Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekki eru þekkt dæmi um að of stórir skammtar af LSD hafi beinlínis valdið dauða en sál- og geðræn áhrif efnisins geta hæglega verið banvæn.
LSD (lýsergsýruetýlamín) er ofskynjunarefni sem breytir skynjun, hugsunum og tilfinningum fólks. Ofskynjun getur náð til allra skynfæra, það er hún getur komið fram í sjón, heyrn, lykt, bragði og snertingu. Einungis þarf um 25-50 míkrógrömm af LSD til að brengla skynjun fólks. Örlitlir skammtar breyta sjálfsvitund og raunveruleikaskyni. Efnið hefur gríðarlega víðtæk áhrif á heilastarfsemina en breytir annarri starfsemi líkamans mjög lítið. LSD er stundum kallað sýra, það er oftast á töfluformi en algengasta aðferð til inntöku er að dreypa lausn af efninu á litla pappírssnepla sem eru svo settir á tunguna. Á sneplana eru prentaðar ýmsar myndir og hver mynd er einn neysluskammtur, um 50-300 míkrógrömm.
Ofskynjunarefni hafa víðtæk áhrif á miðtaugakerfi fólks. LSD líkist taugaboðefninu serótóníni í byggingu og virðist valda ofskynjun með því að herma eftir virkni þess. Þetta veldur ofvirkni í ennisblaði (e. frontal lobe) og hnakkablaði (e. occipital lobe) heilans. Ennisblaðið hefur mest með hreyfistjórn, rökhugsun og hvatastjórn að gera en hnakkablaðið kemur mest að sjónskynjun.
Almennt má segja að LSD hafi örvandi verkun og auki skynjun neytandans. Þegar efnið er tekið um munn fæst miðlæg örvun á semjuhluta (e. sympathetic) sjálfráða (e. autonomic) taugakerfisins. Þessi áhrif eru að ljósop víkka, líkamshiti, blóðsykur og blóðþrýstingur hækka, púls verður hraður, munnvatnsframleiðsla eykst og sinaviðbrögð aukast. Ekki hefur verið sýnt fram á að efnið sé ávanabindandi eða valdi heilaskemmdum og bein líkamleg áhrif eru ekki svo mikill. Sál- og geðrænar afleiðingar geta aftur á móti verið skelfilegar.
Algengasta aðferð til inntöku á LSD er að dreypa lausn af efninu á litla pappírssnepla sem eru svo settir á tunguna.
Geðslag getur breyst verulega við neyslu LSD og óútreiknanlegt er með hvaða hætti. Einstaklingar bregðast við á ólíkan hátt en einnig er mismunandi hvernig sami einstaklingur bregst við hverjum skammti. Áhrifin geta verið frá sæluvímu sem einkennist af sjálfstrausti yfir í þunglyndi og ofsahræðslu. Algengustu meinsvaranir eru ofsahræðsla og sturlun og kallast slík áhrif „bad trip“. Þau viðbrögð getur engin séð fyrir og þau geta verið stórhættuleg.
Sturlunareinkenni geta komið fram sem einstaklingur gerir sér ekki grein fyrir að eru af völdum vímunnar. Þetta byrjar skyndilega, einkennist af skynvillum og -truflunum og veldur því að raunveruleikatengsl tapast. Einstaklingur missir dómgreind og telur sig kannski geta flogið eða synt á haf út til að sameinast alheiminum. Ofsahræðsla er eins og áður segir möguleg afleiðing en margir verða skelfingu lostnir yfir því að vera að ganga af göflunum og brotna jafnvel saman. Efnið getur auk þessa orsakað ofsóknaræði. Neytandinn sýnir þá einkenni vantrausts, hefur á tilfinningunni að fylgst sé með sér, að einhver hafi verið settur til höfuðs honum og reyni jafnvel að stjórna hugsunum hans.
Mörg dæmi eru um að fólk hafi misst alla sjálfstjórn undir áhrifum. Það heldur sig til dæmis geta flogið og kastar sér út um glugga og stórslasast eða jafnvel deyr. Bæði morð og sjálfsmorð hafa verið framin undir áhrifum efnisins. Auk þeirra áhrifa sem LSD hefur meðan það er enn í líkamanum eru þekkt svokölluð afturhvörf (e. flashbacks) eftir inntöku. Þá fá einstaklingar alvarlegar ofskynjanir mörgum árum eftir neyslu efnisins. Þetta ástand varir í skamman tíma en getur leitt neytandann inn í kvíða- eða skelfingaröldu. Töluverð hætta er á ferðum ef afturhvörf verða þegar einstaklingurinn er við akstur því fjarlægðaskyn á hluti á hreyfingu og tímaskyn sljóvgast og brenglast. Samkvæmt rannsóknum fá 20-60% þeirra sem hafa neytt LSD afturhvörf.
LSD gerir geðsjúkdóma og geðveilur miklu verri. Áhrif þess geta verið að geðsjúkdómur kemur fram fyrr en ella, sturlun sem annars hefði legið í dvala birtist eða ný sturlun er framkölluð hjá einstaklingi sem hefur fengið slíkt áður.
Hættulegt getur verið að gefa sjúklingi í LSD-vímu lyf þar sem lyfhrifin gætu aukist. Besta meðferðin felst í því að gæta þess að sjúklingurinn fari sér ekki að voða. Stundum er innlögn á spítala nauðsynleg en helst er hægt er að róa sjúklinginn með vinsamlegu viðmóti og stuðningi.
Heimildir:
Passie, T., Halpern, J. H., Stichtenoth, D. O., Emrich, H. M. og Hintzen, A. (2008), The Pharmacology of Lysergic Acid Diethylamide: A Review. CNS Neuroscience & Therapeutics, 14: 295–314. doi: 10.1111/j.1755-5949.2008.00059.x.
Þórdís Kristinsdóttir. „Getur verið banvænt að taka inn LSD og getur efnið valdið geðveiki?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2012, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52102.
Þórdís Kristinsdóttir. (2012, 23. janúar). Getur verið banvænt að taka inn LSD og getur efnið valdið geðveiki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52102
Þórdís Kristinsdóttir. „Getur verið banvænt að taka inn LSD og getur efnið valdið geðveiki?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2012. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52102>.