Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær hófst kaffidrykkja í heiminum og hvernig breiddist hún út?

Már Jónsson

Kaffitré vaxa villt á nokkrum svæðum í Afríku og sú tegund (Coffea arabica) sem fyrst nýttist til kaffigerðar rekur upphafleg heimkynni sín til fjalla í Eþíópíu. Ekki er ólíklegt að þar hafi menn lengi tuggið kaffiber sér til hressingar, en þess verður fyrst vart í Jemen (handan við Rauðahaf) um eða fyrir miðja 15. öld að berjahýði og baunirnar sjálfar, það er fræin, voru þurrkuð og soðin til að gera úr þeim örvandi drykk. Í Jemen hófst líka eiginleg ræktun og nýting plöntunnar og þaðan kom allt kaffi sem drukkið var í heiminum þangað til snemma á 18. öld. Meðal helstu útflutningshafna var borgin Mokka eða Mocha rétt innan við mynni Rauðahafs. Líklegt þykir að í fyrstu hafi íslamskir trúarhópar tileinkað sér drykkinn til að halda sér lengur vakandi á samkomum að næturlagi og að smám saman hafi hann breiðst út. Vitað er um kaffihús í Mekka um 1500 og þar var kaffidrykkja bönnuð árið 1511, því efnið þótti æsandi og menn gátu ekki sofið.

Líklegt þykir að í fyrstu hafi íslamskir trúarhópar drukkið kaffi til að halda sér lengur vakandi á samkomum að næturlagi. Á myndinni sést blómstrandi kaffitré (Coffea arabica) í Brasilíu.

Næstu ár og áratugi náðu Tyrkir yfirráðum í Austurlöndum nær og á mestum hluta Arabíuskagans, og þeir tileinkuðu sér drykkinn. Fyrir miðja 16. öld var farið að brenna kaffibaunir og mala þær eða mylja í stað þess að bara þurrka þær og hita, sem enn jók á vinsældirnar. Um skeið voru uppi efasemdir um að kaffi væri leyfilegt samkvæmt fyrirmælum Múhameðs í Kórani, þar sem öll neysla vímuefna er stranglega bönnuð, en niðurstaða lækna varð sú að drykkurinn væri fyrst og fremst heilnæmur og hressandi. Í framhaldinu spruttu upp kaffihús í öllum helstu borgum múslima, svo sem í Kaíró, Aleppo, Damaskus, Bagdad og Isfahan. Fyrsta kaffihúsið var opnað í Istanbúl árið 1544 og árið 1579 í Búdapest.

Þegar fyrstu fregnir af kaffi tóku að berast til kristinna þjóða í Evrópu undir lok 16. aldar var kaffi drukkið svart og sjóðheitt. Tóbak var þá nýmæli líka, sem barst frá Ameríku, og reykingar hafnar í nokkrum og vaxandi mæli. Það tók talsvert lengri tíma fyrir kaffi að koma sér fyrir í hversdagslífi fólks. Kaffibaunin og drykkurinn voru fyrst nefnd í bók sem þýskur læknir að nafni Leonhard Rauwolf (1535-1596) gaf út árið 1582. Hann hafði verið í Aleppo nokkrum árum fyrr. Plöntunni var fyrst lýst nákvæmlega í bókinni De Plantis Aegypti liber sem kom út í Feneyjum árið 1592. Sameiginlegt álit ferðalanga var að kaffi væri bragðvont en gæti komið sér vel við ýmsum kvillum, svo sem hægðateppu og syfju.

Kaffihús í Istanbúl á fyrri hluta 19. aldar.

Á fyrstu árum 17. aldar fóru hollenskir og enskir kaupmenn að sigla til Jemen eftir kryddi og öðrum varningi, einkum til Mokka, en keyptu ekki kaffibaunir nema til þess að selja aftur við Indlandshaf. Árið 1644 er vitað um innflutning á kaffibaunum til hafnarborgarinnar Marseille í Frakklandi og þær munu hafa komið frá Kaíró. Fyrsta stórsendingin frá Mokka kom til Amsterdam árið 1661. Kaffihús var opnað í Feneyjum árið 1647 og á allra næstu árum í Oxford og London, en í Amsterdam 1663, Marseille 1671, París 1672, Bremen 1673, Hamborg 1677, Vín 1685, New York um 1690, Leipzig 1694, Prag 1705 og svo framvegis. Fyrsta þekkta kaffisendingin til Svíþjóðar kom frá Amsterdam árið 1685 og árið 1728 voru 15 kaffihús í Stokkhólmi. Í Kaupmannahöfn voru stofnsett te- og kaffihús á síðustu árum 17. aldar.

