Sólin Sólin Rís 03:04 • sest 23:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 02:49 • Sest 12:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:35 • Síðdegis: 24:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:26 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík

Hvað eru kristileg gildi og hver er munurinn á þeim og gildum annarra trúarbragða?

Gunnar J. Gunnarsson

Þegar ræða á hver sé munurinn á kristilegum gildum og gildum annarra trúarbragða vakna ýmsar aðrar spurningar. Hvað eru kristileg gildi? Eru til einhver sérstök kristileg gildi? Eru þau frábrugðin gildum annarra trúarbragða?

Í viðleitni okkar til að svara þessum spurningum er gott að hafa hugfast að siðakenning trúarbragða er aldrei einangrað fyrirbæri. Hún er alltaf hluti af stærra samhengi sem er í senn trúarlegt, félagslegt og menningarlegt. Ólík trúarbrögð eiga sér ekki öll sömu menningarlegu umgjörðina eða samhengið og þar af leiðandi á siðakenning þeirra sér mismunandi umgjörð. Þá hefur guðsmynd og mannskilningur ólíkra trúarbragða mikil áhrif (Bexell og Grenholm, 2001). Þetta skiptir máli þegar við leitumst við að skilja trúarlega siðfræði og þau viðhorf og gildi sem siðferðisboðskapur ólíkra trúarbragða felur í sér.

Þegar við berum saman siðferðisboðskap hinna ýmsu trúarbragða sjáum við þó fljótlega ákveðnar samsvaranir. Tilteknar siðareglur eru hliðstæðar og oft og tíðum snúast þær um ákveðin grundvallaratriði, svo sem að verja samfélagið og skipan þess og líf einstaklingsins og eigur. Þá eru tilteknar dygðir sem trúarbrögðin meta mikils oft hliðstæðar (Bexell og Grenholm, 2001). Af því leiðir að trúarbrögðin eiga ýmis sameiginleg gildi og í mörgum trúarbrögðum sjáum við hliðstæð boðorð sem snúast um að forðast hið illa, svo sem að deyða ekki, stela ekki, ljúga ekki eða svíkja.

Trúarbrögðin eiga ýmis sameiginleg gildi og í mörgum trúarbrögðum sjáum við hliðstæð boðorð sem snúast um að forðast hið illa, svo sem að deyða ekki, stela ekki, ljúga ekki eða svíkja.

Ekki er víst að allir séu sammála um hvað teljast skuli kristileg gildi. Það hefur ekki verið gefin út nein endanleg samantekt á því og verður líklega aldrei. Því vaknar spurningin við hvað á að miða þegar við tölum um kristileg gildi? Ýmis boðorð eða siðareglur koma líklega fljótt upp í hugann þegar minnst er á kristilegt siðgæði, svo sem tvöfalda kærleiksboðorðið (5. Mós. 6:5; 3. Mós. 19:18), boðorðin tíu (2. Mós. 20:1-17) og gullna reglan (Matt. 7:12). Kristnin er þó ekki ein um þessi boðorð. Bæði kærleiksboðorðið og boðorðin tíu eru komin úr Gamla testamentinu, og eru því sameiginleg arfleifð með gyðingdómi. Í Kóraninum, helgiriti múslima, er sagt frá því þegar Móse tók á móti boðorðunum (7:145 o.áfr.) og mörg boðorðanna í 17. súru Kóransins eru hliðstæð boðorðunum tíu. Þá á gullna reglan á sér samsvaranir í ýmsum öðrum trúarbrögðum en kristni. Eru þessi meginboðorð Biblíunnar leiðbeining um hvað við teljum kristileg gildi? Hver á þá að túlka þessi boðorð eða leiða af þeim þau gildi sem við köllum kristileg? Hér verður að teljast rökrétt og eðlilegt að taka mið af Jesú Kristi og boðskap hans þar sem hann er kjarni kristinnar trúar.

Í þessu sambandi er gagnlegt að gefa gaum að siðferðispredikun Jesú. Ljóst er að hann setur kærleikann á oddinn í kenningu sinni. Kærleiksboðorðið er æðst allra boðorða og áherslan á róttækan náungakærleika kemur víða fyrir í boðskap hans (sjá til dæmis Matt. 5:43-48; Lúk. 10: 25-37). Þá bendir hann á réttlæti, miskunn og trúfesti sem grundvallaratriði (Matt. 23:23). Manngildið er jafnframt mikilvægt og umhyggjan fyrir öðrum (Matt 12:9-14) (Smith, 1984).

