Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?

Gylfi Magnússon

Peningar eru gefnir út af seðlabönkum og því verða þeir í þrengsta skilningi til við það að seðlabanki lætur prenta seðla eða slá mynt og setur í umferð. Til dæmis gæti þetta gerst þannig að ríkissjóður tekur lán í seðlabanka og fær það greitt í seðlum sem ríkissjóður notar svo til að kaupa fyrir vörur eða þjónustu. Einnig gæti þetta gerst þannig að seðlabankinn kaupir einhverjar eignir, til dæmis spariskírteini, og greiðir fyrir með peningum sem þar með komast í umferð.

Þegar rætt er um peningamagn í umferð er þó nær alltaf átt við peninga í víðari skilningi en þetta og bætt við innstæðum á ýmiss konar reikningum í bankakerfinu. Innstæður á slíkum reikningum eru miklu meiri en sem nemur seðlum og mynt í umferð.

Hægt er að nota margs konar mælikvarða til að mæla peningamagn í umferð, sú þrengsta er seðlar og mynt í umferð, sú næstþrengsta er svokallað grunnfé (M0), þá er bætt við innstæðum viðskiptabanka í seðlabanka og birgðum þeirra af seðlum og mynt. Önnur algeng skilgreining er kölluð M1, þá eru lagðar saman annars vegar upphæð seðla og myntar í umferð og hins vegar innstæður á tékkareikningum. Ef bætt er við innstæðum á almennum sparifjárreikningum fæst M2, séu bundin innlán líka tekin með fæst M3. Algengast er að nota M1 eða M2 þegar talað er um peningamagn og Seðlabanki Íslands notar oftast M1.

Peningar eru gefnir út af seðlabönkum og því verða þeir í þrengsta skilningi til við það að seðlabanki lætur prenta seðla eða slá mynt og setur í umferð.

Þetta flækir málið talsvert því að ef seðlabanki lætur aukið magn af seðlum og mynt í umferð þá eykst innstæða á margs konar reikningum mun meira vegna svokallaðra margfeldisáhrifa. Það gerist til dæmis vegna þess að þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð.

Raunar þarf banki ekki að fá inn nýtt fé, til dæmis sem innlán, til að geta aukið útlán. Hann getur búið til útlán úr engu með því að auka innstæðu lántakanda á reikningi í bankanum. Taki lántakandinn féð út sem bankinn var að búa til og lána honum, til dæmis með því að greiða fyrir kaup á fasteign með millifærslu inn á reikning seljandans í öðrum banka, þarf banki kaupandans þó að geta greitt banka seljandans með peningum sem hann hefur ekki búið til sjálfur. Það gera bankar almennt með millifærslum milli reikninga í seðlabanka. Það er ein af ástæðum þess að framboð seðlabanka á grunnfé skiptir yfirleitt talsverðu máli fyrir getu annarra banka til útlána.

Kröfur um eigið fé banka skipta líka máli. Banki sem á lítið eigið fé getur ekki vaxið með auknum útlánum vegna þess að það myndi lækka eiginfjárhlutfall hans. Banki sem er rekinn með hagnaði sem eykur eigin fé hans getur hins vegar vaxið. Það þýðir að mikill hagnaður í bankakerfi, sem ekki er greiddur jafnharðan út til eigenda, getur leitt til örs vaxtar útlána og þar með peningamagns.

Megnið af því sem kallað er peningar í víðum skilningi er því búið til í bankakerfinu með einum eða öðrum hætti, en ekki af seðlabönkum. Um mitt ár 2014 var grunnfé (M0) um 5% af peningum í víðum skilningi (M3) á Íslandi. Afgangurinn, um 95%, var því búinn til annars staðar í fjármálakerfinu en í Seðlabanka. Grunnfé er nokkuð hærra hlutfall af peningamagni í þrengri skilningi (M1), var um 17% á sama tíma.

Ýmislegt hefur áhrif á það hve mikil fyrrnefnd margfeldisáhrif eru. Til dæmis skiptir máli hvort breytingar verða á því hve mikið af seðlum og mynt einstaklingar og fyrirtæki vilja liggja með. Einnig skipta ýmsar ákvarðanir seðlabanka viðkomandi ríkis máli.