Eftirspurn eftir kaffi jókst ár frá ári og vegna takmarkaðrar framleiðslugetu í Jemen hækkaði verð. Hollenskir athafnamenn hófu kaffiræktun á eynni Jövu í Indónesíu um 1690 og fyrstu sendingar þaðan komu til Amsterdam árið 1706. Farið var að rækta kaffi í Súrínam í Suður-Ameríku og á eyjum í Karíbahafi á öðrum áratug 18. aldar með góðum árangri og í Brasilíu um 1723. Á þeim slóðum hafði sykurreyr verið ræktaður um nokkurt skeið með þræla frá Afríku sem vinnuafl og kaffiræktun hentaði ekki síður á sömu forsendum. Eftir þetta kom mestur hluti kaffibauna frá Vestur-Indíum, næstmest frá Indónesíu og minnstur hluti frá Jemen, en það kaffi þótti lengi vel miklu betra og var fyrir vikið dýrara. Um miðja 18. öld höfðu betri borgarar í flestum löndum Evrópu ánetjast kaffi og raunar tei líka, en aðeins lítill hluti alþýðu, sem ekki hafði efni á þessum munaði fyrr en tæpri öld síðar.

Þeim sem vilja kynna sér efnið betur skal bent á eftirfarandi bækur:
  • Cowan, Brian, The Social Life of Coffee. The Emergence of the British Coffeehouse. New Haven 2005.
  • Hattox, Ralph S., Coffee and coffeehouses. The origins of a social beverage in the medieval Near East. Seattle 1985.
  • Le commerce du café avant l'ère des plantations coloniales: espaces, réseaux, sociétés (XVe-XIXe siècle). Ritstjóri Michel Tuchsherer. Kaíró 2001.
  • Menninger, Annerose, Genuss im kulturellen Wandel. Tabak, Kaffee, Tee und Schokolade in Europa (16.-19. Jahrhundert). Önnur útgáfa. Stuttgart 2008.
  • Ukers, William H., All about Coffee. New York 1922.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvenær fór maðurinn fyrst að drekka kaffi?

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

17.5.2013

Síðast uppfært

19.11.2018

Spyrjandi

Jón H.

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvenær hófst kaffidrykkja í heiminum og hvernig breiddist hún út?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2013, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65297.

Már Jónsson. (2013, 17. maí). Hvenær hófst kaffidrykkja í heiminum og hvernig breiddist hún út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65297

Már Jónsson. „Hvenær hófst kaffidrykkja í heiminum og hvernig breiddist hún út?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2013. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65297>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær hófst kaffidrykkja í heiminum og hvernig breiddist hún út?
Kaffitré vaxa villt á nokkrum svæðum í Afríku og sú tegund (Coffea arabica) sem fyrst nýttist til kaffigerðar rekur upphafleg heimkynni sín til fjalla í Eþíópíu. Ekki er ólíklegt að þar hafi menn lengi tuggið kaffiber sér til hressingar, en þess verður fyrst vart í Jemen (handan við Rauðahaf) um eða fyrir miðja 15. öld að berjahýði og baunirnar sjálfar, það er fræin, voru þurrkuð og soðin til að gera úr þeim örvandi drykk. Í Jemen hófst líka eiginleg ræktun og nýting plöntunnar og þaðan kom allt kaffi sem drukkið var í heiminum þangað til snemma á 18. öld. Meðal helstu útflutningshafna var borgin Mokka eða Mocha rétt innan við mynni Rauðahafs. Líklegt þykir að í fyrstu hafi íslamskir trúarhópar tileinkað sér drykkinn til að halda sér lengur vakandi á samkomum að næturlagi og að smám saman hafi hann breiðst út. Vitað er um kaffihús í Mekka um 1500 og þar var kaffidrykkja bönnuð árið 1511, því efnið þótti æsandi og menn gátu ekki sofið.

Líklegt þykir að í fyrstu hafi íslamskir trúarhópar drukkið kaffi til að halda sér lengur vakandi á samkomum að næturlagi. Á myndinni sést blómstrandi kaffitré (Coffea arabica) í Brasilíu.

Næstu ár og áratugi náðu Tyrkir yfirráðum í Austurlöndum nær og á mestum hluta Arabíuskagans, og þeir tileinkuðu sér drykkinn. Fyrir miðja 16. öld var farið að brenna kaffibaunir og mala þær eða mylja í stað þess að bara þurrka þær og hita, sem enn jók á vinsældirnar. Um skeið voru uppi efasemdir um að kaffi væri leyfilegt samkvæmt fyrirmælum Múhameðs í Kórani, þar sem öll neysla vímuefna er stranglega bönnuð, en niðurstaða lækna varð sú að drykkurinn væri fyrst og fremst heilnæmur og hressandi. Í framhaldinu spruttu upp kaffihús í öllum helstu borgum múslima, svo sem í Kaíró, Aleppo, Damaskus, Bagdad og Isfahan. Fyrsta kaffihúsið var opnað í Istanbúl árið 1544 og árið 1579 í Búdapest.