Þegar við tölum um kristileg gildi hljóta þessi atriði að vega þungt, það er kærleikurinn til náungans, réttlætið, miskunnsemin, trúfestin og virðingin fyrir manneskjunni. Í bréfum Nýja testamentisins er jafnframt að finna svokallaða dyggða- og lastalista sem gefa okkur mynd af því sem við getum kallað kristileg gildi (sjá t.d. Gal. 5:19-23 og Kól. 3:5-17). Stundum er talað um að trú, von og kærleikur séu þrjár höfuðdygðir kristninnar. Hér koma áhrif frá Forn-Grikkjum líka til sögunnar því samþætting þátta úr grískri heimspeki og kristinnar guðfræði við upphaf miðalda fól meðal annars í sér að hugmyndir Platons um höfuðdygðirnar fjórar (hugrekki, hófsemi, visku og réttlæti) voru lagaðar að kristni og síðan bætt við þessum þremur þannig að úr urðu sjö höfuðdygðir. Trúarhugtakið í Biblíunni merkir fyrst og fremst traust og þegar talað er um kristilegu dygðirnar, trú, von og kærleika, er merkingin sú sama. Traust tengist samskiptum fólks en líka samskiptum einstaklinga og stofnana samfélagsins. Og von er ekki bara bjartsýni sem byggist á slagorðum eða sjálfshvatningu. Hún felur í sér sannfæringu um að framtíðin feli í sér möguleika og tækifæri fyrir manninn. Vonin flytur með sér dáðir sem breyta eðli mannlegra samfélaga í samræmi við dýpstu siðferðilegar og andlegar þrár mannsins (Gustafson, 1971).

Hugmyndir Platons um höfuðdygðirnar fjórar voru lagaðar að kristni við upphaf miðalda. Á myndinni sést Platon (t.v.) og Aristóteles. Myndin er hluti af málverkinu Aþenuskólinn (1510-11) eftir ítalska listmálarann og arkitektinn Rafael.

Í samfélögum þar sem kristin trú hefur verið mótandi um langa hríð hafa gildi sem byggja á ofangreindu sett mark sitt á samfélagið og menninguna. Því er oft talað um að kristileg gildi hafi mótað samfélagið. Þetta endurspeglast til dæmis í lögum um grunnskóla þegar talað er um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Margt í þessari upptalningu getur kallast kristileg gildi, enda er vísað til kristinnar arfleifðar íslenskrar menningar í lagagreininni.

Hér er ekki svigrúm til að fara út í ítarlegan samanburð á því að hvaða leyti kristileg gildi eru lík eða ólík gildum annarra trúarbragða. Sum þeirra eru sambærileg meðan önnur eru ólík og svo er samhengið sem þau eru sett fram í ekki alltaf það sama. Sköpunartrú kristninnar leiðir til dæmis af sér að í mörgum greinum hennar er horft jákvæðum augum á efnisheiminn, náttúruna og jarðlífið. Í austrænum trúarbrögðum er heimsmyndin önnur sem felur þá í sér annars konar afstöðu til efnisheimsins og jafnframt leiðir til að leysa fjötra manna við efnisheiminn. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér nánar samanburð á siðfræði ólíkra trúarbragða, er bent á ritið Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki, sem nefnt er í heimildaskrá, bls. 61-75.

Heimildir:
  • Bexell, G. og Grenholm, C.-H. (2001). Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki. Reykjavík, Skálholtsútgáfan og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
  • Gunnar J. Gunnarsson (2007). Hver eru grunngildin í skólastarfi í dag? Uppeldi og menntun 16 (1). bls. 107-112. Ritstj. Trausti Þorsteinsson. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.
  • Gustafson, J. M. (1971). Christian Ethics and the Community. Philadelphia: Pilgrim Press.
  • 2008 nr. 91 12. júní/ Lög um grunnskóla.
  • Smith, A. (red.) (1984). På skaparens jord. En innföring i kristen etikk. Oslo: Luther forlag.

Myndir:

Höfundur

dósent í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, kennaradeild

Útgáfudagur

27.3.2013

Spyrjandi

Eiríkur Arnarson

Tilvísun

Gunnar J. Gunnarsson. „Hvað eru kristileg gildi og hver er munurinn á þeim og gildum annarra trúarbragða?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2013. Sótt 10. júní 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=64442.