Nokkuð er misjafnt eftir löndum hvaða aðferðum seðlabankar beita til að hafa áhrif á peningamagn í umferð. Seðlabankar geta reynt að stýra peningamagni með því að kaupa og selja ýmsar eignir, oftast ríkisskuldabréf eða erlendan gjaldeyri, og greiða fyrir eða fá greitt í innlendum peningum. Þannig eykst eða minnkar framboð á innlendum peningum. Seðlabankar geta einnig reynt að hafa áhrif á það hve mikil fyrrgreind margfeldisáhrif eru. Til dæmis geta seðlabankar skyldað viðskiptabanka til að leggja ákveðið hlutfall af innlánum inn á reikning í seðlabankanum, þar með geta viðskiptabankarnir ekki lánað það fé út. Þetta er kallað bindiskylda. Einnig geta seðlabankar skyldað viðskiptabanka til að liggja með ákveðið hlutfall af innlánum sem seðla og mynt (eða aðrar tilteknar eignir), þetta er kallað lausafjárskylda. Líkt og bindiskylda dregur lausafjárskylda úr getu viðskiptabanka til útlána. Þá geta seðlabankar breytt þeim vöxtum sem þeir bjóða viðskiptabönkum á lánum eða innlánsreikningum í seðlabankanum. Ef þeir vextir eru hækkaðir verður dýrt fyrir viðskiptabankana að taka lán í seðlabanka og freistandi að leggja fé inn á reikning í seðlabanka, það dregur úr vilja viðskiptabankanna til að lána viðskiptavinum sínum fé. Á sama hátt þýða lágir vextir seðlabanka að það er síður freistandi fyrir viðskiptabanka að liggja með meira fé en þeir þurfa á reikningum í seðlabanka, sem hvetur banka til útlána.

Nokkuð flókið getur verið að reikna út áhrif alls þessa og því verður það ekki gert hér en tekið mjög einfaldað dæmi til útskýringar þar sem einungis bindiskylda hefur áhrif á margfaldara. Miðað er við nokkuð víðtæka skilgreiningu á peningamagni, það er að peningamagn sé jafnt andvirði seðla í umferð auk allra innstæðna í bönkum:

Gerum ráð fyrir til einföldunar að í hagkerfinu sé einungis einn viðskiptabanki, Bankinn, en í raun skiptir fjöldi banka ekki máli í þessu dæmi. Í umferð er ákveðið magn af seðlum og bindiskylda er 10% þannig að fyrir hverjar 10 krónur, sem lagðar eru inn á bankareikning, þarf bankinn að leggja eina krónu inn á reikning sinn í Seðlabankanum en getur lánað níu til annarra.

Nú setur Seðlabankinn seðla að andvirði 100 milljónir króna í umferð, þetta getur til dæmis gerst vegna þess að Seðlabankinn kaupir spariskírteini af einstaklingum fyrir þessa upphæð. Peningamagn í umferð eykst því í fyrstu um 100 milljónir. Eigendur spariskírteinanna nota peningana annað hvort til kaupa á einhverjum gæðum eða leggja þá beint inn í banka. Seljendur gæðanna leggja peningana annað hvort inn á bankareikning eða kaupa enn önnur gæði og þannig koll af kolli. Ef einstaklingar og fyrirtæki auka ekki seðlaeign sína vegna þessa hljóta innstæður í Bankanum á endanum einnig að aukast um sömu upphæð. Af þeirri upphæð leggur Bankinn tíu milljónir inn á reikning sinn í Seðlabankanum eins og honum er skylt og lánar viðskiptavinum sínum afganginn, níutíu milljónir. Þeir nota þessar níutíu milljónir í kaup á margs konar gæðum eða leggja þær inn á bankareikninga eins og áður og innlegg í Bankanum aukast um níutíu milljónir. Af þeirri upphæð fara níu milljónir inn á reikning í Seðlabankanum en útlán aukast um 81 milljón. Þannig heldur ferlið áfram og í hverjum hring eykst peningamagn um 90% af því, sem það jókst um í næsta hring á undan. Hægt er að sýna fram á að á endanum hefur peningamagn aukist um einn milljarð. Heildaraukningin fæst með því að deila upp í upprunalegu peningamagnsaukninguna, 100 milljónir, með bindiskylduhlutfallinu, 10% eða 0,1, sbr.: 100.000.000/0,1 = 1.000.000.000

Þegar áhrif peningamagnsaukningarinnar hafa öll komið fram hefur innstæða Bankans í Seðlabankanum aukist um 100 milljónir eða sömu upphæð og kom ferlinu af stað. Andvirði seðla í umferð eykst því ekki en innstæður í Bankanum aukast um 1000 milljónir og útlán Bankans aukast um 900 milljónir. Veitið því athygli að ekki er gert ráð fyrir að seðlaeign einstaklinga og fyrirtækja aukist en gerist það eykst peningamagn í umferð ekki jafnmikið og ella.