Þegar fyrstu fregnir af kaffi tóku að berast til kristinna þjóða í Evrópu undir lok 16. aldar var kaffi drukkið svart og sjóðheitt. Tóbak var þá nýmæli líka, sem barst frá Ameríku, og reykingar hafnar í nokkrum og vaxandi mæli. Það tók talsvert lengri tíma fyrir kaffi að koma sér fyrir í hversdagslífi fólks. Kaffibaunin og drykkurinn voru fyrst nefnd í bók sem þýskur læknir að nafni Leonhard Rauwolf (1535-1596) gaf út árið 1582. Hann hafði verið í Aleppo nokkrum árum fyrr. Plöntunni var fyrst lýst nákvæmlega í bókinni De Plantis Aegypti liber sem kom út í Feneyjum árið 1592. Sameiginlegt álit ferðalanga var að kaffi væri bragðvont en gæti komið sér vel við ýmsum kvillum, svo sem hægðateppu og syfju.

Kaffihús í Istanbúl á fyrri hluta 19. aldar.

Á fyrstu árum 17. aldar fóru hollenskir og enskir kaupmenn að sigla til Jemen eftir kryddi og öðrum varningi, einkum til Mokka, en keyptu ekki kaffibaunir nema til þess að selja aftur við Indlandshaf. Árið 1644 er vitað um innflutning á kaffibaunum til hafnarborgarinnar Marseille í Frakklandi og þær munu hafa komið frá Kaíró. Fyrsta stórsendingin frá Mokka kom til Amsterdam árið 1661. Kaffihús var opnað í Feneyjum árið 1647 og á allra næstu árum í Oxford og London, en í Amsterdam 1663, Marseille 1671, París 1672, Bremen 1673, Hamborg 1677, Vín 1685, New York um 1690, Leipzig 1694, Prag 1705 og svo framvegis. Fyrsta þekkta kaffisendingin til Svíþjóðar kom frá Amsterdam árið 1685 og árið 1728 voru 15 kaffihús í Stokkhólmi. Í Kaupmannahöfn voru stofnsett te- og kaffihús á síðustu árum 17. aldar.

Eftirspurn eftir kaffi jókst ár frá ári og vegna takmarkaðrar framleiðslugetu í Jemen hækkaði verð. Hollenskir athafnamenn hófu kaffiræktun á eynni Jövu í Indónesíu um 1690 og fyrstu sendingar þaðan komu til Amsterdam árið 1706. Farið var að rækta kaffi í Súrínam í Suður-Ameríku og á eyjum í Karíbahafi á öðrum áratug 18. aldar með góðum árangri og í Brasilíu um 1723. Á þeim slóðum hafði sykurreyr verið ræktaður um nokkurt skeið með þræla frá Afríku sem vinnuafl og kaffiræktun hentaði ekki síður á sömu forsendum. Eftir þetta kom mestur hluti kaffibauna frá Vestur-Indíum, næstmest frá Indónesíu og minnstur hluti frá Jemen, en það kaffi þótti lengi vel miklu betra og var fyrir vikið dýrara. Um miðja 18. öld höfðu betri borgarar í flestum löndum Evrópu ánetjast kaffi og raunar tei líka, en aðeins lítill hluti alþýðu, sem ekki hafði efni á þessum munaði fyrr en tæpri öld síðar.

Þeim sem vilja kynna sér efnið betur skal bent á eftirfarandi bækur:
  • Cowan, Brian, The Social Life of Coffee. The Emergence of the British Coffeehouse. New Haven 2005.
  • Hattox, Ralph S., Coffee and coffeehouses. The origins of a social beverage in the medieval Near East. Seattle 1985.
  • Le commerce du café avant l'ère des plantations coloniales: espaces, réseaux, sociétés (XVe-XIXe siècle). Ritstjóri Michel Tuchsherer. Kaíró 2001.
  • Menninger, Annerose, Genuss im kulturellen Wandel. Tabak, Kaffee, Tee und Schokolade in Europa (16.-19. Jahrhundert). Önnur útgáfa. Stuttgart 2008.
  • Ukers, William H., All about Coffee. New York 1922.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvenær fór maðurinn fyrst að drekka kaffi?

...