Gunnar J. Gunnarsson. (2013, 27. mars). Hvað eru kristileg gildi og hver er munurinn á þeim og gildum annarra trúarbragða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64442

Gunnar J. Gunnarsson. „Hvað eru kristileg gildi og hver er munurinn á þeim og gildum annarra trúarbragða?“ Vísindavefurinn. 27. mar. 2013. Vefsíða. 10. jún. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64442>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru kristileg gildi og hver er munurinn á þeim og gildum annarra trúarbragða?
Þegar ræða á hver sé munurinn á kristilegum gildum og gildum annarra trúarbragða vakna ýmsar aðrar spurningar. Hvað eru kristileg gildi? Eru til einhver sérstök kristileg gildi? Eru þau frábrugðin gildum annarra trúarbragða?

Í viðleitni okkar til að svara þessum spurningum er gott að hafa hugfast að siðakenning trúarbragða er aldrei einangrað fyrirbæri. Hún er alltaf hluti af stærra samhengi sem er í senn trúarlegt, félagslegt og menningarlegt. Ólík trúarbrögð eiga sér ekki öll sömu menningarlegu umgjörðina eða samhengið og þar af leiðandi á siðakenning þeirra sér mismunandi umgjörð. Þá hefur guðsmynd og mannskilningur ólíkra trúarbragða mikil áhrif (Bexell og Grenholm, 2001). Þetta skiptir máli þegar við leitumst við að skilja trúarlega siðfræði og þau viðhorf og gildi sem siðferðisboðskapur ólíkra trúarbragða felur í sér.

Þegar við berum saman siðferðisboðskap hinna ýmsu trúarbragða sjáum við þó fljótlega ákveðnar samsvaranir. Tilteknar siðareglur eru hliðstæðar og oft og tíðum snúast þær um ákveðin grundvallaratriði, svo sem að verja samfélagið og skipan þess og líf einstaklingsins og eigur. Þá eru tilteknar dygðir sem trúarbrögðin meta mikils oft hliðstæðar (Bexell og Grenholm, 2001). Af því leiðir að trúarbrögðin eiga ýmis sameiginleg gildi og í mörgum trúarbrögðum sjáum við hliðstæð boðorð sem snúast um að forðast hið illa, svo sem að deyða ekki, stela ekki, ljúga ekki eða svíkja.

Trúarbrögðin eiga ýmis sameiginleg gildi og í mörgum trúarbrögðum sjáum við hliðstæð boðorð sem snúast um að forðast hið illa, svo sem að deyða ekki, stela ekki, ljúga ekki eða svíkja.

Ekki er víst að allir séu sammála um hvað teljast skuli kristileg gildi. Það hefur ekki verið gefin út nein endanleg samantekt á því og verður líklega aldrei. Því vaknar spurningin við hvað á að miða þegar við tölum um kristileg gildi? Ýmis boðorð eða siðareglur koma líklega fljótt upp í hugann þegar minnst er á kristilegt siðgæði, svo sem tvöfalda kærleiksboðorðið (5. Mós. 6:5; 3. Mós. 19:18), boðorðin tíu (2. Mós. 20:1-17) og gullna reglan (Matt. 7:12). Kristnin er þó ekki ein um þessi boðorð. Bæði kærleiksboðorðið og boðorðin tíu eru komin úr Gamla testamentinu, og eru því sameiginleg arfleifð með gyðingdómi. Í Kóraninum, helgiriti múslima, er sagt frá því þegar Móse tók á móti boðorðunum (7:145 o.áfr.) og mörg boðorðanna í 17. súru Kóransins eru hliðstæð boðorðunum tíu. Þá á gullna reglan á sér samsvaranir í ýmsum öðrum trúarbrögðum en kristni. Eru þessi meginboðorð Biblíunnar leiðbeining um hvað við teljum kristileg gildi? Hver á þá að túlka þessi boðorð eða leiða af þeim þau gildi sem við köllum kristileg? Hér verður að teljast rökrétt og eðlilegt að taka mið af Jesú Kristi og boðskap hans þar sem hann er kjarni kristinnar trúar.