Ef um 10% lausafjárskyldu hefði verið að ræða í dæminu að framan, þannig að fyrir hverjar tíu krónur, sem lagðar eru inn á reikning í Bankanum, þarf hann að geyma eina í hirslum sínum, hefði sama ferli byrjað og útkoman verið sú sama að öllu öðru leyti en því að á endanum hefði seðlaeign Bankans aukist um 100 milljónir í stað þess að innstæða Bankans í Seðlabankanum hefði aukist um þá upphæð. Innlán Bankans hefðu í báðum tilfellum aukist um 1000 milljónir og útlán um 900 milljónir. Lausafjárskylda hefur því mjög svipuð áhrif á útlánagetu banka og bindiskylda.

Bindiskyldu- og lausafjárhlutföllin hafa mjög mikil áhrif á peningamagn í umferð og getur Seðlabankinn reynt að stjórna peningamagni í umferð með því að breyta þeim. Það er þó sjaldan gert og oftast reyna seðlabankar að nota önnur stjórntæki frá degi til dags, sérstaklega vaxtaákvarðanir. Breytingar á bindiskyldu geta þó haft veruleg áhrif. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar Seðlabanki Íslands gerði ýmsar breytingar sem leiddu til lækkunar á bindiskyldu árið 2003 þá jókst peningamagn í umferð verulega í kjölfarið. Þannig varð peningamagn í víðum skilningi (M3) helmingi hærra í hlutfalli við peninga sem Seðlabankinn sjálfur bjó til (grunnfé eða M0) eftir breytinguna en áður. Peningamagn í þröngum skilningi (M1) jókst enn meira, varð tvöfalt hærra sem hlutfall af grunnfé eftir breytinguna. Svigrúm banka til að búa til peninga með útlánum varð meira en áður og þeir nýttu það árin á eftir.

Í hinni alþjóðlegu fjármálakrísu sem hófst á árunum 2006 til 2008 dró mjög úr vilja banka til útlána í mörgum löndum. Meðal annars var staða margra banka álitin svo slæm að aðrir bankar þorðu ekki að lána þeim. Jafnframt reyndu margir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hvað þeir gátu til að greiða upp lán, meðal annars vegna þess að þeir gátu ekki fengið ný lán til að greiða upp gömul, eins og þeir höfðu treyst á áður. Við þessi skilyrði dregst peningamagn í umferð saman og einstaka fjármálastofnanir og heilu fjármálakerfin áttu í verulegum vandræðum með að útvega nægilegt laust fé.

Seðlabankar víða um heim brugðust við þessu með því að dæla peningum inn í bankakerfi með nánast öllum tiltækum ráðum, með því að kaupa eignir af bönkum og lána þeim gegn veðum í eignum þeirra. Ein afleiðing þessa er að í bankakerfum viðkomandi landa er nú til mjög mikið af grunnfé, peningum sem seðlabankar hafa búið til, og bankar geta nýtt til að uppfylla kröfur um bindiskyldu. Það þýðir í reynd að bindiskyldan skiptir ekki máli, það er hún takmarkar ekki getu banka til þess að lána og búa þannig til peninga. Það sem takmarkar getu bankakerfanna til að búa til peninga er því fyrst og fremst lítill vilji þeirra til útlána, sem aftur skýrist meðal annars af lítilli trú á hugsanlegum lántökum, og lítill vilji viðskiptavina til að taka lán. Fleira skiptir þó máli, meðal annars kröfur sem gerðar eru til banka um eiginfjárhlutföll eins og áður var vikið að, það er krafa um að eigið fé banka sé í ákveðnu samræmi við heildareignir. Tap banka minnkar eigið fé hans sem getur leitt til þess að hann þarf að draga úr útlánum eða selja eignir, sem leiðir til samdráttar peningamagns.

Ítarefni:

Myndir:


Svar við þessari spurningu birtist fyrst á Vísindavefnum 21. 8. 2000. Endurskoðað svar var birt 29. 9. 2014.

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.9.2014

Spyrjandi

Hjálmar Gíslason, Sigurvin Bárður Sigurjónsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?“ Vísindavefurinn, 29. september 2014, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68140.

