukið skrifræði og völd verkalýðsforingja valda því að tilgangurinn, að bæta hag verkamannanna, gleymdist. Weil gagnrýndi einnig kapítalisma og gagnrýni hennar á þessar tvær stefnur var að ýmsu leyti af svipuðum meiði þar sem hún benti á að gríðarleg áhersla á framleiðslu og afköst komi niður á því að hugað væri að lífskjörum, aðstæðum og launakjörum verkamannsins. Weil hafði einnig litla trú á því að bylting væri svarið þar sem hún taldi byltinguna í Rússlandi hafa verið misheppnaða í meginatriðum varðandi það að bæta kjör og frelsa öreigana úr vonlausum aðstæðum.

Lev Trotskíj (1879-1940)

Weil var af gyðingaættum og voru báðir foreldrar hennar gyðingar. Foreldrarnir ólu þau systkini þó meðvitað upp í trúleysi. Weil hafði mikinn áhuga á trúarbrögðum en hún hafnaði Gamla testamentinu sem trúarriti og átti eftir að fá mikinn áhuga á kristni. Weil aðhylltist kaþólska trú upp að vissu marki en fannst hún aldrei vera nægilega samþykk kenningum kirkjunnar, sem hún gagnrýndi stöðugt, til að taka skírn. Hún taldi sig hafa fæðst kristna en fannst samt óviðeigandi að festa trú í ákveðnum kennisetningum eða innan kirkjudeilda.

Kenningar Weil um kristindóminn eru á margan hátt mjög áhugaverðar. Weil var sannfærð um að í bókmenntum Forngrikkja væri að finna trúarlegan sannleika á svipaðan hátt og guðspjöllunum og áttu kristni og grísk heimspeki oft í samtali í ritgerðum hennar um trúarleg álitamál. Weil rýndi einnig í önnur trúarbrögð eins og búddisma og hindúisma sem hún taldi að fælu í sér guðlegan sannleika ekki síður en kristni. Weil var undir áhrifum dulhyggju og þau áhrif birtust ekki síst í skrifum um hennar eigin dulrænu reynslu og trúarupplifanir sem hún varð fyrir í tengslum við þjáninguna. Weil trúði því ekki að hægt væri að elska guð milligöngulaust heldur einungis óbeint, gegnum trúarathafnir, fegurð heimsins og náungann.

Eftir Weil liggja nokkur rit sem öll voru gefin út eftir andlát hennar. Eitt þeirra er Þungamiðja og náð sem er samansafn af hugleiðingum Weil um trúarleg efni sem Gustav Thibon bjó til prentunar út frá minnisbókum hennar. Bókinni er skipt niður í nokkra flokka eins og ást, fegurð, þjáningu og illsku þar sem fram koma vangaveltur hennar í tengslum við hvert efni fyrir sig. Í Þungamiðju og náð birtist afstaða hennar til Guðs en hún taldi Guð hafa skapað heiminn og væri fegurð heimsins til vitnis um þessi ígrip Guðs en Guð hafi síðan fjarlægt sig úr heiminum til að rýma fyrir tilvist manneskjunnar. Meginhugmynd í trúfræði Weil var hugmyndin um aðdráttarafl sem hún taldi vera jafnt til staðar í sál manneskjunnar sem í líkama hennar og náttúrunni. Weil telur það vera vegna aðdráttaraflsins sem við syndgum og breytum rangt og á við að við gerum það ósjálfrátt. Það eina sem hún segir geta komið í veg fyrir að við hlýðum þessu afli er náðin eða yfirnáttúruleg guðleg íhlutun.

Simone Weil ásamt bróður sínum, André Weil (1906-1998). Bæði áttu þau eftir að skapa sér nafn, hvort á sínu fræðasviði, en André varð þekktur stærðfræðingur.

Annað umfjöllunarefni Weil er þjáningin en hún þjáðist sjálf mikið. Hún meiddist í borgarstyrjöldinni á Spáni og í verksmiðjustritinu ásamt því að hún þjáðist af miklum höfuðverkjum stóran hluta ævinnar. Um þjáninguna segir Weil: „Við skyldum hvorki leitast eftir því að forðast þjáningu né því að þjást minna heldur skyldum við leitast eftir því að vera ósnortin af þjáningu.“ (Weil, 1959, bls. 73.) Þessi setning líkt og margar aðrar í hennar verkum minna á hugsun píslarvottsins en Thibon áréttaði að Weil reyndi sjálf að lifa einlæglega eftir þessum hugmyndum sínum og lífsspeki án þess að ætlast til þess að fá aðdáun fyrir.

Í bókinni Fyrirlestrar um heimspeki birtust tímaglósur sem fyrrum nemandi Weil í heimspeki tók niður af mikilli nákvæmni. Í þessum glósum er hægt að sjá að nokkru leyti hvernig afstaða Weil sjálfrar til heimspekinnar þróast. Í fyrirlestrunum fer Weil yfir sögu mannsandans út frá hugmyndum efnishyggjunnar og er helsta viðfangsefni hennar þar vangaveltur um sannleikann sem hún nálgast út frá fyrirbærafræði og sálfræði.

Weil var aðeins þekkt innan ákveðinna hópa fólks á meðan hún lifði en það breyttist hratt eftir andlát hennar. Helstu áhrif Weil komu annars vegar til vegna þeirrar sérstöku afstöðu sem hún hafði til trúarinnar en einnig heillaði skörp sýn hennar á velferð einstaklingsins í samfélaginu. Trúarafstaða hennar hefur laðað til sín lesendur úr mörgum ólíkum trúarbrögðum og síðar átti eftir að koma í ljós að tekið var undir margt í gagnrýni Weil á marxismann sem sýnir enn frekar skarpskyggni hennar. Hin sterka réttlætiskennd og samlíðan Weil með manneskjum birtist í lífi hennar, starfi og kenningum og vegna þess er einnig oft talað um hana sem dýrling og lífi hennar líkt við líf píslarvottsins. Fyrir þau sem hafa áhuga fyrir því að kynna sér skrif Weil frekar er hægt að vitna í orð Susan Sontag þar sem hún segir að „allt sem kemur úr penna Weil er þess virði að lesa“ (Sontag, 1963).

Heimildir:
 • Du Plessix Gray, Francine. Simone Weil. New York: Penguin Books, 2001.
 • Plant, Stephen. Simone Weil: A Brief Introduction. London: Orbis Books, 1996.
 • Sontag, Susan. 1963. Simone Weil. The New York Review of Books. (Skoðað 17.2.2013).
 • Weil, Simone. Lectures on Philosophy. New York: Cambridge University Press, 1979.
 • Weil, Simone. Gravity and Grace. London og New York: Ark Paperbacks, 1987.
 • Weil, Simone. The Need for Roots. London og New York: Routledge Classics, 2002.
 • Weil, Simone. Opression and Freedom. London og New York: Routledge Classics, 2002.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljómaði svona:
Hvað getið þið sagt um kvenheimspekinginn Simone Weil?

...