Í þessu sambandi er gagnlegt að gefa gaum að siðferðispredikun Jesú. Ljóst er að hann setur kærleikann á oddinn í kenningu sinni. Kærleiksboðorðið er æðst allra boðorða og áherslan á róttækan náungakærleika kemur víða fyrir í boðskap hans (sjá til dæmis Matt. 5:43-48; Lúk. 10: 25-37). Þá bendir hann á réttlæti, miskunn og trúfesti sem grundvallaratriði (Matt. 23:23). Manngildið er jafnframt mikilvægt og umhyggjan fyrir öðrum (Matt 12:9-14) (Smith, 1984).

Þegar við tölum um kristileg gildi hljóta þessi atriði að vega þungt, það er kærleikurinn til náungans, réttlætið, miskunnsemin, trúfestin og virðingin fyrir manneskjunni. Í bréfum Nýja testamentisins er jafnframt að finna svokallaða dyggða- og lastalista sem gefa okkur mynd af því sem við getum kallað kristileg gildi (sjá t.d. Gal. 5:19-23 og Kól. 3:5-17). Stundum er talað um að trú, von og kærleikur séu þrjár höfuðdygðir kristninnar. Hér koma áhrif frá Forn-Grikkjum líka til sögunnar því samþætting þátta úr grískri heimspeki og kristinnar guðfræði við upphaf miðalda fól meðal annars í sér að hugmyndir Platons um höfuðdygðirnar fjórar (hugrekki, hófsemi, visku og réttlæti) voru lagaðar að kristni og síðan bætt við þessum þremur þannig að úr urðu sjö höfuðdygðir. Trúarhugtakið í Biblíunni merkir fyrst og fremst traust og þegar talað er um kristilegu dygðirnar, trú, von og kærleika, er merkingin sú sama. Traust tengist samskiptum fólks en líka samskiptum einstaklinga og stofnana samfélagsins. Og von er ekki bara bjartsýni sem byggist á slagorðum eða sjálfshvatningu. Hún felur í sér sannfæringu um að framtíðin feli í sér möguleika og tækifæri fyrir manninn. Vonin flytur með sér dáðir sem breyta eðli mannlegra samfélaga í samræmi við dýpstu siðferðilegar og andlegar þrár mannsins (Gustafson, 1971).

Hugmyndir Platons um höfuðdygðirnar fjórar voru lagaðar að kristni við upphaf miðalda. Á myndinni sést Platon (t.v.) og Aristóteles. Myndin er hluti af málverkinu Aþenuskólinn (1510-11) eftir ítalska listmálarann og arkitektinn Rafael.

Í samfélögum þar sem kristin trú hefur verið mótandi um langa hríð hafa gildi sem byggja á ofangreindu sett mark sitt á samfélagið og menninguna. Því er oft talað um að kristileg gildi hafi mótað samfélagið. Þetta endurspeglast til dæmis í lögum um grunnskóla þegar talað er um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Margt í þessari upptalningu getur kallast kristileg gildi, enda er vísað til kristinnar arfleifðar íslenskrar menningar í lagagreininni.

Hér er ekki svigrúm til að fara út í ítarlegan samanburð á því að hvaða leyti kristileg gildi eru lík eða ólík gildum annarra trúarbragða. Sum þeirra eru sambærileg meðan önnur eru ólík og svo er samhengið sem þau eru sett fram í ekki alltaf það sama. Sköpunartrú kristninnar leiðir til dæmis af sér að í mörgum greinum hennar er horft jákvæðum augum á efnisheiminn, náttúruna og jarðlífið. Í austrænum trúarbrögðum er heimsmyndin önnur sem felur þá í sér annars konar afstöðu til efnisheimsins og jafnframt leiðir til að leysa fjötra manna við efnisheiminn. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér nánar samanburð á siðfræði ólíkra trúarbragða, er bent á ritið Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki, sem nefnt er í heimildaskrá, bls. 61-75.

Heimildir:
  • Bexell, G. og Grenholm, C.-H. (2001). Siðfræði af sjónarhóli guðfræði og heimspeki. Reykjavík, Skálholtsútgáfan og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
  • Gunnar J. Gunnarsson (2007). Hver eru grunngildin í skólastarfi í dag? Uppeldi og menntun 16 (1). bls. 107-112. Ritstj. Trausti Þorsteinsson. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.
  • Gustafson, J. M. (1971). Christian Ethics and the Community. Philadelphia: Pilgrim Press.
  • 2008 nr. 91 12. júní/ Lög um grunnskóla.
  • Smith, A. (red.) (1984). På skaparens jord. En innföring i kristen etikk. Oslo: Luther forlag.

Myndir:...