Gylfi Magnússon. (2014, 29. september). Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68140

Gylfi Magnússon. „Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?“ Vísindavefurinn. 29. sep. 2014. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68140>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?
Peningar eru gefnir út af seðlabönkum og því verða þeir í þrengsta skilningi til við það að seðlabanki lætur prenta seðla eða slá mynt og setur í umferð. Til dæmis gæti þetta gerst þannig að ríkissjóður tekur lán í seðlabanka og fær það greitt í seðlum sem ríkissjóður notar svo til að kaupa fyrir vörur eða þjónustu. Einnig gæti þetta gerst þannig að seðlabankinn kaupir einhverjar eignir, til dæmis spariskírteini, og greiðir fyrir með peningum sem þar með komast í umferð.

Þegar rætt er um peningamagn í umferð er þó nær alltaf átt við peninga í víðari skilningi en þetta og bætt við innstæðum á ýmiss konar reikningum í bankakerfinu. Innstæður á slíkum reikningum eru miklu meiri en sem nemur seðlum og mynt í umferð.

Hægt er að nota margs konar mælikvarða til að mæla peningamagn í umferð, sú þrengsta er seðlar og mynt í umferð, sú næstþrengsta er svokallað grunnfé (M0), þá er bætt við innstæðum viðskiptabanka í seðlabanka og birgðum þeirra af seðlum og mynt. Önnur algeng skilgreining er kölluð M1, þá eru lagðar saman annars vegar upphæð seðla og myntar í umferð og hins vegar innstæður á tékkareikningum. Ef bætt er við innstæðum á almennum sparifjárreikningum fæst M2, séu bundin innlán líka tekin með fæst M3. Algengast er að nota M1 eða M2 þegar talað er um peningamagn og Seðlabanki Íslands notar oftast M1.

Peningar eru gefnir út af seðlabönkum og því verða þeir í þrengsta skilningi til við það að seðlabanki lætur prenta seðla eða slá mynt og setur í umferð.

Þetta flækir málið talsvert því að ef seðlabanki lætur aukið magn af seðlum og mynt í umferð þá eykst innstæða á margs konar reikningum mun meira vegna svokallaðra margfeldisáhrifa. Það gerist til dæmis vegna þess að þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð.

Raunar þarf banki ekki að fá inn nýtt fé, til dæmis sem innlán, til að geta aukið útlán. Hann getur búið til útlán úr engu með því að auka innstæðu lántakanda á reikningi í bankanum. Taki lántakandinn féð út sem bankinn var að búa til og lána honum, til dæmis með því að greiða fyrir kaup á fasteign með millifærslu inn á reikning seljandans í öðrum banka, þarf banki kaupandans þó að geta greitt banka seljandans með peningum sem hann hefur ekki búið til sjálfur. Það gera bankar almennt með millifærslum milli reikninga í seðlabanka. Það er ein af ástæðum þess að framboð seðlabanka á grunnfé skiptir yfirleitt talsverðu máli fyrir getu annarra banka til útlána.

Kröfur um eigið fé banka skipta líka máli. Banki sem á lítið eigið fé getur ekki vaxið með auknum útlánum vegna þess að það myndi lækka eiginfjárhlutfall hans. Banki sem er rekinn með hagnaði sem eykur eigin fé hans getur hins vegar vaxið. Það þýðir að mikill hagnaður í bankakerfi, sem ekki er greiddur jafnharðan út til eigenda, getur leitt til örs vaxtar útlána og þar með peningamagns.

Megnið af því sem kallað er peningar í víðum skilningi er því búið til í bankakerfinu með einum eða öðrum hætti, en ekki af seðlabönkum. Um mitt ár 2014 var grunnfé (M0) um 5% af peningum í víðum skilningi (M3) á Íslandi. Afgangurinn, um 95%, var því búinn til annars staðar í fjármálakerfinu en í Seðlabanka. Grunnfé er nokkuð hærra hlutfall af peningamagni í þrengri skilningi (M1), var um 17% á sama tíma.

Ýmislegt hefur áhrif á það hve mikil fyrrnefnd margfeldisáhrif eru. Til dæmis skiptir máli hvort breytingar verða á því hve mikið af seðlum og mynt einstaklingar og fyrirtæki vilja liggja með. Einnig skipta ýmsar ákvarðanir seðlabanka viðkomandi ríkis máli.

Nokkuð er misjafnt eftir löndum hvaða aðferðum seðlabankar beita til að hafa áhrif á peningamagn í umferð. Seðlabankar geta reynt að stýra peningamagni með því að kaupa og selja ýmsar eignir, oftast ríkisskuldabréf eða erlendan gjaldeyri, og greiða fyrir eða fá greitt í innlendum peningum. Þannig eykst eða minnkar framboð á innlendum peningum. Seðlabankar geta einnig reynt að hafa áhrif á það hve mikil fyrrgreind margfeldisáhrif eru. Til dæmis geta seðlabankar skyldað viðskiptabanka til að leggja ákveðið hlutfall af innlánum inn á reikning í seðlabankanum, þar með geta viðskiptabankarnir ekki lánað það fé út. Þetta er kallað bindiskylda. Einnig geta seðlabankar skyldað viðskiptabanka til að liggja með ákveðið hlutfall af innlánum sem seðla og mynt (eða aðrar tilteknar eignir), þetta er kallað lausafjárskylda. Líkt og bindiskylda dregur lausafjárskylda úr getu viðskiptabanka til útlána. Þá geta seðlabankar breytt þeim vöxtum sem þeir bjóða viðskiptabönkum á lánum eða innlánsreikningum í seðlabankanum. Ef þeir vextir eru hækkaðir verður dýrt fyrir viðskiptabankana að taka lán í seðlabanka og freistandi að leggja fé inn á reikning í seðlabanka, það dregur úr vilja viðskiptabankanna til að lána viðskiptavinum sínum fé. Á sama hátt þýða lágir vextir seðlabanka að það er síður freistandi fyrir viðskiptabanka að liggja með meira fé en þeir þurfa á reikningum í seðlabanka, sem hvetur banka til útlána.

Nokkuð flókið getur verið að reikna út áhrif alls þessa og því verður það ekki gert hér en tekið mjög einfaldað dæmi til útskýringar þar sem einungis bindiskylda hefur áhrif á margfaldara. Miðað er við nokkuð víðtæka skilgreiningu á peningamagni, það er að peningamagn sé jafnt andvirði seðla í umferð auk allra innstæðna í bönkum:

Gerum ráð fyrir til einföldunar að í hagkerfinu sé einungis einn viðskiptabanki, Bankinn, en í raun skiptir fjöldi banka ekki máli í þessu dæmi. Í umferð er ákveðið magn af seðlum og bindiskylda er 10% þannig að fyrir hverjar 10 krónur, sem lagðar eru inn á bankareikning, þarf bankinn að leggja eina krónu inn á reikning sinn í Seðlabankanum en getur lánað níu til annarra.

Nú setur Seðlabankinn seðla að andvirði 100 milljónir króna í umferð, þetta getur til dæmis gerst vegna þess að Seðlabankinn kaupir spariskírteini af einstaklingum fyrir þessa upphæð. Peningamagn í umferð eykst því í fyrstu um 100 milljónir. Eigendur spariskírteinanna nota peningana annað hvort til kaupa á einhverjum gæðum eða leggja þá beint inn í banka. Seljendur gæðanna leggja peningana annað hvort inn á bankareikning eða kaupa enn önnur gæði og þannig koll af kolli. Ef einstaklingar og fyrirtæki auka ekki seðlaeign sína vegna þessa hljóta innstæður í Bankanum á endanum einnig að aukast um sömu upphæð. Af þeirri upphæð leggur Bankinn tíu milljónir inn á reikning sinn í Seðlabankanum eins og honum er skylt og lánar viðskiptavinum sínum afganginn, níutíu milljónir. Þeir nota þessar níutíu milljónir í kaup á margs konar gæðum eða leggja þær inn á bankareikninga eins og áður og innlegg í Bankanum aukast um níutíu milljónir. Af þeirri upphæð fara níu milljónir inn á reikning í Seðlabankanum en útlán aukast um 81 milljón. Þannig heldur ferlið áfram og í hverjum hring eykst peningamagn um 90% af því, sem það jókst um í næsta hring á undan. Hægt er að sýna fram á að á endanum hefur peningamagn aukist um einn milljarð. Heildaraukningin fæst með því að deila upp í upprunalegu peningamagnsaukninguna, 100 milljónir, með bindiskylduhlutfallinu, 10% eða 0,1, sbr.: 100.000.000/0,1 = 1.000.000.000

Þegar áhrif peningamagnsaukningarinnar hafa öll komið fram hefur innstæða Bankans í Seðlabankanum aukist um 100 milljónir eða sömu upphæð og kom ferlinu af stað. Andvirði seðla í umferð eykst því ekki en innstæður í Bankanum aukast um 1000 milljónir og útlán Bankans aukast um 900 milljónir. Veitið því athygli að ekki er gert ráð fyrir að seðlaeign einstaklinga og fyrirtækja aukist en gerist það eykst peningamagn í umferð ekki jafnmikið og ella.

Ef um 10% lausafjárskyldu hefði verið að ræða í dæminu að framan, þannig að fyrir hverjar tíu krónur, sem lagðar eru inn á reikning í Bankanum, þarf hann að geyma eina í hirslum sínum, hefði sama ferli byrjað og útkoman verið sú sama að öllu öðru leyti en því að á endanum hefði seðlaeign Bankans aukist um 100 milljónir í stað þess að innstæða Bankans í Seðlabankanum hefði aukist um þá upphæð. Innlán Bankans hefðu í báðum tilfellum aukist um 1000 milljónir og útlán um 900 milljónir. Lausafjárskylda hefur því mjög svipuð áhrif á útlánagetu banka og bindiskylda.

Bindiskyldu- og lausafjárhlutföllin hafa mjög mikil áhrif á peningamagn í umferð og getur Seðlabankinn reynt að stjórna peningamagni í umferð með því að breyta þeim. Það er þó sjaldan gert og oftast reyna seðlabankar að nota önnur stjórntæki frá degi til dags, sérstaklega vaxtaákvarðanir. Breytingar á bindiskyldu geta þó haft veruleg áhrif. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar Seðlabanki Íslands gerði ýmsar breytingar sem leiddu til lækkunar á bindiskyldu árið 2003 þá jókst peningamagn í umferð verulega í kjölfarið. Þannig varð peningamagn í víðum skilningi (M3) helmingi hærra í hlutfalli við peninga sem Seðlabankinn sjálfur bjó til (grunnfé eða M0) eftir breytinguna en áður. Peningamagn í þröngum skilningi (M1) jókst enn meira, varð tvöfalt hærra sem hlutfall af grunnfé eftir breytinguna. Svigrúm banka til að búa til peninga með útlánum varð meira en áður og þeir nýttu það árin á eftir.

Í hinni alþjóðlegu fjármálakrísu sem hófst á árunum 2006 til 2008 dró mjög úr vilja banka til útlána í mörgum löndum. Meðal annars var staða margra banka álitin svo slæm að aðrir bankar þorðu ekki að lána þeim. Jafnframt reyndu margir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hvað þeir gátu til að greiða upp lán, meðal annars vegna þess að þeir gátu ekki fengið ný lán til að greiða upp gömul, eins og þeir höfðu treyst á áður. Við þessi skilyrði dregst peningamagn í umferð saman og einstaka fjármálastofnanir og heilu fjármálakerfin áttu í verulegum vandræðum með að útvega nægilegt laust fé.

Seðlabankar víða um heim brugðust við þessu með því að dæla peningum inn í bankakerfi með nánast öllum tiltækum ráðum, með því að kaupa eignir af bönkum og lána þeim gegn veðum í eignum þeirra. Ein afleiðing þessa er að í bankakerfum viðkomandi landa er nú til mjög mikið af grunnfé, peningum sem seðlabankar hafa búið til, og bankar geta nýtt til að uppfylla kröfur um bindiskyldu. Það þýðir í reynd að bindiskyldan skiptir ekki máli, það er hún takmarkar ekki getu banka til þess að lána og búa þannig til peninga. Það sem takmarkar getu bankakerfanna til að búa til peninga er því fyrst og fremst lítill vilji þeirra til útlána, sem aftur skýrist meðal annars af lítilli trú á hugsanlegum lántökum, og lítill vilji viðskiptavina til að taka lán. Fleira skiptir þó máli, meðal annars kröfur sem gerðar eru til banka um eiginfjárhlutföll eins og áður var vikið að, það er krafa um að eigið fé banka sé í ákveðnu samræmi við heildareignir. Tap banka minnkar eigið fé hans sem getur leitt til þess að hann þarf að draga úr útlánum eða selja eignir, sem leiðir til samdráttar peningamagns.

Ítarefni:

Myndir:


Svar við þessari spurningu birtist fyrst á Vísindavefnum 21. 8. 2000. Endurskoðað svar var birt 29. 9. 2014.

...